Hreppsnefnd Rangárþings ytra
Fundargerð
- fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra, haldinn að Suðurlandsvegi 1, Hellu,
fimmtudaginn 1. september 2011, kl. 15:00
Mætt eru Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnúsar H. Jóhannsson, Steindór Tómasson, Ólafur E. Júlíusson, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Anna María Kristjánsdóttir og Katrín Sigurðardóttir í forföllum Ingvars Péturs Guðbjörnssonar. Einnig Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri, sem ritar fundargerð.
Oddviti setur fund og stjórnar honum.
Sveitarstjóri og oddviti greina munnlega frá stöðu helstu mála utan dagskrár fundarins.
Fundargerðir hreppsráðs og fastanefnda:
- fundur hreppsráðs Rangárþings ytra, dags. 20. júlí 2011.
Til kynningar.
- fundur hreppsráðs Rangárþings ytra, dags. 10. ágúst 2011.
Til kynningar.
- fundur fræðslunefndar Rangárþings ytra og Ásahrepps, dags. 22. ágúst 2011.
Um 4. dagskrárlið „Mötuneytismál Heklukots“
Lögð fram tillaga þess efnis að sveitarstjórn samþykki breytingar á tilhögun mötuneytismála í Heklukoti til eins árs frá og með 1. okt. 2011. Sveitarstjórn tekur undir með fræðslunefnd að mikilvægt sé að eftir 6 mánuði skili leikskólastjóri skýrslu um málið til fræðslunefndar. Sveitarstjóra er falið að ganga frá samningi við Hjúkrunarheimilið Lund f.h. sveitarfélagsins.
Tillagan borin undir atkvæði, 6 samþykkja og einn situr hjá (ÓEJ).
Tillagan samþykkt.
Um 5. dagsrkárlið „Vistunartími barna í Heklukoti“
Tillaga skólastjóra Grunnskólans á Hellu og leikskólastjóra Heklukots er að einn starfsmaður skóladagheimilisins fari með börn skóladagheimilisins sem eru í vistun frá kl.16:15-17:15 yfir í leikskólann og klári daginn með leikskólabörnunum með einum starfsmanni leikskólans. Með þessum hætti lækkar kostnaður vegna yfirvinnu þar sem færri starfsmenn þarf til að sinna umönnun barnanna.
Sveitarstjórn leggur áherslu á að málið verði strax kynnt foreldrum viðkomandi barna. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna til reynslu og óskar eftir greinargerð skólastjóra og leikskólastjóra um þessa nýju tilhögun fyrir 1. nóv. 2011, þar sem m.a. skal koma fram hvaða áhrif þessar breytingar hafa á líðan barnanna. Ákvörðun um framhaldið verði tekin á hreppsnefndarfundi í nóvember.
Fundargerðin er að öðru leyti staðfest.
Skipulagsmál og tengd erindi:
- Norðurnes, Rangárþingi ytra deiliskipulag 3ja sumarhúsalóða, áður á dagskrá sveitarstjórnar 9. júní 2011.
208 2011 Norðurnes, Rangárþingi ytra deiliskipulag 3ja sumarhúsalóða, tekið fyrir á fundi Skipulagsnefndar Rangárþings bs., dags. 1. júní 2011.
Deiliskipulagið nær til þriggja sumarhúsalóða, sem hver um sig er um 1 ha að stærð. Aðkoma að Norðurnesi er um Hagabraut (nr. 286) , inn á Kvíarholtsveg (nr. 2863) og um aðkomuveg inn að Norðurnesi.
Engar athugasemdir bárust á auglýsingartíma og telst því deiliskipulagstillagan samþykkt.
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar.
- Beiðni frá Valsteini Stefánssyni um að byggja hesthús á Gaddstaðaflötum, skv. tölvupósti dags. 27. júlí 2011.
