8. fundur 06. janúar 2003

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, mánudaginn 6. janúar 2003, kl. 16:00.

 

Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Sigurbjartur Pálsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson, Lúðvík Bergmann, Viðar H. Steinarsson, Einar Sveinbjörnsson, löggiltur endurskoðandi KPMG og Sigrún Sveinbjarnardóttir sem ritar fundargerð. Að auki situr Sigrún Ólafsdóttir, varafulltrúi af D-lista fundinn.

 

Oddviti setti fund, árnaði fundarmönnum gleðilegs nýs árs og tilkynnti breytingu á dagskrá. Við bætist nýr liður sem verður nr. 6 og aðrir liðir færast aftur sem því nemur. Einnig að Einar Sveinbjörnsson frá KPMG hefji fundinn á kynningu á endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2002.

Samþykkt samhljóða.

 

Einar útskýrði síðan endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir árið 2002, bókhaldslögin og því nýja formi á bókhaldi sem þau krefjast.

Einar vék af fundi.

 

Gengið til dagskrár.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:
  2. a) Fundargerð hreppsráðs 12/12´02, sem er í 17 liðum.

Samþykkt samhljóða.

  1. b) Fundargerð hreppsráðs 18/12´02, sem er í 9 liðum.

Samþykkt samhljóða.

  1. c) Fundargerð hreppsráðs 30/12´02, sem er í 8 liðum.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Tillaga um að ákveðnar málaflokkanefndir verði sameiginlegar með Ásahreppi:

Fulltrúar D-lista í hreppsnefnd Rangárþings ytra leggja fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga um að ákveðnar málaflokkanefndir verði sameiginlegar með Ásahreppi, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. janúar 2003:

Lagt er til að eftirtaldar nefndir verði sameiginlegar með Ásahreppi:

Fræðslunefnd - nefnist; fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Stjórn eignaumsjónar - nefnist; stjórn eignaumsjónar Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Skipan nefndanna verði þannig; að fimm fulltrúar verða frá Rangárþingi ytra og tveir frá Ásahreppi í hvorri nefnd.

Verkefni nefndanna verða eins og sagt er fyrir um í samþykkt um stjórn og fundarsköp Rangárþings ytra og Ásahrepps auk þess að fjalla um sameiginlega hagsmuni vegna eigna og rekstrar að Laugalandi í Holtum.

Þegar nefndirnar fjalla um sameiginlega hagsmuni vegna eigna og rekstrar að Laugalandi í Holtum hafa allir nefndarmenn atkvæðisrétt. Þegar nefndirnar fjalla um sérmál og séreignir hvors sveitarfélags um sig, hafa einungis þeir nefndarmenn sem koma frá viðkomandi sveitarfélagi atkvæðisrétt.

Framangreint skal gilda þangað til fyrir liggur endanleg tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Rangárþings ytra sem tekur tillit til samstarfsverkefna með Ásahreppi.

 

Samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá.(H.H.,E.V.G., V.S.)

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:
  2. a) Fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps 11/12´02, sem er í 8 liðum.

Erindi fræðslunefndar til skólabílstjóra 13/12´02 lagt fram til kynningar.

Fundargeðin samþykkt samhljóða að undanskildum liðum 2 og 3 sem eru til umfjöllunar í 4. lið á dagskránni.

  1. b) Skipulags- og bygginganefnd 2/1´03, sem er í 6 liðum.

Samþykkt samhljóða.

Eftirfarandi bókun lögð fram:

Undirritaður gerir athugasemd við grein 2.4 lið b í deiliskipulagi fyrir Strönd og Strandarvöll. Ég tel að útfrá eignaraðild sveitarfélaga að Strandarvelli að það samrýmist ekki tilgangi og skilgreiningu Strandarvallar að skipuleggja frístundabyggð sem ekki er í tengslum við þá starfssemi sem á staðnum er. Viðar Steinarsson

Tillaga að deiliskipulagi á svæði GHR í landi Strandar á Rangárvöllum - heimild til auglýsingar.

Samþykkt samhljóða.

