12. fundur 31. mars 2003

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, mánudaginn 31. mars 2003, kl. 16:00.

 

Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Sigurbjartur Pálsson, Lúðvík Bergmann, Viðar H. Steinarsson, Þröstur Sigurðsson, varamaður Heimis Hafsteinssonar, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Eggert V. Guðmundsson og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.

 

Valtýr Valtýsson, oddviti, setti fund og stjórnaði honum.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:
  2. a) Fundargerð hreppsráðs, 27/3´03, sem er í 19 liðum.

 

Eftirfarandi bókun gerð vegna 6. liðar :

Við undirritaðir lítum svo á að enn sé stefnt að því að selja Hellubíó á því verði sem samþykkt hefur verið. Ef hugmyndir eru uppi um að veita styrk til verkefnisins þá óskum við eftir nánari útfærslu á því sem fyrst og ef um styrkveitingu verður að ræða óskum við eftir að menningarmálanefnd Rangárþings ytra fjalli um málið.

Eggert V. Guðmundsson, Þröstur Sigurðsson.

 

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:
  2. a) Félagsmálanefnd 26/3´03, sem er í 7 liðum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. b) Eignaumsjón Rangárþings ytra og Ásahrepps 19/3´03, sem er í 3 liðum.

Samþykkt með 8 atkvæðum en 1 sat hjá (V.H.S.).

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
  2. a) Stjórn Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu bs. 26/3´03, sem er í 5 liðum.

 

 

  1. Fjárhagsáætlun 2003 - síðari umræða.

Lögð fram eftirfarandi tillaga að breytingum á fjárhagsáætlun Rangárþings ytra 2003:

Liðurinn fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum hækkkar um kr. 7.500 þús. vegna framkvæmda við Grunnskólann á Hellu og Laugalandsskóla. Lántaka hækkar um sömu fjárhæð þannig að ekki verður breyting á veltufé.

 

Helstu fjárhæðir í fjárhagsáætlun samstæðu Rangárþings ytra fyrir árið 2003 eru:

 

Rekstur:

Heildartekjur eru áætlaðar kr. 540.424 þús.

þ.a. skatttekjur kr. 452.104 þús.

Heildargjöld án fjármagnsliða eru áætluð kr. 517.795

Tekjuafgangur fyrir fjármagnsliði er áætlaður kr. 22.629 þús.

Fjarmagnsliðir eru áætlaðir kr. 22.420 þús.

 

Efnahagur:

Eigið fé er áætlað kr. 613.358 þús.

Lífeyrisskuldbindingar eru áætlaðar kr. 8.745 þús.

Fastafjármunir eru áætlaðir kr. 967.395 þús.

Veltufjármunir eru áætlaðir kr. 89.246

Eignir eru samtals áætlaðar kr. 1.056.641 þús.

Langtímaskuldir eru áætlaðar kr. 306.523 þús.

Skammtímaskuldir eru áætlaðar kr. 128.015

Skuldir og eigið fé samtals er áætlað kr. 1.056.641 þús.

 

Eiginfjárhlutfall er 58%.

 

 

Fulltrúar K og Ó lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Bókun vegna Fjárhagsáætlunar 2003 fyrir Rangárþing ytra.

Markmiðið með breyttri framsetningu reikningsskila sveitarsjóða og tilurð eignasjóðs var að okkar mati að einfalda hluti og gera rekstur eigna sveitarfélaga skilvirkari og gegnsærri á þann hátt að betra væri að átta sig á framlegð hverrar eignar. Einnig til að sjá betur með hvaða hætti kostnaður af eignum sveitarfélagsins skiptist niður á málaflokka og einstakar stofnanir sem sveitarfélagið rekur.

Nú þegar fyrsta fjárhagsáætlun nýs sveitarfélags liggur fyrir, þar sem unnið er eftir breyttum reglum um reiknisskil, kemur í ljós að framangreind markmið munu ekki nást, með þeirri útfærslu sem meirihlutinn beitir í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.

Í áætluninni eru eignir metnar samkv. reiknilíkani með fyrirfram ákveðinni formúlu. Ekkert raunverulegt mat hefur átt sér stað á fasteignum sveitarfélagsins og ekkert tillit tekið til raunverulegs ástands. Vitað er að margar eignir urðu fyrir miklu tjóni í jarðskjálftunum árið 2000. Tjón sem sveitarfélögin fengu bætt en eignirnar sem slíkar standa eftir að miklu leyti óbættar.

Eðlilegra hefði verið að meta eignir sveitarfélagsins með raunverulegum hætti og þær niðurfærðar m.t.t. skemmda eða að eignasjóði hefði verið afhentar þær tjónabætur sem sveitarfélögunum voru úthlutaðar á sínum tíma.

Sama má segja um reiknaðar leigutekjur eignasjóðs. Þar er um útreiknaðar stærðir að ræða samkvæmt reiknilíkani þar um. Þessar útreiknuðu leigutekjur á eignum sveitarfélagsins eru úr öllum takti við raunveruleikann og gefa því mjög ranga mynd af þeim rekstri sem þar á sér stað og eru ekki til þess fallnar að gefa rétta mynd af rekstri einstakra stofnana eða málaflokka.

Hátt mat eignanna hefur áhrif á reiknuðu leigutekjurnar og skekkir myndina varðandi rekstur stofnana og niðurstöðu fjárhagsáætlunarinnar. Hvað eignarsjóðinn varðar, má því segja að forsendurnar séu rangar, sem veldur skekkju hvað varðar nánast alla aðra þætti í fjárhagsáætluninni.

