Skip to Content

Fjármál

Forsenda þess að sveitarfélögin geti rækt lögbundnar skyldur sínar við íbúana er að stjórn á fjármálum þeirra sé markviss og stefnuföst. Upplýsingar um fjármál sveitarfélaga veita mikilvæga vitneskju um stöðu þeirra og hvernig tekjum sveitarfélaganna er ráðstafað.

Um tekjustofna sveitarfélaga gildi ákvæði laga nr. 4/1995 með síðari breytingum. Samkvæmt þeim lögum erum tekjustofnar sveitarfélaga útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en auk þess innheimta sveitarfélögin ýsmar þjónustutekjur og tekjur af eigin stofnunum og fyrirtækjum.


Útsvar
Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Það er dregið af launum launþega ásamt tekjuskatti ríkisins. Útsvarsprósentan getur verið mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,48% en lægst 12,44%.

Fasteignaskattur
Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og er lagður árlega á flestar fasteignir í landinu.

  • A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati.
  • B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati.
  • C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati.

Heimilt er sveitarstjórn að hækka álagningu A- og C-skatta um allt 25%. Hámarksálagning A-skatts er þá 0,625% og C-skatts 1,65%.


Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga,
nr. 4/1995, með síðari breytingum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur á hendi yfirstjórn Jöfnunarsjóðs, en honum til ráðuneytis er fimm manna ráðgjafarnefnd sem skipuð er til fjögurra ára að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fjórir nefndarmenn eru skipaðir samkvæmt tilnefningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en einn er skipaður af samgöng- og sveitarstjórnarráðherra án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var stofnaður árið 1937 og í tímans rás hefur starfsemi hans tekið ýmsum breytingum. Nú hefur jöfnunarsjóður annars vegar það hlutverlk að greiða sveitarfélögum framlög til jöfnunar á tekjumöguleikum þeirra og útgjaldaþörf eftir ákveðnu regluverki. Hins vegar greiðir sjóðurinn hlutdeild í húsaleigubótum til allra sveitarfélaga og lögbundin framlög til stofnana og samtaka sveitarfélaga.

Um 10% af heildartekjum sveitarfélaganna koma úr jöfnunarsjóði.


Lánasjóður sveitarfélaga - Heimasíða
Lánasjóður sveitarfélaga ohf. er lánafyrirtæki, sem starfar eftir hlutafélagalögum nr. 2/1995, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, lögum um sjóðinn nr. 150/2006 og er undir eftirliti Fjármálaeftirlits.

Meginhlutverk lánasjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Útlán hans takmarkast þó við verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu.

Jafnframt er það markmið lánasjóðsins að skapa öfluga samkeppni á lánsfjármarkaði fyrir sveitarfélög og fyrirtæki þeirra og reyna þannig að hafa áhrif á kjör þau sem íslenskum sveitarfélögum bjóðast frá öðrum lánveitendum til lækkunar.

Lánstraust lánasjóðsins er mjög gott vegna sterkrar fjárhagsstöðu hans og er lánasjóðurinn því í góðri aðstöðu til að útvega sveitarfélögunum hagstæð lán.

Lánasjóður sveitarfélaga er opinbert hlutafélag í eigu íslenskra sveitarfélaga sem eru 75 talsins. Heildarnafnverð hlutafjár er 5.000.000.000 kr.Drupal vefsíða: Emstrur