27. fundur 08. júlí 2024 kl. 08:30 - 11:15 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Gunnar Aron Ólason formaður
  • Þórunn Dís Þórunnardóttir aðalmaður
  • Steindór Tómasson aðalmaður
  • Þröstur Sigurðsson aðalmaður
  • Svavar L. Torfason aðalmaður
Starfsmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson embættismaður
  • Jón Ragnar Örlygsson
Fundargerð ritaði: Haraldur Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Giljanes, breytt afmörkun og stærð lóðar

2407014

Landeigendur óska eftir að gerðar verði breytingar á afmörkun lóðar sinnar til samræmis við fyrirliggjandi gögn. Um gjafagjörning er að ræða frá fyrri tíð þar sem stærð lóðarinnar og nákvæm afmörkun hennar er uppfærð skv. nútíma mælingu. Merkjalýsandi er Jóhanna Sigurjónsdóttir hjá Eflu.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti og leggur til að sveitarstjórn samþykki nýja afmörkun lóðarinnar.

2.Kelduholt, Landskipti. Jórkelda

2407015

Landeigandi óskar eftir að fá að skipta úr jörð sinni, Kelduholti L217616, 85.320,9 m² spildu. Lóðin fengi heitið Jórkelda og landeignanúmerið Lxxxxxx. Jörðin Kelduholt yrði 35,4 ha eftir skiptin skv. merkjalýsingu frá Kristjönu Ó Valgeirsdóttur hjá Landnotum dags. 14.6.2024.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhugað heiti á nýrri lóð og leggur til að sveitarstjórn samþykki landskiptin.

3.Landsskipulagsstefna 2024-2038

2406023

Skipulagsstofnun vekur athygli á nýsamþykktri landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt aðgerðaráætlun sem þar er sett fram fyrir árin 2024-2028. Í meðfylgjandi bréfi er farið stuttlega yfir uppbyggingu stefnunnar en við hvetjum skipulagsfulltrúa og annað starfsfólk sem kemur að skipulagsgerð að kynna sér nýja stefnu.
Lagt fram til kynningar

4.Vorfundur Skipulagsfulltrúa 21. maí 2024

2406024

Samantekt af vorfundi Skipulagsfulltrúa
Lagt fram til kynningar

5.Umferð um Laufskála og lagning ökutækja

2406046

Ábending barst frá íbúa þess efnis að þar sem búið er að beina umferð um Laufskála meðan á framkvæmdum stendur við grunnskólann, að íbúar við götuna eigi ekki að leggja við hana. Óskað er eftir að gatan verði merkt sem slík svo ekki komi til frekari óþæginda síðar.
Skipulags- og umferðarnefnd tekur undir ábendingarnar varðandi þau óþægindi sem skapast þegar lagt er beggja megin í íbúðagötu og leggur til að forstöðumanni þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins verði falið að bregðast við umræddri ábendingu með merkingum í samráði við lögregluyfirvöld. Varðandi erindi um einstefnu telur nefndin það ekki þjóna tilgangi sínum þar sem umferð muni að öllum líkindum aukast verulega.

6.Rangárflatir 2.Umsókn um lóð.

2209002

Fundargerð frá 14. júní lögð fram.
Lagt fram til kynningar

7.Umsókn um skilti á Orkuslóð á Þjórsársvæði

2406060

Landsvirkjun óskar eftir leyfi til uppsetningar á skiltum á þremur stöðum innan sveitarfélagsins í tengslum við verkefnið Orkuslóð. Orkuslóð á Þjórsársvæði hefur það markmið að efla upplýsingagjöf til ferðafólks sem fer um þau svæði þar sem Landsvirkjun er með starfsemi sína. Á skiltunum eru almennar upplýsingar um svæðið og starfsemi Landsvirkjunar ásamt öryggisleiðbeiningum. Þeir staðir sem um er að ræða er við upphaf Landmannaleiðar frá Landvegi, þar sem sett verða upp tvö standandi skilti, austan við brúnna að Búðarhálsi, þar sem verður hallandi skilti og svo við bílastæðið við Sigöldugljúfur, þar sem sett verður upp standandi skilti. Ásamt Orkuslóðarskiltum er stefnt á uppsetningu lægri skilta við þjónustuveginn meðfram Sigöldugljúfri. Vegagerðin hefur þegar veitt jákvæða umsögn um erindi Landsvirkjunar.
Skipulags- og umferðarnefnd telur að notast skuli við ákvæði um stakar framkvæmdir í aðalskipulagi fyrir viðkomandi skilti. Heimilt er, að undangengnu deiliskipulagi eða grenndarkynningu, að veita leyfi fyrir byggingu stakra mannvirkja án þess að skilgreina sérstaklega breytta landnotkun í aðalskipulagi. Í þessu tilfelli leggur nefndin til að staðsetning umræddra skilta verði grenndarkynnt til Umhverfisstofnunar og til Forsætisráðuneytisins ásamt því að Umhverfis,- hálendis- og samgöngunefnd sveitarfélagsins fái að gefa sína umsögn um erindið. Nefndin samþykkir útgáfu byggingarleyfis fyrir sitt leyti.
Jón Ragnar Örlygsson fór yfir áherslur um bættar umferðarmerkingar á Hellu.

