Dagur sauðkindarinnar verður haldinn laugardaginn 14. október n.k í Skeiðvangi á Hvolsvelli og hefst dagskrá kl. 14.  Það eru sauðfjáreigendur frá Þjórsá í vestri að Markarfljóti í austri sem geta komið með gripi á sýninguna og helgast það af sauðfjárveikivörnum sem í gildi eru í sýslunni.  Þetta er í tíunda sinn sem þessi hátíð fer fram og hefur hún laðað að sér fjölda gesta ár hvert.

Sýningin verður að þessu sinni með aðeins breyttu sniði og verður það rakið hér á eftir: 

Nú getur hver sauðfjáreigandi komið með tvo lambhrúta að eigin vali, burt séð frá því hvort þeir eru með dóm eða ekki.  En 12 efstu lambhrútar sýslunnar úr lambadómum haustsins verða boðaðirsérstaklega.  Á sýningunni verða allir lambhrútarnir ómmældir og þurfa þeir að ná 32mm bakvöðvaþykkt með vöðvalag að lágmarki  4 til að komast í stigun og röðun efstu hrúta.  Eftir að þeir hrútar sem ná lágmörkum um þykkt og lag bakvöðva hafa verið stigaðir, verður 12 þeirra raðað í gæðaröð af dómurum.

Þá getur hver sauðfjáreigandi komið með  einn veturgamlan hrúta að eigin vali, en þar verða 10 efstu hrútar sýslunnar, sem dæmdir verða í haust einnig boðaðir sérstaklega.

Þá getur hver sauðfjáreigandi komið með tvær lambgimbrar á sýninguna og verða þær ómmældar og geta því aðeins komist áfram í röð 12 bestu að þær hafi 32mm bakvöðva.

Með þessu er verið að fá meiri breydd á sýninguna og fá fleirri til að koma með gripi.  En undanfarin ár hefur fé fækkað sem komið hefur verið með.

Eins og áður verða síðan veitt verðlaun fyrir þá 5 vetra á sýslunnar sem hæsta kynbótamatið hefur og fjárræktarbú sýslunnar verður kynnt og fær viðurkenningu.

Skráning gripa er til 8. október hjá Einari síma 893-8430.

 

En það er ýmislegt fleira sem í boði er á Degi sauðkindarinnar. Má þar nefna að  Bókakaffið á Selfossi verður með bóksölu og verða þar án efa margar eigulegar bækur eins og t.d „Konan í Dalnum“, sem nýlega var endurútgefin af bókaforlaginu Sæmundi.

 Björk í Selsundi ætlar að mæta með rokkinn sinn og gestir geta fengið að prófa að spinna.

Þá verður happdrætti til styrktar sýningunni.  Margir glæsilegir vinningar verða s.s lambgimbur, matarveislur, hótel  gisting, bækur,  og fl.

Að venju verður svellandi kjötsúpa og kaffi á boðstólum.

Til þess að halda Dag sauðkindarinnar höfum við notið velvilja margra í gegnum árin í þetta sinn eru það m.a annars Sláturfélag Suðurlands, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Jötunn, Garðaþjónusta Gylfa, Guðmundur og Jóhanna í Skálakoti og fl. og fl. sem leggja okkur lið.

Ávarp formanns félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu

Ágætu félagsmenn og aðrir sauðfjárræktarunnendur.  Í ár heldur Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu í 10. skipti sýninguna  Dag sauðkindarinnar.  Þó að ekki ríki mikil bjartsýni á kjötmarkaðinum þessa dagana, ríkir mikil bjartsýni í ræktunarstarfinu í sauðfjárrækt.  Það hefur sýnt sig frá því að Dagur sauðkindarinnar var haldinn í fyrsta skipti hversu miklar ræktunarframfarir hafa orðið í sauðfjárrækt hér í Rangárvallarsýslu og í ár verður örugglega engin undantekning á þeim framförum.  Það er mikils virði fyrir svona félag að geta haldið þennan dag fyrir félagsmenn og íslensku sauðkindina en til þess að það sé hægt þarf að vera öflugt félagsstarf því þetta gerist ekki að sjálfu sér.  Við í félaginu höfum verið svo heppin að fólkið sem hefur staðið að sýningunni hefur verið nánast það sama frá upphafi.  Þess vegna er mikilvægt þegar einhver úr nefndinni stígur til hliðar að það verði aðrir félagsmenn tilbúnir að koma inn í starfið þegar kallað er eftir nýju fólki svo þessi dagur verði haldinn áfram um ókomna tíð.  Fyrir hönd félagsins vonast ég til að Dagur sauðkindarinnar verði sem glæsilegastur og sauðfjárræktarfólk og annað áhugafólk um sauðfé njóti dagsins.

Erlendur Ingvarsson

Formaður.

 

Tónleikar og Kótelettukvöld Karlakórs Rangæinga.

Kótelettukvöld  Karlakórs Rangæinga á „Degi Sauðkindarinnar“ í Hvoli 14. október  kl. 20 .  Upphitun fyrir kvöldið hefst með tónleikum í Hvoli kl. 17 þar sem Karlakór Rangæinga ásamt Leikanger mannskor frá Noregi taka lagið. 

Nánar auglýst síðar.

Góður dagur með sauðfjárþukli og söng.                  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?