Á árunum 2005-2006 var unnið deiliskipulag af hesthúsabyggð á Gaddstaðaflötum af þeim Reyni Vilhjálmssyni og Dagnýju Bjarnadóttur hjá Landslagi ehf. Jafnframt voru unnar teikningar af nokkrum húsagerðum af Guðjóni Magnússyni hjá Arkform ehf. Bera þessi gögn vott um mikla bjartsýni sem ríkti í samfélaginu á þessum tíma. Rétt er að taka þessi gögn til endurskoðunar og meta þörfina fyrir umfangi og áfangaskiptinu á hverfi sem slíku og endurskoða jafnframt húsagerðir með tilliti til aðstæðna og efnahags.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu á erindi Valsteins Stefánssonar þar til endurskoðuð markmið og áform um uppbyggingu hesthúsahverfis að Gaddstaðaflötum liggja fyrir. Sveitarstjórn skipar Steindór Tómasson, Ólaf E. Júlíusson og Katrínu Sigurðardóttur í vinnuhóp sem ætlað er að fara yfir málið og skila hugmyndum til sveitarstjórnar.
- Beiðni um nafngift á spildu, skv. tölvupósti frá Huldu Gústafsdóttur dags. 12. ágúst 2011.
Í erindinu kemur fram að ósk er um að kalla búgarðaspildu Skot. Spildan er nr. 214348 og stærð 5,85 ha.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við nafngiftina fyrir sitt leyti.
- Hlymdalir ehf.; Umsókn Hlymdala um lóðina Seltún 6-12, dags. 14. ágúst 2011.
Í erindinu kemur fram að bréfritari hefur áður sótt um lóð við Seltún.
Umrædd lóð er á deiliskipulagi sem var gert 2006-2010 og hefur ekki farið í auglýsingu til úthlutunar.
Sveitarstjóra og oddvita er falið að fá fund með stjórn Lundar til að kanna landþörf Lundar með hliðsjón af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er varðandi heilabilunardeild. Einnig til að kanna framtíðaráform hvað viðkemur stækkun á húsnæði Lundar til lengri tíma litið.
Tillaga að bókun:
Afgreiðslu erindisins er frestað þar til búið er að funda með stjórn Lundar.
Tillagan borin undir atkvæði, 6 samþykkja og einn situr hjá (ST).
Tillagan samþykkt.
- Breyting á samþykktum embættis skipulags- og byggingarfulltrúa, skv. tölvupósti dags. 24. ágúst 2011.
Á listinn leggur til að skipaður verði vinnuhópur um framtíðar fyrirkomulag embættis skipulags og byggingarfulltrúa með áherslu á hagræði og skilvirkni embættisins. Í þeim vinnuhóp eigi sæti sveitarstjóri, oddviti og oddviti minnihluta sveitarstjórnar. Þar verður meðal annars ákvarðað nánar með tilhögun og heimildir byggingarfulltrúa til að afgreiða mál sem komin eru í gegnum skipulagsferli.
Samþykkt samhljóða.
- Beiðni Kristbjargar Ingvarsdóttur um skráningu lögheimilis að Rangárstíg 6 í Rangárþingi ytra, dags. 26. ágúst 2011.
Fyrir liggur að umrætt svæði er skipulagt sem orlofsbyggð, endurskírt sem ferðaþjónustuhús og skráð sem sumarhús hjá Fasteignaskrá Íslands.
Húsin uppfylla ekki reglugerðir hvað varðar; gerð og frágang undirstaða, rýmisstærðir né einangrunargildi byggingarhluta til að flokkast undir og verða skráð sem íbúðarhúsnæði. Til að svo megi verða þarf að breyta aðalskipulagi, deiliskipulagi og endurbyggja húsin frá grunni skv. byggingarreglugerð.
Sveitarstjórn hafnar því beiðni Kristbjargar Ingvarsdóttur á fyrrgreindum forsendum.
Erindi til umsagnar og afgreiðslu:
- Vinnuhópur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar heilsuþorps við Lund; Möguleg þátttaka Rangárþings ytra og Ásahrepps í stofnun einkahlutafélags um byggingu og umsjón með þjónustumiðstöð ásamt öryggis- og þjónustuíbúðum sem tengist Lundi, hjúkrunar- og dvalarheimili á Hellu, dags. 4. ágúst 2011.
Sveitarstjórn fagnar framtakinu og er sveitarstjóra og oddvita falið að óska eftir fundi með stjórn Neslundar.
- Orkustofnun; Svar vegna beiðni um frest til umsagnar vegna umsóknar um nýtingarleyfi í landi Stóra Klofa, dags. 8. ágúst 2011, frestað mál frá 14. fundi hreppsráðs, tl. 9, dags. 20. júlí 2011.
