Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra, haldinn að Suðurlandsvegi 1, Hellu,
þriðjudaginn 14. júní 2011, kl. 16:30
Mætt eru Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnús H. Jóhannsson, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Steindór Tómasson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Þorgils Torfi Jónsson og Anna María Kristjánsdóttir. Einnig Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri, sem ritar fundargerð.
Oddviti setur fund og stjórnar honum.
Óskað er breytinga á boðaðri dagskrá og er það samþykkt. Á dagskrá bætist liður 1 sem varðar skipulagsmál.
Skipulagsmál og tengd erindi:
- fundur í Skipulagsnefnd Rangárþings bs., dags. 3. maí 2011, áður á dagskrá sveitarstjórnar á 19. fundi dags. 9. maí 2011.
Samkvæmt 41.gr. skipulagslaga nr.123/2010, var auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagstillögur.
193 2011 Hjarðarbrekka Rangárþingi ytra, deiliskipulag íbúðarhúss, sumarhúss og útihúsa.
Deiliskipulagið nær til um 2 ha svæðis í landi Hjarðarbrekku, landnr. 164516 sem er í heild um 182 ha að stærð. Deiliskipulagið tekur til íbúðarhúss, frístundahúss auk bílskúra og byggingarreits fyrir útihús. Aðkoma að Hjarðarbrekku er af Suðurlandsvegi (nr. 1) niður Oddaveg (nr. 266) og um heimreið að Hjarðarbrekku.
Engar athugasemdir hafa borist og telst því deiliskipulagið samþykkt.
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 1997 var auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagstillögur.
174 2010 Galtalækur 2, deiliskipulag frístundabyggðar, Rangárþingi ytra.
Deiliskipulagið nær yfir 76 frístundahúsalóðir á um 60 ha spildu, Heiðarlönd landnr. 209858 úr landi Galtalækjar 2. Deiliskipulagið samræmist aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022. Lóðirnar eru frá 0,5-1,3 ha að stærð. Aðkoma að svæðinu er um Landveg nr. 26 og um nýjan aðkomuveg.
Engar athugasemdir hafa borist og telst því deiliskipulagið samþykkt.
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar.
Erindi til umsagnar og afgreiðslu:
- Sýslumaðurinn á Hvolsvelli; Beiðni um umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi fyrir útihátíð og tímabundið áfengisleyfi á Gaddstaðaflötum, skv. erindi dags. 6. júní 2011, áður tekið fyrir á 20. fundi sveitarstjórnar 9. júní 2011.
Skv. erindinu hefur Útihátíðin ehf. sótt um tækifærisleyfi og tímabundið áfengisleyfi hjá Sýslumanni vegna fyrirhugaðrar tónleikahátíðar á Gaddstaðaflötum 8. – 10. júlí 2011. Sýslumaður óskar umsagnar sveitarstjórnar á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem og reglugerðar nr. 585/2007.
Skv. 10. gr. laganna ber sveitarstjórn m.a. að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um. Skv. 20 gr. reglugerðarinnar gefa sýslumenn út rekstrarleyfi, tækifærisleyfi og tímabundin áfengisveitingaleyfi hver í sínu umdæmi að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans.
Umsögn sveitarstjórnar:
Umsagnarbeiðnin var tekin fyrir á 20. fundi sveitarstjórnar dags. 9. júní 2011 og var þar samþykkt að fresta afgreiðslu málsins á meðan aflað væri frekari upplýsinga um mótshaldið.
Frá þeim tíma hefur verið rætt við sýslumann og upplýsingar fengnar frá hans starfsfólki. Þá hefur einnig verið rætt við staðarhaldara og fengnar frá þeim upplýsingar.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni verður öflug löggæsla á hátíðinni til verndar gestum og íbúum á svæðinu. Mótshaldarar greiða fyrir slíka gæslu og er hún forsenda þess að leyfi verði gefið út af sýslumanni. Mótshaldarar leggja áherslu á að vandað verði til allra verka, s.s. til öryggis- og sjúkragæslu auk almennrar gæslu og að allt kapp verði lagt á fyrirmyndar umgengni á svæðinu.
