Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, mánudaginn 21. júlí 2003, kl. 16:00.
Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Sigurbjartur Pálsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Margrét Eggertsdóttir, varamaður fyrir Heimi Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson, Lúðvík Bergmann og Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem ritar fundargerð.
Valtýr Valtýsson, oddviti, setti fund.
- Fundargerð hreppsráðs:
Engar fundargerðir liggja fyrir.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:
- a) Samgöngunefnd - 5. fundur 15/7´03.
-Yfirlit yfir hluta áætlaðra framkvæmda fyrir fé til styrkvega frá Vegagerðinni.
Samþykkt samhljóða.
- b) Félagsmálanefnd - 16. fundur 16/7´03 sem er í 4 liðum.
Samþykkt samhljóða.
- c) Íþrótta og æskulýðsnefnd - 10. fundur 16/7´03 sem er í 3 liðum.
Eggert V. Guðmundsson tók ekki þátt í afgreiðslu annars liðar fundargerðarinnar.
Samþykkt með 8 atkvæðum.
- d) Atvinnu- og ferðamálanefnd - 10. fundur 16/7´03 sem er í 3 liðum.
Samþykkt með 8 atkvæðum, einn situr hjá (EVG).
- e) Eignaumsjón - 9. fundur 17/7´03.
Samþykkt með 8 atkvæðum, einn situr hjá (VHS).
- f) Umhverfisnefnd - 14. fundur 17/7´03.
Samþykkt að skipa vinnunefnd til þess að gera tillögu að umsögn um drög Umhverfisstofnunar að Náttúruverndaráætlun 2003-2008 og um mat á umhverfisáhrifum vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.
Vinnunefndina skipa Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Jón Þórðarson, Sigurbjartur Pálsson og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.
Samþykkt með 8 atkvæðum, einn situr hjá (IPG).
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
Fundur um málefni Lundar á Hellu og Kirkjuhvols á Hvolsvelli 9/7´03.
Sorpstöð Suðurlands bs. - fundargerð 104. stjórnarfundar 10/7´03 sem er í 2 liðum.
- Ársreikningar - síðari umræða:
Ársreikningar Rangárþings ytra fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Tillaga lögð fram á fundi Hreppsnefndar Rangárþings ytra mánudaginn 21. júlí 2003.
Vegna afgreiðslu ársreikninga Rangárþings ytra og stofnana þess fyrir árið 2002.
Við undirrituð leggjum til að frestað verði afgreiðslu ársreikninga sveitarfélagsins og stofnana þess fyrir árið 2002 þangað til að leiðrétt hefur verin villa sem fyrirliggjandi ársreikningur innifelur. Skekkjan varðar uppgjör á tjónabótum sem innborgaðar hafa verið til sveitarfélagsins vegna tjóna á fasteignum í jarðskjálftunum árið 2000.
Eftir er að gera grein fyrir stöðu endurbóta á viðkomandi eignum. Fyrr en þetta liggur fyrir er raunveruleg peningaleg staða sveitarsjóðs ekki ljós auk þess sem þessi skekkja brenglar rekstrarniðurstöðu stofnana sveitarfélagsins.
Undirrituð: Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson og Margrét Eggertsdóttir.
Tillagan felld með fimm atkvæðum gegn þremur, einn sat hjá (LB).
Ársreikningur menningarmiðstöðvarinnar að Laugalandi fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Ársreikningur Leikskólans Laugalandi fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Ársreikningur leiguíbúða að Laugalandi fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Ársreikningur eignasjóðs Laugalandsskóla fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Ársreikningur Holtaveitunnar fyrir árið 2002 - síðari umræða.
Allir þessir reikningar samþykktir með 6 atkvæðum, 3 á móti (VHS, EVG, ME).
Ársreikningar Rangárþings ytra fyrir árið 2002, samþykktir með 6 atkvæðum, 3 á móti (VHS, EVG, ME).
Bókun vegna ársreikninga 2002, fyrir Rangárþing ytra:
Við undirritaðir fulltrúar minnihluta í sveitarstjórn Rangárþings ytra viljum leggja fram eftirfarandi bókun við umfjöllun og afgreiðslu ársreikninga sveitarfélagsins fyrir árið 2002.
