11. fundur 03. apríl 2023 kl. 08:30 - 10:30 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Gunnar Aron Ólason formaður
  • Þórunn Dís Þórunnardóttir aðalmaður
  • Þröstur Sigurðsson aðalmaður
  • Svavar L. Torfason aðalmaður
  • Brynhildur Sighvatsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Haraldur Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Þjóðólfshagi 1. landskipti lóð 13.

2302157

Landeigandi óskar eftir að fá að skipta úr jörð sinni, svæði sem tileinkað var lóð nr. 13 í gildandi deiliskipulagi, en hefur aldrei verið stofnað. Lóðin er 9091,0 m² að stærð og fengi landeignanúmerið L235491 og heitið Þjóðólfshagi 13. Jörðin Þjóðólfshagi 1, L165164 minnkar sem nemur nýrri lóð og verður 179,6 ha í samræmi við uppdrátt frá Landnotum dags. 24.1.2023.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti og leggur til að þau verði samþykkt. Lóðin verði hluti af íbúðarsvæði í samræmi við fyrri samþykktir.

2.Meiri-Tunga 1. Landskipti

2303092

Eigendur Meiri-Tungu 1, L165129 óska eftir að fá að skipta úr jörð sinni tveimur spildum. Jörðin er skráð með 0-stærð í Þjóðskrá en samkvæmt uppdráttum virðist hún vera um 160 ha að stærð. Fyrri spildan yrði 40,2 ha, fengi heitið Meiri-Tunga 1A og landeignanúmerið Lxxxxxx. Seinni spildan yrði 98,6 ha að stærð, fengið heitið Meiri-Tunga 1B og landeignanúmerið Lxxxxxx. Meiri-Tunga 1, L165129, yrði um 19,1 ha að stærð eftir skiptin og er í samræmi við uppdrætti frá Landnotum dags. 25.11.2022.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti né fyrirhuguð heiti á lóðum og leggur til að þau verði samþykkt. Lóðirnar verði áfram í landbúnaðarnotum að ósk eigenda.
Sveinn Runólfsson, Ólafur K. Níelsen og Sigurður H. Magnússon, fulltrúar félagsins, kynna áherslur félagsins.

3.Áform umráðamanna lands um skógrækt og ábyrgð þeirra

2302132

Fulltrúar félagasamtakanna Vinir Íslenskrar náttúru segja frá hlutverki félagsins og áherslum við skipulag skógræktarsvæða.
Skipulags- og umferðarnefnd þakkar fyrir fróðlegar og gagnlegar umræður um áherslur í skipulagi skógræktar.
Fulltrúum félagsins þökkuð góð yfirferð.

4.Þjóðlendur. Yfirferð með fulltrúum Forsætisráðuneytis

2303072

Forsætisráðuneytið hyggst halda fund mánudaginn 22. maí nk. kl. 13:00 í Litla-sal, Hvoli á Hvolsvelli. Efni fundarins eru málefni þjóðlendna.
Yfirleitt hefur ráðuneytið farið í fundarferð um landið og fundað með sveitarstjórnum (sem eru með þjóðlendur innan sinna marka) á hverju vori. Síðustu ár hafa þó verið nokkuð skrýtin, covid 2020 og 2021 og svo voru sveitarstjórnarkosningar 2022. Ráðuneytið hefur því ekki farið í þessa árlegu fundarferð sína síðan 2019. Ætlunin er að taka þessar fundarferðir aftur upp. Ætlunin er að byrja á Suðurlandi og fikra okkur svo áfram hringinn í kring um landið
Fyrirhugað er að bjóða forsvarsmönnum fjallskilanefnda með á fundinn.
Lagt fram til kynningar.

5.Langisandur Eyjasandur. Beiðni um uppsetningu hraðahindrunar.

2303085

Páll Jóhannsson íbúi á horni Langasands og Eyjasands óskar eftir að sett verði upp hraðahrindrun á Langasand á mótum umræddra gatna.
Skipulags- og umferðarnefnd þakkar ábendinguna og leggur til að gerð verði tillaga að hraðahindrun á umræddum stað.

6.Skipulags- og umferðarnefnd. Breyting á fundartíma maífundar

2303088

Skipulags- og byggingarfulltrúi óskar eftir af persónulegum ástæðum að næsti fundur nefndarinnar sem áformaður er þann 4. maí nk og er í samræmi við útgefna fundaráætlun verði færður til föstudagsins 28. apríl.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til að fundartíma verði breytt og að næsti fundur verði þann 28. apríl nk. klukkan 8.30

7.Staða byggingarleyfismála

1810046

Staða byggingarleyfismála í marsmánuði kynnt
Lagt fram til kynningar.
Fylgiskjöl:

8.Landsvirkjun. Umsókn um framkvæmdaleyfi til leitar á heitu og köldu vatni

2303044

Landsvirkjun óskar eftir framkvæmdaleyfi til leitar á heitu og köldu vatni í landi Hvamms.
Í samræmi við lög nr. 111/2021 hefur Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra farið yfir umsókn framkvæmdaraðila um tilraunaboranir eftir heitu og köldu vatni í landi Hvamms. Niðurstaða nefndarinnar er að umrædd áform séu ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsnefnd leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi að teknu tilliti til 5. greinar reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að undangenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar.

