60. fundur 15. apríl 2014

Hreppsnefnd Rangárþings ytra

 

Fundargerð

 

  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra á kjörtímabilinu 2010 - 2014, var haldinn að Suðurlandsvegi 3, Hellu, þriðjudaginn 15. apríl 2014 kl. 15.00.

 

Mætt: Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti, Þorgils Torfi Jónsson, Anna María Kristjánsdóttir, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Magnús H. Jóhannsson, Steindór Tómasson og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir varamaður fyrir Guðfinnu Þorvaldsdóttur.

Einnig situr fundinn Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri sem ritar fundargerð, Klara Viðarsdóttir, aðalbókari og Einar Sveinbjörnsson, endurskoðandi undir lið 2.

Oddviti setti fund og stjórnaði honum

  1. Fundargerð hreppsráðs:

1.1 43. fundur hreppsráðs 14.04.14.

 

Fundargerðin er staðfest samhljóða.

 

  1. Ársreikningur 2013 -fyrri umræða.

Einar Sveinbjörnsson, KPMG, löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins, kynnti niðurstöður ársreiknings fyrir Rangárþing ytra fyrir árið 2013. Einnig lögð fram endurskoðunarskýrsla fyrir árið 2013.

 

Ársreikningnum vísað til síðari umræðu.

Bókun sveitarstjórnar:

 

Afgangur af rekstri Rangárþings ytra árið 2013 er 115 mkr. eða talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Tekjur hafa hækkað meira en gjöld og skýrist það m.a. af fjölgun íbúa. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 144% í árslok eða vel undir viðmiðunarmörkum sem eru 150%. Þessum árangri hefur tekist að ná nokkrum árum fyrr en upphaflega var áætlað.

Mikið fagnaðarefni er að markmið um góða framlegð og afgang af rekstri á árinu 2013 hefur náðst og meira en það. Þetta hefur tekist með því að vanda til áætlunargerðar og með mikilli og fórnfúsri vinnu allra starfsmanna sveitarfélagsins. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut. Fjárhagsstaðan er að öllu leyti á góðri og réttri leið og má hiklaust segja að nýrri sveitarstjórn verði skilað góðu búi. Sveitarstjórnin þakkar starfsfólki og öllum sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að ná þessum góða árangri.

  1. Drög að svari til Innanríkisráðuneytis- vegna erindis eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga frá 17. mars 2014.

 

Drög að svari samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að svara erindinu.

 

 

 

  1. 4. Bókun meirihluta við bókun Á lista við lið 1 á 59. fundi sveitarstjórnar.

 

Bókun meirihluta í sveitarstjórn Rangárþings ytra vegna bókunar fulltrúa Á-listans á 59. fundi sveitarstjórnar þ. 10. apríl 2014:

Í illkvittinni bókun Á-listans er komið inn á það að fundargerðir stjórnar Lundar hafi ekki verið lagðar fyrr fram í sveitarstjórninni. Formaður stjórnarinnar hefur skýrt hvernig staðið hefur verið að þeim málum af hálfu stjórnarinnar. Fundargerðirnar eru ekki allar undirritaðar eigin hendi stjórnarmanna, en það virðist hafa tíðkast að stjórnarmenn hafi staðfest fundargerðir í tölvupósti eftir fundi. Í þessari bókun er vegið harkalega að tveimur einstaklingum og mikið er gert úr því að samráð hafi verið haft af hálfu þáverandi oddvita og sveitarstjóra við stjórn Lundar um viðræður við ráðuneyti um byggingamál Lundar. Embættismennirnir virðast þó hafa farið til fundar í ráðuneytinu án þess að hafa samráð um viðræðuefnið við formann stjórnar Lundar og hjúkrunarforstjóra og ekki heldur við aðra stjórnarmenn. Ennfremur var sömu aðilum ekki boðið að taka þátt í fundinum. Þetta er marg fram komið í umræðu um þessi mál og öllum ætti að vera ljós munurinn á þessu tvennu, þ.e. að stjórn Lundar bað embættismenn sveitarfélagsins að fara til fundar við ráðuneytið og því að embættismennirnir höfðu svo ekki samráð um verkefnið þegar það brast á. Um þetta ætti að vera óþarfi að eyða fleiri orðum enda er málið komið í annan farveg og vonandi fæst lausn á þeim vanda sem verið hefur varðandi fjármögnun viðbyggingarinnar.

Það hefði mátt ætla að fulltrúar Á-listans deildu áhuga annarra sveitarstjórnarmanna og fleiri á því að þoka málum viðbyggingarinnar við Lund áfram, svo virðist þó ekki vera. Allt kapp er lagt á að sverta einstaklinga og koma höggi á persónur. Vonir höfðu vaknað um að fulltrúar Á-listans í sveitarstjórninni hefðu lagt slíkan málflutning til hliðar síðustu vikur þessa kjörtímabils, en þær vonir hafa brugðist. Vilji þessir fulltrúar enda feril sinn á þessu kjörtímabili á sama hátt og þeir hafa hagað málflutningi sínum lengst af, þá verða þeir að þjóna lund sinni eins og þeim er lagið. Það hefði verið eðlilegra að taka þátt í jákvæðu starfi sveitarfélaginu til heilla, en það verða allir að ráða sinni för sjálfir og hver og einn vinnur að sínu orðspori sem lifir áfram þó kjörtímabilið endi.

Lesendur eru beðnir velvirðingar á lengd þessarar bókunar en tilefnið gefur ekki færi á öðru.

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Þorgils Torfi Jónsson, Anna María Kristjánsdóttir , Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir.

Bókun Á lista:

Fundargerðir Lundar frá árinu 2012 voru fyrst lagðar fyrir sveitarstjórn á síðasta fundi hennar þann 10. apríl 2014. Eitt af hlutverkum sveitarstjórnarmanna er að “sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags.” sbr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Fulltrúar Á-lista eru að sinna þessu hlutverki sínu með því að gera athugasemdir við þá stjórnsýsluhætti sem viðhafðir voru. Tilgangur athugasemdanna er ekki neikvæðni í garð viðbyggingar við Lund, heldur að stuðla að bættum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Magnús H. Jóhannsson, Steindór Tómasson, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir.

 

  1. Hús Orkuveitu Reykjavíkur - hugsanleg kaup.

 

Sveitarstjóra falið að ganga til samninga við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á hitaveituhúsinu.

Kaupfjárhæð vísað til viðauka við fjárhagsáætlun 2014.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Flugmálafélags Íslands , 10.04.14, flugmót á Helluflugvelli.

 

Sveitarstjóra falið að ræða við fulltrúa félagsins á þeim grunni sem farið er fram á.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Annað efni til kynningar:

7.1 vorfundur þjónustusvæðis vegna málefna fatlaðs fólks á Suðurlandi, 02.04.14, í fimm liðum.

 

Til kynningar

Fundargerð yfirfarin og undirrituð.

Fundi slitið kl. 16.55