Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra kjörtímabilið 2002 - 2006, haldinn að Laugalandi í Holtum, miðvikudaginn 31. ágúst 2005, kl. 17:00.
Mætt: Sigurbjartur Pálsson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Sigrún Ólafsdóttir, varamaður Valtýs Valtýssonar, Viðar H. Steinarsson, Þröstur Sigurðsson, Heimir Hafsteinsson, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Guðfinna Þorvaldsdóttir, varamaður Lúðvíks Bergmanns, Engilbert Olgeirsson og Sigrún Sveinbjarnardóttir, sem ritar fundargerð.
Að auki situr Þórhallur Svavarsson fundinn við afgreiðslu 6. liðar.
Lögð fram tillaga að breytingu á dagskrá; nýir liðir nr. 4, 5 og 10.1 og færast aðrir liðir aftur sem þessu nemur.
Samþykkt samhljóða.
- Fundargerðir hreppsráðs:
1.1 Lögð fram fundargerð 71. fundar hreppsráðs, 14/7´05 í 15 liðum.
1.2 Lögð fram fundargerð 72. fundar hreppsráðs, 28/7´05 í 16 liðum.
1.3 Lögð fram fundargerð 73. fundar hreppsráðs, 25/8´05 í 13 liðum.
1.4 Lögð fram fundargerð 74. fundar hreppsráðs, 26/8´05 í 4 liðum.
Til kynningar.
Bókun 31. ágú. 05 vegna vinnubragða við undirbúning Töðugjalda 2005 og samning við Endurreisnarfélagið um framkvæmd töðugjalda.
Ýmislegt virðist á huldu og lausbeislað þegar farið er yfir undirbúning Töðugjalda 2005. Undirbúningshópur sá er skipaður var virðist hafa verið utangátta og að sögn samþykkt fyrir sitt leyti samning við Endurreisnarfélagið um framkvæmd Töðugjalda 2005. Ekkert skriflegt hefur sést varðandi þessa afgreiðslu undirbúningshópsins né frá þeim viðræðum sem að sögn oddvita fóru fram milli forsvarsmanna sveitarfélaganna. Engar fundargerðir, engar undirskriftir til að byggja frekari ákvarðanatöku á. Verður það að teljast ámælisvert og stórundarlegt miðað við þau almennu vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við stjórnsýslu Rangárþings ytra a.m.k. Síðan kemur það meirihlutamönnum í hreppsráði Rangárþings ytra á óvart að hreppsnefnd Rangárþings eystra skuli ekki samþykkja gerðan samning við Endurreisnarfélagið og jafnframt kemur fram í erindi sveitarstjórnar Rangárþings eystra að þeir munu samþykkja að framlag héraðsnefndar gangi óskipt til Töðugjalda 2005 auk þess að gefa í skyn að Töðugjöld 2006 gætu farið fram á Hvolsvelli.
Svo tala menn um misskilning á milli þeirra sveitarfélaga sem að sögn ætluðu að standa að umræddum samningi við Endurreisnarfélagið, hver er að misskilja hvern. Með ekkert skriflegt í höndunum bara orðin ein.
Hvernig kemur það til að Endurreisnarfélagið sprettur upp og tekur að sér framkvæmd töðugjalda með u.þ.b. mánaðarfyrirvara og gegn 1,5 millj.kr. þóknun ? Var auglýst eftir framkvæmdaraðila eða var þessu einfaldlega úthlutað og telst það eðlilegur framgangsmáti af hálfu sveitarfélaga eða sveitarfélags í þessu tilfelli ?
Um framkvæmd Töðugjaldanna sem slíkra eru skiptar skoðanir og má fullvíst telja að hægt sé að gera betur miðað við það fjármagn sem veitt var í verkefnið og að því gefnu að undirbúningstími sé með þeim hætti að viðunandi sé.
Það er ljóst að mati undirritaðra að stokka þarf spilin upp eina ferðina enn og fara yfir málin með aðildarsveitarfélögum ef Töðugjöld 2006 eiga að líta dagsins ljós. Hátíðarhöld í líki töðugjalda innanbæjar á Hellu, Hvolvelli eða í Ásahreppi er ekki það sem upp var lagt með og er allt annar hlutur en Töðugjöld sem sveitarfélögin hafa staðið sameiginlega að á undanförnum árum.
Undirritaðir telja að undirbúningur töðugjalda hefði átt að vera eitt af verkefnum atvinnu- og ferðamálafulltrúa og harma það sleifarlag sem stjórn atvinnu- og ferðamálaverkefnis Rangárþings og Mýrdals hefur sýnt hvað varðar undirbúning töðugjalda.
Undirritaðir taka undir með hreppsnefnd Ásahrepps þar sem þeir hvetja til samráðsfundar um framkvæmd Töðugjalda 2005 og óska eftir greinargerð frá undirbúningsnefnd Töðugjalda.
