125. fundur 12. mars 2018 kl. 09:00 - 12:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Þorgils Torfi Jónsson
  • Haraldur Eiríksson
  • Yngvi Karl Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
  • Hulda Karlsdóttir
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Þjóðólfshagi 1 lóð 2 landskipti.

1802049

Hestahof, eigandi spildunnar Þjóðólfshagi 1 lóð 2, landnr. 222499 óskar eftir samþykkt sveitarstjórnar á landskiptum úr jörð sinni. Deiliskipulag liggur fyrir af umræddu svæði. Skipt verður út þremur spildum, Spildu 1, landnr. 226584, stærð 11,68 ha, spildu 2, landnr. 226585, stærð 4,73 ha og spildu 3, landnr. 226586, stærð 7,94 ha. Stærð Þjóðólfshaga 1 lóðar 2 er 50,3 ha en verður 25,95 ha eftir skiptin. Lóðirnar fá nöfnin Grenjar 1, Grenjar 2 og Grenjar 3 eftir stofnun lóðanna.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né hugmyndir um nafngiftir.

2.Efra-Sel 3C. Umsókn um breyting á landnotkun í aðalskipulagi

1802033

Eigendur landspildunnar Efra-Sel 3C óska eftir heimild til að hefja gerð deiliskipulags fyrir spildu sína. Jafnframt er óskað eftir að gerðar verði breytingar á landnotkun, þar sem núverandi landbúnaðarsvæði verði breytt í frístundasvæði í aðalskipulagi.
Skipulagsnefnd samþykkir að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi. Skipulagsfulltrúa verði falið að bæta viðkomandi erindi í vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, sem nú stendur yfir.

3.Hólar, deiliskipulag.

1706007

Haraldur Gísli Kristjánsson hefur lagt fram deiliskipulag fyrir lóð úr landi Hóla undir íbúðarhús og skemmu. Tillagan hefur verið auglýst. Athugasemd barst frá Skipulagsstofnun um að sækja hefði þurft um undanþágu frá ákvæði í skipulagsreglugerð vegna fjarlægðar frá Þingskálavegi. Beiðni um undanþágu hefur verið send til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Ráðuneytið kallar eftir umfjöllun sveitarstjórnar um umrædda undanþágu. Umsögn Skipulagsstofnunar liggur fyrir þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við veitingu undanþágu.
Skipulagsnefnd samþykkir að kallað verði eftir undanþágu vegna byggingar íbúðarhúss á umræddum stað skv. framlagðri tillögu að deiliskipulagi. Umrædd staðsetning íbúðarhússins var valin með tilliti til nálægðar við núverandi húsakost býlisins og aðkomu og ekki er verið að raska ræktuðu landi. Þá hefur byggingarfulltrúi þegar veitt heimild til gerðar sökkuls innan lóðarinnar.

4.Efra-Sel 3E. Kæra 18/2018 vegna ákvörðunar sveitarstjórnar

1802023

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendir afrit kæru dags. 9. febrúar ásamt fylgiskjölum, móttekin af nefndinni s.d., vegna afgreiðslu sveitarfélagsins Rangárþing ytra, á deiliskipulagstillögu að aðliggjandi landi Fögruhlíð, áður Efra-Sel 3E.
Lagt fram til kynningar. Skipulagsfulltrúi hefur þegar tekið saman og skilað nauðsynlegum gögnum málsins til Úrskurðarnefndar þar sem áskilinn er réttur til frekari greinargerðar á síðari stigum ef þörf er á.

5.Efra-Sel 3E. Kæra 19/2018 vegna ákvörðunar sveitarstjórnar

1802038

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendir afrit kæru dags. 7. febrúar ásamt fylgiskjölum, móttekin af nefndinni 9. febrúar, kærð er framkvæmd um lögbýli innar um frístundabyggð í landi Efra-Sels, Rangárþing ytra.
Lagt fram til kynningar. Skipulagsfulltrúi hefur þegar tekið saman og skilað nauðsynlegum gögnum málsins til Úrskurðarnefndar þar sem áskilinn er réttur til frekari greinargerðar á síðari stigum ef þörf er á.

6.Rangárbakki 2. Kæra vegna ákvörðunar sveitarstjórnar

1802018

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi afrit kæru dags. 7. febrúar sl. ásamt fylgiskjölum, móttekin af nefndinni s.d., vegna ákvörðunar Rangárþings ytra um að hafna beiðni kæranda um leyfi til að setja niður smáhýsi sem nýtast sem gistihús á lóð félagsins að Rangárbakka 2, Rangárþingi ytra. Farið var fram á rökstuðning að baki ákvörðunar sveitarstjórnar. Skipulagsfulltrúi kallaði eftir fresti til að setja saman rökstuðning og var hann veittur til 15. mars nk.
Skipulagsnefndin leggur fram eftirfarandi rökstuðning:

Í gildandi aðalskipulagi 2010-2022 segir um verslunar- og þjónustusvæði á Hellu að gera skuli fyrst og fremst ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, m.a. ferðaþjónustu. Á tiltekinni lóð sem um ræðir, Rangárbakka 2 segir í greinargerð: "Á þessum reit er blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu." Ekki er minnst á frekari uppbyggingu smáhýsa á lóðinni.

