53. fundur 06. júlí 2005

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, miðvikudaginn 6. júlí 2005, kl. 16:00.

 

Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Sigrún Ólafsdóttir, varamaður Valtýs Valtýssonar, Viðar H. Steinarsson, Þröstur Sigurðsson, Heimir Hafsteinsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Þórunn Ragnarsdóttir, varamaður Lúðvíks Bergmann, Þórhallur Svavarsson, varamaður Engilberts Olgeirssonar og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.

 

Lögð fram tillaga að breytingu á dagskrá; Við bætist nýr 11. liður og færast aðrir liðir aftur sem því nemur.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir hreppsráðs:

1.1 Lögð fram fundargerð 70. fundar hreppsráðs 23/6 2005 í 18 liðum.

 

Samþykkt með 8 atkvæðum.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:

2.1 Stjórn Eignaumsjónar Rangárþings ytra og Ásahrepps - 18. fundur 20/6 2005 í 9 liðum.

- Fjárfestingaáætlun Eignasjóðs 2005.

- Greinagerð Eignasjóðs vegna tillögu um flutning leikskólans á Laugalandi í parhúsaíbúð í

Giljatanga.

 

Fundargerðin samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá (HH, VS, ÞR).

 

Bókun vegna fundargerðar 18. fundar stjórnar Eignaumsjónar Rangárþings ytra og Ásahrepps dags. 20. júní 2005.

Það vekur athygli að ekki skuli þurfa að funda í þessari svonefndu stjórn örar en raun ber vitni. Það er fundur í janúar og síðan 20. júní sl. Það er vissulega ástæða til að velta upp hlutverki þessa apparats í ljósi breyttra forsenda í skipuriti Rangárþings ytra.

Jafnframt vekur nokkra athygli að á þessum tímapunkti skuli ekki vera lögð fram áætlun um verkefni sumarsins og kynnt formlega fyrir stjórn eignaumsjónar og sveitarstjórn Rangárþings ytra.

Undirritaðir : Heimir Hafsteinsson, Þröstur Sigurðsson, Viðar Steinarsson.

 

  1. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:

3.1 Stjórn Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. - 95. fundur 29/6 2005 í 6 liðum.

3.2 Stjórn Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu - 11. fundur 24/6 2005 í 4 liðum.

- Ársreikningur 2004 fyrir Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellsýslu bs.

3.3 Fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps - 42. fundur 29/6 2005 í 7 liðum.

 

  1. Tillögur um heimild til ráðningar sviðsstjóra Stjórnsýslusviðs, minniháttar breytingu

á skipuriti skrifstofu og um stofnun stöðu skjalavarðar:

Lagðar fram tillögur um heimild til ráðningar á sviðsstjóra stjórnsýslusviðs, breytingu á starfslýsingu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs, minniháttar breytingu á skipuriti skrifstofu og um nýja stöðu skjalavarðar ásamt skýringum við hvern lið.

 

Samþykkt með 5 atkvæðum, 3 á móti (HH, VS, ÞS) og 1 situr hjá (ÞR).

 

Bókun vegna svokallaðrar Sviðsstjórastöðu stjórnsýslusviðs Rangárþings ytra.

Tillaga meirihluta Rangárþings ytra, varðandi skrifstofuhaldið, er að þar verði gerð virk ný staða sem heitir Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs. Sviðstjóri sem samkvæmt fyrirliggjandi starfslýsingu er staðgengill sveitarstjóra, tekur yfir stjórnun skrifstofuhaldsins og mörg af þeim verkefnum sem sveitarstjóri á að sinna samkvæmt starfslýsingu. Hér er sem sagt verið að búa til “feitt” pólitískt embætti og líklegra en ekki verið að sníða það að þörfum ákveðinna einstaklinga en ekki verið huga að hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess.

Samkvæmt fjárhagsáætlun þá er gert ráð fyrir að starf þetta kosti 6-7 milljónir króna á ársgrundvelli og jafnvel má gera ráð fyrir meiru ef tekið er mið af aksturskjörum núverandi yfirstjórnenda.