Sveitarstjóra og oddvita var falið að vinna að málinu fyrir 1. sept. 2011. Vegna þess að óljóst var um ýmis atriði m.a. um nýtingarréttinn var ákveðið að leita til lögfræðings með málið.
Eftirfarandi er umsögn sveitarstjórnar vegna umsóknar Þórs Þorsteinssonar um nýtingarleyfi unnin í samráði við LEX lögmannsstofu / Dýrleifu Kristjánsdóttur hdl. / Þorstein Magnússon hdl.:
Með umsókn Þórs Þorsteinssonar, sem dagsett er 30. júní 2011, óskar hann eftir að gera dæluprufanir úr holu sem merkt er Sk-1. Reynist þær jákvæðar óskar hann eftir nýtingarleyfi í allt að 50 ár á 35 l/sek. Reynist holan ekki nýtanleg óskar hann eftir að fá að nýta 35 l/sek. úr holu Sk-2 svo lengi sem hægt sé að sýna fram á með dæluprófun að ekki sé gengið á þegar gerða samninga um nýtingu holunnar. Verði Sk-1 nýtt óskar Þór eftir að fá að byggja allt að 25 fm dæluskúr og lagningu lagnar um land Stóra Klofa.
Í umsókninni vísar Þór m.a. til þess að Leirubakki hafi á sínum tíma fengið aðgang að heitu vatni úr borholunum. Þar með sé komið fordæmi fyrir því að aðilum sé gert kleift að nýta vatnið þó svo að þeir hafi ekki verið aðilar að upphaflega samningnum um nýtingu vatnsins úr holunum. Þá getur hann þess að Landgræðsla ríkisins, sem hafi forráð yfir jörðinni, hafi þegar mælst til þess að Þór fái afnot af vatninu.
Áður en lengra er haldið er rétt að rekja stuttlega sögu orkunýtingar á Baðsheiði. Hinn 18. október 1985 gerðu annars vegar Landgræðslan vegna Stóra-Klofa og hins vegar Ása-, Djúpár-, Holtamanna- og Landamannahreppar samning sem fól í sér að hreppunum væri heimilt að bora eftir heitu vatni á Baðsheiði sem þá var talin í óskiptri sameign jarðanna Litla- og Stóra-Klofa. Færi borunin fram til öflunar á heitu vatni í þágu Klakstöðvar sem verið var að koma á fót á vegum hreppanna í landi Fellsmúla í Landmannahreppi. Í samningnum kom fram að hreppunum væri heimilt að koma fyrir í landinu dælubúnaði og því sem honum tilheyrði, auk raflagnar að honum og vatnslagnar frá honum að klakstöðinni. Auk þess væri þeim heimill umferðarréttur vegna byggingar téðra mannvirkja og eftirlits með þeim og gerð nauðsynlegs vegslóða í því skyni. Tekið var fram að umrædd mannvirki og réttindi væru eign hreppanna og yrðu hluti klakstöðvarinnar við Fellsmúla sem Landsvirkjun væri að byggja og myndi afhenda hreppunum til eignar og reksturs, samkvæmt nánara samkomulagi þeirra í millum.
Í samningnum, dags. 18. október 1985, var kveðið á um að eigendum klakstöðvarinnar væri heimilt að nota orkumagn sem svaraði til allt að 20 lítrum/sek. af 60° C heitu vatni, sem fást kynni í Baðsheiði, til að fullnægja þörfum klakstöðvarinnar á hverjum tíma. Yrði frekari árangur af borun væri landeigendum heimilt að nýta alla þá orku sem umfram væri án sérstaks endurgjalds, enda bæru hrepparnir ekki kostnað af þeirri nýtingu og hún færi fram án áhættu fyrir nýtingu í þágu klakstöðvarinnar. Þá kom fram að hrepparnir væru tilbúnir til að heimila eftir nánara samkomulagi bæjunum Fellsmúla, Skarði, auk kirkjunnar þar og Stóra-Klofa að tengja heimæðar við stofnlögnina að klakstöðinni, til eigin þarfa vegna heimilis- og búrekstrar enda gæfi holan nægilegt vatnsmagn að lokinni tilraunadælingu. Sama gilti um Litla-Klofa ef byggt yrði á jörðinni. Teldist þessi notkun hluti af ofangreindu orkumagni og gæti numið allt að 2,0 lítrum/sek. samanlagt. Klakstöðin hefði þó ætíð forgangsrétt að fyrstu 10 lítrunum/sek. sem fást kynni á hverjum tíma. Samningurinn er til 50 ára en endurnýjast sjálfkrafa verði honum ekki sagt upp.