9.Rimakotslína 2. Umsókn um framkvæmdaleyfi

2303080

Landsnet áformar að leggja 132 kV jarðstreng, Rimakotslínu 2 (RI2), milli tengivirkis Landsnets við Hellu og tengivirkis Landsnets í Rimakoti. Óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu jarðstrengja fyrir Rimakotslínu 2 í samræmi við meðfylgjandi framkvæmdalýsingu og yfirlitskort frá Mannvit dags. 20.3.2023.
Í samræmi við lög nr. 111/2021 hefur Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra farið yfir umsókn framkvæmdaraðila um lagningu jarðstrengs fyrir Rimakotslínu 2 frá tengivirki við Hellu að tengivirki í Rimakoti. Niðurstaða nefndarinnar er að umrædd áform séu ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsnefnd leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi að teknu tilliti til 5. greinar reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

10.Viðhald á hestagerði Landmannalaugum

2303096

Sverrir G. Kristinsson umsjónarmaður hestagerðis í Landmannalaugum óskar eftir leyfi til að bera efni í gerðið í vor, strax og aðstæður leyfa þar sem núverandi ástand er alls óviðunandi. Efnið sem væri æskilegast að nota er vikur úr efnisnámum við Tjörvafell.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemdir við viðhald á hestagerði í Landmannalaugum að svo stöddu, þrátt fyrir að væntanleg staðsetning umrædds gerðis sé víkjandi í samræmi við gildandi deiliskipulag. Efnistaka á svæðinu kallar á veitingu framkvæmdaleyfis þar sem um er að ræða verndarsvæði og þarf heimild Umhverfisstofnunar að liggja fyrir ef af veitingu þess verður. Nefndin vill árétta að staðsetning efnistöku verði í grennd við E84 og gæta skuli þess að frágangur eftir efnistöku verði í líkingu við núverandi ástand svæðisins eins og unnt er.

11.Gaddstaðir land (Gaddstaðaey) L196655. Heimild til skipulags

2303048

Eigandi Gaddstaðaeyjar leggur fram fyrirspurn um heimildir til skipulags. Um er að ræða byggingu brúar út í eyjuna sem þolir bílaumferð og umferð gangandi fólks. Áform eru um að skipuleggja eyjuna til íbúðahúsabyggðar (fastrar búsetu) og fyrir verslun og þjónustu. Að auki verði eyjan skipulögð til útivistar með lagningu göngustíga og fl.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til að umsækjanda verði veitt heimild til skipulagsgerðar í eyjunni á sinn kostnað en telur brýnt að taka verði tillit til annarra skipulagsáforma í nærumhverfinu við gerð tillögunnar. Nefndin vill einnig árétta að aðkoma að eyjunni megi ekki hindra eðlilega umferð almennings meðfram árbakka Ytri-Rangár.

12.Svínhagi L7C. Deiliskipulag

2303029

Landeigandi óskar heimildar til að leggja fram tillögu að deiliskipulagi fyrir spildu sína, Svínhagi L7C, L222402. Á svæðinu verði gert ráð fyrir byggingu frístundahúss, vinnustofuhúss, bílgeymslu og gróðurhúss ásamt 2-3 gestahúsum. Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og leggur til að fallið verði frá kynningu lýsingar þar sem skipulagsáætlun samræmist stefnu aðalskipulagsins. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

13.Ægissíða 1, L165446. Deiliskipulag ferðaþjónustu

2303093

Andri Guðmundsson og Árni Freyr Magnússon í fullu umboði landeiganda óska eftir að fá að leggja fram deiliskipulag af hluta jarðarinnar Ægissíða 1, L165446. Tillagan tekur til uppbyggingar á ferðaþjónustu þar sem gert er ráð fyrir 12 plastkúlum, þjónustuhúsi og bílastæði. Gögn frá Landmótun dags. 22.3.2023.
Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar. Nefndin telur þó að gera þurfi breytingar á landnotkun svæðisins í aðalskipulagi þar sem það yrði gert að Verslunar- og þjónustusvæði í stað landbúnaðar. Skipulagsnefnd samþykkir jafnframt framlagða tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

14.Haukadalur breyting á gildandi deiliskipulagi

2304001

Eigendur F-lóða í landi Haukadals ásamt Stóragili óska eftir að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi dags. 19.2.2009 þar sem byggingarmagn er aukið. Engar aðrar breytingar verða.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til að farið verði um málsmeðferð eins og um óverulega breytingu sé að ræða. Breytingin hefur engin áhrif á aðra en lóðarhafa sjálfan. Nefndin telur ekki ástæðu til grenndarkynnningar vegna þessa og leggur til að breytingin verði send til Skipulagsstofnunar til varðveislu og birt í B-deild stjórnartíðinda til gildistöku.

15.Hald á Holtamannaafrétti. Deiliskipulag fjallasels

2303056

Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita fyrir hönd Ásahrepps óska eftir umsögn vegna tillögu að deiliskipulagi fyrir Hald á Holtamannaafrétti. Um er að ræða fjallasel þar sem í tillögunni er staðfest núverandi landnotkun, auk þess að gera ráð fyrir byggingu tveggja nýrra skála. Skipulagsgögn frá Eflu dags. 14.11.2022.
Skipulags- og umferðarnefnd gerir engar athugasemdir við fram lagða tillögu.

16.Grænir iðngarðar - deiliskipulag

2211072

Rangárþing ytra hefur ákveðið að hefja vinnu við skipulag grænna iðngarða á skilgreindu iðnaðarsvæði I1. Aðkoma að svæðinu er af Kirkjubæjarvegi nr. 2704. Sveitarfélagið hyggst byggja upp Grænan iðngarð á svæðinu og skipuleggja lóðir og mannvirki undir hverskonar starfsemi sem fellur að hringrásarhugsun grænna iðngarða. Sem miðar að því að ólík fyrirtæki hefja starfsemi á skipulögðu svæði og nýta ólíka efna- og orkustrauma sem verða til í sambúð þeirra. Sérstaklega verður hugað að yfirbragði byggðar í sátt við umhverfi og náttúru. Norðan svæðis er móttöku og flokkunarstöð að Strönd, sem eftir atvikum geti tengst starfsemi grænna iðngarða. Lýsing hefur verið kynnt og lögð er fram tillaga frá Eflu dags. 24.3.2023.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

17.Þjóðólfshagi. Ósk um breytingu á landnotkun í aðalskipulagi.

2203008

Eigendur lóða innan núverandi sumarhúsasvæðis í Þjóðólfshaga hafa óskað eftir eða ekki gert athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórnar um að landnotkun lóðanna verði breytt úr frístundanotkun í íbúðarbyggð þar sem áform eru uppi um skráningu lögheimilis á svæðinu. Landnotkun nokkurra lóða hefur þegar verið breytt í íbúðarnotkun. Lögð er fram lýsing skipulagsáforma frá Eflu dags. 23.3.2023.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi lýsingu og leggur til að hún verði send til umsagnar og kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

18.Svínhagi L7A. Deiliskipulag

2211046

Landeigandi hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi af lóð sinni, Svínhaga L7A. Gert er ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu með byggingu allt að 8 gistiskála auk aðkomuvega og bílastæða. Tillagan var kynnt frá og með 15.2.2023 til og með 29.3.2023. Athugasemdir bárust frá umsagnaraðilum og nærliggjandi lóðarhafa. Lögð er fram uppfærð tillaga að deiliskipulagi frá Landmótun dags. 29.3.2023.
Skipulags- og umferðarnefnd hefur fjallað um fram komnar athugasemdir og ábendingar. Nefndin telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

19.Stokkalækur 1b lóð 1 (Kirkjuhóll). Deiliskipulag

2301075

Ingveldur Sæmundsdóttir eigendi að Stokkalæk 1b lóð 1 hefur lagt fram tillögu að deiliskipulagi af svæðinu. Um er að ræða u.þ.b. 4,4 ha lóð þar sem afmarka á byggingareiti fyrir íbúðarhús, bílskúr og skemmu, hesthús og gestahús. Jafnframt er óskað eftir að heiti lóðarinnar verði breytt í Kirkjuhól. Tillaga var auglýst frá og með 15.2.2023 til og með 29.3.2023. Athugasemdir bárust frá umsagnaraðilum.
Skipulags- og umferðarnefnd hefur fjallað um fram komnar athugasemdir og ábendingar. Nefndin telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

20.Gaddstaðir 20. Breyting á deiliskipulagi

2303097

Eigandi lóða nr, 20, 21 og 22 við Gaddstaði hefur fengið heimild til að leggja fram deiliskipulag af breytingum á lóðamörkum lóða sinna. Lögð er fram tillaga að breytingu frá Eflu dags. 31.3.2023.
Skipulags- og umferðarnefnd leggur til að farið verði um málsmeðferð eins og um óverulega breytingu sé að ræða. Breytingin hefur engin áhrif á aðra en lóðarhafa sjálfan. Nefndin telur ekki ástæðu til grenndarkynnningar vegna þessa og leggur til að breytingin verði send til Skipulagsstofnunar til varðveislu og birt í B-deild stjórnartíðinda til gildistöku.

Fundi slitið - kl. 10:30.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?