Undirritaðir fulltrúar minnihlutans mótmæla kröftuglega þeirri gríðarlegu kostnaðar aukningu sem hér er verið að boða í skrifstofuhaldi sveitarfélagsins. Hér er verið að bæta við stóru stöðugildi við þær 5 stöður sem nú þegar eru á skrifstofunni. Þetta er óásættanlegt miðað við það sem gengur og gerist í sambærilegum sveitarfélögum.

Í ljósi þess skipulags sem virðist ganga hjá ýmsum öðrum sveitarfélögum, þá liggur það í augum uppi að menn þurfa að stokka upp spilin hvað varðar skrifstofuhald í okkar ágæta sveitarfélagi. Það kann vel að vera að það vanti ákveðna þekkingu inn í starfsemi skrifstofunnar og auðvitað á að bregðast við því en sú ráðstöfun að bæta við einum titlinum enn er ekki ásættanleg lausn miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Við hljótum að kalla eftir skipulagsbreytingum og að farið verði yfir stjórnun og starfssemi skrifstofunnar og jafnframt að það verði upplýst hvað sveitarstjóri Rangárþings ytra er að gera á þeim u.þ.b. 340 klst. sem hann, að eigin sögn, eyðir í vinnunni á mánuði, sem þó væntanlega eru utan við þá tíma sem hann eyðir í bílnum á kostnað Rangárþings ytra.

Ef meirihluti sveitarstjórnar Rangárþings ytra ákveður hins vegar að gera þennan pólitíska bitling virkan, krefjumst við þess með vísan í starfslýsingu sviðsstjóra að nú þegar fari fram endurskoðun á starfskjörum og ábyrgð sveitarstjóra og verði þau hér eftir í samræmi við minni ábyrgð og viðveru.

Undirritaðir vísa að öðru leyti á bókun frá 28. fundi sveitarstjórnar þann 3. mars 2004, þar sem fjallað er um skipurit og starfslýsingu skrifstofu Rangárþings ytra.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson, Þröstur Sigurðsson.

 

Bókun fulltrúa D-lista í tilefni af bókun fulltrúa K- og Ó-lista vegna samþykktar um ráðningu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og stofnunar stöðugildis skjalavarðar, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. júlí 2005:

Fullyrðingu um að verið sé að stofna pólitískt embætti er vísað á bug. Víða eru sambærileg embætti sem meðal annars heita framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs eða bæjarritari. Í öllum tilfellum er gengið út frá því að slík embætti starfi fullkomlega ópólitískt og hlutlægt að verkefnum innan stjórnsýslunnar á skrifstofum sveitarfélaga. Ekkert samhengi er í því, að viðkomandi embætti leysi sveitar- og bæjarstjóra af í forföllum og að þau verði þar með pólitísk. Um þetta er vísað til áratuga framkvæmdar í slíkum tilfellum í fjölda sveitarfélaga um allt land.

Slegið er fram að embættið sé fyrirfram ætlað einhverjum ákveðnum einstaklingi. Slíku er ekki til að dreifa og er þessari aðdróttun vísað til föðurhúsanna.

Varla er ástæða til þess að elta ólar við kröfur um rannsóknir á störfum sveitarstjóra. Öllum sem vilja er það ljóst, að þau eru ærin.

Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir að sviðsstjóri stjórnsýslusviðs taki að hluta yfir verkefni sem núverandi aðalbókari hefur haft með höndum, störf sem ritari hreppsnefndar hefur sinnt, að sinna verkefnum á sviði áætlanagerðar og bókhalds sem keypt eru að nú. Vegna verkþátta sem nú eru keyptir að, er gert ráð fyrir að á móti kostnaði við þetta nýja embætti, sparist aðkeypt vinna, a.m.k. að hluta.

Staða skjalavarðar er knýjandi lausn á verkefni sem bíður varðandi vistun og frágang skjala fyrri sveitarfélaga og Rangárþings ytra. Það er talið fullt verkefni fyrir einn starfsmann í 2 – 3 ár að vinna upp skjalasafnið sem fyrir er og að koma á skjalavistun samkvæmt núgildandi kröfum þar um.

