39. fundur 06. október 2004

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, miðvikudaginn 6. október 2004, kl. 16:00.

 

Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Þröstur Sigurðsson, varamaður Heimis Hafsteinssonar, Eggert V. Guðmundsson, Lúðvík Bergmann og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.

 

Sigurbjartur setti fund og stjórnaði honum.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:

1.1 Lögð fram fundargerð 52. fundar hreppsráðs, 21/9´04, sem er í 11 liðum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:

2.1 Atvinnu- og ferðamálanefnd - 19. fundur 9/9´04, sem er í 1 lið.

 

Afgreiðslu fundargerðarinnar frestað.

 

2.2 Fræðslunefnd - 35. fundur 16/9´04, sem er í 7 liðum.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:

3.1 Samráðsnefnd um uppbyggingu leikskóla - 1. fundur 16/8´04, sem er í 1 lið og 2. fundur 6/9´04, sem er í 1 lið.

 

Bókun vegna fundargerða samráðsnefndar um uppbyggingu leikskóla í Rangárþingi ytra og Ásahreppi.

Undirritaðir leggja áherslu á að byggður verði nýr leikskóli á Hellu. Leikskólahúsnæði sem leysir alla þá þörf sem fyrir hendi er nú og í nánustu framtíð. Hið eldra húsnæði getur leyst hluta af þeim húsnæðisvanda sem Grunnskólinn á Hellu glímir við í dag.

Undirritaðir leggja jafnframt áherslu á nú sem áður að skoðað verði í fullri alvöru sá möguleiki að nýta það húsnæði sem til er á Laugalandi fyrir leikskóla þar.

Jafnframt bendum við á, ef til nýbyggingar kemur, að hlutfall barna á leikskólaaldri sem búsett eru í Ásahreppi hefur farið vaxandi og með tilliti til þess leggjum við til að Ásahreppur taki í auknu hlutfalli en áður, þátt í þeim kostnaði sem hlýst af byggingu nýs leikskóla á Laugalandi.

Undirritaðir : Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson og Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun fulltrúa D lista vegna bókunar fulltrúa K og Ó lista um málefni húsnæðis leikskóla í Rangárþingi ytra, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra, þ. 6. október 2004:

Sú leið að byggja einn stóran leikskóla fyrir Hellu og nágrenni hefur þegar verið í skoðun hjá undirbúningshópi að tillögugerð Eignaumsjónar og fræðslunefndar Rangárþings ytra og Ásahrepps og ekkert nýtt í þeirri bókun K og Ó lista.

Það breytir ekki því að um fyrirsjáanlega framtíð er full þörf fyrir leikskólastarfsemi að Laugalandi vegna fjarlægðar frá býlum í Holtum og í Landsveit.

Sú leið sem undirbúningsnefndin hefur bent á varðandi það að skoða byggingar þessara húsa í einkaframkvæmd er mjög athyglisverð og er hópurinn hvattur til þess að skoða hana til þrautar.

Sigurbjartur Pálsson, Valtýr Valtýsson, Engilbert Olgeirsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.

 

3.2 Stjórn Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. - 89. fundur 28/09´04, sem er í 8 liðum.

3.3 Stjórn Brunavarna Rangárvallasýslu bs. - 3. fundur 28/9´04, sem er í 3 liðum.

3.4 Stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands - 242. fundur 17/9´04, sem er í 7 liðum.

3.5 Stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands - 76. fundur 22/9´04, sem er í 5 liðum.

3.6 Byggingarnefnd íþróttahúss FSu. - 21. fundur 14/9´04, sem er í 3 liðum.

  • Húsakynni bs. - fundargerð aukaaðalfundar - 30/9´04, sem er í 1 lið.

 

  1. Tillaga að 3ja ára áætlun fyrir tímabilið 2005 - 2007 - síðari umræða:

Tillaga að þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2005 - 2007 lögð fram til síðari umræðu.

 

Bókun vegna afgreiðslu á tillögu að þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir Rangárþing ytra tímabilið 2005-2007.

