43. fundur 28. desember 2004

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, þriðjudaginn 28. desember 2004, kl. 13:30.

 

Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Þröstur Sigurðsson, varamaður Eggerts V. Guðmundssonar, Guðfinna Þorvaldsdóttir, varamaður Lúðvíks Bergmanns og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.

 

Oddviti setti fund og stjórnaði honum.

 

  1. Tillaga að fjárhagsáætlun 2005 - síðari umræða:

Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun Rangárþings ytra fyrir árið 2005 til síðari umræðu.

 

Helstu fjárhæðir í fjárhagsáætlun samstæðu Rangárþings ytra fyrir árið 2005 eru:

 

Rekstur:

Heildartekjur eru áætlaðar kr. 615.338 þús.

þ.a. skatttekjur kr. 482.000 þús.

Heildargjöld án fjármagnsliða eru áætluð kr. 569.762 þús.

Tekjuafgangur fyrir fjármagnsliði er áætlaður kr. 45.576 þús.

Fjármagnsliðir eru áætlaðir kr. 34.486 þús.

 

Efnahagur:

Eigið fé er áætlað kr. 455.416 þús.

Lífeyrisskuldbindingar eru áætlaðar kr. 13.001 þús.

Fastafjármunir eru áætlaðir kr. 940.898 þús.

Veltufjármunir eru áætlaðir kr. 99.963 þús.

Eignir samtals eru áætlaðar kr. 1.040.860 þús. Langtímaskuldir eru áætlaðar kr. 486.750 þús.

Skuldir og eigið fé samtals er áætlað kr. 1.040.860 þús.

 

Samþykkt með 5 atkvæðum, 3 sitja hjá (V.H.S., Þ.S. og G.Þ.).

 

Bókun vegna fjárhagsáætlunar 2005 fyrir Rangárþing ytra:

Markmið meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings ytra um rekstur sveitarsjóðs eru metnaðarlítil eins og þeim er líst í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2005.

Þó er gert ráð fyrir bata frá fyrra ári þegar rekstrarhalli var um 12% miðað við tekjur en nú er gert ráð fyrir 2% rekstrarafgangi á árinu 2005. Þessum bata á að mestu að ná upp með reiknuðum vöxtum og verðbótum á eigin sjóði og fyrirhugaðri sölu á landi til Sorpstöðvar Rangárvallasýslu. Landsölu sem ekki er búið að ganga frá formlega.

Ekki er gert ráð fyrir að fara út í sérstakar hagræðingaraðgerðir eða sparnað að öðru leyti en getið er um í greinargerð sveitarstjóra þar sem kveðið er á um að beitt verði virku aðhaldi í rekstrarkostnaði stofnana þannig að hann hækki ekki umfram 2% milli ára. Tíminn mun leiða í ljós hvort þessi lágstemmdu markmið náist en það er álit undirritaðra að allt of skammt sé gengið við sparnað og hagræðingu til að koma rekstri sveitarfélagsins í viðunandi horf.

Fulltrúar Ó- og K- lista hafa lagt fram ýmsar hugmyndir og tillögur varðandi hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og má í því efni nefna tillögur okkar varðandi fræðslumál, eignaumsjón, fyrirkomulag stjórnsýslu, sölu eigna, útboð verkefna og fleira. Þessar tillögur hafa því miður ekki fengið nægan hljómgrunn hjá þeim sem skipa meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings ytra. Til að markmið um viðunandi rekstur megi líta dagsins ljós verður að ganga mun lengra í átt að því sem við höfum lagt til um rekstur og stjórnun sveitarfélagsins. Það verður þó ekki gert af núverandi meirihluta ef marka má þá reynslu sem komin er og því verða íbúar Rangárþings ytra að taka til sinna ráða um næstu kosningar og skipta um menn í brúnni.

Með hliðsjón af framansögðu þá sjáum við undirritaðir fulltrúar minnihlutans okkur ekki fært að samþykkja fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Rangárþings ytra fyrir árið 2005 og sitjum hjá.

Undirritaðir: Þröstur Sigurðsson og Viðar H. Steinarsson.

 

Bókun fulltrúa D lista í tilefni af bókun fulltrúa K og Ó lista við síðari umræðu og afgreiðslu á tillögu að fjárhagsáætlun Rangárþings ytra fyrir árið 2005, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 28. desember 2004:

 

Fulltrúar K og Ó lista eru enn við sama heygarðshornið þegar helstu hagsmunamál sveitarfélagsins eru annars vegar eins og afgreiðsla á fjárhagsáætlun hvers árs er. Rætt er um metnað eða meint metnaðarleysi á afar hæpnum forsendum. Reyndin er sú, að þegar meirihluti sveitarfélaga landsins er að berjast við að ná hallalausum rekstri, telja fulltrúar K og Ó lista það metnaðarlítið hjá Rangárþingi ytra að reksturinn verði með afgangi á næsta ári. Mikill metnaður er í því fólginn, sem góða samstöðu þarf til að náist, en það kalla fulltrúar K og Ó lista lágstemmd markmið. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur og þarf ekki að bæta miklu við í því efni.

Tillöguflutningur K og Ó lista hefur ekki verið þannig að sjá megi beinan rekstrarlegan sparnað eða hagræðingu í þeim í bráð. Engar sérstakar framfarir hafa verið augljósar í tillögum frá fulltrúunum enn sem komið er. Það væri til bóta ef þeir hefðu fram að færa tillögur til framfara en miðað við fyrri reynslu er slíkt ólíklegt.

Draumar þeirra um eigin framgang í næstu kosningum eru afar ólíklegir til að rætast.

Undirritaðir: Sigurbjartur Pálsson, Valtýr Valtýsson, Engilbert Olgeirsson, Ingvar P. Guðbjörnsson og Guðmundur I. Gunnlaugsson.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00.

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.