Áform um borun gengu eftir og á næstu árum á eftir voru gerðir samningar við tiltekna eigendur fasteigna um afnot af vatni úr holunum. Þannig gerðu hrepparnir í nóvember 1993 samninga við eiganda Leirubakka þar sem honum var heimilað að leggja tengja hitaveituæð að Leirubakka við stofnlögnina og nota orkumagn sem svaraði til 3 lítra/sek. Fiskeldisstöðin í Fellsmúla hf. hefði þó ætíð forgangsrétt að fyrstu 10 lítrum/sek. sem fást kynnu á hverjum tíma. Breytingar voru gerðar á samningnum við eigendur Leirubakka árið 1997, m.a. á þann veg að ef til þess kæmi að rekstri Fiskeldisstöðvarinnar við Fellsmúla hf. yrði hætt, stöðin hætti allri vatnsnotkun eða ekki þætti lengur hagkvæmt að halda uppi dælingu um vatnslögnina með núverandi hætti, muni hrepparnir stuðla að stofnun sjálfstæðrar hitaveitu á svæðinu eða halda áfram dælingu á heitu vatni um vatnslögnina til Leirubakka og annarra notenda heita vatnsins.
Þá var þann 22. maí 1998 undirritaður samningur við eigendur Skarðs um rétt þeirrar jarðar til 0,75 l/sek. af heitu vatni úr borholunni á Baðsheiði. Sami fyrirvari var gerður og í fyrri samningum, um forgangsrétt klakstöðvarinnar að fyrstu 10 sekúndulítrunum. Fram kemur að verði rekstri Fiskeldisstöðvarinnar við Fellsmúla hf. hætt skuli hrepparnir stuðla að stofnun hitaveitu um hitavatnsnotkunina „svo að réttindi þeirra sem þá þegar hafa fengið heitt vatn haldist áfram án þess að til breytinga á þá þegar gerðum samningum þurfi til að koma.” Síðan segir að samkomulag sé um að slík hitaveita taki við þær aðstæður við réttindum og skyldum hreppanna. Þá hafa hrepparnir gert samninga við eigendur sumarhúsa um afhendingu vatns, með sambærilegum skilmálum. Umræddir samningar voru gerðir með samþykki Landgræðslunnar og í krafti þess nýtingarréttar að vatnsréttindunum sem sveitarfélögunum var veittur með samningnum frá 18. október 1985.
Samkvæmt framansögðu hefur sveitarfélagið rétt til nýtingar á umræddum vatnsréttindum, allt að 20 l/sek., með þeirri kvöð að klakstöðin hefur forgangsrétt að fyrstu 10 sekúndulítrunum. Þá hefur sveitarfélagið skuldbundið sig til að tryggja afhendingu á vatni til eigenda tiltekinna fasteigna á svæðinu. Við blasir að til að sveitarfélagið geti efnt þessar skyldur þarf á hverjum tíma að vera nægt vatn til staðar í holunum. Sveitarfélagið getur því ekki undir neinum kringumstæðum mælt með því að utanaðkomandi aðilum verði veitt leyfi til nýtingar á vatnsréttindum í borholunum nema fyrst liggi fyrir viðhlítandi rannsóknir sem eindregið gefi til kynna að afkastageta holnanna sé næg til að umrædd nýting ógni með engum hætti afhendingaröryggi til umræddra aðila. Sveitarfélagið telur því nauðsynlegt að slíkar rannsóknir fari fram og niðurstöður þeirra liggi fyrir áður en nýtingarleyfi er veitt. Þær rannsóknir þurfa að mati sveitarfélagsins að fela í sér mun meira en eingöngu þær dæluprófanir sem Þór nefnir í umsókn sinni. Þar sem Suðurlandsskjálftinn árið 2000 kann að hafa breytt ýmsu um afkastagetu holnanna telur sveitarfélagið heldur ekki tækt að byggja á rannsóknum sem kunna að hafa verið gerðar fyrir þann tíma.