Það er talið fullvíst að þessi breyting á samsetningu starfa á skrifstofu sveitarfélagsins, verði til þess að efla stjórnsýslu þess og gera hana skilvirkari.

Sigurbjartur Pálsson. Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson. Sigrún Ólafsdóttir. Þórhallur J. Svavarsson.

 

  1. Ráðning aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Hellu:

Lagt fram bréf frá skólastjóra Grunnskólans á Hellu, dagsett 30/6 2005, með tillögu um ráðningu Róberts G. Gunnarssonar í stöðu aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann á Hellu.

Meðfylgjandi eru umsóknir er bárust um stöðuna.

 

Tillaga og greinargerð vegna ráðningar aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann á Hellu.

Tillaga:

Við undirritaðir leggjum til, á grundvelli skorblaðs skólastjóra og þess viðbótarrökstuðnings sem hér að neðan greinir, að Steinar Tómasson verði ráðinn aðstoðarskólastjóri við Grunnskólann á Hellu.

Greinargerð:

Undirritaðir telja, að í annars ágætu skorblaði skólastjóra, vanti eitt mikilvægt atriði sem við viljum halda til haga. Þar er um að ræða núverandi búsetu umsækjenda. Við teljum að þegar tekið sé tillit til þessa mikilvæga hlutar þá standi Steinar Tómasson efstur í skori. Steinar hefur það fram yfir aðra vel hæfa umsækjendur að hann er búsettur í okkar sveitarfélagi og á hér eigið húsnæði en stendur, að okkar mati, að öðru leiti jafnfætis eða framar öðrum umsækjendum.

Að auki telst honum til tekna, í okkar huga, að vera starfandi við stofnunina og vel metinn sem slíkur.

Undirritaðir: Heimir Hafsteinsson og Viðar Steinarsson.

 

Tillagan felld. 2 með, 2 sitja hjá og 5 á móti.

 

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Sigurbjartur Pálsson, Sigrún Ólafsdóttir, Þórhallur J. Svavarsson og Ingvar Pétur Guðbjörnsson gera eftirfarandi grein fyrir atkvæði sínu:

Með samþykkt á tillögu skólastjóra er farið að faglegu mati hans á umsækjendum, þar sem tekið er á þáttum eins og stjórnunarnámi og stjórnunarreynslu umsækjenda auk annarra atriða. Ekki á nokkurn hátt vanmetin hæfni annarra umsækjenda sem hafa margt eftirsóknarvert fram að færa.

 

Tillaga skólastjóra Grunnskólans á Hellu um ráðningu Róberts G. Gunnarssonar sem aðstoðarskólastjóra samþykkt. 5 með og 4 sitja hjá (HH, VS, ÞS, ÞR).

 

  1. Umsókn um afnot af húsnæði í Þykkvabæ fyrir listsýningar:

Lögð fram umsókn Brynju Rúnarsdóttur, dagsett 23/6 2005, um afnot af húsnæði fyrrum Þykkvabæjarskóla fyrir listsýningar.

 

Lögð fram tillaga um taka jákvætt í erindið og að að veittur verði styrkur sem nemi húsaleigu fyrir húsnæðið.

 

Haft verði samráð við Eignaumsjón og menningarmálanefnd um framkvæmdina.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Jóhanna H. Oddsdóttir - umsókn um kaup á lóðum í Merkihvolslandi:

Lagt fram bréf frá Jóhönnu H. Oddsdóttur, dagsett 27/6 2005, þar sem hún óskar eftir að fá keyptar lóðirnar nr. 20, 22 og 24 í landi Merkihvols auk aðliggjandi landspildna.

 

Lögð fram tillaga um að vísa erindinu til Eignaumsjónar til athugunar og tillögugerðar.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Sýslumaðurinn á Hvolsvelli :

Lagt fram bréf fá sýslumanninum á Hvolsvelli, dagsett 23/6 2005, með beiðni um umsögn sveitarstjórnar vegna umsóknar um leyfi til rekstrar gistiskála að Lönguhlíð í Galtalækjarskógi.

 

Hreppsnefnd gerir ekki athugasemd við að leyfi verði veitt samkvæmt efni umsóknarinnar.

