Útboðsskilmálar fyrir þjónustusamning um byggingu og rekstur 1 MW sorporkustöðvar á athafnasvæði Sorpstöðvarinnar að Strönd bs. í Rangárþingi.


1. Markmið þjónustusamnings
Það er stefna íslenskra stjórnvalda í samræmi við nýjar reglugerðir ESB í sorphirðumálum, sem munu taka gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu innan skamms, að minnka verulega urðun á úrgangi, sem erfitt er að endurnýta/endurvinna. Flest Evrópuríki hafa valið þá leið að koma upp öflugum og umhverfisvænum sorpbrennslustöðvum til þess að losa sig við úrgang, sem annars færi til urðunar. Er þá lögð áhersla á, að brennsla sorps skili orku (varmaorku eða rafmagni), sem hægt er að nýta/selja. Er það forsenda þess, að litið sé á brennslu sorps sem hluta af hringrásarhagkerfinu og að hún sé mun ofar en urðun í úrgangsstiganum. Urðun er ávallt talin síðasta og lakasta úrræðið.
Brennsla sorps til orkuframleiðslu er örugg og virk lausn fyrir úrgang sem óhagkvæmt er að endurvinna/endurnýta eða nota til lífrænnar framleiðslu (moltugerð, metangas og fl.). Hún getur einnig verið lykilþáttur í að tryggja heilbrigðisöryggi með eyðingu á viðkvæmum úrgangi svo sem sláturúrgangi og dýraafurðum, sem geta valdið ólykt og verið uppspretta sjúkdóma.
Á Evrópska efnahagssvæðinu munu nú vera um og yfir 500 stórar sorpbrennslustöðvar. Rekstur þeirra er háður ströngum kröfum ESB um mengunarvarnir og losun hættulegra eiturefna, svo sem Díoxíns. Þessar stöðvar eru yfirleitt mjög stórar (100 til 500 þúsund tonn/ári). Þar sem lönd eru strjálbýl og sveitarfélög lítil, hefur lengi verið þörf fyrir litlar sorpbrennslustöðvar, sem geta veitt jafn fullkomna eyðingu sorps með brennslu og stóru stöðvarnar, og með svipuðum kostnaði. Flutningur sorps til fjarlægra sorpbrennslustöðva er óæskilegur vegna mikils slits stórra gámaflutningabíla á þjóðvegum landsins, svo að ekki sé talað um mikla losun koltvíoxíðs samfara slíkum flutningum.
Þess vegna geta litlar hátæknisorpbrennslustöðvar, sem uppfylla allar kröfur ESB um sorpbrennslustöðvar, verið góður kostur. Líta ber á afgangssorp sem fer til brennslu sem eldsneyti fyrir orkuframleiðslu. Í stað þess að flytja það langar leiðir til orkuframleiðslu í stórum stöðvum, má segja að mun hagkvæmara getur verið að nýta orkuna sem fæst úr sorpinu í heimabyggð.


2. Tilboð skal fela í sér eftirfarandi upplýsingar


a. Tæknilega lýsingu á þeirri lausn sem boðin er - nákvæma lýsingu á
tækjabúnaði, stærðum, flutningsferli milli eininga, hitastigum, útreiknuðum
afköstum og losun mengandi efna.
b. Flutningsferli - hvernig úrgangur er fluttur að og frá stöðinni, hvernig
innmötun sorps er háttað og afgangsefni (gjall og flugaska fjarlægð).
c. Mengunarvarnir - hvernig kröfur Umhverfisstofnunar um hámarksútblástur
mengandi efna eru uppfylltar og önnur skaðleg efni síuð frá.
d. Gáma- og geymslukerfi - t. d. stærð daggáma og geymslugáma, og hversu
marga daga stöðin getur verið í gangi, án áfyllingar.
e. Viðhald og rekstrartruflanir - verktaki skal tilgreina upptíma stöðvarinnar og
líklegan, árlegan fjölda rekstrardaga.
f. Viðbragðsáætlun við frávikum frá umhverfiskröfum.
g. Hæfi starfsmanna - hvaða verkþjálfun starfsfólk Sorpstöðvarinnar að Strönd bs. þarf að fá, og hvaða hæfniskröfur skulu gerðar til starfsmanna brennslunnar.
h. Skilyrði fyrir undirritun þjónustusamnings
     i. Að fyrir liggi samþykkt bráðabirgðastarfsleyfi
     ii. Að hliðgjaldið sé talið raunhæft með tilliti til rekstrarafkomu stöðvarinnar
     iii. Að fyrir liggi samkomulag um afhendingu varmaorkunnar til rekstraraðila hitaveitu
     iv. Að kröfur útboðslýsingar séu uppfylltar
     v. Að samþykki stjórnar Sorpstöðvarinnar að Strönd bs. liggi fyrir.