Þá bendir sveitarfélagið á að borholurnar sem slíkar, sem og ýmis önnur mannvirki sem reist voru í tengslum við þá nýtingu sem fram fer á Baðsheiði, eru væntanlega í eigu þess félags sem nú rekur eldisstöðina í Fellsmúla. Þær yrðu þannig ekki nýttar án samþykkis félagsins. Forsvarsmenn félagsins hafa nú þegar komið á fund sveitarstjórnar og kynnt áform um frekari uppbyggingu í Fellsmúla. Þau áform kalla á tryggt sé meira vatnsmagn en 10 sekúndulítrar.
Sveitarfélagið gerir athugasemd við þá fullyrðingu Þórs að samningur við eigendur Leirubakka um afhendingu á heitu vatni hafi fordæmisgildi varðandi áform hans. Þar var um að ræða heimild til að tengja hitaveituæð við stofnlögn hreppanna og fá með því 3 l/sek. af heitu vatni meðan nægjanlegt vatn fengist úr borholu sem þegar var í notkun. Þar var því ekki um að ræða nýja virkjun heldur nýtingu á vatni sem þegar rann úr viðkomandi borholu, vegna reksturs sem stofnað var til á vegum sveitarfélaganna, auk þess sem sú nýting var af mun minni stærðargráðu en sú sem Þór hyggur á.
Sveitarfélagið gerir einnig athugasemd við þá fullyrðingu Þórs að borholurnar hafi á sínum tíma verið boraðar fyrir íbúa hinnar gömlu Landsveitar. Hið rétta er að ráðist var í framkvæmdirnar vegna klakstöðvarinnar sem Ása-, Djúpár-, Holtamanna- og Landmannahreppar komu sameiginlega á fót í landi Fellsmúla. Þó svo að eigendur tiltekinna nærliggjandi jarða í Landsveit hafi fengið að njóta góðs af því vatni sem kom úr holunum, umfram þarfir klakstöðvarinnar, var það ekki ástæðan fyrir því að holurnar voru boraðar. Í þessu sambandi má geta þess að Jarlsstaðir liggja í tuga kílómetra fjarlægð frá holunum. Margir bæir og sumarhús liggja mun nær þeim án þess þó að hafa aðgang að heitu vatni úr holunum.
Eins og fram kemur hér að framan getur komið til þess að sveitarfélagið verði að koma á fót hitaveitu til að efna samningsbundnar skyldur sínar. Það á m.a. við um skyldur gagnvart eigendum Leirubakka og Skarðs auk eigenda tiltekinna sumarhúsa í sveitarfélaginu. Raunar hefur sveitarfélagið, burtséð frá þeim skyldum, til athugunar kosti þess að koma á fót hitaveitu sem sinnt gæti fleiri notendum í Landsveit en þeim sem nú þegar nýta vatn úr borholunum á Baðsheiði. Eins og yður er að sjálfsögðu kunnugt um mælir 13. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, fyrir um að sveitarfélag skuli hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna jarðhita innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa hitaveitu sem rekin er í sveitarfélaginu. Almannahagsmunir ganga þannig framar einkahagsmunum þegar afstaða er tekin til þess hverjum er úthlutað nýtingarleyfum. Æskilegra væri, m.t.t. hagsmuna íbúa Rangárþings ytra, að beðið yrði með að veita einkaaðilum leyfi til frekari nýtingar jarðhita á Baðsheiði, þar til fyrir liggur niðurstaða um hvort vænlegt er að koma á fót hitaveitu í sveitarfélaginu.
Með vísan til framangreinds er það afstaða Rangárþings ytra að hafna beri umsókn Þórs Þorsteinssonar um nýtingarleyfi vegna vatnsréttinda í landi Stóra Klofa.
- Rannveig Guðmundsdóttir og Sverrir Jónsson; Kauptilboð í lóð nr. 178641 í Merkihvoli, dags. 16. ágúst 2011.
Fram kemur að umrædd lóð er um 1,3ha og verðtilboð kr. 500.000.
Tilboðinu er hafnað.
Sveitarstjóra er falið að fara yfir lóðamál í Merkihvolslandi og skila tillögu um ráðstöfun til sveitarstjórnar.