8.Umferðarmál. Staða mála

2310087

Farið yfir stöðu umferðarmála 2024. Lögð er fram yfirferð Sveins Rúnars Kristjánssonar, fulltrúa lögreglunnar á Suðurlandi, og Jóns Ragnars Örlygssonar, aðstoðarmanns Skipulagsfulltrúa, frá ferð þeirra um þéttbýlið á Hellu í júní.
Þar sem fulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi, Sveinn Rúnar Kristjánsson, hafði ekki tök á að mæta á fundinn tók Jón Ragnar að sér að fara yfir þau atriði sem þeir báðir lögðu áherslu á í yfirferð sinni. Skipulags- og umferðarnefnd leggur til að Þrúðvangur ásamt Helluvaðsvegi, Dynskálar, Langisandur, Langalda og Eyjasandur verði hraðinn að hámarki 50km/klst og á öllum öðrum götum innan þéttbýlismarka Hellu verði að 30km/klst.
Jóni Ragnari þökkuð góð yfirferð við umfjöllun málsins.

9.Rangárbakki 6, Árhús, umsókn um skilti.

2407005

Eigandi Árhúsa, veitingastaðar, óskar eftir að fá að setja niður auglýsingaskilti við Suðurlandsveg í samræmi við umsókn frá 29.6.2024.
Skipulags- og umferðarnefnd telur skiltið of nálægt hringtorginu miðað við reglur sveitarfélagsins. Nefndin leggur til að umsækjandi finni hentuga staðsetningu í samráði við Vegagerðina og sveitarfélagið.

10.Hrafntinnusker Breyting á deiliskipulagi

2406000

Ferðafélag Íslands óskar eftir að fá að leggja fram tillögu að breytingum á gildandi deiliskipulagi dags. 26.5.2010. Breytingin felst í breyttum lóðamörkum, þar sem lóð er stækkuð og gert er ráð fyrir einni lóð ásamt byggingarreit um núverandi byggingar á svæðinu. Skipulagsgögn frá Landform dags. 3.6.2024.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá kynningu lýsingar þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan verði jafnframt unnin i samráði með Forsætisráðuneytinu þar sem svæðið er innan þjóðlendu, auk þess að verða kynnt öðrum umsagnaraðilum.

11.Bjargshverfi - Deiliskipulag

2311062

Sveitarfélagið hefur unnið að hugmyndavinnu vegna nýs íbúðarhverfis í Bjargshverfi. Gert verði ráð fyrir allt að 100 íbúðareiningum í mismunandi tegundum húsa, einbýlis, par- og raðhúsum. Gerð verði grein fyrir tengingum við aðra vegi og samgöngum innan svæðisins. Tengsl við þéttbýlið austan Ytri-Rangár gerð skil með áformuðum göngubrúm og göngustígum. Unnið er að gatnahönnun og með hvaða hætti yfirborðsvatn verði fyrir komið. Lagt fram yfirlit yfir stöðu málsins.
Lagt fram til kynningar

12.Sleipnisflatir 5-9. Umsókn um lóð

2405053

Umsækjandi hefur fengið vilyrði til úthlutunar á lóðunum nr 5 og 9 við Sleipnisflatir á Hellu til sameiningar þeirra undir byggingu á allt að 2500 m² verksmiðjuhúsi til að framleiða PackWall byggingarplötur. Umsókn send ásamt fylgiskjölum 23.5.2024 og samþykkt í Byggðaráði 26.6.2024.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við úthlutun lóðanna en vill árétta að umsækjandi hefur farið eftir eldri uppdrætti deiliskipulags við beiðni sína. Nýjasta skipulagið segir að um sé að ræða lóðir nr. 9 og 11 og verður farið um málsmeðferð skv. því hér eftir. Nefndin gerir því engar athugasemdir við sameiningu lóða nr. 9 og 11 og felur skipulagsfulltrúa að ganga formlega frá því í aðdraganda á veitingu væntanlegs byggingarleyfis.