Hefð er fyrir samkomuhaldi á svæðinu og er það í samræmi við gildandi skipulag svæðisins. Ekki er gerð athugasemd af hálfu sveitarstjórnar.
Umsögnin borin undir atkvæði:
Samþykkt með 6 atkvæðum, einn er á móti (MÝS)
Bókun Margrétar Ýrr Sigurgeirsdóttur
Í ljósi þess að íbúar sveitarfélagsins eru margir ósáttir við að hátíðin verði haldin á Hellu og að útihátíð sem þessi muni valda íbúum óþægindum getur undirrituð ekki tekið undir jákvæða umsögn sveitarstjórnar. Hætta á unglingadrykkju á svæðinu er mikil og börnin okkar munu ekki geta gengið óhult um sína heimabyggð á löglegum útivistartíma þessa helgi. Töluverður kostnaður mun leggjast á sveitarfélagið vegna hátíðarinnar þar sem almenn umhirða og hreinsun í þorpinu lendir á starfsmönnum sveitarfélagsins.
Nauðsynlegt hefði verið að kanna hug íbúa og að leitað hefði verið álits forvarnarhóps áður en nokkur ákvörðun væri tekin. Börnin okkar og unglingarnir eru að mínu mati margfalt meira virði heldur en hugsanlegar tekjur einkaaðila sem eru ekki í hendi.
Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir
- Sýslumaðurinn á Hvolsvelli; Beiðni um umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi fyrir útihátíð og tímabundið áfengisleyfi í Galtalæk, skv. erindi dags. 6. júní 2011, áður tekið fyrir á 20. fundi sveitarstjórnar 9. júní 2011 og erindi dags. 14. júní 2011.
Skv. erindinu, dags. 6. júní 2011, hefur Lexi ehf. sótt um tækifærisleyfi hjá Sýslumanni vegna fyrirhugaðrar tónleikahátíðar í Galtalæk 24. – 26. júní 2011. Skv. erindinu, dags. 14. júní 2011, hefur Hressingarskálinn ehf. sótt um tímabundið áfengisleyfi hjá Sýslumanni vegna sömu hátíðar. Sýslumaður óskar umsagnar sveitarstjórnar á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem og reglugerðar nr. 585/2007.
Skv. 10. gr. laganna ber sveitarstjórn m.a. að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um. Skv. 20 gr. reglugerðarinnar gefa sýslumenn út rekstrarleyfi, tækifærisleyfi og tímabundin áfengisveitingaleyfi hver í sínu umdæmi að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans.
Umsögn sveitarstjórnar:
Umsagnarbeiðnin var tekin fyrir á 20. fundi sveitarstjórnar dags. 9. júní 2011 og var þar samþykkt að fresta afgreiðslu málsins á meðan aflað væri frekari upplýsinga um mótshaldið.
Frá þeim tíma hefur verið rætt við sýslumann og upplýsingar fengnar frá hans starfsfólki. Þá hefur einnig verið rætt við staðarhaldara og fengnar frá þeim upplýsingar.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni verður öflug löggæsla á hátíðinni til verndar gestum og íbúum á svæðinu. Mótshaldarar greiða fyrir slíka gæslu og er hún forsenda þess að leyfi verði gefið út af sýslumanni. Mótshaldarar leggja áherslu á að vandað verði til allra verka, s.s. til öryggis- og sjúkragæslu auk almennrar gæslu og að allt kapp verði lagt á fyrirmyndar umgengni á svæðinu.
Hefð er fyrir samkomuhaldi á svæðinu og er það í samræmi við gildandi skipulag svæðisins. Ekki er gerð athugasemd af hálfu sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
Næsti fundur sveitarstjórnar verður 7. júlí 2011 kl. 15 og verður það síðasti fundur sveitarstjórnar fyrir sumarleyfi.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin yfir og fundi slitið kl. 17:10.