  1. Tillaga um skipan skólahverfa og merkingar skólabíla:

Fulltrúar D-lista í hreppsnefnd Rangárþings ytra leggja fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga um skipan skólahverfa og merkingar skólabíla, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. janúar 2003:

Lagt er til að skólahverfi í Rangárþingi ytra verði, skólaárið 2002-2003 í samræmi við tillögu fræðslunefndar Rangárþings ytra og Ásahrepps sem fram er sett í fundargerð nefndarinnar frá 11. desember 2002, þó með vísan til nánari skilgreiningar á skólahverfi Grunnskólans á Hellu hér á eftir:

Til nánari skilgreiningar er lagt til að skólahverfi Grunnskólans á Hellu verði Rangárvellir, Hella og byggð ofan Djúpóss innan fyrrverandi marka Djúpárhrepps.

Allir grunnskólanemendur í 1. - 10. bekk á viðkomandi svæðum teljast til skólahverfis þess skóla sem tilgreindur er í tillögu fræðslunefndarinnar með þeirri undantekningu, að nemendur frá Þykkvabæjarskóla í 8. - 10. bekk, sækja skóla í Grunnskólanum á Hellu.

Lagt er til að staðfest verði samþykkt fræðslunefndarinnar um að allir skólabílar sem eru í daglegum akstri fyrir grunnskólana í Rangárþingi ytra, skuli vera merktir samkvæmt reglum um merkingar skólabíla.

Hópferðabílar sem eru fengnir í tilfallandi ferðir með nemendur, skulu vera merktir sem skólabílar ef unnt er að koma því við og skulu skólastjórar hlutast til um að svo verði.

Samþykkt samhljóða.

Eftarfarandi bókun lögð fram:

Bókun varðandi skipan skólahverfa. ( sjá fundargerð fræðslunefndar frá 11. des 2002.)

Undirritaðir fulltrúar minnihluta hreppsnefndar Rangárþings ytra leggja fram eftirfandandi bókun varðandi skipan skólahvefa í sveitarfélaginu:

Með vísan í 11. grein laga um grunnskóla telja undirritaðir eðlilegt að eitt skólahverfi verði í sveitarfélaginu.

Með þeirri tilhögun teljum við að líkur aukist á að hægt sé að ná fram þeirri hagræðingu og sparnaði sem við teljum nauðsynlegt að ná fram í þessum málaflokki.

Undirritaðir: Eggert V. Guðmundsson, Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson.

Samþykkt samhljóða að vísa bókuninni til fræðslunefndar.

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
  2. a) Fjárhagsráð FSu. 27/12´02.
  3. b) Héraðsnefnd Rangæinga 2/1´03.

  1. Samningur við Jón Þórðarson um umsjón með útgáfu fréttabréfs:

Samþykkt með 6 atkvæðum, 3 á móti. (H.H., E.V.G.,V.S.)

Eftirfarandi bókun lögð fram:

Við undirritaðir fulltúar minnihlutans hefðum talið eðlilegt að auglýsa eftir umsjónamanni með útgáfu fréttabréfs sveitarfélagsins. Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsosn.

  1. Starf og starfshlutfall oddvita:

Valtýr víkur af fundi og tekur ekki þátt í umfjöllun og afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis. Engilbert Olgeirsson, varaoddviti tekur við stjórn fundarins.

Sigrún Ólafsdóttir kemur inn á fundinn sem varamaður Valtýs.

Fulltrúar D-lista í hreppsnefnd Rangárþings ytra leggja fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga um starf og starfshlutfall oddvita, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra. 2. desember 2002 og 6. janúar 2003:

Lagt er til að oddviti starfi við stjórnsýslu sveitarfélagsins í samstarfi við sveitarstjóra og að starfshlutfall hans verði 60%.

Ráðningartími skv. framanrituðu verði frá og með 1. desember 2002 og til og með 31. desember 2003, þó með fyrirvara um endurskoðun ef aðstæður breytast fyrir þann tíma.

Launakjör oddvita verða; 60% af launum sveitarstjórans að meðtalinni yfirvinnu.

Vegna aksturs í starfi greiðist bifreiðastyrkur fyrir 1000 kílómetra á mánuði.

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri.

