Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, mánudaginn 6. október 2003, kl. 16:00.
Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson, Lúðvík Bergmann, Sigurbjartur Pálsson og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.
Valtýr Valtýsson, oddviti setti fund og bar upp tillögu að breytingu á dagskrá: nýir liðir nr. 6, 12 og 13 og færast aðrir liðir aftur sem því nemur.
Samþykkt samhljóða.
- Fundargerðir hreppsráðs:
Lögð fram fundargerð 30. fundar hreppsráðs 11/9´03, sem er í 14 liðum.
Samþykkt samhljóða.
Lögð fram fundargerð 31. fundar hreppsráðs 24/9´03, sem er í 18. liðum.
Lögð fram eftirfarandi bókun:
Bókun vegna dagskrárliðar nr.17e) í fundargerð 31. fundar hreppsráðs frá 24. september 2003. Varðar styrkveitingu til IOGT vegna bindindismóts í Galtalækjarskógi með greiðslu á gámaþjónustu að upphæð um fjögurhundruð þúsund krónur. Styrkveiting þessi er veitt samkvæmt munnlegu samkomulagi forsvarsmanna fyrrum Holta og Landsveitar við IOGT. Við undirritaðir sjáum engar forsendur fyrir framhaldi á aðkomu sveitarfélagsins að samkomuhaldi í Galtalækjarskógi með þessum hætti og teljum að þeim fjármunum sem hér um ræðir sé betur varið til styrktar æskulýðs og íþróttafélaga í Rangárþingi ytra.
Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson og Viðar H. Steinarsson.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:
Lögð fram fundargerð 21. fundar fræðslunefndar Rangárþings ytra og Ásahrepps 18/9´03, sem er í 6 liðum.
Samþykkt samhljóða.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
- Stjórn Hitaveitu Rangæinga - 11. fundur 18/8´03.
Bókun vegna fundargerðar 11. fundar Hitaveitu Rangæinga frá 18. ágúst 2003:
Ég undirritaður geri athugasemd við afgreiðsluna á fyrsta lið í fundargerð Hitaveitu Rangæinga frá 18. ágúst sl. þar sem að mínum dómi koma ekki fram nein haldbær rök fram í afgreiðslunni hjá stjórn veitunnar að utanbæjarmaður sé hæfari til að gegna starfinu frekar en þeir heimamenn sem einnig sækja um starfið. Það er í það minnsta einn umsækjandi búsettur í héraðinu, sem ekki virðist koma til greina, sem er með sömu menntun og sá sem stjórnin mælir með að fái starfið. Það er mín skoðun að sveitarfélög og stofnanir tengdar þeim eigi að að leitast eftir því að láta heimamenn njóta vafans þegar um jafnhæfa einstaklinga með sömu menntun er að ræða. Þar sem atvinnuástand er mjög viðkvæmt í Rangárvallasýslu um þessar mundir og munar um hvert starf sem losnar.
Eggert V. Guðmundsson.
- b) Sameiginleg barnaverndarnefnd Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Ásahrepps, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps - 14. fundur 22/9´03.
- c) Lundur, hjúkrunar- og dvalarheimili - stjórnarfundur 24/9´03.
Afgreiðslu á fundargerð Lundar vísað til næsta fundar hreppsnefndar.
- d) Skólaskrifstofa Suðurlands - 66. stjórnarfundur 24/9´03.
- e) Heilbrigðisnefnd Suðurlands - 57. fundur 17/9´03.
- f) Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands - 232. stjórnarfundur 12/9´03.
- g) Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands bs. - 207. fundur 30/9´03.
Heimir lætur bóka óánægju sína með fundarargerð Sorpstöðvar Suðurlands, þar sem hún sé mjög ófullnægjandi og ekki komi fram efni tillögu sem þar var til umræðu.
- Tillaga að 3ja ára áætlun fyrir tímabilið 2004-2006 - fyrri umræða.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri, lagði fram tillögu að 3ja ára fjárhagsáætlun 2004-2006 ásamt greinargerð og skýrði hana.
Vísað til síðari umræðu.
- Tillaga um að gerð verði úttekt á rekstri grunnskóla í sveitarfélaginu:
Tillaga um að úttekt verði gerð á rekstri grunnskóla í Rangárþingi ytra, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. október 2003:
Lagt er til að gerð verði úttekt á rekstri grunnskóla í Rangárþingi ytra. Markmið með úttektinni er, að leita leiða til hagkvæms rekstrar grunnskóla sveitarfélagsins um leið og tryggt verði, að námsleg og félagsleg aðstaða grunnskólabarna verði fyllilega sambærileg við það sem best gerist.