Ljóst er að nú er verið að gera upp reikninga sveitarfélagsins samkvæmt nýjum reikningsskilavenjum, í nýju sameinuðu sveitarfélagi og því erfitt um vik hvað varðar samanburð einstakra liða milli ára í rekstri sveitarfélagsins. Þó er augljóst að ýmsar viðvörunarbjöllur hringja og ýmislegt er í rekstri sveitarfélagsins sem betur hefði mátt fara. Athygli vekur sú stórfellda skuldaaukning sem átt hefur sér stað á árinu. Samkvæmt framlögðum reikningum hafa skuldir sveitarfélagsins A og B hluta hækkað um rúmar 125 millj. kr. á árinu á meðan að eignir hafa aðeins aukist á móti um rúmar 87 millj. kr. Rekstrarniðurstaða ársins er neikvæð um tæplega 38 millj. kr. Rekstrargjöld sveitarfélagsins fara 7,7% fram úr rekstrartekjum. Þetta eru nöturlegar staðreyndir og ber að taka þær alvarlega. Staðreyndir sem ættu kannski ekki að koma á óvart því ekki er langt síðan að Rangárvallahreppur, einn af forverum nýs sameinaðs sveitarfélags, var á válista félagsmálaráðuneytisins og komst af honum með tilstuðlan tjónabóta frá Viðlagatryggingu Íslands en ekki með ráðdeild og góðum vinnubrögðum í rekstri hreppsins. Hér er auðvitað ekki um að ræða viðunandi fjármálastjórn í sveitarfélagi.
Ákveðnar fjárfestingar sveitarfélagsins á árinu vekja eftirtekt. Til dæmis er um að ræða vatnsveituframkvæmd uppá rúmar 15 millj. kr. Hér er um að ræða skammtíma lausn sem farið var í síðastliðið haust vegna óska Reykjagarðs ehf. Skammtímalausn með tilliti til þess að vitað er af viðvarandi neysluvatnsskorti víða í sveitarfélaginu. Nær hefði verið að fara út í varanlega lausn með lagningu vatnsveitu ofan af Rangárvöllum eins og áætlanir eru uppi um. Framkvæmd sem hefði kostað litlu meira en sú bráðabirgðalausn sem áður er nefnd. Eins má nefna sameiginlega fjárfestingu Rangárþings ytra og Ásahrepps í leiguhúsnæði á Laugalandi. Hér er framkvæmd sem vekur mikla furðu. Um er að ræða tvö parhús, 4 íbúðir með bílskúr hver að flatarmáli 176 m2. Í framlögðum reikningi kemur fram að hér er um nýfjárfestingu að ræða uppá rúmar 105 millj. kr. eða rúmar 26 millj. pr. íbúð. Það skal þó tekið fram að enn er ekki að fullu lokið við framkvæmdina þannig að enn á eftir að bætast við byggingakostnaðinn. Það er auðvitað alveg ljóst að hér er verið að ná þeim árangri hvað varðar byggingakostnað og stjórnun þessara framkvæmda að ekki er til eftirbreytni og mun vandfundinn jafnhár byggingakostnaður á landsvísu. Eftir standa þessar fasteignir og sá mikli fjárhagslegi baggi sem þeim fylgir fyrir sveitarfélagið til framtíðar.
Sérstaka athygli vekur það sem kemur fram í skýrslu endurskoðanda sveitarfélagsins, að það muni vanta árlega 20,8 millj. kr. til að standa við afborganir langtímalána miðað við óbreyttar forsendur hvað varðar tekjur og rekstrargjöld. Fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað varað við, í ræðu og riti, þeirri útþenslustefnu sem verið hefur ríkjandi frá því að núverandi meirihluti tók til starfa. Stjórnsýslubáknið hefur þanist út, nefndir á nefndir ofan með viðeigandi kostnaði svo ekki sé nú talað um þenslu í yfirstjórn sveitarfélagsins. Marg oft hefur verið bent á að beinn kostnaður vegna yfirstjórnar er óheyrilega hár og ekki í neinum takti við það sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum. Það er jafnframt sorgleg staðreynd að þrátt fyrir stóraukinn kostnað við yfirstjórn þá virðist það ekki skila sér í bættri stjórnun á sveitarfélaginu. Að okkar mati er ekki verið að framkvæma þá vinnu sem þarf til að snúa vörn í sókn,og því ekki hægt að gera ráð fyrir betri niðurstöðu í framtíðinni.
