52. fundur 21. júní 2005

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, þriðjudaginn 21. júní 2005, kl. 18:00.

 

Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Sigrún Ólafsdóttir, varamaður fyrir Valtý Valtýsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Viðar H. Steinarsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Þröstur Sigurðsson, Lúðvík Bergmann, Heimir Hafsteinsson og Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem ritar fundargerð.

Einnig sitja fundinn að hluta Heiðrún Ólafsdóttir, varamaður fyrir Guðmund Inga Gunnlaugsson og Þórhallur Svavarsson, varamaður fyrir Ingvar Pétur Guðbjörnsson.

 

Sigurbjartur setti fund og stjórnaði honum.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:

Engin fundargerð liggur fyrir.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:

Engin fundargerð liggur fyrir.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:

Stjórn Lundar, hjúkrunar- og dvalarheimilis - stjórnarfundur 2/6´05 í 7 liðum.

 

4 Ársreikningar - síðari umræða:

4.1 Rangárþing ytra - 2004

4.2 Menningarmiðstöðin Laugalandi - 2004

4.3 Leiguíbúðir Laugalandi - 2004

4.4 Leikskólinn Laugalandi - 2004

4.5 Eignasjóður Laugalandsskóla - 2004

4.6 Holtaveitan fyrir árin 2003 og 2004

Bókun við afgreiðslu Ársreikninga 2004 fyrir Rangárþing ytra og stofnanir í sameiginlegri eigu Rangárþings ytra og Ásahrepps.

 

Ársreikningur ársins 2004 liggur nú fyrir. Hér að neðan í töflu má líta helstu stærðir í rekstri Rangárþings ytra, til samanburðar frá árunum 2002 til 2004.

 

Tölur í milljónum kr.

 

2002

2003

2004

Heildartekjur A og B hluta

495,1

539,1

560,7

Rekstrargjöld m. fjárm.liðum, A-B

533,0

596,7

648,9

Rekstrarniðurstaða (neikvæð), A-B

(37,9)

(57,6)

(88,2)

 

 

 

Heildareignir A og B hluta

1.109,4

1.031,9

1.050,6

Skuldir og skuldbind. A og B hluta

554,1

534,3

621,7

Samant. eigið fé A og B hluta

555,3

497,6

428,9

 

 

 

Veltufé frá/(til) rekstri/ar A og B hl.

2,9

(8,0)

9,2

Fjárfestingar A og B hluta

174,7

17,4

54,41)

Fjárfesting A hluta

 

12,1

33,7

 

 

 

Eignir í kr. á íbúa, samant. A-B hl.

769.334

718.612

724.558

Eigið fé í kr. á íbúa, samant. A-B hl.

385.067

346.554

295.799

Skuldir í kr. á íbúa, samant. A-B hl.

384.268

372.059

428.758

 

 

 

1)Fjárfestingar A og B hl. Þar kemur inn hlutur Húsakynna bs., sem er nýlunda.

 

Eins og sjá má hér að ofan þá er þróunin að verulegu leyti óhagstæð. Rekstrarniðurstaða ársins 2004 er slæm, innifalið þar er 43,2 millj. kr. hlutur Rangárþings ytra í sölutapi vegna hinna ævintýralegu fjárfestinga í Giljatanga á Laugalandi. Þessi einstaka niðurfærsla breytir ekki því að rekstarniðurstaða ársins er óviðunandi og að auki verulega úr takti við fjárhagsáætlun ársins. Í fjárhagsáætlun 2004 var gert ráð fyrir 65,7 millj. kr. halla og munar því 22,6 millj. kr. á áætlun og raunverulegri niðurstöðu ársins. Samkvæmt greinargerð sveitarstjóra þá er hlutur starfsmatsins í þessum mismun 10,5 millj. króna og sjálfsagt að taka tillit til þess. Þrátt fyrir þetta telst þessi munur, að okkar mati, vera of mikill og nauðsynlegt enn og aftur að brýna menn hvað varðar vinnubrögð við áætlanagerð og eftirfylgni í rekstrinum. Sérstaklega er vert að vísa aftur í greinargerð sveitarstjóra í þessu sambandi þar sem minnst er á fjárfestingu, framkvæmdir og búnaðarkaup við kennslueldhús Grunnskólans á Hellu og mötuneyti sama skóla í Íþróttahúsinu á Hellu. Þar er greinilegt að verulegur misbrestur hefur verið á stýringu og virkri áætlanagerð.