3. Stærð stöðvar og afkastageta
Brennslustöðin skal vera í færanlegum einingum (gámum) með aflgetu um 1 MW. Henni verður komið fyrir við hliðina á Flokkunarhúsi Sorpstöðvarinnar að Strönd í Rangárvallasýslu. Mun Sorpstöðin leggja til lóð undir stöðina, þjónustuaðila að kostnaðarlausu. Afkastageta stöðvarinnar skal vera að minnsta kosti 2500 tonn af brennanlegu sorpi á ári. Sorpstöðin skuldbindur sig til að afhenda þjónustuaðila að minnsta kosti 2200 tonn af sorpi á ári til brennslu, sem hefur brunagildi 8–16 MJ/kg og með rakastigi á bilinu 20–45%. Reiknað er með, að brennslustöðin geti brennt einhverju magni af sláturúrgangi. Starfsmenn Sorpstöðvarinnar munu þá sjá til þess að blanda hann þurrara efni, svo að innmatað sorp hafi brunagildi innan ofangreindra marka. Sorpstöðin mun sjá um vinnslu lóðarinnar og lagningu malbiks. Einnig mun hún sjá um að tengja brennslustöðina við rafmagnsveitu og vatnsveitu svæðisins.


4. Samsetning og gerð brennslustöðvar
Inntakseiningin skal vera tætari, er tætir sorpið niður í hæfilega stórar einingar fyrir brennsluna. Tætarinn skal hafa innbyggðan málmskanna, er skilur frá allan málm sem
kann að vera í sorpinu. Verður honum komið fyrir inni í Flokkunarhúsi Sorpstöðvarinnar. Allt efni frá tætaranum skal flutt til brennslunnar með flutningsbúnaði þjónustuaðila. Gert er ráð fyrir brennslu á brunarist. Gjall eða botnaska sem myndast við brunann skal flutt frá ristinni með færibandi í geymslugám. Sorpstöðin sér um förgun á gjallinu. Við brennslueininguna skal koma fyrir búnaði (varmaskipti) er notar varmann frá brunanum til að hita upp vatn fyrir hitaveitu sveitarfélaganna.
Í framhaldi af brunaeiningunni skal vera sérstök eining til að skilja flugösku frá reykgasinu og flytja hana í sérstakan geymslugám. Starfsmenn Sorpstöðvarinnar sjá um
að sekkja flugöskuna, en þjónustuaðili tekur við þeim og flytur til förgunar í útlöndum.
Þá skal gert ráð fyrir stjórnstöð með sjálfvirkri tölvustýringu á öllu kerfinu. Skal vera hægt að fylgjast með því gegnum nettengingu með sérstöku appi í bæði snjallsímum
og tölvum eftirlitsmanna. Úr stjórnstöðinni skal einnig vera hægt að fylgjast með losun mengandi efna. Rík áhersla er lögð á, að brennsla í stöðinni fari fram í samræmi við ströngustu kröfur Evrópusambandsins um rekstur og mengunarvarnir sorpbrennslustöðva. Sjá tilskipun ESB 2010/75/EC með síðari breytingum. Þá skal stöðin uppfylla íslenskar kröfur skv. lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55 frá 2003 með síðari breytingum og íslenskum stöðlum.
Þjónustusamningur skv. útboðsskilmálum þessum er háður samþykki Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir Sorpbrennslustöðina að Strönd með tilliti til breytinga á rekstri og athafnasvæði hennar.


