Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
Aukafundur í hreppsnefnd Rangárþings ytra, haldinn að Laufskálum 2 á Hellu, sunnudaginn 19. mars 2006, kl. 16:00.
Mætt: Sigurbjartur Pálsson, oddviti, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Viðar H. Steinarsson, Halldóra Gunnarsdóttir, varamaður fyrir Þröst Sigurðsson, Heimir Hafsteinsson, Þórhallur J. Svavarsson, varamaður fyrir Ingvar Pétur Guðbjörnsson, Guðfinna Þorvaldsdóttir, varamaður fyrir Lúðvík Bergmann, Heiðrún Ólafsdóttir, varamaður fyrir Engilbert Olgeirsson og Sigrún Ólafsdóttir.
Oddviti setti fund og stjórnaði honum.
Oddviti lýsti eftir því hvort hreppsnefndarfulltrúar hefðu athugasemdir við fundarboð eða annan aðdraganda að fundinum. Engar athugasemdir komu fram.
- Möguleg kaup á húseigninni Suðurlandsvegi 1 á Hellu:
Lögð fram tillaga frá fulltrúm D-lista um að gengið verði til samninga við Kaupás hf., kt. 711298-2239, um að fyrirtækið nýti forkaupsrétt að húseigninni Suðurlandsvegi 1 á Hellu og selji eignina síðan til Rangárþings ytra. Jafnframt að gerður verði samningur á milli Kaupáss hf. og Rangárþings ytra um áframhaldandi leigu fyrirtækisins á verslunarrými í húsinu með tilgreindum skilmálum sem samið verður um.
Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að stjórnsýsla sveitarfélagsins flytji á efri hæð Suðurlandsvegar 1 og í mögulegt miðrými á milli Suðurlandsvegar 1 og 3. Haldið verði áfram samkomulagsumleitunum við Verkalýðshúsið um sameiginlega byggingu miðrýmis á milli Suðurlandsvegar 1 og 3.
Samþykkt með 6 atkvæðum, 3 sitja hjá (HH., VHS. og HG.).
Bókun frá Viðari H. Steinarssyni:
“Undirritaður situr hjá við afgreiðslu framlagðrar tillögu um kaup á fasteigninni Suðurlandsvegi 1 ásamt hugmynd að samningi við Kaupás hf. um leigu á hluta húsnæðisins til allt að tíu ára. Of margir lausir endar eru á máli þessu til þess að undirritaður treysti sér til þess að samþykkja það. Þau atriði sem þar eru helst varða mikla eftirgjöf á leigugjaldi til allt að fimm ára sem má reikna sem styrk frá sveitarfélaginu upp á a.m.k. 10 – 15 milljónir króna á samningstímabilinu án þess að fyrir liggi næg trygging um að Kaupás standi við sinn þátt. Í annan stað liggur ekki fyrir niðurstaða um samkomulag við “Verkalýðshúsið” um byggingu tengibyggingar. Þá er mjög bagalegt að sveitarstjórn skuli vera stillt upp við vegg með þeim hætti að haldinn er skyndifundur á sunnudegi og sveitarstjórn ekki gefinn frestur til að taka yfirvegaða ákvörðun á grunni betri yfirsýnar á öll atriði málsins.”
Viðar H. Steinarsson.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.00.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson ritar fundargerðina.