Í kæru umsækjanda kemur fram að um sambærileg áform séu að ræða og á lóð nr. 8 við sömu götu, en þar er rekin ferðaþjónusta, m.a. í sambærilegum smáhýsum ásamt tengingu við tjaldsvæði. Síðasta smáhýsi sem byggt var á þeirri lóð var um 1993 fyrir utan tvö hús sem byggð voru 2010. Uppbygging lóðanna núna er allt önnur en lagt var upp með 1993. Áform umsækjanda fela í sér miklar breytingar á nýtingu lóðar nr. 2 sem er einungis með eitt verslunarhús. Stærð lóðarinnar er heldur ekki nema um 3500 m2. Nefndin telur því að uppbygging með smáhýsum á lóð 2 geti ekki talist sambærileg og núverandi aðstæður á lóð nr. 8.

Stefna sú sem sett er fram í endurskoðun aðalskipulagsins, sem nú er í vinnslu, tekur einmitt mið af breyttri stefnu m.a. að teknu tilliti til ferðaþjónustu. Í tillögu að breyttu aðalskipulagi 2016-2028 er umræddu svæði fyrir lóðir 2 og 4 við Rangárbakka breytt úr verslunar- og þjónustusvæði yfir í miðsvæði. Ef breyting er samþykkt mun það hafa áhrif á umhverfi og yfirbragð byggðar á svæðinu, þar á meðal á ásýnd þéttbýlisins varðandi aðkomu úr vestri. Það er álit nefndarinnar að uppbygging fjölda smáhýsa til útleigu gistinga færi betur við jaðar heldur en innan væntanlegs miðsvæðis.

Í skipulagsreglugerð segir um Miðsvæði: "svæði fyrir verslunar- og þjónustu­starfs­emi og stjórnsýslu sem þjónar heilu land­svæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem versl­­­anir, skrif­stofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hrein­­­leg atvinn­u­starfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starf­semi miðsvæðis". Það er álit nefndarinnar að yfirbragð smáhýsabyggðar á tiltekinni lóð samræmist ekki skilgreiningu fyrir miðsvæði.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið dags. 20.3.2013 segir um næstu lóð, Rangárbakka 4, við hlið umræddrar lóðar að lóðin sé fyrir Gistihús/hótel á 1-2 hæðum og að mænishæð sé heimil allt að 12 metrar. Nefndin telur augljóst að frekari uppbygging á lóð 2 skuli frekar eiga að fylgja slíkri stefnu heldur en að miða skuli við fjölda smáhýsa.


7.Vindmyllur í Þykkvabæ. Breyting á deiliskipulagi

1710041

Sveitarstjórn tók ákvörðun, á fundi hennar dags. 14.2.2018, um að vísa málinu aftur til umfjöllunar í Skipulags- og umferðarnefnd ásamt þeim gögnum og ábendingum sem borist hafa frá því að málið var afgreitt frá nefndinni.
Skipulagsnefnd telur að þær upplýsingar sem komið hafa fram frá síðasta fundi nefndarinnar séu ekki þess eðlis að breyta niðurstöðu hennar og leggur til að sveitarstjórn staðfesti fyrri afgreiðslu nefndarinnar. Nefndin leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að svara bréfi umsækjanda.

8.Landmannalaugar, Mat á umhverfisáhrifum.

1705027

Þann 24. apríl 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Rangárþingi ytra um fyrirhugaða uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka laganna. Fyrir liggur niðurstaða stofnunarinnar þar sem þjónustumiðstöð í Landmannalaugum geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skuli framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.
Skipulagsnefnd leggur til að unað verði við niðurstöðu Skipulagsstofnunar og leggur til að ráðgjöfum verði falið að hefja vinnu við matsáætlun.

9.Landmannalaugar, deiliskipulag

1310038

Rangárþing ytra sendi með erindi dags. 2.5.2017, Skipulagsstofnun tillögu að deiliskipulagi fyrir landmannalaugar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun yfirfór tillögu að deiliskipulaginu ásamt tilkynningu skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nú liggur fyrir sú ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 16.2.2018, að þjónustumiðstöð í Landmannalaugum skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Vegna ofangreindrar stöðu telur Skipulagsstofnun að ástæða sé til að falla frá gildistöku deiliskipulagsins, nema settir verði inn í það fyrirvarar um að uppbyggingaráform geti breyst í ljósi nýrra áherslna í umhverfismati framkvæmdanna.
Skipulagsfulltrúi hefur þegar birt auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda og deiliskipulag fyrir Landmannalaugar því tekið lögformlegt gildi. Settir voru eftirfarandi fyrirvarar í greinargerð:
Kafli 1: Fyrirvari er gerður við deiliskipulagið að uppbyggingaráform geta breyst vegna upplýsinga sem fram koma í umhverfismati framkvæmdanna og framkvæmdir eru að hluta háðar því að undanþága fáist frá ákvæðum skipulagsreglugerðar um fjarlægðir mannvirkja frá ám og vötnum.
Bætt var við í kafla 2.2.: Þegar gistingu verður hætt í FÍ skála þá verður ekki lengur heimilt að hafa göngutjöld við skálann en skálinn verður nýttur undir þjónustu svo sem safn eða gestastofa.

