37. fundur 12. nóvember 2012
  1. fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra, 2010-2014,haldinn að Suðurlandsvegi 3, Hellu, mánudaginn 12. nóvember 2012, kl. 20:00

Mætt eru Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, Þorgils Torfi Jónsson, Anna María Kristjánsdóttir, Guðfinna Þorvaldsdóttir, Magnús H. Jóhannsson og Steindór Tómasson. Að auki situr fundinn Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri.

Sveitarstjóri og oddviti gera grein fyrir helstu málum sem þau hafa unnið að:

Sveitarstjóri kvaðst ekki taka til máls en þá lagði oddviti (GÞ) fram tillögu um að áheyrendur fengju frekar að taka til máls í sinn stað. Nokkrir áheyrendur á fundinum óskuðu eftir að fá að taka til máls.

ÞTJ gerði aths. og gerði kröfu um að gengið yrði til fundarstarfa skv. dagskrá.

Oddviti (GÞ) setti fundinn formlega og stjórnaði honum.

 

Oddviti (GÞ) bar upp tillögu fyrir hreppsnefndina um að ákveðnir áheyrendur í fundarsal fengju að taka til máls.

Tillagan borin upp til atkvæða:

Þrír samþykktu tillöguna og fjórir greiddu atkvæði á móti (GIG, MÝS, ÞTJ, AMK).

Tillagan felld.

 

Gengið til dagskrár:

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson lagði fram eftirfarandi dagskrártillögu: Lagt er til að 6. liður dagskrár fundarins verði færður fram fyrir og tekinn fyrir fyrstur ásamt undirliðum og að skýrslum oddvita(GÞ) og sveitarstjóra(GRÓ) verði frestað til næsta fundar hreppsnefndar.

Samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ, MHJ, ST).

 

Erindi til afgreiðslu:

6.1 Kynning á meirihlutasamstarfi í hreppsnefnd Rangárþings ytra:

Yfirlýsing um meirihlutasamstarf í sveitarstjórn Rangárþings ytra

Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi og fulltrúar D-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra hafa náð samkomulagi um nýtt meirihlutasamstarf. Þetta nýja meirihlutasamstarf mun setja hagsmuni íbúa í fyrsta sæti og haga störfum sínum alfarið með velferð þeirra í huga.

Í meirihlutasamstarfinu verður lögð áhersla á fjölskylduna sem grundvallareiningu í samfélaginu og að hlúa þurfi að öllum aldurshópum. Nýr meirihluti mun leggja áherslu á að vinna í þágu allra íbúa sveitarfélagsins og sérstök áhersla verður á gott upplýsingaflæði og að íbúar hafi greiðan aðgang að fulltrúum sveitarstjórnarinnar.

Nýr meirihluti mun vinna að eflingu íþrótta- og tómstundastarfs. Lögð verður áhersla á málefni eldri borgara, m.a. með áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimilisins Lundar og uppbyggingu á þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Lögð verður áhersla á að rekstur sveitarsjóðs verði með eðlilegum afgangi á hverju ári og að skuldastaða lækki og verði komin niður fyrir viðmiðunarmörk á fáum árum. Forvarnarmál, fræðslumál, umhverfismál og efling atvinnulífs verða m.a. áhersluþættir í málefnaskrá meirihlutans. Unnið verður að gerð siðareglna fyrir sveitarstjórnarfulltrúa. Ítarlegri málefnaskrá verður kynnt á næstu vikum.

Formleg meirihlutaskipti munu taka gildi á fundi sveitarstjórnar á næstu dögum þar sem nýr oddviti verður kjörinn, nýtt hreppsráð skipað og gengið frá ráðningu sveitarstjóra.

Lögð verður áhersla á að meirihlutaskiptin hafi sem minnsta og helst enga truflun fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og samfélagið almennt.

Hellu, 7. nóvember 2012,

Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson

Þorgils Torfi Jónsson

Anna María Kristjánsdóttir

 

Til kynningar.

 

Oddviti (GÞ) ítrekaði að sveitarstjórn gæfi áheyrendum á fundinum tækifæri til að koma með spurningar eða taka til máls þar sem um óvenjulegt mál væri að ræða sem væri ekki hefðbundin skipting á embættum eftir niðurstöðu kosninga.

ÞTJ ítrekaði fyrri athugasemd sína.

