Rangárþing ytra
- fundur - aukafundur- hreppsnefndar Rangárþings ytra, á kjörtímabilinu 2010 - 2014, haldinn að Suðurlandsvegi 3 á Hellu, miðvikudaginn 16. janúar 2013, kl. 16.30.
FUNDARGERÐ
Mætt: Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Þorgils Torfi Jónsson, Anna María Kristjánsdóttir, Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnús H. Jóhannsson og Steindór Tómasson. Einnig situr fundinn Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri, sem ritar fundargerð.
Oddviti setti fundinn kl. 16.30 og stjórnaði honum.
- Umsókn um tímabundna hækkun á yfirdráttarheimild í Arion banka.
Lögð fram drög að bréfi sem er umsókn til Arion banka um tímabundna hækkun á yfirdráttarheimild. Gert er ráð fyrir að heimildin geti orðið 100.000.000 fram í júní 2013 en lækki þá aftur niður í 65.000.000 eins og verið hefur undanfarna mánuði.
Breytingartillaga Á-lista:
Lagt er til að ákvörðun um hækkun á yfirdráttarheimild sveitarfélagsins verði frestað. Ekki hafa komið fram á fundum hreppsráðs eða hreppsnefndar rökstuddar ástæður þess að nauðsynlegt sé að hækka yfirdráttarheimildina um 35 m.kr. Hreppsráð hefur ekki fjallað um málið á fundum sínum, en fer samt með fjármál sveitarfélagsins ásamt sveitarstjóra samkv. samþykktum þess, en sveitarstjóri, Drífa Hjartardóttir, ber í raun mesta ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins sbr. bókun meirihluta á s.l. fundi sveitarstjórnar, 11. janúar 2013. Í stað þess að afgreiða beiðnina á þessum fundi þá óskum við eftir því að á næsta fundi hreppsráðs verði lögð fram raunhæf greiðsluáætlun frá sveitarstjóra, unnin í samvinnu við endurskoðanda, sem staðfestir hver fjárþörfin er í dag og greinir hana til næstu mánaða.
Þrír samþykkja breytingartillöguna, fjórir greiða atkvæði á móti (GIG, MÝS, ÞTJ, AMK). Breytingartillagan er felld.
Bókun meirihluta í Rangárþingi ytra á fundi hreppsnefndar 16. janúar 2013:
Haldið er fram í breytingartillögu Á-lista að engin gögn hafi verið sýnd um óleysta tímabundna fjárþörf á fyrstu mánuðum ársins 2013. Þvert á móti hafa fulltrúum í hreppsnefnd verið sýnd gögn sem staðfesta þetta. Gögn og fjárhagsáætlun hafa verið kynnt Arion banka einnig. Núverandi meirihluti tók við stjórn fjármála 13. nóvember 2012. Lausafjárstaða var þá slæm og ástand í bókhaldi var þannig að ekki var unnt að fá upplýsingar um stöðu mála.
Nokkurn tíma tók að yfirfara þessi mál öll, en allt stefnir í rétta átt um þessar mundir. Unnið verður markvisst að því að leysa lausafjárstöðu sveitarfélagsins til frambúðar. Brýnt er að vinna að málinu án óþarfa tafa.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir Þorgils Torfi Jónsson
Anna María Kristjánsdóttir
Tllagan samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ, MHJ, ST)
Bókun Á-lista vegna samþykktar meirihluta D-lista sjálfstæðismanna og Margrétar Ýrar Sigurgeirsdóttur á beiðni sveitarstjóra Rangárþings ytra um hækkun á yfirdrætti sveitarfélagsins um 35 m.kr. úr 65 m.kr. í 100 m.kr. hjá Arionbanka:
Undirritaðir fulltrúar Á-lista geta ekki samþykkt hækkun á yfirdráttarheimild og þar með fyrirsjáanlega hækkun skuldahlutfalls sveitarfélagsins í ljósi þess að ekki liggja fyrir rökstuddar ástæður um nauðsyn þess. Á s.l. ári, í tíð fyrrverandi meirihluta Á-lista, var lögð áhersla á að greiða niður skuldir, styrkja veltufjárhlutfall og lagður metnaður í að ná skuldahlutfalli undir lögbundið hámark. Þrátt fyrir að hafa tekið við erfiðu búi eftir s.l. sveitarstjórnarkosningar og lánum í vanskilum, voru öll lán sveitarfélagsins í skilum þegar nýr meirihluti tók við 12. nóvember s.l. Eftir meirihluta- og sveitarstjóraskiptin hafa fjármál ekki verið tekin eins föstum tökum að okkar mati. Fyrst núna, leggur meirihluti fram beiðni um hækkun yfirdráttarheimildar, en án þess að fulltrúar Á-lista hafi tekið þátt í fundum um þau mál, hvað þá að lögð hafi verið fram gögn sem staðfesti nauðsyn þessarar hækkunar eða kjör
yfirdráttarlánsins. Hækkun yfirdráttarheimildar nú mun augljóslega leiða af sér hækkun skulda sveitarfélagsins og veikingu veltufjárhlutfalls.Þessi beiðni er sérkennileg í ljósi þess að nýsamþykkt fjárhagsáætlun 2013 gerir ráð fyrir niðurgreiðslu skulda og þar með yfirdráttarláns á árinu 2013. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að skuldahlutfall sveitarfélagsins lækki verulega með fjármagni frá rekstri. Meirihluti gerir ráð fyrir að taka ný lán fyrir öllum framkvæmdum samkv. fjárhagsáætluninni en ekki vegna reksturs. Í þessu ljósi er nauðsynlegt að fara vel yfir stöðu mála. Framkvæmdir ársins 2013 eru ekki farnar í gang og geta vart talist ástæða þessa. Kostnaður vegna meirihlutaskipta er umtalsverður og á væntanlega einhvern þátt í að taka þarf ný lán og hækka þar með skuldir sveitarfélagsins. Það er alfarið á ábyrgð nýs meirihluta D-lista sjálfstæðismanna og Margrétar Ýrar Sigurgeirsdóttur.
Guðfinna Þorvaldsdóttir Magnús H. Jóhannsson Steindór Tómasson
Fundargerðin yfirfarin og samþykkt. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.45.