13.Búrfellsnáma í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Breyting á aðalskipulagi

2406061

Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur óskað eftir umsögn Rangárþings ytra um fram lagða skipulagslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2017-2029. Með breytingunni er sett inn nýtt efnistökusvæði á Búrfellshólmum austan Búrfells og í beinu framhaldi af núverandi efnistökusvæði E33. Áætluð efnistaka er allt að 4,5 milljón m3 og að efnisnám nemi um 80.000-300.000 m3 á ári í 10-15 ár. Stærð svæðis er 189 ha. Um er að ræða vikurnámu og er vikurinn einkum unninn til útflutnings. Starfsemi á nýju efnistökusvæði verður að öllum líkindum unnin á sambærilegan hátt og áður hefur verið á Búrfellshólmum og gengið verði frá því svæði þar sem efnistöku er lokið jafn óðum. Unnið er að umhverfismati fyrir efnistökusvæðið.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við lýsingu skipulagsáforma, vegna breytingar á skilgreiningu landnotkunar í aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 á nýju efnistökusvæði austan Búrfells. Nefndin vill þó ítreka umsögn sína vegna matsáætlunar sem lögð var fram í tengslum við umhverfismat framkvæmdarinnar, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vegagerð yfir Þjórsá og aukinn akstur með efni eftir Landvegi.

14.Oddspartur Loki, L204612. Breyting á aðalskipulagi

2405083

Fyrirhugað er að breyta landnotkun á hluta svæðis Oddsparts Loka í Þykkvabæ í verslunar- og þjónustusvæði. Fyrir er veitingastaður og tvenn kúluhús til útleigu innan skikans. Áform eru um áframhaldandi uppbyggingu innan svæðis, þá allt að 15 kúluhús og tvenn þjónustuhús. Einnig er gert ráð fyrir 5 stærri húsum til útleigu fyrir gesti. Lögð er fram lýsing skipulagsáforma frá Eflu dags. 18.6.2024.
Umsækjanda hefur verið veitt heimild til að leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðir sínar. Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir lýsinguna til kynningar. Lýsing skal kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 og einnig í samræmi við 3. mgr. 40. gr. sömu laga. Kynning lýsingar skal standa í a.m.k. tvær vikur talið frá birtingu auglýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins og í staðarblaði, eða nánar tiltekið frá 11. - 25. júlí 2024.

15.Gunnarsholt land L164499. Breyting á landnotkun í aðalskipulagi.

2404112

Félagið Gbest ehf hefur fengið heimild til að gera breytingar á landotkun í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Svæðið sem breytingin nær til er Gunnarsholt land (L164499). Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi Rangárþing ytra. Gert er ráð fyrir að um 60 hekturum verði breytt í athafnasvæði. Fyrirhugað er að framleiða skógarplöntur á spildunni í gróðurhúsum og innan skjólveggja. Heimilað verður að byggja skemmur og einnig verður starfsmannaaðstaða til viðveru og gistingar innan svæðis. Gert er ráð fyrir að plantað verði trjám umhverfis starfsemina, í um 20-30 hektara svæði, þ.e. sem skjólbelti innan lóðarmarka. Lögð er fram lýsing skipulagsáforma frá Eflu dags. 26.6.2024.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir lýsinguna til kynningar. Lýsing skal kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Kynning lýsingar skal standa í a.m.k. tvær vikur talið frá birtingu auglýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins og í staðarblaði, eða nánar tiltekið frá 11. - 25. júlí 2024. Nefndin leggur jafnframt til að heimild verði veitt til að vinna að gerð deiliskipulags fyrir svæðið samhliða breytingunni á aðalskipulaginu.