 

  1. Rangárvalladeild Geysis og Félag hesthúsaeigenda á Hellu:

Lagt fram bréf frá Rangárvalladeild Geysis og Félagi hesthúsaeigenda á Hellu, dagsett 21/6 2005, með umsókn um styrk vegna girðinga meðfram reiðvegi og lagfæringu á girðingu á mörkum milli eignarlands sveitarfélagsins og Gilsbakka.

 

Lagt er til að veittur verði styrkur að upphæð kr. 425.000 vegna girðinga meðfram fyrirhuguðum reiðvegi við flugvöllinn á Hellu. Sveitarstjórn mælist til við Rangárvalladeild Geysis að girðing á mörkum eignarlands sveitarfélagsins og Gilsbakka verði lagfærð af félagsmönnum.

Kostnaði er vísað til endurskoðunar á fjárhagsáætlun og gert er ráð fyrir að aðrir styrkir sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins lækki samsvarandi.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fyrirspurnir frá fulltrúum K- og Ó-lista og svör sem borist hafa:

Lagt fram bréf frá fulltrúum K- og Ó- lista, móttekið 30/6 2005, með eftirfarandi fyrirspurnum og ósk um skrifleg svör á fundi hreppsnefndar þ. 6. júlí 2005:

1) Um undirbúning nýrra vatnstökusvæða.

2) Um ráðstafanir vegna vatnsskorts í Þykkvabæ.

3) Um stöðu í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur um sölu á vatnsveitum sveitarfélagsins.

4) Um kynningu á skýrslu atvinnu- og ferðamálafulltrúa.

5) Um stöðu í stefnumótunarvinnu fyrir Rangárþing og Mýrdal á vegum atvinnu- og

ferðamálaverkefnisins.

- Um ársuppgjör Töðugjalda fyrir árið 2004.

- Um frágang ólokinna mála við landeigendur á Laugalandssvæðinu eftir sölu Hitaveitu

Rangæinga til Orkuveitu Reykjavíkur.

6) Um stöðu varðandi frágang, stjórnarfund og lokauppgjör eftir sölu á Fiskeldisstöðinni í

Fellsmúla.

 

Ábendingar um störf vinnuhópa fylgja með fyrirspurnunum.

 

Svör við fyrirspurnum fulltrúa K- og Ó-lista frá 30. júní 2005, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. júlí 2005:

 

  1. Spurt er um undirbúningsvinnu vegna virkjunar nýrra vatnstökustaða fyrir vatnsveitur Rangárþings ytra:

Línuhönnun hf. hefur gert forhönnun vegna virkjunar nýrra vatnstökustaða í Holtum, Landsveit og á Rangárvöllum. Næsta skref er hönnun á fyrirkomulagi virkjana auk lagnaleiða. Málið er í biðstöðu á meðan viðræður standa yfir við Orkuveitu Reykjavíkur um hugsanleg kaup hennar á vatnsveitum sveitarfélagsins.

 

  1. Spurt er um ráðstafanir vegna vatnsskorts í Þykkvabæ:

Vatnsskortur hefur verið í Þykkvabæ í áratugi samkvæmt frásögn íbúa þar. Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana undanfarin þrjú ár til þess að bæta afhendingaröryggi neysluvatns á svæði vatnsveitu Þykkvabæjar. Síðastliðinn vetur var lögð ný lögn undir Ytri-Rangá, en fyrri lögn var orðin tæp. Leitað hefur verið að lekt í lagnakerfinu og hafa lekar fundist sem gert hefur verið við. Vatnsgeymir í Jarðhúsum var lagfærður. Farið hefur verið rækilega yfir dreifikerfið, dælur og annan búnað. Þetta dugir þó ekki, enda vatnsþörfin talsvert meiri en kerfið ræður við, eins og áður var komið fram og vitað hefur verið um í mörg ár. Tvær verksmiðjur eru nú starfandi í Þykkvabæ sem framleiða neysluvarning úr kartöflum og langflestir bændur, ef ekki allir, þvo kartöflur heima fyrir afhendingu á markað, sem enn hefur bætt við vatnsþörfina sem áður var. Verkfræðistofan Hnit hf. hefur gert frumúttekt á vatnsveitunni og sett fram hugmyndir um úrbætur. Ljóst er að það er forgangsverkefni, ásamt nýrri vatnsöflun og þrýstiskerpistöðvum á veitusvæði Holtaveitunnar, að auka vatnsmagnið sem til afhendingar er hjá vatnsveitu Þykkvabæjar.

