Þjónustustefna Rangárþings ytra 2026 - 2029

Efnisyfirlit
1. Inngangur ............................................................................................................................... 3
2. Samantekt .............................................................................................................................. 3
3. Þjónustusvæði ....................................................................................................................... 4
4. Sýn og markmið ..................................................................................................................... 5
      Markmið: ................................................................................................................................ 5
5. Félags- og skólaþjónusta ....................................................................................................... 5
6. Menntun .................................................................................................................................. 8
7. Íþrótta- og tómstundamál ..................................................................................................... 9
     7.1 Aðstaða og íþróttafélög ................................................................................................... 9
     7.2 Félagsmiðstöðin Hellirinn ..............................................................................................10
     7.3 Vinnuskóli Rangárþings ytra ...........................................................................................11
     7.4 Frístundastyrkur og jöfnuð tækifæri barna ...................................................................11
8. Menning .................................................................................................................................12
9. Sorphirða ...............................................................................................................................12
10. Snjómokstur ........................................................................................................................13
11. Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps .......................................................................14
12. Umhverfismál ......................................................................................................................14
13. Öryggis- og löggæslumál ...................................................................................................15
14. Heilsuefling íbúa .................................................................................................................15
15. Hjúkrunarheimilið Lundur ..................................................................................................17
16. Skipulags- og byggingarmál ...............................................................................................18
      16.1. Byggingarfulltrúi ..........................................................................................................18
      16.2. Skipulagsfulltrúi ...........................................................................................................19
17. Heilbrigðiseftirlit ..................................................................................................................20
18. Ábendingar til sveitarfélagsins ............................................................................................21



1. Inngangur


Samkvæmt 130. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 ber sveitarstjórnum að móta stefnu um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélagsins, sérstaklega fjarri stærstu byggðakjörnum. Þessi þjónustustefna Rangárþings ytra er unnin í samræmi við þessa lagaskyldu og lýsir því þjónustustigi sem sveitarfélagið hyggst halda uppi á komandi árum. Í lögunum er sérstaklega kveðið á um að við gerð og mótun þjónustustefnunnar skuli sveitarstjórn hafa samráð við íbúa sveitarfélagsins. Markmiðið er að tryggja að allir íbúar Rangárþings ytra, óháð búsetu, njóti góðrar og aðgengilegrar þjónustu. Rangárþing ytra er skilgreint sem „Heilsueflandi samfélag“, sem undirstrikar áherslu sveitarfélagsins á að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.


2. Samantekt


Þessi þjónustustefna lýsir því hvernig Rangárþing ytra hyggst veita íbúum sínum góða, skilvirka og aðgengilega þjónustu um allt sveitarfélagið. Stefnan byggir á lögum og er unnin í samráði við íbúa.
Rangárþing ytra er heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigði og vellíðan allra. Markmiðin eru:

  • Tryggja góða þjónustu á sviði menntunar, félagsþjónustu, heilbrigðismála og skipulagsmála.
  • Stuðla að sjálfbærni og umhverfisvernd í allri starfsemi.
  • Efla lýðræði og íbúalýðræði með virku samráði.
  • Vera eftirsóknarverður vinnustaður.


2.1. Lykilþjónustusvið


Sveitarfélagið veitir fjölbreytta þjónustu, oft í samstarfi við önnur sveitarfélög.

  • Félags- og skólaþjónusta: Ráðgjöf, heimaþjónusta, fjárhagsaðstoð, málefni fatlaðra og aldraðra, barnavernd og skólaþjónusta, ásamt aðstoð við erlenda ríkisborgara.
  • Menntun: Rekstur leik- og grunnskóla, tónlistarskóli, heimgreiðslur og aðgengi að bókasöfnum og námsveri.
  • Íþrótta- og tómstundamál: Rekstur sundlauga, íþróttahúsa og félagsmiðstöðva ásamt ýmsum samningum við íþróttafélög svæðisins.
  • Menning: Héraðsskjalasafn, menningarsjóður og skipulag hátíða eins og 17. júní og Töðugjalda.
  • Sorphirða: Umsjón með sorphirðu, endurvinnslustöðvum og grenndarstöðvum.
  • Snjómokstur: Viðmiðunarreglur fyrir mokstur á þjóðvegum, héraðsvegum og heimreiðum í dreifbýli, ásamt mokstri í þéttbýli.
  • Vatnsveita: Dreifing á hreinu og góðu neysluvatni.
  • Umhverfismál: Vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.
  • Öryggis- og löggæslumál: Þátttaka í almannavörnum, brunavörnum og samstarf við Flugbjörgunarsveitina á Hellu.
  • Heilsuefling íbúa: Markvisst starf til að bæta heilsu og líðan allra íbúa, með áherslu á samvinnu, fræðslu, útivist og sérstakan stuðning við eldri borgara.
  • Hjúkrunarheimilið Lundur: Miðlæg hjúkrunarþjónusta allan sólarhringinn fyrir eldri íbúa, með áherslu á vellíðan.
  • Skipulags- og byggingarmál: Umsjón með byggingarleyfum, eftirlit með framkvæmdum og ráðgjöf vegna skipulagsmála.
  • Heilbrigðiseftirlit: Eftirlit með hollustuháttum, matvælum og mengunarvörnum í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

3. Þjónustusvæði

  • Hella: Stærsti þéttbýlisstaðurinn í Rangárþingi ytra, þar sem meginhluti þjónustu sveitarfélagsins er staðsettur.
  • Þykkvibær: Byggðakjarni.
  • Laugaland: Byggðakjarni
  • Dreifbýli: Öll önnur svæði utan skilgreinds þéttbýlis og byggðakjarna.