Það skal áréttað að, eins og sjá má á liðnum veltufé frá rekstri, þá er bati í rekstri sveitarfélagsins á milli ára og er það vel. Hins vegar er ljóst að þessi bati er ekki nægilegur og sýnir að meirihluti sveitarstjórnar Rangárþings ytra er ekki að taka á rekstri sveitarfélagsins með nægilega föstum tökum. Það þarf meira til að ná árangri og eins og undirritaðir hafa bent á þá þarf að skoða starfsemi sveitarfélagsins frá grunni og marka stefnu til framtíðar. Það hefur ekki verið gert með skilvirkum hætti.

 

Hin vaxandi skuldaaukning er ekki síður áhyggjuefni. Skuldir á hvern íbúa hafa aukist á milli ára. Vaxandi skuldsetning til að eiga fyrir þeim veigalitlu fjárfestingum sem ráðist hefur verið í á árinu og til að laga lausafjárstöðu sveitarfélagsins. Þetta er áhyggjuefni sérstaklega í ljósi þess að hvergi er gert ráð fyrir fjármunum í þau stóru verkefni sem bíða og hafa setið á hakanum um of langt skeið og kosta hundruðir milljóna og er þá átt við veitumálin þ.e. vatnsveitu- og fráveitumál auk ýmissa annarra brýnna verkefna.

Nú sem áður koma fram varnaðarorð frá endurskoðendum sveitarfélagsins. Varað er sérstaklega við því að miðað við óbreyttar forsendur þá vantar 28,2 milljónir kr. á ári til að unnt verði að standa við afborganir langtímalána. Jafnframt er lögð áhersla á að yfirfara rekstrartekjur og gjöld allra stofnana til að bæta rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins. Hægt er að taka undir þessi varnaðarorð og enn og aftur leggjum við undirritaðir áherslu á nauðsyn þess að skera upp rekstur sveitarfélagsins og marka stefnu til framtíðar í helstu málaflokkum. Undirritaðir vísa jafnframt í bókun Ó- og K-lista við afgreiðslu Ársreikninga 2003, í fundargerð 34. fundar hreppsnefndar Rangárþings ytra. Þar kemur ýmislegt fram sem vert er að ítreka.

 

Undirritaðir : Heimir Hafsteinsson, Viðar H. Steinarsson og Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun fulltrúa D-lista vegna bókunar fulltrúa K- og Ó-lista í tilefni af afgreiðslu ársreikninga fyrir árið 2004, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 21. júní 2006:

 

Margt í bókun fulltrúa K- og Ó-lista er rétt með farið og málefnalegt en í sumum atriðum er farið út af réttri braut og verður fjallað um það í þessari bókun. Niðurstaða rekstrarreiknings síðastliðins árs er ekki viðunandi en eins og fram kemur í bókun K- og Ó-lista er stærsti hluti hallans á síðasta ári vegna sölutaps af leiguíbúðum sem líta má á sem tiltekt og hluti af ráðstöfunum til þess að ná fram hagstæðari niðurstöðum í framtíðinni. Skuldaaukning er að miklu leyti vegna þess að skuldir Húsakynna bs. eru teknar inn í efnahagsreikning samstæðu og verðtryggingarhækkunar upp á tæpar 18 milljónir. Að auki var lagður grunnur að minni fjármagnskostnaði en fyrr með skuldbreytingu á óhagstæðari skammtímafjármögnun í langtímalán.

 

Tekið er á rekstri sveitarfélagsins með eðlilega föstum tökum og vandséð er að öllu harðar verði gengið að stofnunum á þeim vettvangi.