16.Galtalækjarskógur L165042 og Merkihvoll L192626. Br á aðalskipulagi og deiliskipulag

2403033

Rangárþing ytra hefur samþykkt að gera breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016 - 2028 fyrir Galtalækjarskóg L165042 og Merkihvol L192626. Jarðirnar eru í heildina um 83 ha að stærð og búið er að samræma landamerki beggja landa og aðliggjandi jarða. Með breyttu aðalskipulagi verður afþreyingar- og ferðamannasvæðið AF5 fellt út. Stofnuð er ný frístundabyggð F82 auk þess sem frístundabyggð F43 stækkar úr 10 ha í 12,1 ha og færist til norðurs. Eldri frístundabyggð, F44 helst óbreytt. Núverandi þjónustusvæði, VÞ7 minnkar og skilgreint er nýtt skógræktar- og landgræðslusvæði SL30 meðfram Landvegi. Auk þess er skilgreint vatnsból, VB30 auk grann- og fjarsvæða. Við þessar breytingar þá breytist lítillega afmörkun opinna svæða (OP1), auk afmörkunar óbyggðra svæða (ÓB) og landbúnaðarlands (L).

Samhliða breytingu aðalskipulags er unnið að deiliskipulagi í landi Galtalækjarskógar og Merkihvols og síðar að sameiningu landsins undir nafni Galtalækjaskógar.

Lýsing skipulagsáforma var kynnt með fresti til athugasemda til og með 23. maí sl. Umsagnir bárust frá Umhverfisstofnun, þar sem bent var á að settar verði fram skýrar stefnur um verndun og endurheimt á líffræðilegum fjölbreytileika í áætluninni og að ekki hafi verið fjallað um lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og vatnaáætlun 2022-2027 í greinargerðinni;

frá Vegagerðinni sem gerði engar athugasemdir að sinni;

frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sem bendir á að koma skal á sameiginlegu hreinsivirki og rökstyðja ef því verður ekki við komið og að ef gistirými fara yfir 200 þá sé framkvæmdin mögulega tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar um matskyldu;

frá Landi og Skógi sem gerir ekki athugasemdir að sinni. Lögð er fram tillaga að skipulagsáætlunum frá Eflu dags. 27.6.2024.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir tillöguna til auglýsingar skv. 1. mgr. 31. gr. en leggur til að hún verði áður kynnt í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en af fundi sveitarstjórnar verður. Nefndin telur nægilegt að kynning vinnslutillögunnar fari fram á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem tillagan varðar ekki hagsmunaaðila utan sveitarfélagsins.

17.Tindasel. Deiliskipulag og breyting á aðalskipulagi

2402003

Eigandi Tindasels 1 og Tindasels 2 hefur fengið heimild til að leggja fram deiliskipulag af aukinni starfsemi en nú er á svæðinu. Samhliða óskar hann eftir að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til samræmis við aukin áform við ferðaþjónustu á svæðinu. Áform gera ráð fyrir móttöku allt að 200 gesta, byggingar hótels og gistiaðstöðu ásamt veitingasölu og að auki bættari aðstöðu fyrir starfsfólk og gistingu fyrir starfsfólk. Lögð er fram tillaga að skipulagsáætlunum frá Eflu dags. 23.4.2024.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir tillöguna til auglýsingar skv. 1. mgr. 31. gr. en leggur til að hún verði áður kynnt í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en af fundi sveitarstjórnar verður. Nefndin telur nægilegt að kynning vinnslutillögunnar fari fram á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem tillagan varðar ekki hagsmunaaðila utan sveitarfélagsins.

18.Jarlsstaðir. Breyting á afmörkun deiliskipulags á landbúnaðarsvæði

2404162

Landeigandi hefur lagt fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi dags. 26.3.2020. Í deiliskipulagsbreytingunni felst að mörk deiliskipulagssvæðis og lóðamörk lóða breytist. Lóðamörk lóðar 1 sem áður teygði sig til norðausturs meðfram ánni breytast. Lóðin styttist til norðausturs meðfram ánni en í staðinn stækkar lóðin til norðausturs að aðkomuvegi svæðisins. Lóðastærð er óbreytt. Lóðamörk lóðar 2 breytast lóðin minnkar úr 11.44 ha í 8.30 ha.

Mörk skipulagssvæðis breytist til samræmis við breytta lóð og nær til lóða 1 og 2.

Að öðru leyti gilda eldri deiliskipulagsskilmálar. Tillagan var auglýst frá og með 9.5.2024 til og með 20.6.2024. Umsagnir bárust frá Brunavörnum Rangárvallasýslu, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sem gerðu engar athugasemdir.
Skipulags- og umferðarnefnd telur að fram komnar umsagnir leiði ekki til breytinga á auglýstri tillögu og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

19.Gaddstaðir íbúðasvæði. Breyting á deiliskipulagi.