 

Eins og kunnugt er og áður er komið fram, standa yfir viðræður við OR um hugsanleg kaup á vatnsveitum. Þessi brýnu mál Holtaveitunnar og vatnsveitu Þykkvabæjar hafa verið í biðstöðu á meðan. Rætt hefur verið um að sameina allar vatnsveitur sveitarfélagsins (og Ásahrepps) í eitt byggðasamlag um vatnsveitur og að það fari í þessar aðgerðir verði ekki af sölu veitnanna. Þetta er þó enn aðeins á hugmyndastigi.

 

D-listi í hreppsnefnd Rangárþings ytra mun leggja fram tillögur á þessu sviði eftir að niðurstaða verður ljós í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur.

 

  1. Spurt er um hver staðan er í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur um hugsanlega sölu vatnsveitna á svæðinu:

Einn fundur hefur verið haldinn með fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur um hugsanlega sölu á vatnsveitunum til þeirra. OR hefur síðan fengið öll tiltæk gögn um veiturnar og stöðu þeirra. Vinna hefur staðið yfir hjá OR við að meta vatnsveiturnar, bæði til fjár og tæknilega. Þeirri vinnu er ekki lokið eftir því sem best er vitað. Fulltrúar OR tjáðu fulltrúum sveitarfélaganna að þessi vinna myndi taka nokkrar vikur og að þeir myndu gera aðvart um leið og niðurstaða þeirra lægi fyrir.

 

  1. Spurt er um kynningu á starfsskýrsu atvinnu- og ferðamálafulltrúa, um stefnumótunarvinnu á vegum atvinnu- og ferðamálaverkefnisins og um ársuppgjör Töðugjalda 2004:

Vísað er til svara frá Eymundi Gunnarssyni, atvinnu- og ferðamálafulltrúa sem fylgdu með fundargögnum 53. hreppsnefndarfundar 6. júlí 2005.

 

  1. Spurt er um frágang ólokinna mála við landeigendur á Laugalandssvæðinu eftir sölu Hitaveitu Rangæinga til Orkuveitu Reykjavíkur:

Vísað er til fyrirspurnar sem send var til Ágústar Inga Ólafssonar 2. júlí 2005 sem er meðfylgjandi ásamt svari Ágústar Inga dags. 4. júlí 2005.

 

  1. Spurt er um hvenær til standi að halda stjórnarfund um ársreikning fyrir árið 2004 og um lokauppgjör eftir sölu á eignum Fiskeldisstöðvarinnar í Fellsmúla ehf. og hvenær það verði sent til sveitarstjórnanna til staðfestingar:

Vísað er til upplýsinga frá Hrólfi Ölvissyni sem fylgja með þessu svari.

 

Vegna ábendinga um starf vinnuhópa:

Reynt verður að stilla svo til að niðurstöður vinnuhópa verði lagðar fyrir hreppsnefnd á hausti komanda eða um leið og þær liggja fyrir. Eftirfarandi er vitað um stöðu einstakra mála:

 

Vinnuhópur um stjórnsýsluhús og húsnæði fyrrum Þykkvabæjarskóla gerir ráð fyrir að leggja fram tillögur að áliðnu sumri.

 

Í vinnuhópi um hesthúsahverfi og málefni hestamanna var kominn vísir að niðurstöðu um að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir hesthúsahverfi austan Gaddstaðaflata. Ekki var komin niðurstaða varðandi hver framtíð núverandi hesthúsahverfis á Hellu verði. Leitað verður eftir því að hópurinn ljúki starfi sínu og sendi hreppsnefndinni tillögur sínar um framangreind málefni.

 

Vinnuhópur um húsnæðismálefni grunn- og leikskóla á Hellu hefur skoðað hugmyndir um nýtingu „skólareits” frá Reyni Vilhjálmssyni, landslagsarkitekt. Ekki liggja ennþá fyrir mótaðar tillögur frá hópnum.