4. Sýn og markmið


Sýn:
Að vera sveitarfélag sem veitir íbúum sínum framúrskarandi þjónustu á skilvirkan og aðgengilegan hátt, með áherslu á jafnrétti, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.
Markmið:

  • Veita íbúum á öllum aldri góða þjónustu á sviði menntunar, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skipulagsmála.
  • Tryggja aðgengilega og skilvirka þjónustu fyrir alla íbúa, óháð búsetu.
  • Stuðla að sjálfbærni og umhverfisvernd í allri starfsemi sveitarfélagsins.
  • Efla lýðræði og íbúalýðræði með virku samráði við íbúa um þjónustu sveitarfélagsins.
  • Vera eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að hæft starfsfólk.


5. Félags- og skólaþjónusta


Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu er byggðasamlag sem fimm sveitarfélög eiga og reka. Þau eru Ásahreppur, Rangárþing Ytra og Rangárþing Eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur.
Félagsþjónusta Rangárþings ytra veitir íbúum fjölbreytta þjónustu, þar á meðal:

  1. Félagsleg ráðgjöf: Ráðgjafi er með starfsstöð á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3. Einnig geta íbúar í sveitarfélögum sem aðilar eru að byggðasamlagi félags- og skólaþjónustu óskað eftir að fá viðtöl á staðnum eða í gegnum fjarfundarþjónustu.
  2. Heimaþjónusta: Sveitarfélagið býður upp á heimaþjónustu fyrir þá sem þurfa aðstoð við dagleg störf.
  3. Fjárhagsaðstoð: Ráðgjafi er með starfsstöð á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3. Viðkomandi hefur bæði staðbundna viðveru eftir þörfum sem og fjarþjónustu fyrir íbúa á svæði byggðasamlagsins. Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð og skila viðeigandi gögnum inn á island.is.
  4. Heimgreiðslur: Foreldrar barna á aldrinum 12–24 mánaða sem ekki eru í leikskóla á vegum Odda bs. geta sótt um heimgreiðslur.
  5. Málefni fatlaðs fólks: Félags- og skólaþjónusta er í byggðasamlaginu Bergrisinn bs. ásamt tólf öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi um málefni fatlaðs fólks. Í boði er hæfing, búsetuúrræði, skammtímadvöl og ferliþjónusta. VISS vinnu
    - og hæfingarstöð er vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu þar sem lagt er upp með að styðja og efla starfsmenn í vinnu og virkni. Hjá VISS er unnið eftir hugmyndafræðinni „Þjónandi leiðsögn“ og „Sjálfstætt líf“. Starfað er samkvæmt lögum 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 auk tengdra reglugerða. Á VISS er unnið markvisst að því að aðstoða fatlað fólk til atvinnuþátttöku, hæfingar og félagsþjálfunar og að styðja fólk í að vera virkir þátttakendur í eigin lífi.
  6. Málefni aldraðra: Í boði á svæði félags- og skólaþjónustu er heimsendur matur, akstur aldraðra innan þéttbýlis eftir þörfum og heimaþjónusta á vegum sveitarfélagsins. Í sveitarfélaginu eru dvalar- og/eða hjúkrunarheimili sem ríkið rekur en sveitarfélagið heldur utan um. Febrang, félag eldri borgara í Rangárvallasýslu, býður upp á afþreyingarmöguleika og félagsstarf á sínu starfssvæði.
  7. Túlkaþjónusta: Ekki er samningur um túlkaþjónustu en tengiliðir sem hægt er að kalla til eftir þörfum, ýmist fyrir stað- eða fjarþjónustu.
  8. Vímuvarnir og aðstoð við einstaklinga með fíknivanda: Ráðgjafi hefur aðsetur á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3. Einnig er hægt að óska eftir að hitta ráðgjafa sem kemur þá á staðinn eða í fjarþjónustu eftir þörfum.
  9. Félagslegt leiguhúsnæði: Hægt er að sækja um félagslegt leiguhúsnæði hjá félagsþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Félagslegt húsnæði er í boði á Hellu. Ráðgjafi er staðsettur á Suðurlandsvegi 1-3 á Hellu. Hægt er að fá ráðgjöf og aðstoð við umsókn og skil á gögnum.
  10. Sérstakur húsnæðisstuðningur: er í boði fyrir þá sem þurfa og falla undir viðmið reglna félags- og skólaþjónustu. Þá er hægt að fá ráðgjöf hjá ráðgjöfum eftir þörfum.
  11. Skólaþjónusta: Skólaþjónusta er rekin í sveitarfélögunum eins og kveðið er á um í 9. kafla laga um grunnskóla 91/2008 og skv. reglugerð 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga. Skólaþjónustan þjónustar grunn- og leikskóla í sveitarfélögunum sem eru á starfssvæði félags- og skólaþjónustu, skv. tilvísunum og beiðnum hverju sinni.
  12. Aðstoð við erlenda ríkisborgara: Ráðgjafi félagsþjónustu hefur viðveru að Suðurlandsvegi 1-3. Ráðgjafi fer eftir þörfum hverju sinni á staðinn og hittir viðkomandi. Rangárþing ytra er með í vinnslu móttökuáætlun og fjölmenningarstefnu sem stefnt er á að klárist árið 2025. Fjölmenningarráð er starfrækt í sveitarfélaginu. Hlutverk fjölmenningarráðs skal vera sveitarstjórn og nefndum til ráðgjafar um málefni og hagsmuni íbúa í Rangárþingi ytra sem snýr að innflytjendum og fólki með erlendan bakgrunn. Helstu verkefni ráðsins eru m.a.:
    1. að gera tillögu til sveitarstjórnar um markmið og stefnu sveitarfélagsins í málefnum íbúa af erlendum uppruna.
    2. að hafa eftirlit með því að samþykkt markmið sveitarstjórnar í málaflokknum nái fram að ganga.
    3. að setja fram, ef ástæða er til, ábendingar um ný rekstrar- og framkvæmdaverkefni á sínu sviði fyrir gerð fjárhagsáætlunar ár hvert.
    4. að vera sveitarstjórn, nefndum og stofnunum Rangárþings ytra til ráðgjafar um málefni og hagsmuni íbúa af erlendum uppruna.
    5. að vera samráðsvettvangur íbúa sveitarfélagsins sem eru innflytjendur og stuðla að fjölmenningarlegu samfélagi.


