39. fundur 27. apríl 2021 kl. 08:15 - 11:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Björk Grétarsdóttir formaður
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir aðalmaður
  • Ásta Berghildur Ólafsdóttir oddviti
  • Elín Grétarsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Hjalti Tómasson varamaður
Starfsmenn
  • Valtýr Valtýsson sveitarstjóri
  • Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri
Einnig sat fundinn undir lið 1 Klara Viðarsdóttir.

1.Rekstraryfirlit Odda bs 2021

2101034

Yfirlit um rekstur jan-mars
KV kynnti yfirlit um rekstur byggðasamlagsins janúar-mars 2021. Þá kynnti KV einnig samantekt sem óskað var eftir á síðasta fundi um þróun heildarkostnaðar, launakostnaðar, fjölda stöðugilda og fjölda nemenda hjá Odda bs árin 2016-2020.

2.Nýr skólastjóri Laugalandsskóla

2101033

Úrvinnsla umsókna.
Fyrir liggur tillaga starfhóps Odda bs vegna ráðningar skólastjóra við Laugalandsskóla. Tillaga starfshópsins er að ráða Yngva Karl Jónsson sem skólastjóra Laugalandsskóla og samþykkir stjórn Odda bs það samhljóða.

Greinargerð: Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðum Rangárþings ytra og Ásahrepps í mars 2021 með umsóknarfrest til 9. apríl 2021. Umsækjendur voru 6 talsins. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir einstaklingi sem væri tilbúinn til að ganga glaður til verka og leiða af dugnaði öflugt skólasamfélag með samstöðu og árangur að leiðarljósi. Jafnframt var lagt upp úr því að nýr skólastjóri væri tilbúinn að viðhalda þeim góða skólabrag sem einkennt hefur starf Laugalandsskóla. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjandi hefði leyfisbréf sem grunnskólakennari og byggi að farsælli kennslureynsla í grunnskóla. Þá þyrfti umsækjandi að hafa framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða uppeldis- og menntunarfræða og/eða búa að farsælli stjórnunarreynslu. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru færni og reynsla í starfsmannastjórnun, stefnumótun og áætlanagerð og hæfni í samskiptum. Þá var reynsla í fjármálastjórnun talinn kostur.
Ákveðið var í stjórn Odda bs að fela eftirtöldum að taka viðtöl við umsækjendur: Björk Grétarsdóttir oddviti Rangárþings ytra og formaður stjórnar Odda bs, Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og framkvæmdastjóri Odda bs, Ásta Berghildur Ólafsdóttir oddviti Ásahrepps og stjórnarmaður í Odda bs og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir stjórnarmaður í Odda bs og sveitarstjórnarfulltrúi í Rangárþingi ytra. Umsækjendur mættu til viðtals á Hellu dagana 20-21 apríl 2021 og hvert viðtal tók allt að 1 klst.
Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfastur til að gegna starfinu væri Yngvi Karl Jónsson. Haft var samband við samstarfsaðila úr fyrri störfum og fékk hann góða umsögn þar til að gegna starfi skólastjóra.
Yngvi Karl Jónsson er 58 ára og er starfandi náms- og starfsráðgjafi hjá Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Hann er fæddur og uppalinn fyrstu árin á Torfastöðum í Fljótshlíð en bjó síðar á Hvolsvelli og í Hveragerði auk þess sem hann dvaldi við nám og störf í Bandaríkjunum um árabil. Yngvi Karl býr nú á Hellu með fjölskyldu sinni. Yngvi Karl er með BA í sálfræði og MA í ráðgjöf frá UNC-háskólanum í Charlotte í Norður-Karólínu auk meistaragráðu í kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hann hefur sinnt kennslu í grunnskólunum í Hveragerði, Eyrarbakka og Stokkseyri og Hvolsvelli. Hann veitti forstöðu meðferðarheimili Barnaheilla á Geldingalæk um árabil og var árið 2010 ráðinn af Barnaverndarstofu til að setja á stofn meðferðarheimilið Lækjarbakka og var þar forstöðumaður til ársins 2020. Hann hefur einnig starfað sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og stýrt félagsmiðstöðvum. Þá hefur Yngvi Karl sinnt íþróttaþjálfun meðfram öðrum störfum alla tíð auk þess sem hann hefur verið virkur í sveitarstjórnarmálum.


3.Endurskoðun skólastefnu

1702001

Reglubundin endurskoðun stefnunnar
Gert er ráð fyrir að reglubundin endurskoðun á skólastefnu Ásahrepps og Rangárþings ytra fari fram fyrir lok skólaárs annað hvert ár. Lagt er til að skólastefnan verði rædd á vorfundi Odda bs og metið þar hvort að ástæða þyki til að gera breytingar. Jafnframt verði óskað eftir minnsblöðum frá skólastjórnendum um hvernig hafi tekist til við að fylgja skólastefnunni.

Samþykkt samhljóða.

4.Skóladagatöl 2021-2022

2104042

Lögð fram drög að skóladagatölum. Kanna þarf betur með tímasetningu sumarleyfa ofl. en skóladagatölin verða tekin til formlegrar afgreiðslu á vorfundi Odda bs. Stjórn Odda bs hvetur skólastjórnendur eindregið til þess að samræma starfsdaga eins og frekast er kostur. Sérstaklega er mikilvægt að starfsdagar séu samræmdir innan skólahverfa.

5.Umsókn um skólavist - Árborg

2104043

Trúnaðarmál
Fært í trúnaðarmálabók.
Fundargerðin yfirlesin og staðfest.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?