GIG ítrekaði að fundurinn hefði ekki verið auglýstur sem opinn íbúafundur og því hefðu íbúar almennt ekki gert ráð fyrir því að taka virkan þátt í fundinum. GIG benti á að opinn íbúafundur yrði haldinn fljótlega og þar myndi íbúum gefast tækifæri á jafnræðisgrundvelli til þess að beina orðum, tillögum og ábendingum til sveitarstjórnarinnar.

Oddviti (GÞ) ítrekaði óánægju sína með þetta og sagði að það hefði verið viðhaft á fundum sveitarstjórnar hingað til og að einn áheyrandi á fundinum hefði staðfest það. Oddviti (GÞ) áréttaði enn tillögu um að ákveðnir áheyrendur fengju að taka til máls og var því aftur andmælt af fulltrúum D-lista.

Bókun við yfirlýsingu um nýjan meirihluta:

Fulltrúar Á-listans mótmæla harðlega myndun nýs meirihluta, þótt lögleg sé. Íbúar sveitarfélagsins kusu Á-listann til að stjórna sveitarfélaginu og ætti samkvæmt því að fara með meirihluta í sveitarstjórn þetta kjörtímabil. Á-listinn hefur stuðlað að mörgum góðum verkefnum og í langflestum tilfellum, í fullri sátt við minnihluta sveitarstjórnar. Það er því undarlegt að minnihluti D-lista og Margrét Ýrr frá Á-lista skuli fara í þessa vegferð með tilheyrandi kostnaðarauka og upplausn. Engar haldbærar útskýringar hafa verið gefnar fyrir stofnun nýs meirihluta og er fulltrúum Á-lista fullkomlega óljóst hverjar þær eru.

Guðfinna Þorvaldsdóttir

Magnús H. Jóhannsson

Steindór Tómasson

 

6.2 Kosning oddvita og varaoddvita:

Lögð fram tillaga um:

Guðmund Inga Gunnlaugsson sem oddvita,

Margréti Ýrr Sigurgeirsdóttur sem varaoddvita

Samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ, MHJ, ST)

 

6.3 Kosning hreppsráðs til júní 2013:

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

Frá meirihluta verði aðalfulltrúar: Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir og Anna María Kristjánsdóttir. Til vara: Guðmundur Ingi Gunnlaugsson og Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Frá minnihluta verði aðalfulltrúi: Guðfinna Þorvaldsdóttir. Til vara: Magnús H. Jóhannsson.

Formaður hreppsráðs: Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir.

Varaformaður hreppsráðs: Anna María Kristjánsdóttir.

Fulltrúar Á-lista gera aths. við varamann Margrétar Ýrr Sigurgeirsdóttur í hreppsráð, sem kemur frá D-lista og telja að ætti frekar að vera af Á-lista og gera einnig aths. við að varamenn í hreppsráði komi ekki úr röðum aðalmanna sveitarstjórnar. Óskað var eftir því að kannað yrði hvort að varamenn sveitarstjórnar gætu verið varamenn í hreppsráði. En það kom fram að ljóst er að varamaður Margrétar Ýrr í sveitarstjórn er úr röðum varamanna Á-lista í sveitarstjórn

Kosning hreppsráðs samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ, MHJ, ST.)

 

6.4 Tilhögun framkvæmdastjórnar sveitarfélagsins:

  1. a. Lagt er til að Gunnsteini R. Ómarssyni verði sagt upp störfum sveitarstjóra frá og með 13. nóvember 2012. Uppsagnarfrestur verði í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi Gunnsteins og telji frá og með 1. desember 2012. Ekki er óskað eftir vinnuframlagi frá Gunnsteini frá og með 13. nóvember 2012. Oddvita er falið að ganga frá starfslokum Gunnsteins. Gunnsteini eru þökkuð störf í þágu Rangárþings ytra.

Samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ. MHJ, ST).

Bókun um uppsögn sveitarstjóra:

Fulltrúar Á-lista benda á að öll sveitarstjórn, bæði meiri- og minnihluti, stóðu að ráðningu Gunnsteins R. Ómarssonar og samþykktu ráðningarsamning hans samhljóða. Hér er verið að segja upp starfsmanni sem ráðinn var á faglegum forsendum – ópólitískt. Sveitarstjórn var sammála um að ráða til starfsins aðila með sérþekkingu á fjármálum vegna þeirrar stöðu sem sveitarfélagið var í þá og er enn. Gunnsteinn hefur bæði sinnt sveitarstjórastarfi og unnið sem fjármálastjóri. Hann hefur unnið mjög gott starf við endurreisn og heildarendurskipulagningu á fjárhag sveitarfélagsins við afar erfiðar aðstæður og endurunnið traust lánastofnana. Það er því alvarleg staða fyrir sveitarfélagið að missa slíkan starfsmann af ástæðulausu.