2406055

Erindi vísað frá Byggðaráði 26.6.2024 þess efnis að fela Skipulags- og umferðarnefnd að ræða mögulegar breytingar á aðkomuvegi inn í hverfið.
Núverandi tenging að svæðinu er til bráðabirgða. Skipulags- og umferðarnefnd telur réttast að aðkoma verði meðfram Suðurlandsvegi að sunnanverðu frá væntanlegu hringtorgi við Reykjagarð og tengist núverandi aðkomuvegi sem þar er. Nefndin leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar í aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem sýnd aðkoma verði felld út úr Aldamótaskógi í þeirri mynd sem gildandi aðalskipulag sýnir.
Að auki leggur nefndin til að vinna hefjist samhliða við breytingar á gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, þar sem uppfylltar verði áður samþykktar breytingar fyrir lóðir nr. 34 og 35 annars vegar og fyrir lóð 48 hins vegar. Jafnframt skuli breyta skipulagsmörkum við núverandi aðkomu frá Suðurlandsvegi vegna skörunar við deiliskipulag Suðurlandsvegar. Nefndin telur jafnframt ekki ástæðu til að breyta lóðamörkum lóðanna sem liggja að núverandi aðkomu, heldur skuli vera um aðkomu inn í Aldamótaskóginn áfram í sama stíl og á er á milli lóða 40 og 41.

20.Langisandur. Umsókn um framkvæmdaleyfi til lagningar á gangstétt

2406015

Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir að leggja gangstétt með Langasandi milli Dynskála og Eyjasands.

Einnig er óskað eftir því að staðsetning færist aðeins miðað við eldri hönnun sem hér er meðfylgjandi og stígurinn verði færður aðeins til austurs og liggi því á milli ljósastaura og veglínu.

Gert er ráð fyrir að gangstéttin verði 2-2,5 metrar á breidd malbikuð og þá grasreim meðfram götu svipað og er við Eyjasand að austanverðu.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við fram lagða tillögu þjónustumiðstöðvarinnar um breytingu á legu gangstéttar og leggur til að sveitarstjórn samþykki veitingu framkvæmdaleyfis þrátt fyrir að ekki sé um forgangsverkefni að ræða að mati nefndarinnar. Nefndin vill að gefnu tilefni árétta að áður en ráðist er í framkvæmdir varðandi umferðarmál skuli leggja fram framkvæmdaáætlun til nefndarinnar.
Þröstur Sigurðsson þurfti frá að hverfa vegna einkaástæðna

21.Hagabraut endurnýjun hitaveitu. Umsókn um framkvæmdaleyfi

2406048

Veitur óska eftir framkvæmdaleyfi til lagningar og endurnýjunar á hitaveitulögn frá Kaldárholti að Sörlatungu. Verkefnið snýst um að auka afkastagetu hitaveitu ásamt því að afleggja lagnir sem fara í uppnám vegna fyrirhugaðra framkvæmda Vegagerðarinnar á Hagabraut. Umsókn barst með tölvupósti 5. júní sl.
Í samræmi við lög nr. 111/2021 hefur Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra farið yfir umsókn framkvæmdaraðila um endurnýjun lagna í tengslum við styrkingu og endurbyggingu Hagabrautar. Niðurstaða nefndarinnar er að umrædd áform séu ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsnefnd leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi að teknu tilliti til 5. greinar reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

22.Hagabraut í Holtum. Tilkynning framkvæmdaaðila

2406036

Vegagerðin kynnir fyrirhugaðar framkvæmdir á rúmlega 7,4 km löngum kafla á Hagabraut (286), milli Landvegar (26) og Reiðholts í Holtum í Rangárþingi Ytra. Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar. Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn sveitarfélagsins vegna ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
Skipulags- og umferðarnefnd telur að greinilega sé brugðist við þeim áhrifum sem umrædd framkvæmd kunni að hafa á umhverfi sitt með þeim hætti að ekki verði um veruleg neikvæð áhrif að ræða. Skipulagsnefnd telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir framkvæmdinni í framlagðri greinargerð með tilkynningunni. Umhverfisáhrif hafa verið lágmörkuð með fullnægjandi mótvægisaðgerðum og vöktun. Skipulagsnefnd telur því að umrædd framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