Að okkar mati gefa reikningar sveitarfélagsins fyrir árið 2002 ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu sveitasjóðs. Fyrir liggur að ekki er enn búið að framkvæma viðgerðir á öllum eignum sveitarfélagsins er urðu fyrir tjóni í jarðskjálftunum árið 2000, þó búið sé að greiða tjónabætur að fullu fyrir viðkomandi eignir. Tekið skal fram að hér er ekki verið að tala um þær eignir sem ákveðið hefur verið að afskrifa,selja eða hafa þegar verið rifnar. Þetta gerir það að verkum að aðalsjóður sýnir betri stöðu en hann ætti að gera ef þetta væri rétt fært í bókhaldi. Það er einnig mjög sérkennilegt að sjá Eignasjóð skila hagnaði inn í aðalsjóð, umfram það sem gert er ráð fyrir í reglum þar að lútandi. Að okkar mati ætti að gera Eignasjóð upp á núlli, ár hvert.
Undirritaðir hvetja til þess að farið verði í að endurskoða stjórnsýslu sveitarfélagsins með niðurskurð á yfirstjórn í huga og aukinni skilvirkni í þjónustu við íbúa. Við vörum á hinn bóginn við auknum álögum á íbúa, nóg er að gert í þeim efnum.
Með vísan til ákveðinna atriða sem varða stöðu tjónabóta og fram koma fyrr í bókun þessari, sjáum við undirrituð okkur ekki fært að samþykkja fyrirliggjandi ársreikninga Rangárþings ytra og stofnana sveitarfélagsins.
Undirritaðir fulltrúar minnihluta í sveitarstjórn Rangárþings ytra: Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson og Margrét Eggertsdóttir.
Margrét vék af fundi eftir afgreiðslu ársreikninganna kl. 18:45.
Bókun meirihluta hreppsnefndar Rangárþings ytra vegna afgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs og tengdra stofnana fyrir árið 2002:
Bókun þessi er svar við bókun fulltrúa K- og Ó-lista í hreppsnefnd Rangárþings ytra.
Fram kemur í bókun fulltrúa K- og Ó-lista að rekstrargjöld hafi verið tæpar 38 milljónir króna umfram rekstrartekjur. Ef sanngirni hefði gætt í bókun þessara fulltrúa, hefði komið fram, að um mjög fjölþættan rekstur er að ræða hjá sveitarfélaginu og ólíkan því sem gerist hjá sveitarfélögum af sambærilegri stærð. Það sem fram kemur í bókun þessara fulltrúa um kostnað við yfirstjórn er hefðbundið umkvörtunarefni þessara fulltrúa minnihlutans. Það sem ekki er sagt er að rekstur yfirstjórnar er alls ekki eins margbrotinn og víða er hjá sambærilegum sveitarfélögum hvað varðar íbúafjölda. Kostnaður við sveitarstjórn er 4,6% af skatttekjum og kostnaður við skrifstofu sveitarfélagsins er 13,3% af skatttekjum. Skrifstofan annast öll skrifstofustörf sveitarfélagsins og allra stofnana þess.
Fulltrúar K- og Ó-lista bóka að skuldaaukning hafi verið mikil á árinu 2002. Þeir geta þess hins vegar ekki að meirihluti af lántöku ársins var ákveðinn af sveitarstjórnum hinna gömlu sveitarfélaga vegna stórfelldra fjárfestinga sem þær höfðu ákveðið. Í þessu sambandi má nefna byggingu íbúða að Laugalandi og íþróttahúss í Þykkvabæ. Byggingarkostnaður á hvern fermetra á Laugalandi er kr. 147 þús. sem alls ekki er óraunhæft fyrir þetta stórt húsnæði á erfiðu byggingarlandi. Benda má á að þetta er sambærilegur kostnaður á hvern fermeter og við byggingu íþróttahússins í Þykkvabæ. Furðu vekur að þessir fulltrúar hafi ekki veitt því athygli að móti hækkun skulda um 125 milljónir króna liggur fjárfesting upp á 174,7 milljónir króna.