 

Réttilega er bent á, að stór verkefni bíða á sviði vatnsveitna sveitarfélagsins. Ljóst er að þessum verkefnum þarf að forgangsraða og ráðast í þau eftir getu hverju sinni. Í heild er um mörg hundruð milljóna króna fjárfestingu að ræða sem allir sjá að ekki verða leyst nema í áföngum. Fráveitumálefni hafa verið á dagskrá og í áætlunum um fjárfestingar. Þetta málefni þarf að leysa svo lágmarkskröfum verði náð á næstu 1 – 2 árum.

 

Stefnt hefur verið markvisst að því að ná fram bata í rekstri sveitarfélagsins og eru margar vísbendingar um að búast megi við að svo verði á árinu 2005 komi ekki fram áföll sem ekki er vitað um.

 

Sigurbjartur Pálsson. Engilbert Olgeirsson. Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Sigrún Ólafsdóttir. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.

 

Ársreikningarnir samþykktir með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá ( HH, VHS, ÞS).

 

  1. Landbúnaðarráðuneytið - beiðni um umsögn vegna landskipta:

Lagt fram bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, dagsett 9/6´05, þar sem óskað er eftir umsögn vegna landskipta að Stóra-Klofa samkvæmt framlögðum gögnum.

 

Hreppsnefnd gerir ekki athugasemd við landskiptin.

 

  1. Pétur og Ingibjörg Ásta Hafstein - beiðni um umsögn vegna samrunaskjals:

Lagt fram bréf frá Pétri og Ingibjörgu Ástu Hafstein, dagsett 13/6´05, þar sem óskað er eftir umsögn vegna samrunaskjals fyrir Stokkalæk landnúmer 164554 og 195787 samkvæmt framlögðum gögnum.

 

Hreppsnefnd gerir ekki athugasemd við samrunaskjalið.

 

  1. Fornleifastofnun Íslands - ný drög að samningi um aðalskráningu fornleifa:

Lögð fram ný drög að samningi um aðalskráningu fornleifa í Rangárþingi ytra.

 

Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að undirrita samninginn f.h. Rangárþings ytra.

  1. Guðný Sigurðardóttir og Þórir Jónsson - um samskipti við skólastjóra og samkomulagsumleitanir:

Lagt fram bréf frá Guðnýju Sigurðardóttur og Þóri Jónssyni, dagsett 14/6´05, varðandi samskipti við skólastjóra Grunnskólans á Hellu og samkomulagsumleitanir sveitarstjórnar.

Guðmundur Ingi og Ingvar Pétur víkja af fundi vegna vanhæfis og í þeirra stað koma varamennirnir Heiðrún Ólafsdóttir og Þórhallur Svavarsson.

 

Greinargerð og tillaga vegna erindis hjónanna Guðnýjar Sigurðardóttur og Þóris Jónssonar á Selalæk, og greinargerðar” skólastjórnenda Grunnskólans á Hellu þar um.

Undirritaðir harma að skólastjórnendur Grunnskólans á Hellu skuli koma fram með þeim hætti sem fram kemur í erindi þeirra Selalækjarhjóna. Einnig áteljum við harðlega þá vanvirðu sem áðurnefndir skólastjórnendur sýna sveitarstjórn Rangárþings ytra, sem er þeirra yfirboðari, með “greinargerð”frá 18. maí 2005.

 

Það verður að teljast ámælisvert að stjórnendur mikilvægrar þjónustustofnunar á borð við Grunnskólann á Hellu geri sig seka um þá framkomu gagnvart foreldrum sem um ræðir í erindi Guðnýjar og Þóris. Þá hlýtur það að teljast skortur á stjórnun og færni í mannlegum samskiptum, af hálfu skólastjórnenda, að geta ekki leitt mál þetta til lykta á farsælan hátt innan stofnunarinnar og án afskipta hreppsnefndar sem yfirvalds.