Meirihluti sveitarstjórnar Rangárþings ytra leggur nú fram þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2005-2007. Fjárhagsætlun sem á margan hátt virðist byggja á skýjaborgum og órökstuddum aðgerðum. Margar illa grundaðar forsendur liggja að baki, t.d. er gert ráð fyrir 3% hækkun launa á ári miðað við fjárhagsáætlun 2004. Vafasamt er í meira lagi að treysta því að launahækkanir verði ekki meiri á milli ára þegar verkfall kennara stendur sem hæst og samningar starfsfólks sveitarfélaga lausir snemma á árinu 2005. Einnig má minnast á ófrágengið starfsmat starfsfólks sveitarfélaga sem verður afturvirkt þegar að því kemur að því starfi lýkur.

Þriggja ára fjárhagsáætlun Rangárþings ytra gerir ráð fyrir nýfjárfestingum á tímabilinu fyrir 176 milljónir kr, meðal annars með aðaláherslu á uppbyggingu leikskólahúsnæðis, fráveituframkvæmdir ofl. Markmið meirihlutans er að fjármagna þessar framkvæmdir með sölu eigna fyrir 45 milljónir kr, að auki er gert ráð fyrir lántöku fyrir 79 milljónir kr. og síðast en ekki síst er markmiðið að ná fram “ aukinni fjármunamyndun í rekstri” sem útleggst væntanlega sem hagræðing í rekstri fyrir 52 milljónir kr. Allt er þetta gott og blessað en skortur er á nánari útskýringum á því hvernig ná á þessum markmiðum þ.e. hvað á að selja og með hvaða hætti á að hagræða í rekstri sveitarfélagsins eða þýðir þessi hagræðing kannski að auka eigi álögur á íbúa sveitarfélagsins umfram það sem meirihlutinn hefur þegar gert ?

Ennfremur má ekki gleymast að samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2003 þá átti sveitarfélagið ekki fyrir afborgunum á þeim skuldbindingum sem þá þegar var búið að stofna til þannig að miðað við þau áform sem nú eru uppi þá er greinilegt að meirihluti D lista hefur fundið gullnámu til reksturs sveitarfélagsins.

Við undirritaðir fulltrúar í sveitarstjórn Rangárþings ytra teljum að framlögð fjárhagsáætlun sé ekki trúverðug, ekki til þess fallin að koma rekstri sveitarfélagsins í ásættanlegt horf og enn síður líkleg til að koma sveitarfélaginu af válista félagsmálaráðuneytisins. Þvert á móti virðist þessi fjárhagsáætlun eingöngu vera lögð fram formsins vegna. Með tilliti til þessa sitjum við hjá við afgreiðslu þriggja ára fjáhagsáætlunar Rangárþings ytra.

Undirritaðir: Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson og Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun fulltrúa D lista vegna bókunar fulltrúa K og Ó lista um tillögu að 3ja ára áætlun fyrir árin 2005 – 2007, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. október 2004.

“Allt er þetta gott og blessað” er það skásta í bókun K og Ó listans, en þar með er upp talið það sem hægt er að taka undir.

Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki vegna launa verði allt að 3% á ári. Þetta er ekki það sama og að segja, að launataxtar geti ekki hækkað meira, heldur er vísað í það, að ef launahækkanir verði meiri, þurfi að skoða reksturinn með tilliti til þessa markmiðs.

Hvergi kemur fram í tillögu að 3ja ára áætlun að stefnt sé að auknum álögum á íbúana. Gert er ráð fyrir að tekjur geti aukist um allt að 4% sem er í samræmi við hagvaxtarspár fyrir áætlunartímabilið.

“Gullnáman” sem fulltrúar K og Ó listans tala um er innifalin í rekstri sveitarfélagsins og birtist í því að aukinni hagræðingu verði náð og að sveitarstjórnin sem heild horfist í augu við staðreyndir og standi saman um nauðsynlegar aðgerðir til þess að ná hallalausum rekstri. Það er einnig hægt að neita að horfast í augu við staðreyndir og láta sem önnur staða sé en raunin er, eins og fulltrúar K og Ó lista kappkosta að gera.

Sigurbjartur Pálsson. Valtýr Valtýsson. Engilbert Olgeirsson. Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Guðmundur I. Gunnlaugsson.