Greinargerð:

Í ljósi þess að Rangárþing ytra er nýtt sveitarfélag sem eðlilega er í mótun núna og næstu mánuði er nauðsynlegt að nýta starfskrafta oddvita sveitarfélagsins um skeið, eða þangað til endanleg útfærsla á skipuriti og stjórnsýslu liggur fyrir. Það er einnig ljóst að ekki hefur ennþá verið ráðið til starfa starfsfólk sem mun taka afmörkuð verkefni innan stjórnsýslu hins nýja sveitarfélags. Einungis er búið að auglýsa eina stöðu og ákvarða um ráðningu hennar, en það er starfsmaður eignaumsjónar.

Tillaga þessi gengur út á það að oddviti verði ráðinn í hlutastarf, eða 60% starf, tímabundið. Tímaramminn er settur að hámarki til ársloka 2003. Stefnt verður að því að ráðning annarra starfsmanna verði lokið á þessu ári 2003 og þeir farnir að nýtast til fulls innan þessa tímaramma. Eðlilega verður tillit tekið til þessara þátta og oddviti reiðubúinn að endurskoða þetta ráðningarform fyrr á árinu ef vel gengur með mótun stjórnsýslunnar.

Starfsverkefni oddvita verða eftirfarandi:

  • Viðtalstímar á Hellu, Þykkvabæ og Laugalandi.
  • Mótun og gerð skipurits ásamt verkefnaniðurröðun fyrir stjórnsýslu Rangárþings ytra.
  • Mótun og áætlanagerð eignaumsjónar í samstarfi við nýjan starfsmann eignaumsjónar.
  • Stuðningur og samstarf við undirnefndir og formenn nefnda. Sérstaklega mætti nefna atvinnumál uns fundinn hefur verið flötur á fyrirkomulagi við ráðningu atvinnu- og ferðamálafulltrúa.
  • Mótun tillagna um starfsmannastefnu og gerð erindisbréfa fyrir nefndir og starfsmenn.
  • Einstök verkefni í samstarfi við sveitarstjóra eftir tilefnum hverju sinni.
  • Önnur oddvitastörf, ótilgreind og tilfallandi.

Að öðru leyti vísast til tillögu sem lögð var fram á sveitarstjórnarfundi þann 2. desember 2002 (6. liður fundargerðar) af Guðmundi Inga Gunnlaugssyni sveitarstjóra.

Samþykkt með 5 atkvæðum, 4 á móti. (H.H., E.V.G., V.H., L.B.)

 

Eftirfarandi bókun lögð fram:

Bókun vegna tillögu sveitarstjóra og greinargerðar fulltrúa D-lista um starf og starfshlutfall oddvita Rangárþings ytra.

Undirritaðir fulltrúar minnihlutans gera eftirfarandi athugasemdir við tillögu sveitarstjóra og greinargerð meirihlutans um starf og starfshlutfall oddvita.

Hvað varðar viðtalstíma þá er það álit minnihlutans að það sé eitt af hlutverkum sveitarstjóra og oddvita að vera til viðtals fyrir þegna sveitarfélagsins.

Hvað varðar mótun og gerð skipurits fyrir stjórnsýslu Rangárþings ytra þá var skipuð nefnd á 5. fundi Hreppsráðs,( fimmtudaginn 8. ágúst 2002, sjá fundargerð, 6. lið.)sem hafði það hlutverk að koma með tillögur um þetta efni. Sú nefnd hefur ekki enn verið kölluð saman af oddvita.

Hlutverk nýráðins starfsmanns eignaumsjónar er samkvæmt starfslýsingu m.a. mótun og áætlanagerð vegna umsjónar og viðhalds á eignum sveitarfélagsins. Er þörf á enn frekari mannafla í þennan málaflokk ?

Hvað varðar önnur verkefni oddvita samkv. tillögu meirihluta þá falla þau að áliti minnihutans, undir verksvið sveitarstjóra, oddvita og sveitarstjórnar. Það er því niðurstaða undirritaðra fulltrúa minnihlutans að ef þörfin á aðstoð við stjórnunar- og skrifstofustörf sveitarfélagsins er eins brýn, og tillaga meirihlutans gefur til kynna þá sé eðlilegra að auglýsa eftir starfskrafti. Miðað við þau launakjör sem verið er að bjóða oddvita fyrir 60% starf þá mætti ráða allt að 3 almenna skrifstofumenn eða þá ef betra þætti háskólamenntaða starfsmenn í 100-150% starfshlutfall með fastri viðveru á skrifstofu sveitarfélagsins.