 

Vinnuhópur um launamál hefur ritað Launanefnd sveitarfélaga bréf dagsett 18. maí sl. og farið fram á skoðun og lagfæringu á starfsmati nokkurra tilgreindra starfsheita hjá sveitarfélaginu. Ekki hefur borist svar ennþá. Vinnuhópurinn þarf að koma saman sem fyrst og ákveða næstu skref hvort sem svar berst frá LN eða ekki. Afrit af bréfi vinnuhópsins til LN fylgir með þessu svari.

 

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson,

sveitarstjóri.

 

  1. Fyrirspurn frá Heimi Hafsteinssyni um stöðu framkvæmda og kostnaðar við sparkvelli á Hellu, Laugalandi og í Þykkvabæ:

1) Um hvort kostnaðaræáætlanir vegna sparkvalla á Hellu og að Laugalandi hafi gengið eftir.

2) Um hvað líði framkvæmdum í Þykkvabæ, hvort þær séu fullhannaðar og hvað eigi að gera

og hvenær.

 

Svar við fyrirspurn um sparkvelli frá Heimi Hafsteinssyni dagsett 2. júlí 2005, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 6. júlí 2005:

 

  1. Spurt er um hvort kostnaðaráætlanir varðandi sparkvellina á Hellu og að Laugalandi hafi gengið eftir, þ.e. þeir liðir sem lokið er.

Vísað er til svars frá starfsmanni Eignaumsjónar vegna sparkvallar að Laugalandi. Að því er virðist mun kostnaðaráætlun Foreldrafélags Laugalandsskóla eiga að standast. Kostnaðaráætlun foreldrafélagsins var um upphæð framlaga sem óskað var eftir frá Rangárþingi ytra og Ásahreppi til verkefnisins, en endurspeglaði e.t.v. ekki heildarkostnað við verkefnið.

 

Kostnaður vegna þeirra þátta sem lokið er við á Hellu er ekki allur kominn fram. Reikningar eru enn að berast og sömuleiðis er ekki farið að bóka nema hluta af því sem þegar er komið. Því er ekki á þessu stigi unnt að fjalla af nægilegu öryggi um þann kostnað sem þegar hefur lagst til. Sviðsstjóri Umhverfissviðs hefur haldið utan um framkvæmdina á Hellu og fengið til liðs við sig verktaka sem hafa gefið afslætti af sinni vinnu. Þátttaka almennings í verkefninu hefur aftur á móti verið frekar lítil. Vegna beggja vallanna var leitað tilboða frá efnissölum og náðust góðir samningar að sögn sviðsstjórans, m.a. um timbur í grindverk fyrir báða sparkvellina frá Húsasmiðjunni hf. Nákvæmlega útfærð kostnaðaráætlun um framkvæmdina við sparkvöllinn á Hellu, eins og hún er nú lögð upp, var ekki lögð fram, en miðað er við að kostnaður fari ekki yfir 6 milljón krónur. Upphafleg kostnaðaráætlun frá Hnit hf. var yfir 10 milljón krónur.

 

  1. Spurt er um hvað líði framkvæmdum við sparkvöll í Þykkvabæ og hvort þær séu fullhannaðar, hvað standi til að gera og hvenær eigi að byrja.

Sviðsstjóri Umhverfissviðs hefur fengið það verkefni að leggja drög að þessari framkvæmd og í grófum dráttum er reiknað með að völlurinn verði vestan við íþróttahúsið með legu þvert á mænisstefnu þess. Stærð vallarins er áætluð 50 x 70 metrar. Að sögn sviðsstjórans er gert ráð fyrir því að þökulagt verði í ágústmánuði.

 

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson,

sveitarstjóri.

 

  1. Vegagerðin - tilkynning um úthlutun styrkvegafjár 2005:

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni, dagsett 28/6´05, sem upplýsir að styrkur til Rangárþings ytra til styrkvega í sveitarfélagingu fyrir árið 2005 sé kr. 5.000.000.

