Jafnlaunastefna Rangárþings ytra

Markmið launastefnu Rangárþings ytra er að styðja við farsælan rekstur sveitarfélagsins og sækist
sveitarfélagið eftir því að hafa á að skipa starfsmönnum sem eru jákvæðir, faglegir og áreiðanlegir
auk þess að hafa viðeigandi þekkingu, hæfni og reynslu til að sinna verkefnum sveitarfélagsins þannig
að það uppfylli hlutverk sitt á sem árangursríkastan hátt. Launastefnan er jafnframt jafnlaunastefna
Rangárþings ytra.


Allar launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar, málefnalegar og rekjanlegar. Launaákvarðanir eru
byggðar á kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélög og taka
mið af starfsmati og starfslýsingum.


Starfsmönnum sveitarfélagsins eru tryggð jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf
þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Jafnverðmæt störf skal grunn launaraða á
sama hátt og skulu öll persónuleg viðbótarlaun samkvæmt kjarasamningum rökstyðjast með
staðfestum gögnum. Komi ómálefnalegur launamunur í ljós skal bregðast við í samræmi við
jafnlaunamarkmið með það að leiðarljósi að jafna stöðu starfsmanna óháð kyni.


Umfang og eðli starfs hefur áhrif á laun og ræðst af mörgum þáttum, svo sem verkefnum og umfangi
starfsins, þeirri hæfni sem starfsmaður þarf að hafa til að geta sinnt starfinu, auk þekkingar,
menntunar og reynslu sem starfið krefst.


Endurmat á störfum fer fram ef að helstu verkefni eða skyldur starfs hafa breyst. Við ákvarðanir um
launabreytingar er m.a. horft til breyttrar ábyrgðar.


Hjá Rangárþingi ytra skulu vera til starfslýsingar fyrir öll störf. Starfslýsingar eru uppfærðar reglulega
og yfirfarnar í starfsmannasamtölum sem haldin skulu árlega. Í þeim koma fram allir meginþættir
starfs, svo sem kröfur um þekkingu, menntun, hæfni, reynslu og þá ábyrgð sem í starfinu felst.


Jafnlaunastefnunni er ætlað að tryggja að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir og skilyrðum
jafnréttislaga sé mætt. Jafnlaunakerfi Rangárþings ytra er ætlað að tryggja framkvæmd á jöfnum
launum fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum.


Jafnlaunakerfi Rangárþings ytra skal ávallt standast lagalegar kröfur ásamt kröfum jafnlaunastaðals
ÍST-85:2012 með reglulegu eftirliti, umbótum og viðbrögðum. Jafnlaunastefna og jafnlaunakerfi skal
vera skjalfest og aðgengileg á heimasíðu Rangárþings ytra. Jafnlaunastefnu skal kynna starfsmönnum
ásamt niðurstöðum launagreininga.


Jafnlaunastefnan samræmist starfsmannastefnu Rangárþings ytra.

Sveitarstjórn samþykkir stefnuna en sveitarstjóri ber ábyrgð á að framfylgja henni í samstarfi við
stjórnendur stofnana sveitarfélagsins. Stjórnendur bera ábyrgð á að kynna jafnlaunastefnuna fyrir
sínum starfsmönnum.

Samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 09.01.2020

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?