Með tilliti til þess að oddviti á nú þegar sæti í rúmlega 20 nefndum og stjórnum á vegum sveitarfélaganna á Suðurlandi og einnig vegna þess að þar innanborðs eru mörg mjög stór og viðamikil embætti, ( formaður SASS, formaður héraðsnefndar Rangæinga, formaður eignaumsýslu Rangárþings ytra, oddviti, hreppsráðsmaður og hreppsnefndarmaður í Rangárþingi ytra svo eitthvað sé nefnt ) þá er það álit okkar að ráðning oddvita muni ekki skila sér til hagsbóta fyrir Rangárþing ytra, heldur sé hér um hreinan pólitískan gjörning að ræða sem alfarið er á ábyrgð meirihlutans, ásamt þeim stóraukna kostnaði við yfirstjórn sem þessu fylgir. Kostnaði sem er algjörlega úr takti við gefin fyrirheit, í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna, um sparnað í yfirstjórn og hagræðingu í rekstri.

Samkvæmt okkar vitneskju þá eru engin fordæmi fyrir ráðningu sem þessari í öðrum sambærilegum sveitarfélögum.

Í ljósi áðurnefndra staðreynda þá greiðum við undirritaðir fulltrúar minnihlutans atkvæði gegn þessari tillögu meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson, Viðar Steinarsson, Lúðvík Bergmann.

Valtýr kemur aftur inn á fundinn og tekur við stjórn hans.

 

  1. Tillaga að álagningarpósentum, gjaldskrám og afsláttarreglum vegna fasteignagjalda fyrir árið 2003:

Lögð fram tillaga um álagningarprósentur, afslætti og gjaldskrár fyrir árið 2003 sem frestað var á hreppsráðsfundi 28/11´02.

Eftirfarandi breytingartillaga lögð fram:

Gjaldskrármál: Varðar lækkun á sorphirðugjaldi.

Breytingartillaga við tillögu sveitarstjóra að gjaldskrá fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Rangárþingi ytra fyrir árið 2003. Lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra 6. janúar 2003, af undirrituðum fulltrúum í Sveitarstjórn Rangárþings ytra.

Í bæklingi er gefinn var út fyrir sameiningar kosningarnar þann 16. mars 2002 var talað um að hagræðingu vegna sameiningar ætti að nýta til hagsbóta fyrir íbúana.

Við teljum að tillaga sveitarstjóra sé úr takti við þau áform.

Til að staðið verði að einhverju leyti við þau fyrirheit sem gefin voru í umræddum sameiningarbæklingi leggjum við til að álögð sorphirðugjöld á almenna íbúa (liðir A og B) verði lækkuð um 50% frá því sem gert er ráð fyrir í tillögu sveitarstjóra.

( Rétt er að taka fram til skýringar að sl. 2 ár voru ekki lögð á sorphirðigjöld í fyrrverandi Djúpárhreppi)

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á fyrirliggjandi tillögu sveitarstjóra:

  1. a) Íbúðir í þéttbýli og dreifbýli mv. 1 poka á viku 4.533 (Var kr. 9.065)
  2. b) Íbúðir í dreifbýli, þar sem pokahirða er ekki 2.267 (Var kr. 4.533)

Tillaga sveitarstjóra að öðru leyti samþykkt óbreytt.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson, Viðar Steinarsson, Lúðvík Bergmann.

Samþykkt samhljóða að vísa báðum tillögunum til hreppsráðs til lokaafgreiðslu.

  1. Héraðsnefnd Rangæinga - skipan í Héraðsvökunefnd 2003:

Lagt fram bréf frá Héraðsnefnd Rangæinga dagsett 6/12´02, þar sem greint er frá samþykktri tillögu um að Héraðsvaka 2003 verði í höndum Rangárþings ytra og Ásahrepps.

