1.Álfasteinn. Fyrirspurn um tímabundna notkun
2409046
Barna- og fjölskyldustofa óskar eftir heimild sveitarstjórnar til nýtingar á Álfasteini, Þjóðólfshaga 25, til tímabundinnar starfsemi fyrir vistun unglinga.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við umsóknina og veitir henni almennt jákvæða umsögn, en telur mikilvægt að gott samráð sé haft við lóðarhafa í íbúðabyggðinni áður en lengra er haldið. Nefndin mælir með því við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að kynna málið fyrir öllum lóðarhöfum í íbúðabyggðinni, samhliða og í samráði með umsækjanda þar sem ekki liggur ljóst fyrir að rekstur meðferðarheimilis falli ágreiningslaust undir skilmála um starfsemi innan íbúðabyggðar í dreifbýli.
2.Vaðölduver. Framkvæmdaleyfi vegna vindorkuvers við Vaðöldu
2408050
Landsvirkjun óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við vindorkuverið við Vaðöldu. Við hverja vindmyllu þarf að útbúa vinnuplan sem er allt að 1.500 m2 á stærð, sem eftir stendur yfir rekstrartíma vindorkuversins, auk tímabundins athafnasvæðis sem er frágengið í lok framkvæmdar. Aðkoman inn á svæðið verður á tveimur stöðum, annarsvegar frá Þjórsárdalsvegi og hinsvegar frá Sprengisandsleið. Leggja þarf vegi innan framkvæmdasvæðis að hverri einstakri vindmyllu, alls um 23 km að lengd. Vegir eru 5 m breiðir að meðtöldum öxlum og með mætiútskotum á 500 m fresti. Almennt verða rafstrengir lagðir meðfram vegum frá vindmyllum að safnstöð vindorkuversins sem þarf að byggja fyrir rofa-, raf- og stjórnbúnað vindorkuversins. Auk þess verður geymslurými og kaffi- og hreinlætisaðstaða í húsnæðinu. Við hlið safnstöðvar er gert ráð fyrir nýju tengivirki Landsnets við Ferjufit. Gert er ráð fyrir að reisa tímabundnar vinnubúðir með matsal, skrifstofu og hreinlætisaðstöðu ásamt geymslusvæði og steypustöð á framkvæmdartíma. Einnig er gert ráð fyrir að útbúa bílastæði og gönguleið innan svæðisins fyrir almenning ásamt áningarstað á toppi Vaðöldu með útsýnispalli.
Skipulags- og umferðarnefnd hefur yfirfarið umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Framkvæmdin er í almennu samræmi við það skipulag sem samþykkt hefur verið innan sveitarfélagsins hvað þessi mál varðar en ennþá skortir svör frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu svo að hægt sé að meta hagræn áhrif vindorkuversins fyrir sveitarfélagið Rangárþing ytra í samræmi við vindorkustefnu sveitarfélagsins. Nefndin leggur til að sveitarstjórn leiti fastlega eftir svörum frá ráðuneytinu. Nefndin vill árétta að á síðari stigum þarf að sækja um frekari leyfi vegna uppbyggingar vindorkuversins, þ.á.m. efnistöku, gerð áningarstaðar og byggingar vindmylla, vinnubúða og tengivirkis.
3.Þrúðvangur. Hugmyndir að uppbyggingu gangstéttar
2409029
Unnið að hugmyndum að uppbyggingu gangstéttar frá byrjun Þrúðvangs að sunnanverðu og að Guðrúnartúni í norðri.
Skipulags- og umferðarnefnd telur réttast og leggur til að gangstétt í norður frá Þingskálum verði breikkuð og bílastæði við Þrúðvang 8 og 10 verði þar með lögð af ef ekki er hægt að samræma gangstéttina við leikskólalóðina. Gangstétt verði breikkuð eins og unnt er alveg að Þrúðvangi 32. Snúningsstæði fyrir framan Þrúðvang 32 verði afnumið og svæðið fellt innan lóðar Þrúðvangs 32. Verði skoðað í ferli hverfisskipulagsins fyrir svæðið. Þegar komið er fram yfir lóð 38 við Þrúðvang skal gangstétt vera gerð meðfram Þrúðvangi að Helluvaðsvegi, áfram til norðurs og að Guðrúnartúni. Frá Þrúðvangi og með Helluvaðsvegi að göngustíg við Hólavang.
Öll lóðamörk tengd gangstéttinni verði aðlöguð þar sem þau verði ekki látin ná inná gangstéttina eins og nú er á nokkrum stöðum.
Öll lóðamörk tengd gangstéttinni verði aðlöguð þar sem þau verði ekki látin ná inná gangstéttina eins og nú er á nokkrum stöðum.
4.Sigöldunáma E73. Umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku.
2409038
Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi til efnistöku allt að 3000 m³ úr efnistökusvæðinu E73 við Sigöldu. Um er að ræða efni til ofaníburðar og endurbóta á veginum inn að Landmannalaugum yfir Sigölduhraun.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem gert er ráð fyrir umræddri framkvæmd.
5.Tungnaáreyrar. Umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr E70
2409050
Landsvirkjun óskar eftir framkvæmdaleyfi til efnistöku á allt að 50.000 m³ á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum. Fyrirhuguð efnistaka er ætluð til framkvæmda við vindorkuverið við Vaðöldu.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimild verði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimilda innan aðalskipulags Rangárþings ytra þar sem gert er ráð fyrir umræddri framkvæmd.
Fundi slitið - kl. 10:00.