- Lundur; Beiðni um ábyrgð fyrir hækkun yfirdráttarheimildar, skv. tölvupósti dags. 22. ágúst 2011.
Í erindinu kemur fram að yfirdráttarheimild Lundar hjá Arion banka er kr. 10.000.000. Óskað er eftir að yfirdráttarheimildin verði hækkuð í kr. 15.000.000. Þetta er tilkomið vegna þess að Velferðarráðuneytið tók af eitt hjúkrunarrými sem þýðir tekjurýrnun um kr. 662.062 á mánuði. Einnig er rekstrarvandinn tilkominn vegna hækkana á launum starfsmanna vegna nýrra kjarasamninga. Lögð er áhersla á við hjúkrunarforstjóra og stjórn Lundar að leitað verði allra leiða til að ná aftur sama fjölda hjúkrunarrýma, þar sem það er auðséð að endar ná ekki saman miðað við núverandi tekjustofna Lundar.
Sveitarstjórn veitir sveitarstjóra, fyrir sitt leyti, heimild til að árita ábyrgð vegna hækkunar yfirdráttarheimildar Lundar hjá Arion banka í 15 mkr.
- Málefni íþróttasamfellu, m. tilv. í tl. 7 frá 15. fundi hreppsráðs dags. 10. ágúst 2011; Fundargerð umsagnarhóps dags. 18. ágúst 2011 og greinargerð varaformanns hreppsráðs og sveitarstjóra, dags. 25. ágúst 2011.
Greinargerð varaformanns hreppsráðs og sveitarstjóra byggð á fundi hagsmunaaðila um málið:
Á vegum Grunnskóla Hellu verður samfella á mánudögum og miðvikudögum fyrir 1. – 4. bekk þar sem flestar greinar íþrótta og tómstunda verða kynntar í n.k. námskeiðum í stað þess að vera í gangi allan veturinn. Þannig tekur eitt námskeið við af öðru. Knattspyrnan er þó inni í einn klukkutíma hvorn dag vegna fjölda barna á þessum aldri sem æfa hana.
- Með þessu móti er náð fram einum megintilgangi með samfellunni, að bjóða yngstu börnunum – 1.-4.bekk – að kynnast sem flestum íþróttum, leikjum, leiklist, dansi og öðrum möguleikum tómstunda. Einnig er auðveldara að fá leiðbeinendur í stuttan tíma frekar en að binda sig allan veturinn. Markmiðið er að þegar skóla lýkur þessa daga sé tómstundastarfi barnanna einnig lokið.
- Forráðamenn barna greiða ekki sérstaklega fyrir samfellu 1. – 4. bekkjar líkt og verið hefur heldur verði hún rekin sem hluti af skóladagheimili, til að ná fram auknu hagræði.
- Þau börn sem af einhverjum ástæðum hafa hvorki verið á skóladagheimili eða í samfellu verða í gjaldfrjálsri gæslu á skóladagheimili á samfellutíma.
- Þau börn sem hvorki hafa tekið þátt í samfellu eða skóladagheimili, heldur verið í skólanum, verði þá vistuð á skóladagheimili þegar samfellan er þar sem starfsfólk nýtist þá mun betur og börnin verða þá á tveimur stöðum á samfellutíma, en ekki þremur eins s.l. skólaár, einnig ef megnið af börnum á skóladagheimilinu fer í tómstundastarfið þá fylgir starfsmaður börnunum þannig að með þessu sparast væntanlega talsvert fé og starfsfólk nýtist betur.
- Skólastjórnendur hafa tilkynnt að ekki verður boðið uppá tvöfaldan skólaakstur vegna samfellu.
- Tómstundastarf barna og unglinga eldri en 4. bekk er ekki á ábyrgð skólans heldur viðkomandi aðila sem skipuleggur það starf. Til að mæta kostnaði við starfið er félögum heimilt að innheimta gjald af þeim sem nýta sér þá þjónustu líkt og verið hefur.
- Til að lágmarka akstur og óþægindi forráðamanna barna á grunnskólaaldri (5-10. bekk) í tómstundastarf er það eindreginn vilji forráðamanna íþróttafélaga og annara að bjóða upp á íþrótta og tómstundastarf fyrir þann hóp í beinu framhaldi af skóla þannig að íbúar í dreifbýli þurfi aðeins að ná í börn og ungmenni. Einnig væri það til bóta fyrir nýtingu íþróttahúss þar sem mikil ásókn er í tímann frá kl.17- 20 að sögn forráðamanns.