 

Einnig vekur furðu okkar að sveitarstjóri skuli lýsa yfir vanhæfi í máli þessu. Við teljum að það sé hlutverk hans, sem yfirmanns, að taka á málum sem þessum og leiða þau til lykta fremur en að segja sig frá þeim með þeim hætti sem hann gerir. Í raun og veru þá er þetta mál starfsmannavandamál sem hlýtur að vera á verksviði sveitarstjóra að leysa.

 

“Greinargerð” skólastjórnenda frá 18. maí sl. er þeim til skammar og sú vanvirða sem hreppsnefnd er sýnd með framlagningu hennar er ámælisverð. Þegar hreppsnefnd biður um greinargerð varðandi mál sem þetta er ætlast til að lögð sé vinna í að svara og gera grein fyrir einstökum málsatvikum á viðeigandi hátt og skýra út málsatvik. Þetta er ekki gert og þessu til viðbótar skrifar skólastjóri Grunnskólans á Hellu ekki undir “greinargerðina” með eigin hendi.

 

Í ljósi erindis Guðnýjar og Þóris á Selalæk og ófullkominnar “greinargerðar” skólastjórnenda Grunnskólans á Hellu, taka undirritaðir undir kröfu Guðnýjar og Þóris um að áminna skólastjóra Grunnskólans á Hellu í starfi og krefjast þess að hann biðji hjónin á Selalæk afsökunar skriflega, ásamt því að koma á framfæri leiðréttingu á ósönnum fullyrðingum hans um að Þórir hafi sagt að starfsfólk skólans standi sig ekki í starfi.

 

Undirritaðir: Viðar H. Steinarsson, Heimir Hafsteinsson og Þröstur Sigurðsson.

 

Tillagan felld, 3 atkvæði með, 5 á móti (SP., EO., HÓ., ÞJS. og SÓ.) og 1 situr hjá (LB.).

 

Bókun vegna atriðis sem fram kemur í felldri tillögu fulltrúa K- og Ó-lista um deilu foreldranna Guðnýjar Sigurðardóttur og Þóris Jónssonar við skólastjórnendur í Grunnskólanum á Hellu, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra 21. júní 2005:

 

Sagt er að sveitarstjóri hafi ekki átt að lýsa yfir vanhæfi í máli þessu en taka á því sem “starfsmannamáli”. Þetta verður að teljast furðuleg niðurstaða fulltrúa K- og Ó-lista. Í fyrsta lagi ber sveitarstjórnarmanni samkvæmt sveitarstjórnarlögum að tilkynna um það, telji hann leika vafa á hæfi sínu og kveðja til varamann. Í öðru lagi er með ólíkindum að setja fram fullyrðingu um, að deila foreldra við skólastjórnendur sé “starfsmannavandamál”. Hver og einn hlýtur að sjá að slíkt er firra.

Sigurbjartur Pálsson. Engilbert Olgeirsson. Sigrún Ólafsdóttir. Heiðrún Ólafsdóttir. Þórhallur J. Svavarsson.

 

Tillaga að ályktun hreppsnefndar Rangárþings ytra vegna erindis Guðnýjar Sigurðardóttur og Þóris Jónssonar vegna samskipta við skólastjórnendur Grunnskólans á Hellu, lögð fram á fundi hreppsnefndarinnar þ. 21. júní 2005:

 

Hreppsnefnd Rangárþings ytra harmar að deila skuli hafa komið upp á milli foreldranna Guðnýjar Sigurðardóttur og Þóris Jónssonar, Selalæk á Rangárvöllum annars vegar og stjórnenda Grunnskólans á Hellu hins vegar.

 

Fyrir liggur að aðilar eru ósammála um hvað þeim fór í milli vegna stöðu sem upp kom á haustdögum 2004, vegna gæslu barna utan kennslustunda. Það liggur einnig fyrir að skólinn hefur bætt úr því sem áfátt þótti vera í gæslu barnanna.

 

Fyrir liggur erindi frá foreldrunum með kröfu um áminningu, dagsett 26. apríl 2005 og greinargerð samkvæmt tilmælum frá fundi hreppsnefndarinanr þ. 4. maí 2005 frá stjórnendum Grunnskólans á Hellu.