Guðfinna Þorvaldsdóttir

Magnús H. Jóhannsson

Steindór Tómasson

 

  1. b. Lagt er til að Drífa Hjartardóttir verði ráðin sveitarstjóri frá og með 13. nóvember 2012. Oddvita (GIG) og formanni hreppsráðs er falið að gera ráðningarsamning við Drífu og kynna hann fyrir sveitarstjórninni.

Bókun Á-lista:

Fulltrúar Á-listans mótmæla harðlega því vinnulagi sem er viðhaft við ráðningu nýs sveitarstjóra. Í ljósi þess er farið fram á að umfjöllun og ákvarðanatöku verði frestað til næsta sveitarstjórnarfundar. Jafnframt óskum við eftir því að starfið verði auglýst og staðið faglega að ráðningu sveitarstjóra.

Guðfinna Þorvaldsdóttir

Magnús H. Jóhannsson

Steindór Tómasson

 

Tillaga um frestun á þessum lið til næsta fundar hreppsnefndar.

Þrír greiða atkvæði með tillögunni, fjórir á móti (GIG, ÞTJ, MÝS, AMK)

Tillaga um frestun felld.

Ráðning Drífu samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír á móti (GÞ, MHJ, ST).

 

  1. Mál frá 36. fundi hreppsnefndar um KFR:

„Beiðni um gerð þjónustusamnings vegna útbreiðslu knattspyrnu í íþrótta- og skólastarfi. Lögð fram drög að samningi frá KFR um útbreiðslu knattspyrnu í íþrótta- og skólastarfi. Varaformanni hreppsráðs falið að funda með formanni íþrótta- og tómstundanefndar um málið. Umsögn liggi fyrir á næsta fundi hreppsráðs.“

Tillaga Á-lista: „Rangárþing ytra geri sambærilegan samning við KFR og Rangárþings Eystra hefur nýlega gert. Hljóðar hann efnislega uppá krónur 2,1 milljón á ári og gildir til ársloka 2014. Samningurinn tekur til allra yngri flokka félagsins.

Greinargerð: Knattspyrnufélag Rangæinga er félag starfrækt á sýsluvísu og með sambærilega starfsemi á báðum þéttbýlisstöðunum í sýslunni. Mjög gott starf er unnið innan félagsins og er skemmst að minnast þess að 4 stúlkur úr KFR eru nú í landsliðshópi U-17 ára auk tveggja uppaldra Rangæinga í A - landsliði.

Er það von sveitarstjórnar að samningur þessi verði til þess að styrkja enn frekar það góða samstarf sem verið hefur milli Rangárþings ytra og Knattspyrnufélags Rangæinga.“

Vísað er til afgreiðslu á umsókn KFR um nýjan samning við Rangárþing ytra frá 36. fundi hreppsnefndar og áréttað að því ferli sem þar var ákveðið verði lokið og að málið komi svo til hreppsráðs til ákvörðunar samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Steindóri Tómassyni og formanni íþrótta- og tómstundanefndar var falið að vinna að þessu máli og er það hér með ítrekað.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Félagsmiðstöð:

Tillaga Á-lista: „Félagsmiðstöð sem fyrir árið 2010 var hýst utan skólahúsnæðis verði opnuð hið fyrsta í öðru húsnæði og eigi síðar en um áramót 2012-2013. Verði félagsmiðstöð flutt í íbúðarhúsnæðið að Þrúðvangi 10.

Ekki mun af veita í rekstri Miðjunnar að koma fyrrum húsnæði „féló“ í almenna leigu sé þess nokkur kostur.

Þar sem húsnæðið að Þrúðvangi 10 er í eigu sveitarfélagsins þar þurfi skjólstæðingar „féló“ - börnin, ekki að búa við þá óvissu að hugsanlega verði húsnæðið að Suðurlandsvegi 3 leigt út sem er að sjálfsögðu yfirlýst stefna.

Greinargerð: Frá haustdögum 2010 hefur félagsmiðstöð sveitarfélagsins verið starfrækt í Grunnskóla Hellu og var á þeim tíma einhugur um að kanna þá leið til prufu.