Lagt er til að úttektin verði gerð svo fljótt sem mögulegt er og að niðurstöður verði lagðar fyrir sveitarstjórnina til umfjöllunar.
Valtýr Valtýsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Sigurbjartur Pálsson, Engilbert Olgeirsson og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.
Lagt er til að fræðslunefnd verði falið að útfæra framkvæmd úttektarinnar.
Kostnaði við gerð úttektarinnar er vísað á liðinn "Til síðari ráðstöfunar sveitarstjórnar".
Samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá (H.H., V.H.S. og E.V.G.).
Bókun vegna afgreiðslu tillögu meirihluta hreppsnefndar um að úttekt verði gerð á rekstri grunnskóla í Rangárþingi ytra:
Við undiritaðir sitjum hjá við afgreiðslu tillögu þessarar á þeirri forsendu að við teljum að fræðslunefnd Rangárþings ytra hefði átt að fá tækifæri til að fjalla um tillöguna áður en sveitarstjórn tæki endanlega ákvörðun um málið.
Heimir Hafsteinsson, Eggert V. Guðmundsson og Viðar Steinarsson.
- Málefni Reykjagarðs:
Lagt fram bréf frá Steinþóri Skúlasyni, stjórnarformanni Túnfótar hf., dagsett 30/9´03.
Samþykkt samhljóða að taka ekki tilboði að sinni um að breyta andvirði skuldabréfa sem Reykjagarður hf./Túnfótur hf. er greiðandi að, í hlutafé í Túnfæti hf.
- Byggðasmölun haustið 2003:
Samþykkt samhljóða að byggðasmölun í sveitarfélaginu verði 25/10´03 og að hún verði auglýst í Búkollu. Jarðaeigendum sem ekki hafa fasta búsetu í sveitarfélaginu verði sent bréf með tilkynningu um smölunina.
- Breyting á skipan fulltrúa í fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - kosning nýs fulltrúa:
Lögð fram tilnefning K og Ó lista um að Þröstur Sigurðsson verði fulltrúi í fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps í stað Þorbjargar Atladóttur, sem hefur óskað eftir lausn frá störfum í nefndinni.
Samþykkt samhljóða.
- Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur - umsókn vegna rallkeppni:
Lagt fram bréf frá Bifreiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur, móttekið 29/9´03, þar sem sótt er um leyfi til að halda rallkeppni á vegum á Landmannaafrétti 11/10´03. Einnig er sótt um undanþágu frá hámarkshraða á sérleiðum keppninnar.
Erindinu er hafnað samhljóða þar sem önnur leit á Landmannaafrétti mun standa yfir þennan dag.
- Landgræðsla ríkisins - svör við spurningum og umsókn um samþykki við leigusamningi:
Lagt fram bréf frá Landgræðslu ríkisins, dasgett 18/9´03, þar sem svarað er spurningum um ráðstöfun lands sbr. bókun hreppsnefndar 8/9´03.
Einnig er lögð fram beiðni um afstöðu sveitarstjórnar til leigusamnings milli Landgræðslu ríkisins, kt. 710169-3659 og Jakobs Jónatanssonar, kt. 190437-4939, dagsettur 27/8´03.
Samþykkt samhljóða að gera ekki athugasemd við leigusamninginn. Jafnframt samþykkt samhljóða að verði um frekari ráðstöfun lands að ræða á þessu svæði fyrir frístundalóðir, verði að gera deiliskipulag fyrir svæðið.
- Húsakynni bs. - umræða um hugsanlega sameiningu við eignaumsjón:
Lagt fram bréf frá Húsakynnum bs., dagsett 24/9´03, þar sem kynnt er hugmynd um hugsanlega sameiningu Húsakynna bs. og eignaumsjónar Rangárþings ytra og Ásahrepps.
Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til að sameina þessar einingar að svo stöddu.
- Umhverfisráðuneytið - stjórnsýslukærur vegna Urriðafoss- og Núpsvirkjana:
Sveitarstjórn telur ekki mögulegt að gefa umsögn vegna knappra tímamarka.