10.Hvammsvirkjun, Mat á umhverfisáhrifum

1705060

Fimm aðilar kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar um að endurskoða einungis tvo umhverfisþætti af tólf. Einn (Sól á Suðurlandi) dró kæru sína til baka. Úrskurðarnefndin vísaði einni kæru frá (NASF) og hafnaði kröfu þriggja kærenda (Veiðifélag Þjórsár, Jón Árni Vignisson Skálmholti, Náttúruverndarsamtök Íslands).
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur nú fyrir og er meðfylgjandi.
Lagt fram til kynningar.

11.Reiðleiðir í Rangárþingi ytra. Erindi frá hmf geysi

1802048

Kristín, Marteinn og Þröstur frá Hestamannafélaginu Geysi leggja fram 2 tillögur að breytingum á reiðleiðum. Fyrri tillagan tekur á að færa reiðleið frá Suðurlandsvegi: Þjórsártún - Ásvegur - Vetleifsholt - Gaddstaðaflatir. Seinni tillagan snýr að rekstrarleið neðan við byggð í Þykkvabæ, í svokallaðri Gljá.
Lagt fram til kynningar.

12.Vestmannaeyjabær, beiðni um umsögn vegna aðalskipulags

1705057

Skipulagsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar óskar eftir umsögn Rangárþings ytra um auglýsta tillögu að nýju aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Óskað er eftir að umsögn Rangárþings ytra berist eigi síðar en 11.4.2018.
Skipulagsnefnd telur að það eigi ekki við að Rangárþing ytra sé umsagnaraðili.

13.Ægissíða 1, lóð 4 deiliskipulag

1705018

Eigendur lóðarinnar Ægissíða 1, lóð 4 hafa lagt fram tillögu að deiliskipulagi fyrir lóð sína. Gert er ráð fyrir byggingu allt að 150 m² íbúðarhúss ásamt gestahúsi allt að 50 m². Undanþága frá d-lið gr. 5.3.2.5. liggur fyrir frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti vegna fjarlægðar frá byggingareit að Árbæjarvegi.
Skipulagsnefnd telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

14.Lundur og Nes. deiliskipulag

1602048

Rangárþing ytra og stjórn Lundar dvalarheimilis hafa samþykkt að deiliskipulag við Lund og Nes verði tekið til meðferðar að nýju.
Skipulagsnefnd frestar erindinu til næsta fundar.

15.Nes-Útivistarsvæði. Deiliskipulag

1710028

Rangárþing ytra hefur samþykkt að gera deiliskipulag af útivistarsvæðinu meðfram Ytri-Rangá við Nes.
Skipulagsnefnd frestar erindinu til næsta fundar.
Fylgiskjöl:

16.Villiskjól. Deiliskipulag

1802039

Eigendur lóðarinnar Villiskjóls úr landi Árbæjarhellis 2 óska eftir heimild til að leggja fram deiliskipulag af lóð sinni. Gert verði ráð fyrir byggingareitum fyrir íbúðarhús, gestahús og skemmu.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá lýsingu þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

17.Hungurfit. Umsókn um breytingu á deiliskipulagi

1803003

Guðmundur Árnason fyrir hönd Fitjamanna óskar eftir heimild til að breyta gildandi deiliskipulagi dags. 26.9.2013 m.br. dags. 4.9.2015 þar sem gert verði ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóð Þ3. Gert verði ráð fyrir byggingu 75 m2 fjallaskála í stað 20 m2 skv. núgildandi skipulagi.
Skipulagsnefnd leggur til að veitt verði heimild til breytingar á gildandi deiliskipulagi. Nefndin telur að um óverulega breytingu sé að ræða þar sem breytingin víkur að engu leyti frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.
Nefndin leggur því til að farið verði um málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en tillagan skuli jafnframt grenndarkynnt öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.

18.Laugaland í Holtum, Borun heitavatnsholu að Laugalandi í Holtum

1705013

Veitur ohf óska eftir endurnýjun á framkvæmdaleyfi til virkjunar á nýrri heitavatnsholu, LL-06, á borplani sínu við Laugaland í Holtum skv. fram lögðum gögnum. Reiknað er með að framkvæmdartími verði frá 23.4.2018 til og með 1.9.2018.
Skipulagsnefnd samþykkir erindið og felur byggingarfulltrúa að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi á grunni þess eldra.

19.Landvernd. Virkjun vindorku á Íslandi

1803005

Nýtt stefnumótunar- og leiðbeiningarit frá Landvernd um virkjun vindorku á Íslandi.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?