Augljóst virðist að bókun fulltrúa K- og Ó-listans um vatnsveituframkvæmdir á árinu 2002, og fyrirhugaðar nýjar virkjanir vatnsbóla á Rangárvöllum og víðar, virðist ekki byggjast á djúpstæðri þekkingu þeirra á málaflokknum. Eingöngu vegalengdin frá hugsanlegum vatnsbólum í Geldingalæk hefði hleypt stofnkostnaði upp um margar milljónir króna, svo ekki sé talað um rekstrarkostnað. Við þær aðstæður sem uppi voru um haustið 2002, í kjölfar mikilla fjárfestinga fyrr á árinu, var það samdóma álit allra, að sú framkvæmd sem farið var í væri mjög viðunandi lausn til þess að efla atvinnulíf innan sveitarfélagsins.
Um óuppgerðar viðgerðir vegna jarðskjálfta er það að segja, að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að yfirfærsluverð eigna frá aðalsjóði til eignasjóðs hafi verið óraunhæft. Að mati endurskoðenda sveitarfélagsins er um viðunandi nálgun að ræða og auðvelt að gera leiðréttingar ef fram kemur að viðgerðir verði kostnaðarsamar og erfiðar.
Undirritaðir fulltrúar meirihlutans í hreppsnefnd Rangárþings ytra vísa á bug öllum órökstuddum fullyrðingum og dylgjum fulltrúa K- og Ó-listans í bókun þeirra.
Undirritaðir fulltrúar meirihluta hreppsnefndar Rangárþings ytra: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Sigurbjartur Pálsson, Engilbert Olgeirsson og Ingvar Pétur Guðbjörnsson.
5. Umsókn um afnot af landi vestan Kirkjubæjarvegar:
Bréf dagsett 15/7´03 frá stjórn Strandarvallar ehf. þar sem óskað er eftir að fá afnot af landi, vestan við Kirkjubæjarveg og sunnan sorpurðunarsvæðis, til afnota fyrir æfingavöll.
Tekið jákvætt í erindið. Erindinu vísað til eignaumsjónar til frekari úrvinnslu.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins vegna vanhæfis sökum setu í stjórn Strandarvallar ehf.
6. Jarðvegsfok úr kartöfluökrum að Lyngási:
Lagt fram bréf dagsett 14/7´03 frá Málflutningsskrifstofunni sem er greinargerð um réttarstöðu sveitarfélagsins og íbúa vegna jarðvegsfoks úr kartöfluökrum að Lyngási.
Samþykkt samhljóða að senda íbúum að Lyngási og umhverfisnefnd greinargerðina.
7. Holtamannaafréttur - skipting tekna og kostnaðar:
3. og 4. liður fundargerðar samráðsnefndar vegna Holtamannaafréttar frá 10/7´03,
sem var frestað á síðasta hreppsnefndarfundi.
Varðandi 3. lið: Samþykkt tillaga fulltrúa Ásahrepps um að samráðsnefndin taki að sér stjórn og skipulag fjallskila að sinni með 7 atkvæðum, einn situr hjá (VV).
Varðandi 4. lið: Samþykkt samhljóða tillaga fulltrúa Ásahrepps um að óskað verði sameiginlega með hreppsnefnd Ásahrepps eftir áliti félagsmálaráðuneytisins.
- Umboð til hreppsráðs til afgreiðslu erinda í sumarleyfi hreppsnefndar:
Samþykkt samhljóða að hreppsráð geti annast fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi hreppsnefndar.
- Fundarboð, námskeið, ráðstefnur, þjónusta og umsóknir um styrki:
Skinfaxi - Ungmennafélag Íslands 9/7´03.
Samþykkt samhljóða að veita styrk að upphæð kr. 7.000.-
- Annað efni til kynningar:
EFTA málþing fyrir sveitarstjórnarmenn í EFTA ríkjunum 10. júní 2003.