Á vordögum 2012 var sameiginlegur fundur með starfsmanna félagsmiðstöðvar með þeim sveitarstjórnafulltrúum sem þá sáu sér fært að mæta. Fram kom á þeim fundi að starfsmenn álitu það vænlegri kost að hýsa „féló“ utan skóla enda um vinnustað barnanna að ræða. Einnig er í dag sú skoðun uppi meðal barna og forráðamanna þeirra.

Strax í vor var hafist handa við að skoða aðra möguleika og þá helst litið til þess húsnæðis sem áður hýsti félagsmiðstöð þ.e. í kjallara Suðurlandsvegar 3. Þar hefur þó orðið sú breyting á að Vínbúðin hefur opnað í Miðjunni og að mati Á lista ekki við hæfi að opna þar aftur séu aðrir kostir í stöðunni.

Á listi hefur unnið að farsælli lausn vegna félagsmiðstöðvar og telur að óverulegar breytingar þurfi að eiga sér stað að Þrúðvangi 10 og íbúðin þar að mörgu leyti heppilegri þar til slíkrar starfsemi en húsnæðið að Suðurlandsvegi 3 meðal annars með tilliti til eldvarna.

Forstöðumanni eigna og tæknisviðs falið að skoða húsnæðið ásamt fulltrúa foreldrafélags og nemendaráðs og leggja fram kostnaðaráætlun vegna hugsanlegra breytinga á húsnæðinu.“

Afgreiðslu frestað þangað til umsagnir og áætlun framangreindra aðila liggja fyrir.

 

  1. Fyrirkomulag og rekstur á frystihólfum og kartöflugeymslum sveitarfélagsins í Þykkvabæ skv. 11. dagskrárlið 36. sveitarstjórnarfundar: „...Þá er lagt til að leitað verði allra leiða við að breyta fyrirkomulagi rekstrar...“:

Tillaga Á-lista: „Stofnað verði rekstrarfélag um kartöflu- og frystigeymslurnar í Þykkvabænum sem nú eru í eigu sveitarfélagsins með því að markmiði að notendur þeirra fái að reka geymslurnar á sínum forsendum. Gerður verði samningur við félagið um reksturinn til tveggja ára og taki samningurinn enda í árslok 2014.. Félaginu verði afhentar geymslurnar endurgjaldslaust að þeim tíma loknum með þeim skilyrðum að það sjái alfarið um rekstur þeirra og greiðslu allra gjalda sem húsnæðinu fylgja.

Greinargerð: Rekstur kartöflu- og frystigeymslnanna hefur verið erfiður undanfarið, en nokkrir íbúar og leigjendur hólfa hafa bent forsvarsmönnum sveitarfélagsins á leiðir til endurskipulagningar á rekstrinum þannig að hann megi standa undir sér. Segja má að rekstur geymslnanna sé barn síns tíma og betur geti farið á því að reksturinn sé í höndum heimamanna í Þykkvabæ. Fulltrúar Á-listans telja að nauðsynlegt sé að hlusta á hugmyndir íbúar í þessu máli sem öðrum og leita leiða til að farsælli laust sem samræmist hagsmunum beggja þ.e. íbúa í Þykkvabæ og sveitarfélagsins.“

Afgreiðslu frestað og tillögunni vísað til forstöðumanns umhverfis-, eigna- og tæknisviðs til umsagnar að viðhöfðu samráði við núverandi notendur hólfanna.

 

  1. Íbúafundur:

Tillaga Á-lista: „Boðað verði til íbúafundar til að upplýsa íbúa sveitarfélagsins um fjárhagsáætlun næsta árs og stöðu helstu mála.“

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fréttabréf Rangárþings ytra:

Tillaga Á-lista: „Fréttabréf verði sent á öll heimili í sveitarfélagi um málefni sveitarfélagsins þar sem öll heimili hafa ekki aðgang að rafrænum samskiptum og einnig að fólk kann að meta að fá heim til sín upplýsingar um málefni sveitarfélagsins með þeim hætti. Á listinn kom með tillögu að fréttabréfi fyrr á árinu sem unnið var að í samstarfi við minnihluta. Fréttabréfið mæltist vel fyrir hjá íbúum og þykir okkur rétti tíminn nú að koma með annað í desember.“

Skipaður verði vinnuhópur sveitarstjórnar sem verði falið að undirbúa útgáfu fréttabréfs í desember 2012.

Samþykkt samhljóða að eftirtaldir skipi vinnuhópinn: Oddviti (GIG), formaður hreppsráðs, sveitarstjóri og Guðfinna Þorvaldsdóttir.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.00.