23.Stóru-Skógar. Umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku

2406051

Hestahof ehf, eigandi Stóru-Skóga L230849 sækir um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr efnistökusvæði innan jarðanna Stóru-Skóga og Stóru-Skóga 2, efnistökusvæði nr E13 í greinargerð aðalskipulags sveitarfélagsins. Fyrirhuguð er efnistaka í samræmi við skilmála í aðalskipulagi en heimilt er að vinna allt að 50.000 m3 af efni samkvæmt aðalskipulagi. Heildar flatarmál raskaðs svæðis kemur til með að vera 2,0 ha að efnistöku lokinni og er þá heimild aðalskipulagsins fullnýtt. Samkvæmt landeigendum er búið að taka um 20.000 m³ af efni nú þegar á 1,2 ha svæði, sem skiptist þannig að 1/4 er úr Stóru-Skógum og 3/4 úr Stóru-Skógum 2. Unnið er að frágangi á svæðinu innan Stóru-Skóga. Samþykki eiganda Stóru-Skóga 2 liggur fyrir.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem gert er ráð fyrir umræddri framkvæmd.

24.Ljósleiðari frá Búrfellsstöð að Hvammsvirkjun. Ósk um framkvæmdaleyfi.

2404158

Orkufjarskipti hf óskar eftir framkvæmdaleyfi til lagningar á ljósleiðara og rafstreng frá Búrfellsstöð að væntanlegri Hvammsvirkjun. Lögnin er ca. 18,5 km löng og er í samræmi við sýnda lagnaleið í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Rafstrengur og 20 mm rör fyrir ljósleiðara verður plægt í jörðu, nema á nokkrum stöðum þar sem jarðvegur er grófur, þar verður grafið. 5-6 tengibrunnar verða aðgengilegir á leiðinni til viðhalds og eftirlits. Í kynningu framkvæmdarinnar í Skipulagsgátt, en kynning stóð frá og með 15.5.2024 til og með 12.6.2024, bárust umsagnir frá alls 6 umsagnaraðilum. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu Mílu, Forsætisráðuneytis eða Landi og Skógi. Athugasemd barst frá Landvernd þar sem Landvernd telur ekki tímabært að gefa út framkvæmdaleyfið fyrr en úrskurður liggur fyrir hvort virkjunin sjálf verði að veruleika. Landsnet vekur athygli á að fyrirhuguð strengleið liggur nærri Hvolsvallarlínu 1 við Búrfellsvirkjun, þverar Búrfellslínu 2 og fylgir þaðan Búrfellslínum 1 og 3 að Hvammsvirkjun og gæti því haft áhrif á skilyrði gagnvart helgunarsvæði línanna. Umhverfisstofnun vekur athygli á að þar sem strengleiðin mun liggja yfir Þjórsá þurfi að vinna áhrifamat í samræmi við lög um stjórn vatnamála og leggur jafnframt áherslu á að mikilvægt sé að plægt verði í laus jarðlög í hrauni sem nýtur verndar.
Skipulags- og umferðarnefnd hefur fjallað um ábendingar og athugasemdir umsagnaraðila sem fram komu við grenndarkynningu málsins í Skipulagsgátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir enda eru þær í fullu samræmi við aðalskipulag Rangárþings ytra 2016-2028. Nefndin leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi þar sem tekið verði tillit til ábendinga umsagnaraðila um frágang og mótvægisaðgerðir.

25.Flokkun landbúnaðarlands

2209079

Samkvæmt breytingum á jarðalögum frá árinu 2021 er gert ráð fyrir að sveitarstjórn taki ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun. Við gerð aðalskipulags í dreifbýli skal land flokkað með tilliti til ræktunarmöguleika. Lögð er fram greinargerð frá Eflu dags. 29.2.2024 þar sem farið er yfir hvernig unnið er að flokkun landbúnaðarlands.
Skipulags- og umferðarnefnd hefur fjallað um áherslur sem fram hafa verið lagðar í greinargerð frá Eflu dags. 29.2.2024. Nefndin telur að vegna umfangs málsins sé rétt að haldnir verði sérfundir um málið án tengsla við hefðbundna fundi Skipulags- og umferðarnefndar. Nefndin telur réttast að bíða fram yfir sumarfrí úr þessu.

26.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 115

2405017F

Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 115
Lagt fram til kynningar
Fylgiskjöl:

27.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 116

2406003F

Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 116
Lagt fram til kynningar.
Fylgiskjöl:

Fundi slitið - kl. 11:15.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?