 

Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá (V.S., E.V.G., Þ.S.).

 

  1. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga 7/9´04 - fyrirspurn um þróun í fjármálum:

Lagt fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, dagsett 7/9´04, þar sem óskað er eftir greinagerð um þróun fjármála sveitarfélagsins á árinu 2004 og viðbrögðum sveitarstjórnar við halla á rekstri sveitarfélagsins.

 

Lögð fram tillaga að svari til eftirlitsnefndarinnar.

 

Bókun vegna bréfs eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga frá 7. september sl og tillögu að svari frá sveitarstjóra við því bréfi.

Í bréfi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga frá 7. september sl þar sem gerð er athugasemd við fjármálastjórn Rangárþings ytra átelur nefndin sveitarstjórn m.a. fyrir að hafa samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2004 “þar sem áfram er gert ráð fyrir halla á rekstri sveitarsjóðs”.

Undirritaðir taka undir með nefndinni hvað þetta varðar en vilja taka skýrt fram að þeir greiddu umræddri fjárhagsáætlun ekki atkvæði og bera þar með ekki ábyrgð á þeim gjörning. Þá ábyrgð bera þeir fulltrúar D lista sem lögðu hana fram og samþykktu ásamt fulltrúa Framsóknar í sveitarstjórn Rangárþings ytra sem greiddi áætluninni atkvæði sitt.

Við teljum að sú tillaga, sem liggur fyrir, að svari til eftirlitsnefndarinnar sé ekki byggð á nægjanlega traustum grunni og vísum á bug vangaveltum um að nýjar reikningsskilavenjur sveitarfélaga séu helsta orsök þeirra vandamála sem uppi eru, sem og að sameining sveitarfélaganna þriggja þ.e. Rangárvallahrepps, Djúpárhrepps og Holta- og Landsveitar valdi þeirri óstjórn á fjármálum sveitarfélagsins sem eftirlitsnefndin bendir réttilega á í áðurnefndu bréfi sínu dags 7. sept 2004. Ef þetta væru haldbærar ástæður fyrir ógöngum okkar sveitarfélags þá ætti það sama að gilda um önnur sambærileg sveitarfélög, nærtakast er að miða okkar sveitarfélag við Rangárþing eystra sem er sambærilegt sveitarfélag um marga hluti þó svo að það byggi á grunni sex eldri sveitarfélaga.

Að öðru leiti vísum við til bókunar okkar varðandi þriggja ára áætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2005-2007.

Undirritaðir fulltrúar í sveitarstjórn harma að sú nöturlega staðreynd sé komin upp að hið nýja “öfluga” sveitarfélag í vestanverðri Rangárvallarsýslu sé nú komin í sömu stöðu og Rangárvallahreppur gamli var í þegar sameiningin tók gildi. Kemur þó ekki alfarið á óvart enda sömu vinnubrögð viðhöfð við stjórn fjármála hjá Rangárþingi ytra og var hjá Rangárvallahreppi hinum gamla. Þessi óheppilega staða telst algjörlega á ábyrgð meirihluta D lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra.

Undirritaðir: Viðar H. Steinarsson, Eggert V. Guðmundsson, Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun fulltrúa D og B lista vegna bókunar fulltrúa K og Ó lista um erindi Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til sveitarstjórnar Rangárþings ytra og tillögu að svari til nefndarinnar, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. október 2004.

Öll bókun fulltrúa K og Ó lista ber með sér að þeir virðast ekki vilja horfast í augu við staðreyndir.

Inn í sameininguna árið 2002 komu þrjú sveitarfélög með miklar nýjar fjárfestingar sem mynda stóran afskriftastofn, mikinn fjármagnskostnað vegna skulda og þungan rekstur m.a. vegna dreifðra rekstrareininga með ónóg verkefni en mikinn kostnað. Meirihluti sveitarstjórnar ásamt fulltrúa B lista hafa unnið markvisst að því að taka á þessum málum með ábyrgum hætti. Sama verður ekki sagt um fulltrúa K og Ó lista sem einungis leggja fram bókanir úr takti við þann raunveruleika sem við blasir. Ekki væri björgulegt að leggja fjármálastjórn sveitarfélagsins undir þeirra ráð.