Íþrótta- og fjölmenningarfulltrúi heldur utan um fjölmenningu og óskar eftir aðstoð félagsþjónustu ef við á.

  • Samþætting þjónustu í þágu barna: Starfsfólk félagsþjónustunnar hefur starfsstöð á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3. Einnig fara ráðgjafar reglulega í skóla og leikskóla á svæðinu. Hægt er að óska eftir ráðgjöf á skrifstofu félagsþjónustunnar á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3 eða í fjarþjónustu eftir þörfum. Einnig er hægt að óska eftir að hitta ráðgjafa í viðkomandi sveitarfélagi á starfssvæðinu.
  • Barnaverndarþjónusta: Starfsmenn barnaverndarþjónustu eru með starfsstöð á Hellu, Suðurlandsvegi 1-3. Þau fara einnig á staðinn þegar við á. Verkefni barnaverndarþjónustu eru meðal annars vinnsla mála skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002, ráðgjöf í tengslum við fjölskyldur og barnavernd, umsagnir í umgengnis- og ættleiðingarmálum, úttektir á fósturfjölskyldum og stuðningsfjölskyldum.
  • Á heimasíðu félags- og skólaþjónustu er að finna frekari upplýsingar: felagsogskolamal.is


6. Menntun


Skóla- og fræðslumál eru einn þýðingarmesti málaflokkur sem sveitarfélagið annast og er í sífelldri þróun. Sveitarfélagið hefur lagt metnað sinn í rekstur leikskóla, grunnskóla,
tónlistarskóla og margvíslega aðra fræðslustarfsemi og ver um það bil helmingi útgjalda sinna til þeirra mála. Leik- og grunnskólar eru reknir undir Byggðasamlaginu Odda bs. Skólastefnu, samþykktir og gjaldskrá Odda bs. má nálgast á vefsíðu sveitarfélagsins.

  • Leikskólar: Sveitarfélagið rekur tvo leikskóla, Heklukot á Hellu og Leikskólann á Laugalandi. Báðir leikskólar leggja áherslu á einstaklingsmiðað nám og velferð barnanna. Nýr leikskóli er í byggingu á Hellu sem stefnt er á að taki til starfa 2027.
  • Heimgreiðslur: Sveitarfélagið býður upp á heimgreiðslur fyrir börn á aldrinum 12–24 mánaða sem ekki eru á leikskóla á vegum Odda bs. eða hlutagreiðslu fyrir börn sem ekki eru í fullri vistun. Heimgreiðsla er bundin því að barn sé með lögheimili í Rangárþingi ytra. Við flutning á lögheimili barnsins úr sveitarfélaginu falla heimgreiðslur niður frá og með sama degi. Upphæð fullrar heimgreiðslu er kr. 125.000 á mánuði fyrir hvert barn (2025 - endurmetið árlega).
  • Grunnskólar: Sveitarfélagið rekur tvo grunnskóla, Grunnskólann á Hellu og Laugalandsskóla. Skólarnir bjóða upp á fjölbreytt nám og leggja áherslu á að efla félagsfærni og sjálfstæði nemenda.
  • Tónlistarskóli: Íbúar Rangárþings ytra eiga aðgang að Tónlistarskóla Rangæinga. sem er rekinn í samstarfi við önnur sveitarfélög í Rangárvallasýslu. Kennsla fer fram á Hellu og Laugalandi.
  • Ráðning kennara, skólastjóra o.fl.: Öll ótímabundin störf eru auglýst og ráðning skólastjóra í höndum stjórnar Odda Bs.
  • Skólaakstur: Skólaakstur er í boði fyrir nemendur sem búa í dreifbýli Rangárþings ytra.
  • Námsver: Rangárþing ytra býður þeim sem búsetu hafa í sveitarfélaginu og stunda nám aðgang að námsveri, án endurgjalds. Aðstaðan er í kjallara Miðjunnar. Aðstaðan er bæði hugsuð fyrir fjarnema á háskólastigi og öðrum skólastigum og er með aðgengi að nettengingu, fundarbúnaði og vinnurými, auk sameiginlegrar kaffistofu. Námsverið er samstarfsverkefni Rangárþings ytra, Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands, með það að markmiði að gera fólki kleift að stunda nám og endurmenntun án þess að þurfa að sækja þjónustu langt utan byggðarlagsins. Aðgengi að námsverinu er sveigjanlegt og geta nemendur fengið aðgang með því að sækja um hjá skrifstofu sveitarfélagsins: ry@ry.is.