Undirritaðir vísa að auki í bókun Viðars H. Steinarssonar í fundargerð 74. fundar hreppsráðs 3. lið þar sem verið er að fjalla um greiðslur til Endurreisnarfélagsins vegna Töðugjalda 2005.
Jafnframt er rétt að taka fram í ljósi orðalags síðustu setningar, fulltrúa meirihlutans í hreppsráði Ry. í bókun þeirra um sama málefni úr sömu fundargerð, að ekki er verið með neinar aðdróttanir í garð samstarfssveitarfélaga heldur er verið að lýsa forsögu málsins og þeim einkennilegu vinnubrögðum sem oddviti Rangárþings ytra hefur viðhaft í málinu.
Undirritaðir : Þröstur Sigurðsson, Heimir Hafsteinsson, Viðar Steinarsson.
Bókun fulltrúa D-lista í tilefni bókunar fulltrúa K- og Ó-lista um framkvæmd Töðugjalda og samningi við Endurreisnarfélagið ehf. um hana, lögð fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þ. 31. ágúst 2005:
Framkvæmdanefnd Töðugjalda 2005 var ekki fullskipuð fyrr en í júlí mánuði sl. Nefndinni var mikill vandi á höndum og tími afar stuttur til undirbúnings. Endurreisnarfélagið ehf. bauð nefndinni að það tæki að sér þann hluta Töðugjaldanna sem áður hefur farið fram á Gaddstaðaflötum en með því skilyrði að halda mætti þennan hluta innanbæjar á Hellu. Í samkomulagi aðila var kveðið á um að Töðugjöldin gætu verið víðfeðmari og farið fram víða um Rangárvallasýslu með aðkomu fleiri aðila.
Framkvæmdanefndin kallaði til samráðsnefnd sveitarfélaganna þriggja í Rangárvallasýslu um Töðugjöld og reiðvegi sem samanstendur m.a. af oddvitum þeirra og öðrum fulltrúum. Samráðsnefndin féllst á þetta fyrirkomulag og munnlegt samkomulag var á milli allra aðila sem að komu um að leggja til við sveitarfélögin að framkvæmd Töðugjaldanna 2005 yrði með þeim hætti sem Endurreisnarfélagið ehf. lagði til. Því kom það fullkomlega í opna skjöldu að sveitarstjórn Rangárþings eystra skyldi neita örfáum dögum fyrir Töðugjöldin að samþykkja fyrirliggjandi samning, sem þó var búinn að fá blessun fulltrúa þess sveitarfélags. Samningurinn hafði verið undirritaður af hálfu Rangárþings ytra í góðri trú þ. 20. júlí sl. Eins og fram kemur í samþykkt hreppsnefndar Ásahrepps kom það fulltrúum þess sveitarfélags einnig í opna skjöldu hver afstaða sveitarstjórnar Rangárþings eystra reyndist vera í raun.
Þegar þessi óvænta afstaða Rangárþings eystra lá fyrir var of seint að snúa til baka enda var undirbúningur kominn á lokasprett. Rangárþing ytra hlýtur að taka ábyrgð á útborgun samningsupphæðar til Endurreisnarfélagsins ehf. enda fyrirliggjandi samningur undirritaður af þess hálfu. Ekki var málefnaleg staða til þess að láta félagið gjalda þess að samstaða reyndist ekki vera fullkomin á milli sveitarfélaganna þegar á reyndi.
Framkvæmd Töðugjaldanna tókst vel og var Rangárþingi og Endurreisnarfélaginu ehf. til sóma.
Tekið er undir það að sveitarfélögin verða að leysa úr þessu máli með samráði sín í milli og koma sér niður á hvernig fjárhagshlið Töðugjaldanna 2005 leysist endanlega og sömuleiðis hvernig samskipti verða um framkvæmd þeirra til framtíðar.
Vísað er á bug að oddviti Rangárþings ytra eða aðrir hafi haft e.k. óeðlilega aðkomu að þessu máli, aðilar héldu á málinu í góðri trú og samkvæmt þeim niðurstöðum sem fengust á fundum, þó ekki væru færðar formlegar fundargerðir.
Undirritaðir lýsa þeirri von sinni að nýafstaðin vel heppnuð Töðugjöld geti orðið grunnur að öflugri héraðshátíð á komandi árum, hvort heldur sem Rangárþing ytra stendur eitt að þeim, eða í samstarfi við önnur sveitarfélög í Rangárvallasýslu.
Undirritaðir: Sigurbjartur Pálsson, Guðmundur I. Gunnlaugsson, Engilbert Olgeirsson, Sigrún Ólafsdóttir, Ingvar Pétur Guðbjörnsson.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til staðfestingar:
Engar fundargerðir liggja fyrir.
- Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna til kynningar:
3.1 Félagsmálanefnd - 43. fundur 23/8´05 í 4 liðum.
3.2 Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 723 fundur 17/3´05, í 13 liðum, 724. fundur í 13
liðum, 29/4´05, 725. fundur 10/6´05 í 20 liðum og 726. fundur 1/7´05 í 16 liðum.
3.3 Heilbrigðisnefnd Suðurlands - 78. fundur 23/8´05 í 5 liðum.
3.4 Stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands - 81. fundur 24/8´05 i 6 liðum.
- Umsókn um vistun leikskólanema utan lögheimilissveitarfélags:
Lögð fram umsókn frá Skóladeild Akureyrar um tímabundna leikskóladvöl fyrir einn nemanda í Leikskólanum Heklukoti.
Námsvist umrædds nemenda samþykkt samhljóða að því tilskyldu að Akureyrarbær greiði raunkostnað af leikskólavistuninni sem er umfram greiðslur skólagjalda svk. gjaldskrá frá forráðamönnum.
- Málflutningsskrifstofan ehf. - álitsgjöf:
Lagt fram bréf frá Málflutningsskrifstofunni ehf, dagsett 29/8´05, varðandi flokkun Þrúðvangs á Hellu í þjóvegakerfi Vegagerðarinnar. Fram kemur það álit að 8. gr. vegalaga nr. 45/1994, útiloki að unnt sé að skilgreina götuna Þrúðvang sem tengiveg í skilningi laganna.
Lögð fram drög að stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Vegagerðar ríkisins um að hafna beiðni Rangárþings ytra um að gatan Þrúðvangur á Hellu verði flokkaður sem hluti af þjóðvegakerfinu í skilningi vegalaga nr. 45/1994.
Samþykkt samhljóða.
- Sala hlutafjáreignar:
6.1 Lagt fram tilboð Sláturfélags Suðurlands svf., dagsett 24/8´05, í hlutafé Rangárþings ytra í Sláturhúsinu Hellu hf.
6.2 Lagt fram bréf frá Stjórn Sláturhússins Hellu hf., dagsett 24/8´05, þar sem óskað er eftir að fá keypt hlutafé Rangárþings ytra í Sláturhúsinu á Hellu hf. eða að sölu á hlutafénu verði frestað.
Ingvar Pétur Guðbjörnsson víkur sæti við umfjöllun og afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis. Þórhallur J. Svavarsson tekur sæti sem varamaður Ingvars P. Guðbjörnssonar.
Lagt er til að um óákveðinn tíma verði frestað að selja hlutafjáreign Rangárþings ytra í Sláturhúsinu Hellu hf., sem er að nafnverði kr. 5.000.000, samkvæmt ósk stjórnar félagsins.
Samþykkt samhljóða.
Þórhallur víkur af fundi og Ingvar Pétur tekur sæti sitt að nýju.
- Anders Hansen og Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir:
Lagt fram bréf frá Anders Hansen og Valgerði Kr. Brynjólfsdóttur, dagsett 15/7´05, þar sem óskað er eftir styrk til að ljúka við byggingu Hekluseturs á Leirubakka.
Lagt er til að atvinnu- og ferðamálanefnd verði falið að ræða við umsækjendur og leggja síðan fram tillögu um afgreiðslu umsóknarinnar til hreppsnefndar.
Samþykkt samhljóða.
- Ákvörðun um hvort áfrýja eigi úrskurðum Óbyggðanefndar.
Lögð fram tillga, byggð á ráðgjöf Málflutningsskrifstofunnar ehf., um að ekki verið áfrýjað úrskurðum Óbyggðanefndar um Þjóðlendur í Rangárþingi ytra og í sameign með Ásahreppi.
Samþykkt með 8 atkvæðum, 1 á móti (HH).
- Fundarboð, námskeið, ráðstefnur, þjónusta og umsóknir um styrki:
9.1 Geðvernd 25/8´05 - umsókn um styrk.
Hreppsnefnd sér sér ekki fært að verða við umókninni.
- Annað efni til kynningar:
10.1 Lagðir fram undirskriftalistar vegna Töðugjalda.
Fyrirsögn undirskriftarlistanna sem voru afhentir á skrifstofu Rangárþings ytra þ. 4. ágúst 2005:
"Við undirrituð lýsum yfir undrun okkar og óánægju með dagskrár- og fyrirkomulagsbreytingu Töðugjalda í Rangárþingi ytra í ár (2005). Viljum við með undirskriftarsöfnun þessari hvetja hreppsnefnd og aðstandendur til að "draga ekki í land" og viðhalda þeirri góðu skemmtun sem Töðugjöldin hafa reynst okkur íbúum og ferðamönnum á svæðinu."
Með fylgir undirritun u.þ.b. 280 einstaklinga.
Til kynningar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:00.
Sigrún Sveinbjarnardóttir, ritari.