Bókun sveitarstjórnar; Skólastjórnendum er falið að vinna að skólasamfellunni fyrir 1.- 4.bekk samkvæmt þessari samantekt en íþróttastarf 5.-10. bekkjar verði í höndum Umf. Heklu og KFR eða annarra eins og verið hefur.
- Skipan í hreppsráð og tímabundið leyfi frá störfum sveitarstjórnar.
Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir hefur hafið töku fæðingarorlofs og hefur farið í leyfi frá sveitarstjórnarstörfum. Margrét mun eftir sem áður sitja sem formaður stjórnar Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu bs. og varamaður í Héraðsnefnd. Ólafur E. Júlíusson tekur sæti Margrétar í hreppsnefnd á meðan leyfi hennar varir.
Þorgils Torfi Jónsson, fulltrúi D-lista í hreppsnefnd og fulltrúi Rangárþings ytra í Héraðsnefnd Rangæinga, hefur fengið leyfi frá störfum í sveitarstjórn og Héraðsnefnd frá 1. sept. 2011 til 1. mars 2012.
Eftirfarandi breyting verður á skipan hreppsráðsins:
Steindór Tómasson, fulltrúi Á-lista, verður formaður hreppsráðs.
Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti og varafulltrúi Á-lista í hreppsráðinu, verður fulltrúi í stað Margrétar í hreppsráðinu og jafnframt varaformaður þess.
Aðrir fulltrúar Á-lista í hreppsnefnd verða varafulltrúar í hreppsráðinu.
Ingvar Pétur Guðbjörnsson, varafulltrúi D-lista í hreppsnefnd, verður varafulltrúi fyrir D-lista í hreppsráði í stað Þorgils Torfa Jónssonar.
Ingvar Pétur Guðbjörnsson, varafulltrúi D-lista, tekur sæti Torfa í hreppsnefndinni á meðan leyfi hans varir.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, fulltrúi D-lista í hreppsnefnd og varafulltrúi Rangárþings ytra í Héraðsnefnd Rangæinga, gegnir störfum í Héraðsnefndinni á meðan leyfi Torfa varir og Anna María Kristjánsdóttir, fulltrúi D-lista í hreppsnefnd, verður varafulltrúi Guðmundar Inga í Héraðsnefnd á tímabilinu. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson verður jafnframt varamaður í skipulagsnefnd Rangárþings bs. á meðan leyfi Torfa varir.
Samþykkt samhljóða.
Fundargerðir til umsagnar og kynningar:
- Fundur með aðstandendum Bestu útihátíðarinnar, dags. 18. júlí 2011.
- fundur stjórnar Félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, dags. 29. júlí 2011.
- Stjórnarfundur Sorpstöðvar Suðurlands bs., dags. 10. ágúst 2011.
- fundur stjórnar SASS, dags. 12. ágúst 2011.
- fundur stjórnar Brunavarna Rangárvallasýslu bs., dags. 17. ágúst 2011.
Sveitarstjórn beinir því til stjórnar Brunavarna að gæta þess að starfsmenn fái reglubundna þjálfun sem lögbundin er til að viðhalda réttindum t.d. vegna reykköfunar.
Sveitarstjórn telur að skoða þurfi starfsemi Brunavarna í heild sinni m.t.t. öryggis íbúa og slökkviliðsmanna auk hagkvæmni rekstrar sveitarfélagsins.
- stjórnarfundur Skólaskrifstofu Suðurlands, dags. 18. ágúst 2011.
- Fundur vinnuhóps um deiliskipulag á Hellu, minnisblað, dags. 18. ágúst 2011.
- Stofnfundur einkahlutafélagsins Neslundar ehf., dags. 24. ágúst 2011.
Liður 7. Í fundargerð: „7. Fundarstjóri kynnti að stjórn Lundar, hjúkrunar- og dvalarheimilis beindi þeim tilmælum til þessa nýja félags og Rangárþings ytra, að við deiliskipulagsgerð í framtíðinni verði tekið tillit til framtíðarþarfa stofnunarinnar fyrir byggingarsvæði sunnan við núverandi heimili.“
Samþykkt að fá fund með stjórn Lundar sbr. lið 7 að ofan.