Bókasöfn:

  • Hella: Sveitarfélagið rekur bókasafn í grunnskólanum á Hellu sem býður upp á fjölbreytt úrval bóka og annarra gagna. Vinnuaðstaða er til staðar á safninu og útlán eru gjaldfrjáls fyrir alla íbúa Rangárþings ytra.
  • Laugaland: Sveitarfélagið rekur bókasafn í grunnskólanum á Laugalandi og útlán eru gjaldfrjáls fyrir alla íbúa Rangárþings ytra.
  • Þykkvibær: Sveitarfélagið rekur bókasafn í Þykkvabæ sem er opið á miðvikudögum frá kl. 17:00 – 18:00 tímabilið 15. september til 15. maí ár hvert og útlán eru gjaldfrjáls fyrir alla íbúa Rangárþings ytra.


7. Íþrótta- og tómstundamál


Rangárþing ytra tryggir fjölbreytt tómstunda- og íþróttastarf fyrir alla íbúa. Lögð er áhersla á að í boði sé öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf sem nær til allra aldurshópa og mismunandi áhugasviða. Sveitarfélagið rekur og styður ýmsa þjónustu sem eflir íþróttir, hreyfingu og uppbyggilega afþreyingu. Íþróttamiðstöðvar, sundlaugar og íþróttahús í sveitarfélaginu eru nýtt til að veita íbúum gott aðgengi að líkamsrækt, sundi og skipulögðum æfingum allt árið um kring.


7.1 Aðstaða og íþróttafélög

Rangárþing ytra sér um að tryggja góðar aðstæður fyrir íþróttaiðkun og heilsueflingu í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið rekur mannvirki eins og sundlaugar, íþróttahús og íþróttavelli, sem þjónusta bæði skipulagt íþróttastarf félaganna og almenna hreyfingu íbúa. Í Rangárþingi ytra eru sundlaugar á Hellu og Laugalandi og íþróttahús á Hellu, Laugalandi og í Þykkvabæ. Öll eru mannvirkin vel búin tækjum og útbúnaði fyrir fjölbreyttar íþróttir. Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að íbúar hafi greiðan aðgang að hreinum og öruggum íþróttamannvirkjum sem er vel við haldið í nærumhverfi sínu. Reglulega er fylgst með ástandi mannvirkja og viðhaldi eða endurbótum sinnt eftir þörfum til að mæta vaxandi kröfum og til að tryggja öryggi og gæði.
10
Sveitarfélagið styður íþrótta- og ungmennafélög í héraðinu og vinnur náið með þeim að eflingu íþróttastarfs. Í Rangárþingi ytra er öflugt starf á sviði íþrótta; starfrækt eru mörg félög sem sinna ólíkum greinum, allt frá knattspyrnu og frjálsum íþróttum yfir í hestamennsku, skotíþróttir, golf og fleira. Má þar nefna félög eins og Ungmennafélagið Heklu á Hellu, Íþróttafélagið Garp á Laugalandi, Ungmennafélagið Framtíðina í Þykkvabæ og Knattspyrnufélag Rangæinga (KFR), svo nokkur dæmi séu tekin, sem og öflug hestamannafélög og aðrir klúbbar. Sveitarfélagið veitir þessum félögum beinan og óbeinan stuðning, meðal annars með því að bjóða afnot af íþróttamannvirkjum á hagstæðum kjörum, veita styrki til æskulýðsstarfs þegar við á og auðvelda samstarf milli félaganna og annarra aðila. Þá eru haldnir samráðsfundir og samvinnuverkefni með forsvarsmönnum félaganna til að tryggja gott upplýsingaflæði og samnýtingu auðlinda.


Markmiðið er að íþróttafélögin geti blómstrað og boðið sem flestum íbúum tækifæri til þátttöku, keppni og þjálfunar við sitt hæfi.


Rangárþing ytra kappkostar einnig að allir hlutar sveitarfélagsins njóti góðrar þjónustu á sviði íþrótta. Boðið er upp á æfingar og tómstundastarf víða um svæðið, svo sem á Hellu, Laugalandi og í Þykkvabæ, til að sem flestir geti stundað íþróttir án langra ferðalaga. Þannig er reynt að tryggja að íbúar, óháð búsetustað innan Rangárþings ytra, hafi valkosti til að hreyfa sig og taka þátt í íþróttastarfi. Sveitarfélagið lítur á það sem hluta af þjónustu sinni að skapa umgjörð þar sem íþrótta- og tómstundastarf fær notið sín og stuðlar að heilbrigðu og skemmtilegu samfélagi.


7.2 Félagsmiðstöðin Hellirinn


Félagsmiðstöðin Hellirinn gegnir mikilvægu hlutverki í æskulýðsstarfi sveitarfélagsins. Hellirinn er starfræktur á Hellu og er opinn ungmennum í 5.–10. bekk grunnskóla. Þar geta krakkar hist í öruggu og uppbyggilegu umhverfi undir leiðsögn starfsfólks. Markmiðið með félagsmiðstöðinni er að bjóða ungu fólki fjölbreytta afþreyingu, tækifæri til félagslegra samskipta og uppbyggilegra tómstunda.


Boðið er upp á ýmsa viðburði, leiki og verkefni sem efla félagsfærni, forvarnir og skemmtun fyrir þennan aldurshóp. Með þessu móti stuðlar Rangárþing ytra að því að ungmenni hafi öruggan vettvang til að njóta sín og þroskast utan skólatíma.


7.3 Vinnuskóli Rangárþings ytra


Vinnuskóli Rangárþings ytra er mikilvægur hluti tómstunda- og æskulýðsstarfs sveitarfélagsins. Vinnuskólinn er ætlaður unglingum á sumrin og gefur þeim kost á sumarstarfi og fræðslu um ábyrgð og verklag.