 

Eftirtaldir tilnefndir í Héraðsvökunefnd frá Rangárþingi ytra:

Jón Þórðarson, Halldóra Þorvarðardóttir og Ragnheiður Jónasdóttir, aðalmenn og Halldóra Hafsteinsdóttir, Óli Már Aronsson og Gísli Stefánsson, varamenn. Jóni Þórðarsyni verði falið að kalla nefndina saman.

 

Samþykkt samhljóða.

  1. Skipan í stjórn Héraðsbókasafns Rangæinga:

Tilnefndar eru: Anna Helga Kristinsdóttir, aðalmaður og Anna Björg Stefánsdóttir, varamaður.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Landgræðsla ríkisins - lýsing gatna, gangstíga og bifreiðastæða og breikkun vegar.

Lagt fram bréf frá Landgræðslu ríkisins dagsett 20/12´02, þar sem Landgræðslan fer fram á framlag og samstarf til að bæta lýsingu í Gunnarsholti.

Einnig er lagt fram bréf frá Landgræðslu ríkisins, dagsett 20/12´02, þar sem farið er fram á breikkun á vegi nr. 2738-01 og endurgerð á slitlögn.

Erindunum vísað til samgöngunenfndar.

Samþykkt samhljóða.

  1. Kaupsamningur og afsal vegna sölu lóðar úr landi Minni-Valla:

Lagður fram kaupsamningur og afsal á lóð í landi Minni-Valla, milli Karls Sigurðssonar og Fjólu Hjartardóttur annas vegar og Ásgeirs og Óskars Auðunssona hins vegar.

Samþykkt samhljóða og fallið frá forkaupsrétti.

 

Heimir vék af fundi.

  1. Ellert Þór Benediktsson, dýralæknir - lausaganga hrossa:

Lögð fram opinber kvörtun frá Ellert Þór Benediktssyni, dýralækni, dagsett 23/12´02, vegna lausagöngu hrossa í sveitarfélaginu.

 

Tillaga lögð fram á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 6. janúar 2003:

Við undirritaðir leggjum til að samþykkt verði bann við lausagöngu búfjár í Rangárþingi ytra.

Greinagerð:

Með því að samþykkja nú bann við lausagöngu búfjár er í raun verði að samræma reglur í nýju sveitarfélgi hvað þetta varðar.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson, Lúðvík Bergmann.

Samþykkt samhljóða að fresta afgreiðslu á tillögu um bann við lausagöngu búfjár og fela samgöngunefnd að vinna að málinu.

 

  1. Hreppsnefnd Ásahrepps - tilmæli um framkvæmdir í vatnsveitumálum:

Lagt fram bréf frá Jónasi Jónssyni, oddvita Ásahrepps, dagsett 18/12´02, þar sem þeim eindrægu tilmælum er beint til sveitarstjórnar Rangárþings ytra að hafin verði vinna við sameiginlega vatnsveitu hreppanna og gert sé ráð fyrir þeim framkvæmdum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2003.

Samþykkt samhljóða að fela samráðsnefnd við Ásahrepp að vinna að málinu.

 

  1. Fundarboð, námskeið, ráðstefnur og umsóknir um styrki:

Samband íslenskra sveitarfélaga 16/12´02 - námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn 15.-16. og 22.-23. febrúar 2003.

Til kynningar.

 

  1. Annað kynningarefni:
  2. a) Arðskrá fyrir Veiðifélag Ytri-Rangár og vesturbakka Hólsár.
  3. b) Afrit af bréfi Foreldrafélags Heklukots til fræðslunefndar Rangárþings ytra 4/12´02.
  4. d) Skógræktarfélag Rangæinga 29/12´02 - þakkir og yfirlit yfir starfið árið 2002.
  5. e) Félagsmálaráðuneytið 11. og 16/12´02 - ýmis gögn vegna breytinga á lögum um húsaleigubætur og greiðslu húsaleigubóta til fatlaðra sem búa á sambýlum.
  6. f) Ungmennafélag Íslands 10/12´02 - áskorun um aðstöðu aldraðra í íþróttahúsum.
  7. g) Landgræðsla ríkisins - almenn kynning á verkefnum Landgræðslunnar og kynning á landgræðsluverkefnum í Rangárvallasýslu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21:00.

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.