Fróðlegt er að sjá bókun frá fulltrúum K og Ó lista þar sem farið er hvössum orðum um fjármálastjórn í fyrrum Rangárvallahreppi. Tveir af þremur sem skrifuðu undir bókun þessara lista áttu sæti í hreppsnefnd Rangárvallahrepps og fer ekki sögum af því, að þeir hafi barist á móti stórum fjárfestingum þar eins og nýju íþróttahúsi eða skólabyggingu.

Tillaga að svari til Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er gerð í samræmi við þann raunveruleika sem við er að eiga og lýsir þeim ábyrgu aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til.

Sigurbjartur Pálsson. Valtýr Valtýsson. Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Engilbert Olgeirsson. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson. Lúðvík Bergmann.

 

Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá (V.S., E.V.G., Þ.S.).

 

  1. Atlantsolía hf. - umsókn um lóð fyrir sjálfsafgreiðslustöð fyrir eldsneyti:

Lagt fram bréf frá Atlantsolíu hf., dagsett 22/9´04, þar sen sótt er um lóð sunnan þjóðvegar 1 á Hellu undir sjálfsafgreiðslustöð fyrir bensín og olíur á Hellu.

 

Samþykkt samhljóða að vísa umsókninni til skipulags- og bygginganefndar til skoðunar og tillögugerðar.

 

  1. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Hellu - umsögn um tillögu um rekstur og starfsemi félagsmiðstöðvar:

Lagt fram bréf frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Hellu, dagsett 28/9´04, þar sem gefin er umsögn og rædd framtíðarsýn skólastjórnenda Grunnskólans á Hellu um rekstur og starfssemi félagsmiðstöðvar á Hellu.

 

Lögð fram tillaga um að vísa umsögn skólastjóranna til íþrótta- og æskulýðsnefndar og að fara fram á að hún vinni áfram að lausn á húsnæðismálum félagsmiðstöðvarinnar.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Kjör fulltrúa og varafulltrúa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga:

Lögð fram tillaga um að Sigurbjartur Pálsson verði aðalfulltrúi í stað Valtýs Valtýssonar og Viðar H. Steinarsson verði varamaður í stað Elísabetar St. Jóhannsdóttur.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundarboð, námskeið, ráðstefnur, þjónusta og umsóknir um styrki:

9.1 Sveitarfélagið Ölfus 24/9´04 - boðun fundar um aðgerðir vegna starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands bs.

 

Til kynningar.

 

9.2 Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. og Brunavarnir Rangárvallasýslu bs. - boðun aðalfunda 12/10´04.

 

Til kynningar.

 

Samþykkt samhljóða að umhverfisnefnd verði boðuð á aðalfund Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. og skipulags- og bygginganefnd á aðalfund Brunavarna Rangárvallasýslu bs.

 

9.3 Vottunarstofan Tún ehf., aðalfundarboð 15/10´04.

 

Til kynningar.

 

9.4 Samband íslenskra sveitarfélaga 21/9´04 - boðun 23. landsþings 26/11´04.

 

Til kynningar.

 

9.5 Blindrafélagið 20/9´04 - umsókn um styrk.

 

Hreppsnefnd sér sér ekki fært að verða við umsókninni.

 

9.6 SÁÁ 20/9´04 - umsókn um styrk.

 

Hreppsnefnd sér sér ekki fært að verða við umsókninni.

 

9.7 Barnaheill 16/9´04 - umsókn um styrk.

 

Lögð fram tillaga um styrk kr. 10.000.-.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  • Kjartan Björnsson 21/9´04 - umsókn um styrk.

 

 

Hreppsnefnd sér sér ekki fært að verða við umsókninni.

 

  1. Annað efni til kynningar:

10.1 Launanefnd sveitarfélaga 21/9´04 - um gerð kjarasamninga við kennara og skólastjóra.

10.2 Afrit af bréfi til fjárlaganefndar Alþingis 27/9´04.

10.3 Skeiða- og Gnúpverjahreppur 1/10´04 - um meðferð Skipulagsstofnunar á aðalskipulagstillögum varðandi virkjanaáform Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30.

 

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.