Unglingarnir taka þátt í ýmsum verkefnum, oft tengdum umhverfisfegrun og viðhaldi á nærumhverfi, undir leiðsögn flokksstjóra.
Vinnuskólinn þjónar því tvíþættum tilgangi:

  • Að kenna ungmennum vinnubrögð, ábyrgð og góð gildi í verki.
  • Að fegra umhverfið og efla samfélagskennd.


Sveitarfélagið greiðir unglingum laun fyrir vinnu sína í vinnuskólanum og stuðlar þannig að jákvæðri reynslu af fyrstu kynnum af vinnumarkaði. Allir unglingar á viðeigandi aldri í Rangárþingi ytra fá tækifæri til að sækja vinnuskólann yfir sumartímann og njóta leiðsagnar og eftirlits í öruggu starfsumhverfi.


7.4 Frístundastyrkur og jöfnuð tækifæri barna


Sveitarfélagið styður virka þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi með frístundastyrk fyrir hvert barn. Frístundastyrkurinn er fjárhagslegur stuðningur sem veittur er foreldrum/forráðamönnum allra barna 6–16 ára með lögheimili í Rangárþingi ytra. Markmið þessa styrkjakerfis er að öll börn í sveitarfélaginu geti tekið þátt í uppbyggilegu íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldu eða öðrum aðstæðum. Með frístundastyrknum er dregið úr kostnaðarhindrunum svo að enginn verði útundan í félagslífi og tómstundum. Foreldrar geta nýtt styrkinn við skráningu barna sinna í viðurkenndar íþrótta- eða tómstundagreinar og kemur upphæð styrksins þá til frádráttar þátttökugjöldum. Sveitarfélagið vinnur með rafrænu kerfi til að úthluta frístundastyrknum, sem einfaldar ferlið og tryggir að stuðningurinn nýtist strax þegar barn skráir sig í tómstund. Upphæð styrksins er endurskoðuð reglulega; t.d. nam frístundastyrkurinn 57.000 krónum á barn árið 2025. Íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins veitir aðstoð og upplýsingar um notkun frístundastyrksins og er foreldrum ætíð velkomið að leita ráðgjafar ef spurningar vakna. Með frístundastyrknum hefur Rangárþing ytra sett jöfnuð í öndvegi, þannig að öll börn, óháð bakgrunni, hafi sömu tækifæri til að stunda heilbrigt og félagslega uppbyggilegt frístundalíf.


8. Menning


Héraðsskjalasafn Rangæinga: Að safninu standa sveitarfélögin Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Skjalasafnið vinnur í samræmi við lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Því er ætlað að vinna náið með sveitarfélögunum með það að markmiði að tryggja örugga meðferð og vörslu skjala með réttindi íbúa, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu sveitarfélaganna að leiðarljósi. Skjalasafnið býr fyrst og fremst yfir skjölum sveitarfélaganna og undirstofnana þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga.


Menningarsjóður Rangárþings ytra: Markmið sjóðsins er að efla og styrkja menningarstarf í sveitarfélaginu. Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað tvisvar á ári. Umsókn og reglur um úthlutun styrkja er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.


Hátíðir: Sveitarfélagið skipuleggur og heldur utan um ýmsar hátíðir ár hvert. Hæst ber að nefna 17. júní hátíðarhöld og Töðugjöld: Töðugjöld hafa verið haldin ár hvert frá árinu 1994, að undanskildum Covid-árunum. Hátíðin er hátíð þar sem allir eru boðnir velkomnir og mikið er lagt upp úr því að fjölskyldan geti skemmt sér saman og dagskráin því miðuð að því. Töðugjöld eru undirbúin og haldin í samvinnu markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins og íbúa.


9. Sorphirða


Rangárþing ytra er aðili að Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. sem er byggðasamlag sem nær yfir Rangárvallasýslu. Sorpstöð Rangárvallasýslu sér um sorphirðu í sveitarfélaginu. Íbúar eru hvattir til að flokka sorp og nýta sér endurvinnslustöðvar.
Fasteignaeigendur í Rangárvallasýslu sem greiða sorpeyðingargjald fá afhent eitt klippikort á ári sem inniheldur heimild til losunar á allt að 5m3 af gjaldskyldum úrgangi. Kortin eru afhent á skrifstofum sveitarfélaganna Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps og á móttökustöðinni á Strönd.

 

10. Snjómokstur


Viðmiðunarreglur um snjómokstur hafa verið í gildi í Rangárþingi ytra frá árinu 2019.
Meginmarkmið snjómoksturs og hálkueyðingar er að koma börnum í skólann á réttum tíma og greiða um leið akstursleiðir þeirra sem þurfa til og frá vinnu og minnka þau óþægindi sem snjór og ís veldur einstaklingum, fyrirtækjum og skólahaldi. Snjómokstri og hálkueyðingu í dreifbýli er stjórnað af tveimur aðilum; Vegagerðinni og Rangárþingi ytra. Útboð Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins á snjómokstri miðar við tímabilið 1. nóvember til 15. apríl ár hvert. Snjómokstri og hálkueyðingu í þéttbýli er stjórnað af Rangárþingi ytra.