- stjórnarfundur Suðurlandsvegar 1-3 ehf., dags. 29. ágúst 2011.
Fundaboð, styrkumsóknir og kynningarefni:
- Sjóvá; Vátryggingar sveitarfélagsins, dags. 6. júní 2011, mótt. í tölvupósti dags. 24. ágúst 2011.
Sveitarstjóra falið að leita tilboða í vátryggingar sveitarfélagsins, en nauðsynlegt er að kanna hvort þau mál séu með hagkvæmasta hætti á hverjum tíma.
- Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins; Gátlisti og umræðuskjal, dags. ágúst 2011.
- UMFÍ; Forvarnamál, dags. 15. ágúst 2011.
Í bréfinu kemur fram að UMFÍ gefur sveitarfélögum kost á að setja upp forvarnaskilti í og við íþróttamannvirki sín vegna síaukinnar neyslu ungs fólks á munntóbaki. Mögulegt er að bæta nafni og merki sveitarfélags og viðkomandi héraðssambands á skiltið.
Sveitarstjórn samþykkir að láta gera skilti til uppsetningar í íþróttahúsum sveitarfélagsins.
- Skógræktarfélag Rangæinga; Styrkumsókn, dags. 16. ágúst 2011.
Í erindinu kemur fram að helstu verkefni þessa árs eru að; bera á eldri sáningar, nýplöntun og uppgræðslusvæði, plöntun á 20.000 plöntum, viðhald girðinga, m.a. að Tjörvastöðum á Landi, vegagerð á svæðum félagsins, s.s. í Aldamótaskógi við Hellu og Bolholti á Rangárvöllum, vinna við að bæta enn frekar aðgengi almennings að skógræktarsvæðum félagsins með áframhaldandi uppsetningu borða og bekkja, göngustígagerð og koma upplýsingaskiltum á fleiri staði svo eitthvað sé nefnt.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að funda með bréfritara og fara yfir stöðu verkefna og skila áliti til sveitarstjórnar fyrir næsta fund í byrjun októbermánaðar.
- Iðnaðarráðuneytið; Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samráðs og kynningarferli, bréf dags. 19. ágúst 2011.
Sveitarstjórn skipar Magnús H. Jóhannsson, Ólaf E. Júlíusson og Katrínu Sigurðardóttur í vinnuhóp til að skoða málið í heild og koma á framfæri umsögn og athugasemdum vegna tillögunnar í samráði við oddvita listanna og mögulega hagsmunasveitarfélög á svæðinu.
- Heilbrigðiseftirlit Suðurlands; Niðurstöður sýnatöku, dags. 22. ágúst 2011.
- Suðurlandsvegur 1-3 ehf.; Aðalfundarboð, dags. 23. ágúst 2011.
Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti, fer með umboð Rangárþings ytra á fundinum.
Tilnefndir fyrir hönd Rangárþings ytra í stjórn Suðurlandsvegar 1-3 ehf. eru Gunnsteinn R. Ómarsson, Gunnar Aron Ólason og Ingvar Pétur Guðbjörnsson.
Tilmæli til stjórnar eru að Gunnsteinn R. Ómarsson verði formaður stjórnar og að Gunnar Aron Ólason verið ritari stjórnar.
Varamenn tilnefndir eru Indriði Indriðason, Klara Viðarsdóttir og Anna María Kristjánsdóttir.
- Iðnaðarráðuneyti; Afrit af bréfi til Orkuveitu Reykjavíkur vegna gjaldskrárhækkana, dags. 23. ágúst 2011.
- Samningur um netaveiðirétt í Veiðivötnum, dags. 24. ágúst 2011.
- Afrit af tölvupósti Hellismanna til Vegagerðar; Rallý og heflun á Dómadalsleið – ofl. hugleiðingar, dags. 24. ágúst 2011.
Sveitarstjórn veitir hreppsráði, á næsta fundi þess, heimild til fullnaðarafgreiðslu fundargerðar 43. fundar skipulagsnefndar Rangárþings bs., dags. 31. ágúst 2011, og fundargerðar 48. fundar byggingarnefndar Rangárþings bs., dags. 31. ágúst 2011.
Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin yfir og fundi slitið kl. 17:45.