45. fundur 24. janúar 2005

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, mánudaginn 24. janúar 2005, kl. 18:00.

 

Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Valtýr Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Sigrún Ólafsdóttir, varamaður Engilberts Olgeirssonar, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Þröstur Sigurðsson, Heimir Hafsteinsson, Lúðvík Bergmann og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.

 

Oddviti setti fund og stjórnaði honum.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:

Engar fundargerðir liggja fyrir.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:

Engar fundargerðir liggja fyrir.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
    • Hitaveita Rangæinga - stjórnarfundur 17/1´05, sem er í 1 lið.

 

Til kynningar.

 

"Bókun vegna fundargerðar 20. fundar stjórnar Hitaveitu Rangæinga dags. 17. janúar 2005:

Eins og fram kemur í fyrsta lið fundargerðarinnar þá er það sameiginlegt álit stjórnarmanna Hitaveitu Rangæinga að farið hafi verið eftir tillögum Viðars og Heimis, um sölu á HR og greiðslu á 45 milljóna kr. skuld sveitarfélaganna.

Í ljósi þessa sameiginlega skilnings stjórnarmanna HR teljum við að markmiðum okkar um bættan rekstur eða sölu HR sé náð, til hagsbóta fyrir neytendur á svæði hitaveitunnar.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson, Þröstur Sigurðsson."

 

Lögð fram stjórnsýslukæra Viðars Steinarssonar og Heimis Hafsteinssonar til iðnaðarráðuneytisins vegna ákvörðunar aðalfundar Hitaveitu Rangæinga, 20/12´04 um könnunarviðræður við Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Til kynningar.

 

"Bókun vegna stjórnsýslukæru sem undirritaðir lögðu fram vegna formgalla á tillöguflutningi á aðalfundi Hitaveitu Rangæinga dags. 20. des. 2004:

 

Undirritaðir falla frá stjórnsýslukæru vegna formgalla á tillöguflutningi á aðalfundi Hitaveitu Rangæinga (HR) árið 2004. Ástæðan er sú að við höfum fengið vitneskju um það frá Pétri A. Sverrissyni lögfræðingi í Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, samkvæmt símtali, að stjórn HR flokkist ekki sem “lægra sett stjórnvald” samkvæmt stjórnsýslulögum en undir það verður viðkomandi aðili að flokkast til að þeir í ráðuneytinu geti tekið afstöðu.

Undirritaðir harma engu að síður vinnubrögðin sem viðhöfð voru.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson."

 

 

 

 

 

 

 

  1. Drög að samningi um sölu Hitaveitu Rangæinga:

Lögð fram drög að samningi milli Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hinsvegar um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Rangæinga.

 

Drög að samningi um sölu Hitaveitu Rangæinga til Orkuveitu Reykjavíkur samþykktur samhljóða.

 

Eftirfarandi eru 8. og 9. grein í drögum að samningi um sölu Hitaveitu Rangæinga til Orkuveitu Reykjavíkur til skýringar á tilgreindu söluverði Hitaveitu Rangæinga og breytingum á gjaldskrá:

 

"8. gr.

Kaupverð hins selda er kr. 121.000.000.-, skrifa eitthundrað tuttuguogeinmilljón 00/100 og greiðir kaupandi það á eftirfarandi hátt:

Við staðfestingu samningsaðila: 111.000.000.-

Lokaafgreiðsla: 10.000.000.-

Samtals: 121.000.000.-.

 

Kaupverð er miðað við sjóðsstöðu, kröfur og skuldir skv. bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2004 og kann að taka breytingum við endurskoðað uppgjör. Lokagreiðsla er háð breytingum á því uppgjöri. Hún fer fram þegar uppgjörið liggur fyrir og ennfremur að fyrir liggi samþykki iðnaðarráðherra á framsali einkaleyfis, sbr. 2. gr. samnings þessa.

 

Kaupverð miðast við að núverandi eigendur Hitaveitu Rangæinga greiði veitunni kr. 45.000.000.- vegna úrbóta eftir jarðskjálfta, skv. samkomulagi sveitarfélaganna og ríkisins.

 

Yfirtaka kaupanda á rekstri Hitaveitu Rangæinga miðast við 1. janúar 2005 og hirðir kaupandi arð af rekstri hennar og greiðir gjöld vegna hennar frá sama tíma.

 

Við kaupin yfirtekur kaupandi eftirtaldar langtímaskuldir veitunnar:

 

Lánasjóður sveitarfélaga,

15 skuldabréf samtals að fjárhæð: 36.927.072

Búnaðarbankinn verðbréf 172.438.684

Íslandsbanki, nr. 1-30 316.137.566

Samtals 525.303.322

 

  1. gr.

Kaupandi mun jafna út þann mun sem er á gjaldskrá seljanda og gjaldskrá kaupanda með eftirfarandi hætti:

 

Frá og með 1. janúar 2005 verður eftirfarandi breyting gerð á gjaldskrá Hitaveitu Rangæinga:

Rúmmetraverð vatns verður kr. 76.64 án vsk.

 

Gjöld skv. hemlasölu til sumarhúsa verða kr. 48.050,- án vsk á ári fyrir 3 mínútulítra.

 

Hinn 1. janúar 2007 mun kaupandi færa gjaldskrá á svæði Hitaveitu Rangæinga til samræmis við gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur. Verð heita vatnsins til þéttbýlisstaða mun verða tengt gjaldskrá kaupanda í Reykjavík. Aðrir hlutar gjaldskrár svo sem vegna heimæðargjalda og í dreifbýli verða háðir ákvörðunum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, kaupandi skal leitast við að gæta samræmis innan veitusvæðis síns.

 

Lög nr. 139/2001 um stofnun Orkuveitu Reykjavíkur, með breytingum nr. 135/2003, reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 623/2004 og tæknilegir tengiskilmálar Orkuveitu Reykjavíkur gilda framvegis um Hitaveitu Rangæinga."

 

 

 

 

 

 

 

 

"Bókun vegna sölunnar á Hitaveitu Rangæinga:

Undirritaðir lýsa yfir mikilli ánægju með að tillögur okkar um sölu á Hitaveitu Rangæinga, sem við ítrekað höfum sett fram innan stjórnar veitunnar, skuli loks hafa náð fram að ganga að því er virðist samhljóða hjá öllum eigendum. Það er gleðilegt að full samstaða skuli hafa náðst um þetta mikilvæga markmið. Meginávinningur af sölu þessari kemur í vasa neytenda á svæðinu í formi lægra orkuverðs og því ber að fagna sérstaklega.

Undirritaðir : Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson, Þröstur Sigurðsson.

 

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20.30

 

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.