- Fundir hreppsnefndar og hreppsráðs í október:
Lögð fram tillaga um að halda hreppsnefndarfund 20/10´03 og hafa einn hreppsráðsfund í október, þ. 23/10´03.
Samþykkt samhljóða.
- Svör við fyrirspurnum fulltrúa K og Ó lista:
Valtýr Valtýsson, oddviti leggur fram svör, dagsett 6/10´03, við fyrirspurnum frá 23. júní 2003.
- Fundarboð, námskeið, ráðstefnur og umsóknir um styrki:
- a) Stofnfundur atvinnu- og ferðamálaverkefnis Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu.
Lagt er til að Lúðvík Bergmann fari með atkvæði Rangárþings ytra á stofnfundinum.
Samþykkt með 8 atkvæðum, 1 situr hjá (H.H.).
- b) Húsakynni bs., 24/9'03 - aðalfundarboð 7/10'03 og tillaga að nýjum samþykktum.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framlagða tillögu að samþykktum.
Tillaga lögð fram um að Ingvar P. Guðbjörnsson verði aðalmaður í stað Óla Más Aronssonar í stjórn Húsakynna bs. og að Sigurbjartur Pálsson verði varamaður í stað Guðmundar Einarssonar. Oddviti fari með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á aðafundinum.
Samþykkt samhljóða.
- c) Hálendismiðstöðin í Hrauneyjum 19/9'03 - opnun ljósmyndasýningar 10/10´03, um fyrstu ferð bifreiðar yfir Sprengisand.
Til kynningar.
- d) Fræðslunet Suðurlands 24/9'03 - ráðstefna um skipulagsmál 10/10'03.
Til kynningar.
- e) Fræðslunet Suðurlands 2/10'03 - kynningarfundur um gerð símenntunaráætlana 14/10'03.
Til kynningar.
- f) Samband íslenskra sveitarfélaga 22/4'03 - fjármálaráðstefna 5.-6/11'03.
Til kynningar.
- g) SASS 10/9'03 - aðalfundur 14.-15/11'03.
Til kynningar.
- h) Samband íslenskra sveitarfélaga 1/10'03 - námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn 7.-8/11'03.
Til kynningar.
- i) Ægisdyr "áhugafélag um vegtengingu milli lands og Eyja" 12/9'03 - umsókn um styrk.
Samþykkt með 8 atkvæðum, 1 situr hjá (E.V.G.) að veita styrk að upphæð kr. 150.000.-.
- j) ITC deildin Stjarna, 22/9'03 - umsókn um styrk.
Sveitarstjóra falið að bjóða deildinni sal í eigu sveitarfélagsins til afnota. Jafnframt að veittur verði styrkur á móti leigugjaldi.
- k) Bm - ráðgjöf 26/9'03 - umsókn um styrk vegna útgáfu á vegum SÁÁ.
Samþykkt samhljóða að veita styrk kr. 10.000.-.
- l) Ísl. Lögregluforlagið ehf., sept.'03 - umsókn um styrk.
Hafnað.
- m) UMFÍ 1/10'03 - umsókn um styrk.
Hafnað.
- Annað efni til kynningar:
- a) Upplýsingar um tekjur og gjöld af Holtamannaafrétti.
- b) Þinglýstar eignarheimildir um Stóra-Klofa.
- c) Frétt á Mbl.is og tilkynning 30/9'03 um breytingar hjá Reykjagarði hf.
- d) Félagsmálaráðuneytið 16/9'03 - samþykkt heimild til þess að falla frá forkaupsrétti og kaupskyldu á félagslegum eignaríbúðum.
- e) Samband íslenskra sveitarfélaga 26/9'03 - umburðarbréf um heimildarákvæði 4. og 5. mgr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (um lækkun fasteignaskatts tekjulítilla ellilífeyrisþega og öryrkja).
- f) Bréf og ítarefni sem lagt var fyrir fjárlaganefnd 30/9'03.
- g) Hreppsnefnd Ásahrepps 16/9'03 - samþykki við fundargerð 4. fundar samráðsnefndar um Holtamannaafrétt, varðandi tilhögun og kostnað við smölun afréttarins.
- h) Afrit af bréfi frá Viðari H. Steinarssyni og Heimi Hafsteinssyni til Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands 1/10'03.
Heimir og Viðar láta bóka að þeir harmi seinagang við afgreiðslu sjóðsins á erindi þeirra.
- i) Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 22/9'03 - kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum við Norðlingaölduveitu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:30.
Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.