  • Þjóðvegir: Vegagerðin sér um allan mokstur á þjóðveginum sem liggur um sveitarfélagið.
  • Héraðs- og tengivegir: Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar (sjá www.vegagerdin.is) er heimilt að moka þessa vegi með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki þrisvar sinnum í viku, meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Miðað er við að búið sé að opna allar aðalleiðir virka daga kl. 7 að morgni þá daga sem mokað er. Kostnaður við snjómokstur þessara vega skiptist til helminga á Vegagerð og sveitarfélagið. Komi til að moka þurfi helmingamokstur oftar en þrisvar í viku verður að liggja fyrir samþykki Vegagerðarinnar á greiðslu helmings kostnaðar á móti Rangárþingi ytra. Vegagerðin sér um þann mokstur að höfðu samráði við forstöðumann Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er einnig heimilt að moka sérstaklega vegna jarðarfara og greiðir Vegagerðin þann kostnað að fullu.
  • Heimreiðar í dreifbýli: Heimreiðar í dreifbýli eru mokaðar allt að þrisvar sinnum í viku þegar þörf er á og meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra metur þörf á mokstri. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili. Sveitarfélagið annast ekki mokstur heimreiða að sumarhúsum og sveitarfélagið greiðir ekki snjómokstur eða hálkuvarnir inni á sumarhúsasvæðum.
  • Þéttbýli: Götur í þéttbýli eru mokaðar, svo og bílastæði við stofnanir sveitarfélagsins. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli.
  • Önnur atriði: Aðilar sem taka upp fasta búsetu og skrá lögheimili á stöðum í dreifbýli sem ekki hefur verið mokað að geta haft samband við Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra varðandi mokstur. Hafa ber í huga að þessar reglur eru settar til viðmiðunar og ber að líta á þær sem slíkar. Getur tíðarfar og snjóþyngsli raskað áformum um mokstur. Hvorki Vegagerðin né Rangárþing ytra bera ábyrgð á tjóni sem kann að verða, takist ekki að framfylgja viðmiðunarreglunum. Íbúar eru hvattir til að láta Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra vita í síma 4875284 þegar ófært er.

 

11. Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps


Vatnsveitan sér um að veita íbúum þéttbýlisins hreint og gott neysluvatn ásamt íbúum í dreifbýli sem hafa möguleika á að tengjast henni. Sveitarfélögin bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlagsins en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúafjölda. Upplýsingar um vatnsveituna má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.


12. Umhverfismál


Innan sveitarfélagsins er starfandi umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd. Sveitarfélagið vinnur eftir eigin umhverfisstefnu þar sem meginmarkmið eru: að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og vera í fararbroddi annarra sveitarfélaga, öðrum til eftirbreytni.
Með gerð umhverfisstefnu setur sveitarfélagið sér enn sterkari viðmið og mun leitast eftir að sjálfbærni í umhverfismálum verði höfð að leiðarljósi. Skýr stefna í umhverfismálum gerir
sveitarfélagið ákjósanlegt og eftirsóknarvert til búsetu. Umhverfisstefnan er lifandi skjal sem styður stöðuga vinnu til úrbóta á öllum sviðum umhverfismála. Umhverfisstefnan er sýnileg og aðgengileg öllum íbúum og gestum og öllu starfsfólki sveitarfélagsins.
Umhverfisstefnu Rangárþings ytra má nálgast á vef sveitarfélagsins.


13. Öryggis- og löggæslumál

  • Almannavarnir (að hluta): Sveitarfélagið fer eftir lögum um Almannavarnir nr. 82/2008. Fulltrúi Rangárþings ytra situr í almannavarnanefnd í umboði sveitarfélagsins. Sviðsstjóri almannavarna lögreglunnar á Suðurlandi er starfsmaður almannaverndar.
  • Brunavarnir Rangárvallasýslu bs.: Aðild að byggðasamlaginu eiga Ásahreppur, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra. Hlutverk byggðasamlagsins er að annast lögbundin og samningsbundin verkefni. Felst það einkum í að vinna að forvörnum, eftirliti og veita fyrstu viðbrögð til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir og afla nauðsynlegra tækja í samráði við Mannvirkjastofnun. Brunavarnir Rangárvallasýslu eru með starfsstöð á Hellu.
  • Flugbjörgunarsveitin á Hellu: Á milli Rangárþings ytra og FBSH er í gildi samstarfssamningur til loka árs 2026. Samningurinn felur í sér að FBSH haldi úti öflugu æskulýðs- og tómstundastarfi með ungliðadeildinni sem snýr að því að byggja upp og þjálfa unga björgunarsveitamenn, með reglubundnum æfingum og ferðum, til að vinna í hóp, leysa verkefni á við fyrstu hjálp, rötun, fjallamennsku og aðgerðarstjórn. FBSH heldur utan um, þjálfar og byggir upp öflugt net sjálfboðaliða í björgunarstörfum sem geta tekist á við hin ýmsu verkefni sem upp koma á svæðinu, hvort sem það er vegna veðurs, náttúruvár eða aðstoð við ferðamenn. FBSH aðstoðar við hátíðarhöld á opinberum samkomum á vegum sveitarfélagsins, þ.e. Töðugjöld, flugeldasýningu, brennu á Gamlársdag o.fl. samkvæmt 5. gr. samningsins.


