- grein – Leiðarljós, gildissvið og lagagrundvöllur
Vandað, skýrt og aðgengilegt mál – talað eða ritað – er lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Íslenska er þar í forgrunni og skal vera til fyrirmyndar.
Málstefnan byggir á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Samkvæmt þeim bera ríki og sveitarfélög ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og sjá til þess að hún sé notuð í opinberri starfsemi. Leiðarljós stefnunnar er að tryggja stöðu íslensku sem opinbers máls og þess tungumáls sem sameinar íbúa sveitarfélagsins, óháð uppruna.
Málstefnan tekur mið af öðrum stefnum og skuldbindingum sveitarfélagsins, svo sem markmiðum um heilsueflandi og barnvænt samfélag. Hún byggir á grunngildum um jafnræði, virðingu, traust, gagnsæi og virk samskipti.
Stefnan gildir á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins og stofnunum þess. Allt starfsfólk skal hafa hana til hliðsjónar í störfum sínum og samskiptum.
- grein – Íslenska og önnur tungumál
Íslenska er opinbert mál og meginsamskiptamál í allri starfsemi sveitarfélagsins, jafnt innan stjórnsýslu sem í þjónustu við íbúa. Þetta gildir um munnleg og skrifleg samskipti, fundi, rafræna þjónustu, viðmót í tölvum og helsta notendahugbúnað. Starfsfólki ber að nota íslensku í störfum sínum nema sérstakar aðstæður krefjist annars, til dæmis í samskiptum við íbúa sem hafa annað móðurmál.
Sveitarfélagið lítur á menningarlegan og málfræðilegan fjölbreytileika sem auðlind og ber virðingu fyrir öllum tungumálum sem töluð eru innan þess.
- grein – Aðgengi, inngilding og þjónusta
Allar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins skulu vera á skýru og aðgengilegu máli til að tryggja að allir íbúar geti tekið virkan þátt í samfélaginu og lýðræðislegri umræðu.
- Fjöltyngd þjónusta: Tryggja skal rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta. Lykilupplýsingar um þjónustu skulu einnig vera aðgengilegar á ensku og eftir atvikum öðrum tungumálum. Vefsíða sveitarfélagsins skal bjóða upp á vélþýðingu.
- Túlkun: Sveitarfélagið skal setja skýrar reglur um aðgang að og notkun ókeypis, faglegarar túlkaþjónustu (bæði milli tungumála og á íslensku táknmáli) þegar þörf krefur, svo tungumál hindri ekki aðgang að þjónustu eða réttindum. Upplýsingar um þennan rétt skulu vera aðgengilegar.
- Íslenskt táknmál og aðrir miðlar: Tryggja skal aðgengi að upplýsingum og þjónustu á íslensku táknmáli fyrir þá sem þess þurfa. Sömuleiðis skal tryggt aðgengi fyrir þá sem reiða sig á blindraletur eða hjálpartæki á borð við talgervla og skjálesara.
- Vefaðgengi: Allt stafrænt efni sveitarfélagsins skal uppfylla alþjóðlega aðgengisstaðla (WCAG 2.0 eða nýrri útgáfu).
- grein – Málfar og sýnileiki í umhverfi
Allir sem koma fram fyrir hönd sveitarfélagsins skulu tala og rita vandað mál og sýna virðingu í samskiptum, óháð því hvaða tungumál er notað. Vandað mál er skýrt, í viðeigandi málsniði og í samræmi við viðurkenndar málvenjur og réttritun.
Starfsfólk skal nota einfaldan og skýran texta og forðast gildishlaðin orð, sterk lýsingarorð, flókin fagheiti og skammstafanir. Fagheiti og hugtök skulu þýdd á íslensku eftir því sem unnt er.
Íslenska skal vera sýnileg í öllu umhverfi og upplýsingagjöf sveitarfélagsins.
- Merkingar: Á upplýsingaskiltum og í stafrænu efni þar sem texti er birtur á fleiri en einu tungumáli skal íslenski textinn vera settur ofan við eða vinstra megin við texta á öðrum málum og vera áberandi eða jafn áberandi.
- Vefsíða: Opinber vefsíða sveitarfélagsins skal vera á íslensku. Skýrar leiðir skulu vera til að skipta yfir á önnur tungumál.
- Nafnvenjur: Notuð skulu íslensk heiti stofnana, deilda, nefnda og starfsheita. Íslensk örnefni skulu ávallt notuð og við nafngiftir skal farið að lögum og leitað til Örnefnanefndar eftir því sem við á.
- grein – Skjöl, útgáfa og upplýsingamiðlun
Öll opinber skjöl sem sveitarfélagið gefur út, svo sem fundargerðir, skýrslur, reglur og samþykktir, skulu að jafnaði vera á vandaðri og skýrri íslensku. Undantekning frá þessu eru fundargerðir Fjölmenningarráðs sem fara fram á ensku, en þær skulu þýddar á íslensku ef eftir því er óskað.
Allt efni sem samkvæmt lögum og reglum ber að birta íbúum og hagsmunaaðilum skal vera á aðgengilegri og vandaðri íslensku.
Efni sem gefið er út á erlendum tungumálum skal jafnframt vera aðgengilegt á íslensku.
- grein – Stuðningur við starfsfólk og íbúa
Sveitarfélagið leggur áherslu á að hvetja og styðja íbúa og starfsfólk af erlendum uppruna til að læra íslensku og bæta færni sína. Sveitarfélagið skal vinna með fræðsluaðilum að því að greiða aðgang að íslenskunámskeiðum. Starfsfólki í beinum samskiptum við íbúa skal að öllu jöfnu hafa grunnfærni í íslensku og skal Evrópski tungumálaramminn (CEFR) notaður sem viðmið þar sem það á við.
Þekking og menntun starfsfólks af erlendum uppruna skal metin að verðleikum og þeim veittur stuðningur til að nýta færni sína samhliða íslenskunámi.
Allt starfsfólk skal hafa greiðan aðgang að helstu málrænum hjálpargögnum, svo sem orðabókum, leiðréttingarforritum og öðrum máltæknibúnaði.
- grein – Ábyrgð og innleiðing
Tryggja skal að leiðbeiningar um framkvæmd stefnunnar séu skýrar og að hún sé kynnt öllu starfsfólki. Málstefnan skal vera aðgengileg öllum íbúum á vefsíðu sveitarfélagsins.
- grein – Endurskoðun
Málstefnan skal endurskoðuð reglulega, að lágmarki á fjögurra ára fresti og að jafnaði í upphafi hvers kjörtímabils, eða oftar ef þörf krefur. Tekið skal mið af reynslu, breyttum þörfum íbúa og þróun í löggjöf.
Samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra þann 10. september 2025
Samþykkt af hreppsnefnd Ásahrepps þann 15. október 2025
Skjalinu má einnig fletta hér: