2. fundur 15. mars 2023 kl. 15:00 - 16:00 að Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Magnús H. Jóhannsson formaður
  • Fjóla Kristín B. Blandon aðalmaður
  • Guðbjörg Erlingsdóttir aðalmaður
  • Gústav Magnús Ásbjörnsson aðalmaður
  • Roman Jarymowicz varamaður
Starfsmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Starfsmaður nefndarinnar

1.Umhverfisstefna Rangárþings ytra

1903041

Lögð eru fram drög að umhverfisstefnu Rangárþings ytra til yfirferðar.
Unnið var í sameiginlegu skjali um umhverfisstefnu sem nefndin hefur öll skrifaðgang að. Þar koma fram helstu þættir umhverfisstefnu og hugmyndir að tímasettum áætlunum o.þ.h. Sem grunn leggur umhverfisnefnd til að umhverfisstefna verði hin "allt-um-lykjandi" stefna og undir hana falli stefna um aukna fræðslu í umhverfismálum, auðlindastefna og loftslagsstefna. Sú síðast nefnda er lögboðin og hefur SASS hafið undirbúning að því að veita sveitarfélögum á Suðurlandi aðstoð við gerð hennar.

Rætt var almennt um umhverfisstefnu, loftslagsstefnu og auðlindastefnu sveitarfélaga. Allt eru þetta stefnur sem vísa veginn til framtíðar um hvernig við sem samfélag viljum umgangast auðlindir okkar og umhverfi og hvernig við getum minnkað neikvæð áhrif rekstrar sveitarfélagsins á það. Þetta eru því grundvallarstefnur sveitarfélagsins og þar sem þær eru ekki til í dag ber að vanda sérstaklega til þeirra. Eftir umræður á fundinum er ljóst að stefnur sem þessar verða ekki unnar af starfsfólki sveitarfélagsins og nefndarfólki eingöngu og leggur því nefndin til við sveitarstjórn að leitað verði tilboða frá þar til bærum fyrirtækjum eða einstaklingum sem gætu leitt vinnu af þessu tagi í samstarfi við sveitarfélagið.

Til þess að umhverfisnefnd sé vel upplýst um hvernig fræðslu í umhverfismálum er háttað, mun Haraldur Birgir Haraldsson, f.h. nefndarinnar, óska eftir minnisblaði frá skóla- og leikskólastjórum sveitarfélagsins um hvernig umhverfisfræðslu er háttað í þeirra skólum og hugmyndum þeirra um hvernig auka megi við hana og gera markvissari. Einnig verði óskað eftir hugmyndum frá forstöðumanni þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins ásamt framkvæmdastjóra Sorpstöðvar Rangárvallasýslu um þörf á almenningsfræðslu í tengslum við sorpmál.

2.Landmannalaugar, Mat á umhverfisáhrifum.

1705027

Þann 10. mars 2023 barst Skipulagsstofnun umhverfismatsskýrsla um þjónustumiðstöð í Landmannalaugum sem stofnunin hefur móttekið í samræmi við 22. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og lið 12.03 í 1. viðauka við lögin. Skipulagsstofnun kynnir framkvæmdina og umhverfismatsskýrsluna með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu 17. mars og á Fréttavef Suðurlands 17. Einnig er hægt að nálgast kynningu á heimasíðu sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

3.Phoenix. Kynning

2303055

Þann 17. mars 2023 var haldinn fundur með forsvarsmönnum verkefnis sem ber nafnið "Phoenix". Stjórn og utanumhald er á höndum Jóns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands, en hann kynnti verkefnið fyrir sveitarstjóra, Jóni Valgeirssyni, formanni umhverfisnefndar Magnúsi H. Jóhannssyni og fulltrúa Landgræðslunnar, Gústav M. Ásbjörnssyni). Verkefnið fjallar um hvernig ná megi til almennings um stefnumótun og framtíðarsýn umhverfismála í víðum skilningi. Búinn er til e.k. rökræðuvettvangur eða umræðuvefur á netinu þar sem fjallað er um gildi, forgangsröðun, endurheimt vistkerfa, landnýtingu, kolefnisbindingu o.þ.h. Kort og líkön munu verða nýtt til að auðvelda umræðuna. Líkanagerð í framhaldinu gefur síðan ólíkar sviðsmyndir um landslagsþróun út frá þeim hugmyndum sem koma fram. Verkefnið verði prófað og þróað í Rangárþingi ytra, Bláskógabyggð og Þingeyjarsveit. Verið er að þróa hugbúnað og aðferðafræði. Phoenix verkefnið er samstarfsverkefni sex landa þar sem rekin verða ellefu verkefni af þessari gerð.
Umhverfisnefnd fagnar þessu verkefni og telur það geta nýst mjög vel við þróun og gerð þeirra stefna sem áður var rætt um á fundinum.

4.Vindmyllur Þykkvabæ. Tilkynning framkvæmdaaðila

2302001

Meðfylgjandi er ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu ofangreindrar framkvæmdar.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Kærufrestur er til 21. apríl 2023.
Lagt fram til kynningar

Fundi slitið - kl. 16:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?