 

Styrkúthlutuninni er vísað til samgöngunefndar til úrvinnslu í samráði við Vegagerðina. Meðal annars er gert ráð fyrir að unnin verði áætlun um flutning og niðursetningu brúar frá Djúpá að Eystri-Rangá við Reynifell.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. SASS - um stofnun "Sérdeildar Suðurlands":

Lagt fram bréf frá SASS, dagsett 16/6´05, varðandi stofnun "Sérdeildar Suðurlands". Til stendur að rekin verði sérdeild í húsnæði fyrrum Gaulverjabæjarskóla fyrir nemendur með sérstaka erfiðleika í námi og/eða hegðunarröskun frá haustinu 2005. Aðilar að rekstrinum verða sveitarfélög á Suðurlandi og ríkið. Gert er ráð fyrir að endanlegar áætlanir verði gerðar þegar þátttaka ríkisins skýrist.

 

Til kynningar.

 

  1. Tillögur að erindisbréfum nefnda:

14.1 Fræðslunefnd Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Lögð fram umsögn hreppsnefndar Ásahrepps, dagsett 25/4´05.

Lögð fram umsögn fræðslunefndar Rangárþings ytra og Ásahrepps, dagett 24/5´05.

 

Samþykkt með 7 atkvæðum, 2 sitja hjá (HH, ÞR).

 

14.2 Íþrótta- og æskulýðsnefnd.

Umsögn íþrótta- og æskulýðsnefndar var gerð í fundargerð 27. fundar nefndarinnar

22/6´05.

 

Samþykkt með 8 atkvæðum, 1 situr hjá (ÞR).

 

  1. Forvarnarhópur Rangæinga - beiðni um skipan fulltrúa:

Lagt fram bréf frá Forvarnarhópi Rangæinga, dagsett 28/6´05, þr sem óskað er eftir skipan fulltrúa í forvarnarhóp sem starfa mun innan Rangárvallasýslu. Einnig er lögð fram kynning á greiningarniðurstöðu undirbúningshóps að forvarnastarfi í Rangárvallasýslu.

 

Lögð fram tillaga um að Ingvar Pétur Guðbjörnsson verði aðalmaður og Heiðrún Ólafsdóttir verði varamaður í forvarnarhópi Rangæinga.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Umboð hreppsráðs til þess að ljúka afgreiðslu mála í sumarhléi hreppsnefndar:

Lagt er til að næsti reglulegi fundur hreppsnefndar verði í lok ágúst eða byrjun september.

 

Lagt er til að hreppsráði verði falið að ljúka afgreiðslu mála í sumarhléi hreppsnefndar sbr. ákvæði 48. gr. samþykkta um stjórn og fundarsköp Rangárþings ytra.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundarboð, námskeið, ráðstefnur, þjónusta og umsóknir um styrki:

17.1 Blindrafélagið - umsókn um styrk.

 

Lögð fram tillaga um styrk kr. 10.000.

 

Samþykkt samhljóða.

 

17.2 Unglingalandsmót UMFÍ 28/6 2005 - umsókn um styrk

 

Lögð fram tillaga um styrk kr. 10.000.

 

Samþykkt samhljóða.

 

17.3 Blátt áfram 27/6 2005 - umsókn um styrk.

 

Lögð fram tillaga um styrk kr. 10.000.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Annað efni til kynningar:

18.1 Félagsmálaráðuneytið 21/6´05 - um uppgjör á framlagi vegna jöfnunar á tekjutapi vegna

lækkunar tekna af fasteignaskatti 2005.

18.2 Hreppsnefnd Ásahrepps 23/6´05 - um Landbóta- og landnýtingaráætlun vegna

Holtamannaafréttar.

18.3 Hreppsnefnd Ásahrepps 23/6´05 - um breytingar á gjaldskrá leikskóla.

18.4 Hreppsnefnd Ásahrepps 23/6´05 um hallarekstur Lundar, hjúkrunar- og dvalarheimilis.

18.5 Jafnréttisstofa 19/6´05 - um jafnréttismál og fleira.

18.6 Umhverfisstofnun 29/6´05 - um náttúruspjöll vegna utanvegaaksturs og bækling um það

efni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20.00

 

Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.