5. Meðhöndlun varmaorku stöðvarinnar
Brennslustöðin framleiðir sem nemur um það bil 8000 MWh af varmaorku á ári með því að hita upp vatn í varmaskipti stöðvarinnar. Gert er ráð fyrir því, að hitaveita
sveitarfélaganna sjái um og kosti það verk að leiða lagnir að varmaskipti stöðvarinnar og tengja þær. Sorpstöðin að Strönd mun selja rekstraraðila hitaveitunnar varmaorkuna. Það er algert skilyrði fyrir rekstri sorpbrennslunnar, að varmaorkan frá henni verði nýtt, að minnsta kosti 75% hennar.
Rekstraraðili hitaveitunnar á rétt á að vera með í ráðum um gerð varmaskiptisins, en hann skal fylgja með stöðinni á kostnað þjónustuaðila.


6. Daglegur rekstur stöðvarinnar
Gert er ráð fyrir, að starfsmenn Sorpstöðvarinnar annist daglegan rekstur brennslustöðvarinnar, færibanda og tætara.
Starfsmenn eiga að fá þjálfun hjá framleiðanda búnaðarins, svo að þeir geti fylgst með stöðinni og séð ef eitthvað fer úrskeiðis. Þjónustuaðili sér um menntun fjögurra starfsmanna í upphafi þjónustusamnings í samvinnu við framleiðanda stöðvarinnar. Menntun nýrra starfsmanna verður með fjarkennslu og að hluta til á vegum fyrri starfsmanna með reynslu af rekstri brennslustöðvarinnar. Þjónustuaðili sér um að útvega og greiða fyrir öll nauðsynleg aðföng til stöðvarinnar, að svo miklu leyti að þau fyrirfinnist ekki á staðnum sem hluti af rekstri flokkunastöðvar Sorpstöðvarinnar að Strönd, svo sem dísilolía.


7. Eftirlit með stöðinni
Eftirlit með rekstri og viðhaldi stöðvarinnar er á ábyrgð þjónustuaðila. Ef bilun kemur fram í einhverjum einingum stöðvarinnar, sem starfsmenn geta ekki lagfært á staðnum, munu þeir gera þjónustuaðila samstundis vart við í neyðarsíma, er hann tilgreinir.
Þjónustuaðili skal hafa virkt eftirlit með stöðinni.
Þjónustuaðili sér um og skipuleggur árlegt viðhald stöðvarinnar í samráði við Sorpstöðina. Þarf að gera ráð fyrir, að rekstur stöðvarinnar liggi niðri af þeim sökum í
tvær til þrjár vikur á sumrin.


8. Greiðslur til þjónustuaðila í formi hliðgjalds
Þjónustusamningurinn miðast við, að Sorpstöðin greiði sérstakt hliðgjald fyrir það magn sorps sem fer til brennslu. Hliðgjaldið er eina greiðslan til þjónustuaðilans. Það
skal því bæði taka mið af kostnaði við að reka stöðina, fjármögnun hennar og vegna afskrifta og viðhaldskostnaðar. Einnig er gert ráð fyrir, að þjónustuaðili fái greiðslu
fyrir framleiðslu á varmaorkunni gegnum hliðgjaldið. Hliðgjaldið breytist í samræmi við neysluverðsvísitölu út samningstímann.
Allt sorp sem fer til brennslu í stöðinni skal vigtað inn í tætarann.
Gert er ráð fyrir, að þjónustuaðili sendi reikning til Sorpstöðvarinnar í upphafi hvers mánaðar, þegar magn þess sorps er brennt var í fyrri mánuði liggur fyrir. Skal hann
greiddur inna 14 daga frá útgáfu hans inn á bankareikning þjónustuaðila.


9. Eignaskipti eða yfirtaka á brennslustöðinni
Sorpstöðin Strönd bs. áskilur sér þann rétt að óska eftir að eignast hlut í brennslustöðinni eða fá að yfirtaka hana að fullu, eftir að fyrsta fimm ára samningstímabili
lýkur.