Þá áteljum við undirritaðir harðlega þá ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings ytra að stórauka kostnað við yfirstjórn sveitarfélagsins m.a. með þeim dæmalausa gjörningi að ráða sveitarstjóra í 1,6 stöðugildi. Heildar kostnaður við stöðu sveitarstjóra er um tuttugu milljónir króna á árinu. Einnig er gert ráð fyrir að lagðar verði verulega auknar álögur á íbúa sveitarfélagsins.

Í aðdraganda sameiningarkosninga var íbúum heitið því að hagræðing af samlegð yrðu nýtt til að lækka kostnað við yfirstjórn og til að stilla skattheimtu í hóf.

Hvorutveggja er svikið, samkvæmt áætlun þessari, af meirihluta sveitarstjórnar í Rangárþingi ytra.

Með hliðsjón af framansögðu þá sjáum við undirritaðir fulltrúar minnihlutans okkur ekki fært að samþykkja fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Rangárþings ytra fyrir árið 2003.

Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson, Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2003 fyrir Rangárþing ytra og bókunar fulltrúa K og Ó lista, lögð fram á fundi hreppsnefndar þ. 31. mars 2003:

  1. Markmið með breyttri framsetningu reikningsskila er að kalla fram raunkostnað við rekstur hverrar stofnunar þ.m.t. kostnað við húseignir sem notaðar eru. Ekki er gert ráð fyrir að fá fram framlegðartölur fyrir eignir enda eru þær ekki reknar í hagnaðarskyni heldur sem þjónustustofnanir fyrir íbúa sveitarfélagsins. Leigutekjur eru reiknaðar af hverri eign og þær eru grundvöllur að því sem til ráðstöfunar er hjá eignasjóði til viðhalds eigna.
  2. Ástand yfirfærðra eigna var mjög misjafnt í ársbyrjun 2002 þegar yfirfærslan fór fram. Vinna við endurbætur vegna jarðskjálftatjóna var komin misjafnlega langt á veg. Ekki er hægt að alhæfa um að eignasjóður sé að fá einhverjar faldar skemmdir sem íþyngja rekstri sjóðsins eins og gefið er í skyn í bókun K og Ó lista hreppsnefndar. Verði um sérstakar og dýrar endurbætur að ræða vegna jarðskjálftaskemmda er auðvelt að finna út hvaða bætur fengust fyrir viðkomandi eign og hvað mikið af þeirri upphæð er ónotuð til viðgerða.
  3. Leigufjárhæð hverrar eignar grundvallast af stofnverðmæti eignarinnar, aldri og byggingargerð. Reglur um þetta voru settar af bókhaldsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins og hafði meirihluti hreppsnefndar Rangárþings ytra ekki áhrif á gerð þeirra eins og skilja má af bókun K og Ó lista.
  4. Hvernig hægt er að finna út að hjá Rangárþingi ytra séu 1,6 stöðugildi sveitarstjóra er óljóst. Aðeins er eitt stöðugildi sveitarstjóra og það kostar sveitarsjóð ekki 20 milljónir eða nálægt þeirri tölu eins og ósmekklega er sett fram í bókun K og Ó lista. Oddviti starfar við úrlausn innri skipulagsmála og önnur tímabundin verkefni á þessu ári í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna. Starf oddvitans telst vera 0,6 stöðugildi samkvæmt samþykkt hreppsnefndar.
  5. Samræma þurfti álögð gjöld í sveitarfélaginu eftir sameiningu fyrri sveitarfélaga. Þetta ætti að vera öllum sveitarstjórnarmönnum ljóst. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði í stórum hluta sveitarfélagsins lækkaði sem dæmi um 25%. Útsvarsprósenta var lækkuð hjá stórum hluta gjaldenda og er nú 12,4% en mætti vera 13,04%. Fullyrðingar um að loforð um að stilla skattheimtu í hóf hafi verið svikin dæma sig sjálf í ljósi staðreynda um allt annað. Með þessum álagningarreglum er fullkomlega staðið við gefin fyrirheit í sameiningarferli sveitarfélaganna. Samlegðaráhrif vegna sameiningar sveitarfélaganna koma fram á mörgum sviðum en þó er óunnin vinna við endurskipulagningu margra þjónustuþátta, enda verður að gera ráð fyrir því að sameiningarvinnan taki nokkur ár eins og víðast hvar hefur orðið raunin.

Meirihluti hreppsnefndar Rangárþings ytra vísar á bug með framangreindum rökum, fullyrðingum sem ekki standast í bókun fulltrúa K og Ó lista.

Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Sigurbjartur Pálsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson.

 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 samþykkt með áorðnum breytingum með 6 atkvæðum en 3 á móti (VHS/EVG/ÞS).

 

  1. Landsþjónustan ehf. - "Íslandsgisting".

Lagt fram bréf frá "Íslandsgistingu", dagsett 24/3´03, þar sem áform félagsins eru kynnt.

Til kynningar.

 

  1. Fundarboð, námskeið, ráðstefnur og umsóknir um styrki:
  2. a) Aðalfundur Veiðifélags Ytri-Rangár og vesturbakka Hólsár 5/4´03.

 

Samþykkt samhljóða að Steinþór Runólfsson fari með atkvæði Gaddstaða og Lúðvík Bergmann og Guðmundur I. Gunnlaugsson fari með atkvæði Réttaness og Merkihvols.

 

  1. b) 50 ára afmælishátíð Menntaskólans að Laugarvatni 12/4´03.

 

Til kynningar.

 

  1. Annað kynningarefni:
  2. a) Félagsmálaráðuneytið 17/3´03 - kynning á nýrri reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
  3. b) Landbúnaðarráðuneytið 24/3´03 - um búfjáreftirlit.
  4. c) Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands 14/3´03 - upplýsingar um launakjör stjórnenda og starfsmanna.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30.

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.