Frá og með 1. janúar 2016 annast Byggðasamlagið Oddi bs rekstur Grunnskólans á Hellu, en að byggðasamlaginu standa Rangárþing ytra og Ásahreppur.  Byggðasamlagið annast einnig rekstur Laugalandsskóla og leikskólanna á Hellu og Laugalandi.  Skólahverfi Grunnskólans á Hellu nær yfir svæðið frá mörkum sveitarfélagsins í austri að Ytri Rangá í vestri.  Auk þess teljast Þykkvibær og bæirnir í Bjóluhverfi og á Ægissíðu til skólahverfisins.Stjórnunarþáttur skólastarfsins er leystur í höndum skólastjórnenda, kennara, kennararáðs, skólaráðs, fræðslunefndar, hreppsnefndar o.fl. 

Skólastarfið mótast fyrst og fremst af gildandi lögum og reglugerðum og einnig af því umhverfi sem skólinn þjónar.  Leitast er við að tengja saman nám og kennslu við það umhverfi og þann bakgrunn sem nemendur koma frá.  Slíkri samtengingu fylgir einnig mikil umfjöllun og fræðsla um umhverfismál.  Nemendur fá að kynnast nokkrum þáttum umhverfisfræðslunnar með beinum hætti (þ.e. með beinni þátttöku).  Má í því sambandi nefna útiskóla, skógrækt, hreinsunarátak og vettvangsferðir um heimabyggð og afrétt.  

Grunnskólinn á Hellu fékk  Grænfánann endurnýjaðan á skólasetningu vorið 2014 í þriðja sinn frá fulltrúa Landverndar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?