14. Heilsuefling íbúa


Rangárþing ytra leggur ríka áherslu á heilsu og vellíðan allra íbúa á öllum æviskeiðum og er
stolt af því að vera Heilsueflandi samfélag í samstarfi við Embætti landlæknis. Í þessu felst að heilsusjónarmið eru höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum sveitarfélagsins, þar sem allir geirar taka þátt.
Sveitarfélagið vinnur markvisst að því að skapa bestu mögulegu aðstæður í lífi, leik og starfi með því að hafa jákvæð áhrif á félagslegar, efnahagslegar og menningarlegar aðstæður, ásamt manngerðu og náttúrulegu umhverfi. Markmiðið er að gera holla valið auðvelt, hvort sem um er að ræða hreyfingu, hollt mataræði, geðrækt eða grænan lífsstíl, samhliða því að sporna
16
gegn áhættuhegðun eins og neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Þessu til stuðnings er mikilvægt að styðja við starf Heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Drög að heilsustefnu Rangárþings ytra liggja fyrir og miða þau að því að skapa umhverfi og aðstöðu sem gerir íbúum kleift að bæta heilsu sína, líðan og lífsgæði með heilbrigðum lífsháttum.
Helstu markmið heilsustefnunnar eru:

  • Samvinna: Að allir aðilar í samfélaginu leggi sitt af mörkum til heilsueflingar.
  • Heilsuvika: Að haldin verði árleg heilsuvika til að vekja athygli á mikilvægi heilbrigðs lífernis.
  • Stýrihópur: Stofnaður verði stýrihópur Heilsueflandi samfélags til að leiða verkefnið áfram.
  • Aðstaða: Að tryggð verði aðstaða fyrir alhliða og fjölbreytta heilsurækt.
  • Aðgengi að upplýsingum: Að allar upplýsingar um almenningsíþróttir séu vel aðgengilegar.
  • Náttúra: Að gott aðgengi sé að náttúruperlum og opnum svæðum í sveitarfélaginu.
  • Fjölbreytni í hreyfingu: Að tryggt sé framboð á fjölbreyttri hreyfingu svo allir finni eitthvað við sitt hæfi.


Til að ná þessum markmiðum verður unnið að eftirfarandi leiðum:

  • Vitundarvakning: Efla og viðhalda vitund íbúa um mikilvægi þátttöku í almenningsíþróttum.
  • Fræðsla og forvarnir: Auka þekkingu með öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi.
  • Útivistarsvæði: Viðhalda og fjölga göngu- og hlaupaleiðum og tryggja að þær séu vel merktar.
  • Útiæfingatæki: Bæta við útiæfingatækjum þar sem kostur er, í kringum útivistarsvæði, á hlaupaleiðum og við íþróttamiðstöðvar.


Sérstök áhersla er lögð á heilsueflingu eldri borgara í Rangárþingi ytra, en það er mikilvægur þáttur í að stuðla að betri heilsu, aukinni virkni og jákvæðri félagslegri þátttöku meðal eldri íbúa. Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu, FEBRANG, hefur veg og vanda af því að skipuleggja og framkvæma öflugt starf, þar á meðal ýmsa viðburði, ferðir, fræðslu og vinnustofur, til að mæta mismunandi þörfum þeirra.


Rangárþing ytra rekur tvær sundlaugar (Hella og Laugaland) og þrjú íþróttahús (Hella, Þykkvibær og Laugaland).


15. Hjúkrunarheimilið Lundur


Hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu er mikilvægur hluti af þjónustuframboði Rangárþings ytra fyrir eldri íbúa og þá sem þurfa á sérhæfðri umönnun að halda. Starfsemi Lundar miðar að því að tryggja hlýlegt og öruggt umhverfi þar sem dregið er úr líkum á færnitapi og stuðlað er að vellíðan íbúa.


Á Lundi er lögð áhersla á miðlæga þjónustu sem tekur mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins. Meðal þjónustu sem boðið er upp á eru hjúkrunarþjónusta allan sólarhringinn, læknisþjónusta, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Einnig er boðið upp á félagslega þjónustu og afþreyingu sem stuðlar að virkni og lífsgæðum íbúa.
Lundur er með fjögur dagdvalarpláss sem skiptast á milli nokkurra einstaklinga. Markmið dagdvalar er að styðja þá einstaklinga sem geta búið heima en þarfnast eftirlits og aðstoðar sem eflir um leið andlega, líkamlega og félagslega færni. Í dagvistun er boðið upp á morgunverð, hádegisverð og miðdagskaffi eftir því sem við á ásamt akstri og sjúkraþjálfun ef við á.
Sveitarfélagið hefur eftirlit með starfsemi Lundar og leitast við að tryggja að hún uppfylli ströngustu kröfur um gæði og öryggi. Nánari upplýsingar um hjúkrunarheimilið Lund má finna á heimasíðu Lundar.


16. Skipulags- og byggingarmál

16.1. Byggingarfulltrúi
Byggingarfulltrúi skal starfa líkt og hlutverk hans er skilgreint í lögum um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012, með áorðnum breytingum, samþykktum sveitarfélagsins og erindisbréfi ef við á.


Byggingarfulltrúi hefur yfirumsjón með byggingarmálum í sveitarfélaginu, úttektum framkvæmda, skráningu eigna í fasteignaskrá, lóðarskráningu, landupplýsingakerfi o.fl.


Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með að byggingaframkvæmdir séu í samræmi við samþykkt skipulag á hverju svæði fyrir sig og útgefin leyfi.


