Menningarsjóður Rangárþings ytra var stofnaður í maí 2023.
Markmið sjóðsins er að efla og styrkja menningarstarf í sveitarfélaginu.

Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað tvisvar á ári.

Umsækjendur verða að kynna sér reglur umsókna styrkja úr Menningarsjóði Rangárþings ytra hér fyrir neðan áður en umsókn er send inn.

Umsóknareyðublað er rafrænt og má nálgast hér fyrir neðan.

Fylla þarf út alla rauðmerkta reiti eins skýrt og skilmerkilega og kostur er á. Umsókn er ekki tekin til greina nema fjárhagsáætlun fylgi með. Önnur viðhengi eru valfrjáls en umsækjendur eru hvattir til að senda eins ítarleg gögn með umsókninni og hægt er til að efni og umfang verkefnisins komi sem skýrast fram.

Reglur um úthlutun styrkja úr Menningarsjóði Rangárþings ytra

 

Markmið og áherslur menningarsjóðsins:

    • Að efla listsköpun og menningarstarf í Rangárþingi ytra
    • Að styðja verkefni sem varðveita og miðla menningararfi Rangárþings ytra
    • Að styðja viðburði og verkefni sem efla fjölmenningu í Rangárþingi ytra
    • Að styðja menningarverkefni sem stuðla að sjálfbærni og umhverfisvitund
    • Að hvetja til samstarfs milli aðila á sviðum lista og menningar

Úthlutunarreglur

    1. Umsækjendur geta verið lögráða einstaklingar, félagasamtök, stofnanir eða fyrirtæki sem koma að menningarviðburðum í Rangárþingi ytra. Verkefni sem styrkt eru verða að fara fram innan sveitarfélagsins eða sýslunnar.
    2. Menningarsjóður Rangárþings ytra veitir ekki rekstrar-, stofnkostnaðar- eða endurbótastyrki heldur eru framlög sveitarfélagsins ætluð til einstakra verkefna. Að jafnaði eru ekki veittir ferðastyrkir sérstaklega.
    3. Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd metur styrkhæfi verkefna.
    4. Fylla skal út alla reiti umsóknareyðublaðs sem eru stjörnumerktir og skila kostnaðaráætlun.
    5. Gerður skal samningur milli styrkþega og Rangárþings ytra um sérhverja styrkveitingu.
    6. Verkefnið þarf að fara fram innan árs frá úthlutun styrks. Sé verkefni ekki lokið innan árs frá úthlutun skal styrkhafi endurgreiða fenginn styrk. Styrkhöfum er þó gefinn kostur á að sækja um frest á lok verkefnis gegn rökstuðningi.
    7. Styrkþegi skal skila lokaskýrslu um framkvæmd verkefnisins á þar til gert eyðublað eigi síðar en ári eftir að samningur um verkefnið var undirritaður.
    8. 2/3 hlutar styrkupphæðarinnar er greiddur út þegar skrifað hefur verið undir samning og 1/3 hluti er greiddur út við skil á lokaskýrslu.
    9. Hafi umsækjandi áður hlotið styrk verður ný umsókn ekki tekin til greina nema viðkomandi hafi skilað inn lokaskýrslu vegna fyrra verkefnis.
    10. Sveitarstjórn Rangárþings ytra ákveður upphæð úthlutunar hverju sinni samkvæmt fjárhagsáætlun hvers árs.
    11. Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði og falla ekki að markmiðum sjóðsins.

Stigagjöf: Umsóknir eru metnar á skalanum 1-5 eftir eftirfarandi þáttum:

Matsþáttur Lýsing Stig
Listsköpun og menningarstarf Hversu vel eflir verkefnið listsköpun og menningarstarf? 1–5
Varðveisla og miðlun menningararfs Hvernig varðveitir og miðlar verkefnið menningararfi Rangárþings ytra? 1–5
Fjölmenning Hversu vel eflir verkefnið fjölmenningu? 1–5
Sjálfbærni og umhverfisvitund Hvernig stuðlar verkefnið að sjálfbærni og umhverfisvitund? 1–5
Samstarf á sviði menningar og lista Hversu vel hvetur verkefnið til samstarfs á milli aðila á sviði menningar og lista? 1–5
Frumleiki Hversu nýstárlegt og frumlegt er verkefnið? 1–5
Markmið og áætlanir Hversu skýr og raunhæf eru markmið og áætlanir verkefnisins? 1–5
Kostnaðaráætlun Hversu ítarleg, raunhæf og vel rökstudd er kostnaðaráætlunin? 1–5


Heildareinkunn:
• Hámarksstig eru 40.
• Úthlutunarnefnd hefur heimild til að víkja frá stigagjöfinni ef sérstakar ástæður eru til.
• Úthlutunarnefndin hefur heimild til að beita eigin mati í sérstökum tilvikum.

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 12. mars 2025

Fyrirspurnir vegna Menningarsjóðs sendist á markaðs- og kynningafulltrúa, Ösp Viðarsdóttur, á netfangið osp@ry.is eða í s: 4887000