15. fundur 28. mars 2011

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

 

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra, haldinn að Suðurlandsvegi 1, Hellu,

mánudaginn 28. mars 2011, kl. 15.30

 

Mætt eru Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnús H. Jóhannsson, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Steindór Tómasson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Þorgils Torfi Jónsson og Anna María Kristjánsdóttir. Einnig Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri, sem ritar fundargerð.

Oddviti setur fund og stjórnar honum.

Erindi til umsagnar og afgreiðslu:

  1. Endurskipulagning fjármála Suðurlandsvegar 1-3 ehf. skv. minnisblaði frá LEX lögmannsstofu dags. 22. mars 2011.

Félagið Suðurlandsvegur 1-3 ehf. er í eigu sveitarfélagsins Rangárþings ytra, að 58,6%, en í eigu þeirra aðila sem standa að Verkalýðshúsinu á Hellu, að 41,4%. Skráð hlutafé í félaginu er nú kr. 116.000.000,-. Félagið var stofnað til utanumhalds um byggingu og rekstur fasteignarinnar Suðurlandsvegur 1-3, en um er að ræða tengibyggingu á milli fasteignanna Suðurlandsvegur 1 og Suðurlandsvegur 3 á Hellu.

Á fyrri fundum sveitarstjórnar, sbr. m.a. fund sveitarstjórnar þann 13. janúar 2011, hefur verið fjallað um möguleika á fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins þannig að ljúka megi byggingu tengibyggingarinnar og að þeir fjármunir sveitarfélagsins sem þegar hefur verið veitt í félagið glatist ekki. Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er háð þátttöku hins hlutahafa félagsins, Verkalýðshússins Hellu og hafa fulltrúar sveitarfélagsins átt í viðræðum við fulltrúa Verkalýðshússins Hellu, sbr. ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. janúar 2011.

Eftir ítarlega skoðun á fjárhagslegri stöðu félagsins og í kjölfar viðræðna við fulltrúa Verkalýðshússins hefur verið gerð áætlun um hina fyrirhuguðu fjárhagslegu endurskipulagningu sem byggir á því að fasteignin að Suðurlandsvegi 1, í eigu Rangárþings ytra, og fasteignin Suðurlandsvegi 3, þ.e. sá hluti hennar sem er í eigu aðila Verkalýðshússins, verði færðar inn í félagið og skuldum við hluthafa verði breytt í hlutafé.

LEX lögmannsstofa hefur verið sveitarfélaginu til ráðgjafar varðandi lagaleg atriði sem koma að endurskipulagningu félagsins með þessum hætti, en endurskoðendur sveitarfélagsins KPMG hafa verið til ráðgjafar varðandi fjárhagslega þætti og vinna nú að samantekt um áhrif slíkrar fjárfestingar á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Minnisblað LEX vegna áætlunarinnar, dags. 22. mars 2011, hefur verið lagt fyrir sveitastjórn, en auk þeirra atriða er fram koma í minnisblaðinu hafa bæði LEX og KPMG vakið athygli á 65. gr. laga nr. 45/1998 um sveitarfélög, enda gerir áætlunin ráð fyrir aukinni fjárfestingu sveitarfélagsins í félaginu. Sem fyrr segir, vinnur KPMG að mati á fjárhagslegum áhrifum fjárfestingarinnar á sveitarfélagið auk þess sem LEX vinnur að könnun á atriðum tengdum virðisaukaskattskyldu sem yfirfærsla fasteigna inn í félagið kann að hafa í för með sér. Búist er við frekari upplýsingum og niðurstöðu frá báðum aðilum von bráðar, en málið er unnið eins hratt og verða má.

Þrátt fyrir að aðalatriði endurskipulagningaráætlunarinnar liggi reiðubúin til samþykkis sveitarstjórnar skal tekið fram að ekki hefur enn fengist endanleg afstaða fulltrúa Verkalýðshússins til áætlunarinnar, en telja verður hana nauðsynlega til að endurskipulagning félagsins geti gengið eftir.

Eftir að hafa kannað fjárhagslegar upplýsingar varðandi félagið og minnisblað LEX, dags. 22. mars 2011, samþykkir sveitastjórn að endurskipulagningu félagsins verði haldið áfram á þeim forsendum sem lýst er í minnisblaði LEX, þ.e. að fasteignin að Suðurlandsvegi 1, fastanúmer 219-6174, í 100% eigu Rangárþings ytra, verði flutt inn í einkahlutafélagið Suðurlandsvegur 1-3 ehf. auk þess sem skuldum félagsins við Rangárþing ytra verði breytt í hlutafé í félaginu. Viðbótarfjárfesting sveitarfélagsins í félaginu með þessum hætti mundi því nema kr. 242.364.567,- auk kostnaðar og gjalda, til viðbótar við það sem áður hefur verið.

Endanlegt samþykki sveitarstjórnar er þó háð því að samkomulag náist um aðkomu Verkalýðshússins Hellu að endurskipulagningunni og að endurskoðendur sveitarfélagsins KPMG geri ekki verulegar athugasemdir við fjárhagslegar forsendur endurskipulagningarinnar, bæði hvað varðar félagið og Rangárþing ytra. Sveitarstjórn veitir sveitastjóra, Gunnsteini R. Ómarssyni, umboð til að vinna áfram að endurskipulagningunni á þeim forsendum sem lýst hefur verið. Sveitarstjóra er veitt heimild til að leita samninga við Verkalýðshúsið Hellu um aðkomu þeirra að endurskipulagningunni eins og áður hefur verið lýst. Auk þessa er sveitarstjóra falið að leggja fyrir sveitarstjórn drög að samningi um framtíðaráætlanir varðandi félagið að undangengnum samskiptum við LEX og KPMG um atriði sem nauðsynleg eru til þess að endurskipulagningunni verði haldið áfram. Sveitarstjórn tekur til afgreiðslu endanlega áætlun þegar hún liggur fyrir og gengið hefur verið frá þeim atriðum sem lýst er sem útistandandi. Sveitarstjórn er ljóst að nauðsynlegt er að vinna málið hratt og að þurft gæti að boða til sveitarstjórnarfundar með hraði til að taka endanlega ákvörðun um forsendur endurskipulagningarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin yfir og fundi slitið kl. 16.00