 

Vegna kröfu um áminningu til handa skólastjóra Grunnskólans á Hellu er bent á, að sönnunarbyrði er erfið, þegar ekki er samhljómur í frásögn aðila sem að málinu koma og er sérstaklega bent á ákvæði 21. gr. L. nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem einnig ná yfir starfsmenn sveitarfélaga. Eftirfarandi er eftirrit af téðri lagagrein:

 

  1. gr. Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.

 

Einnig má minna á ákvæði 2. málsliðar 7. gr. laga nr. 72/1996:

 

  1. gr. Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.

 

Þau gögn sem fyrir liggja í málinu gefa hreppsnefnd ekki tilefni til þess að veita viðkomandi skólastjórnendum áminningu eins og farið er fram á í erindi foreldranna.

 

Gerð hefur verið tilraun til þess að boða aðila saman til sáttafundar með oddvita hreppsnefndar og formanni fræðslunefndar. Foreldrarnir sáu sér ekki fært að mæta á þann fund.

 

Hreppsnefnd Rangárþings ytra hvetur viðkomandi foreldra og skólastjórnendur til þess að leita sátta í málinu og leita allra leiða til þess að laða fram farsæl málalok án þess að til þurfi að koma formlegir úrskurðir opinberra aðila.

 

Bent er á, að menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með störfum grunnskóla og þangað er unnt að skjóta málum, geti aðilar ekki unað þeim niðurstöðum sem fást á vettvangi sveitarstjórnar.

 

Sigurbjartur Pálsson. Engilbert Olgeirsson. Sigrún Ólafsdóttir. Þórhallur J. Svavarsson. Heiðrún Ólafsdóttir.

 

Tillagan samþykkt, 5 atkvæði með og 4 sitja hjá (HH, VHS, ÞS, LB).

 

  1. Fundarboð, námskeið, ráðstefnur, þjónusta og umsóknir um styrki:

9.1 Stjórn Íbúðalánasjóðs 2/6´05 - heimsókn til Rangárþings ytra (og Ásahrepps) 28/6´05 til

viðræðna um húsnæðismál.

 

Samþykkt samhljóða að bjóða upp á veitingar á fundinum.

 

9.2 Umsókn frá Umf. Merkihvoli og Umf. Ingólfi um styrk að upphæð kr. 150.000.-

vegna leikjanámskeiðs.

 

Samþykkt samhljóða að vísa umsókninni til íþrótta- og æskulýðsnefndar til umsagnar og tillögugerðar.

 

  1. Annað efni til kynningar:

10.1 Félagsmálaráðuneytið 6/6´05 - svar til K- og Ó-lista með áliti varðandi upplýsingagjöf

um launagreiðslur.

10.2 Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga 3/6´05 - greining á kjararsamningum við

BSRB og ASÍ félög.

10.3 Vegagerðin 9/6´05 - flokkun Þrúðvangs á Hellu sem tengivegar.

Samþykkt að leita eftir áliti lögmanns um flokkun Þrúðvangs á Hellu sem veg í

þjóðvegakerfinu.

 

10.4 Heilbrigðiseftirlit Suðurlands 2/6´05 - upplýsingarit um tæmingu rotþróa og samþykktir.

Samþykkt samhljóða að dreifa þessum upplýsingum til býla og frístundahúsa.

 

10.5 Embætti yfirdýralæknis og Umhverfisstofnunar 9/6´05 - upplýsingar varðandi viðbrögð

við grun um illa meðferð dýra.

10.6 Þjóðskjalasafn Íslands 30/5´05 - skýrsla með niðurstöðum könnunar á rafrænni

skjalavörslu opinberra embætta, stofnana og fyrirtækja ríkisins.

10.7 Menntamálaráðuneytið 31/5´05 - um dag borgarvitundar og lýðræðis 2005.

10.8 Félagsmálaráðuneytið/Jöfnunarsjóður sveitarfélaga 14/6´05 - fréttabréf um

húsaleigubætur.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:30.

 

Ingibjörg Gunnarsdóttir, ritari.