Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laufskálum 2 á Hellu, fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:00.
Mætt: Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Heimir Hafsteinsson, Þröstur Sigurðsson, varamaður Eggerts V. Guðmundssonar, Sigurbjartur Pálsson og Lúðvík Bergmann.
Valtýr setti fund og stjórnaði honum.
- Afkastageta vinnslusvæða, gjaldskrármál og önnur málefni Hitaveitu Rangæinga:
Lögð fram ýmis gögn varðandi vatnsöflun Hitaveitu Rangæinga og afkastagetu vinnslusvæða hennar sem lögð hafa verið fram á fundum í stjórn veitunnar. Einnig eru lögð fram afrit af nokkrum fundargerðum stjórnarinnar frá síðustu árum til upprifjunar.
Á stjórnarfundi HR þ. 20. febrúar 2004 komu m.a. fram upplýsingar um að afkastageta núverandi vinnslusvæða hefði verið komin nálægt fullri nýtingu í kuldakasti í janúar s.l. og voru m.a. lögð fram gögn frá ÍSOR því til staðfestingar. Fyrir liggja álit sérfræðinga, m.a. sérstaks ráðgjafa HR, um að nauðsynlegt sé að bora eina vinnsluholu til viðbótar að Kaldárholti til þess að tryggja afhendingaröryggi veitunnar í kuldaköstum og til þess að unnt verði að auka við markaðssvæði hennar. Fram kom hjá Wilhelm, verkfræðilegum ráðgjafa HR að mögulegur kostnaður við borun og virkjun einnar vinnsluholu að Kaldárholti, auk uppsetningar á tveimur dælustöðvum til þess að viðhalda þrýstingi á dreifikerfi, gæti numið allt að 50 milljónum króna.
Á fundinum kom fram það álit hitaveitustjóra, að hann teldi ekki fært að auka við dreifikerfi veitunnar frá því sem nú er, a.m.k. mættu ekki bætast við stórir notendur eins og afkastagetan er nú.
Stjórnarmenn í Hitaveitu Rangæinga lýstu yfir undrun sinni á þessari stöðu á framangreindum stjórnarfundi. Upplýsingar stjórnarmanna um vatnsþörf veitusvæðisins og afkastagetu vinnslusvæðanna fram að þessu, hafa verið þess eðlis, að þeir hafa mátt ætla, að afkastageta núverandi vinnslusvæða væri meiri en þyrfti til þess að fullnægja þörf svæðisins og til þess að bæta enn verulega við notendasvæði HR. Sömuleiðis lýstu stjórnarmenn því áliti sínu, að ekki væri fýsilegt að þurfa að fara í fjárfestingu fyrir 50 milljónir króna til viðbótar við miklar fjárfestingar síðustu ára með tilheyrandi skuldsetningu.
Hreppsnefnd felur fulltrúum sínum í stjórn Hitaveitu Rangæinga að fylgja eftir eftirtöldum atriðum á næsta stjórnarfundi veitunnar og framvegis:
- Lagðir verði fram útreikningar á mögulegri vatnsþörf núverandi veitusvæðis við meðalaðstæður og sömuleiðis við fullt álag í kuldaköstum. Sömuleiðis verði lagðir fram útreikningar til samanburðar á afkastagetu núverandi vinnslusvæða.
- Leitað verði eftir ráðgjöf og framangreindum útreikningum frá öðrum aðila en hefur hingað til annast tæknilega ráðgjöf fyrir HR vegna þess ástands sem komið er upp og lýst er að ofan.
- Skoðað verði hvernig framtíðarrekstri og fjármálastjórnun veitunnar verði best komið fyrir til framtíðar í ljósi hækkandi veltu og meira umfangs.
- Stjórn HR vinni markvisst að kynningu á málefnum veitunnar fyrir almenningi/notendum og leiti allra leiða til þess að gjaldskrá verði í eðlilegu samhengi við gjaldþol notendanna.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.00.