Helstu verkefni sem byggingarfulltrúi hefur faglega yfirumsjón með og ber ábyrgð á:

  • Móttaka og formleg afgreiðsla umsókna um byggingarleyfi og tilkynningaskyldar framkvæmdir, stöðuleyfa og fyrirspurna vegna byggingaráforma.
  • Yfirferð teikninga og annarra gagna í tengslum við umsóknir um byggingarleyfi og tilkynningaskyldar framkvæmdir vegna mannvirkjagerðar, s.s. lóðablaða og mæliblaða, aðaluppdrátta og sérteikninga s.s. burðarvirkis og lagnateikninga.
  • Yfirferð brunahönnunargagna.
  • Yfirferð á skráningartöflum fyrir stærðir mannvirkja, flokkun og notkun eigna og skráning mannvirkja inn til Þjóðskrár Íslands vegna mats á fasteignum.
  • Yfirferð vottunar byggingarefnis.
  • Samþykkt byggingaráforma vegna mannvirkjagerðar.
  • Ábyrgð og umsjón með útgáfu á byggingarleyfum fyrir byggingarleyfiskyld mannvirki.
  • Útsetningar og mælingar á staðsetningu húsa á byggingarreit.
  • Eftirlit með að hönnunarstjórar, hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar hafi starfsleyfi og viðhlýtandi tryggingar, auk þess að hafa gilt gæðakerfi.
  • Eftirlit með að byggingarframkvæmdir séu í samræmi við skipulag og útgefin leyfi.
  • Úttektir byggingarframkvæmda á byggingarstað, skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með áorðnum breytingum og útgáfa vottorða til samræmis.
  • Innheimta á gjöldum vegna byggingarleyfa og tilkynningarskyldra framkvæmda, stöðuleyfa, starfs- og rekstrarleyfa o.fl.
  • Yfirferð, staðfesting og skráning eignaskiptasamninga.
  • Hefur mannaforráð, sem felst í því að starfsmaður sér um að fela aðstoðarmönnum sínum verkefni og veitir leiðsögn um framkvæmd vinnu.
  • Svara umbeðnum umsögnum til sýslumanns og heilbrigðisfulltrúa vegna starfs- og rekstraleyfisumsókna fyrir gisti- og veitingahús, auk vínveitingarleyfa.
  • Tryggileg varðveisla gagna vegna ofangreindra mála og skönnun teikninga í gagnasjá embættisins.
  • Ráðgjöf og samskipti við hönnuði, byggingarstjóra, verktaka og íbúa í tengslum við byggingarleyfis- og tilkynningaskyldar framkvæmdir í sveitarfélaginu.
  • Ráðgjöf og samskipti við starfsfólk opinberra stofnana, skipulagsfulltrúa, skipulagsnefnd, sveitarstjórnir og annarra starfsmanna um málefni sem varða byggingarmál.


16.2. Skipulagsfulltrúi
Skipulagsfulltrúi skal starfa líkt og hlutverk hans er skilgreint í skipulagslögum nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013 með áorðnum breytingum, samþykktum sveitarfélagsins og erindisbréfi ef við á.


Skipulagsfulltrúi starfar með skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins auk umhverfis-, hálendis- og samgöngunefndar. Hann hefur umsjón með skipulagsgerð á svæðinu og hefur eftirlit með að framkvæmdir séu í samræmi við skipulag og útgefin leyfi.


Helstu verkefni sem skipulagsfulltrúi hefur faglega yfirumsjón með og ber ábyrgð á:

  • Hefur yfirumsjón með skipulagsmálum innan sveitarfélagsins.
  • Móttekur umsóknir um skipulagsmál og framkvæmdaleyfi og sinnir undirbúningi þeirra fyrir afgreiðslu í skipulags- og umferðarnefnd. Með skipulagsmálum er m.a. átt við breytingar á aðalskipulagi, deiliskipulag og breytingar á deiliskipulagi.
  • Hefur umsjón með framkvæmd mála sem varða stofnun nýrra lóða eða breytingar á þeim.
  • Undirbýr fundi nefndanna, lögformlega afgreiðslu erinda og eftirfylgni mála.
  • Annast málsmeðferð skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisumsókna, þ.e. lögboðnar kynningar og auglýsingar ásamt nauðsynlegum samskiptum við opinbera aðila, almenning og aðra hagsmunaaðila.
  • Hefur umsjón með að skipulags- og framkvæmdaleyfisgögn uppfylli ákvæði gildandi laga og reglugerða á hverjum tíma.
  • Sinnir ráðgjöf og samskiptum við íbúa, hönnuði og verktaka vegna skipulagsmála, framkvæmdaleyfa og lóða- og landamerkjamála innan sveitarfélagsins.
  • Sinnir ráðgjöf og samskiptum við byggingarfulltrúa, skipulags- og umferðarnefnd, sveitarstjórnir og aðra starfsmenn um málefni sem varða skipulagsmál.
  • Sér um útgáfu framkvæmdaleyfa s.s. varðandi efnisnámur, vegagerð o.s.frv.
  • Ber ábyrgð á að úrvinnslugögn vegna ofangreindra mála séu tryggilega varðveitt.


17. Heilbrigðiseftirlit


Heilbrigðiseftirlit Suðurlands fer með eftirlit á hollustuháttum-, matvælum- og mengunarvörnum í sveitarfélaginu, stuðlar að öflugri umhverfisvöktun og fræðslu til almennings á Suðurlandi.


Helstu verkefni Heilbrigðiseftirlits Suðurlands eru:

  • Reglubundið eftirlit og leyfisveitingar, s.s. starfsleyfi, tóbakssöluleyfi og brennuleyfi.
  • Sýnataka og rannsóknir á neysluvatni, matvælum og umhverfi.
  • Umsagnir um veitinga- og gististaði vegna rekstrarleyfa sem sýslumenn veita.
  • Umsagnir vegna skipulagsmála til skipulags- og byggingafulltrúa.
  • Umsagnir vegna brennuleyfa sem sýslumenn veita.
  • Vöktun loftgæða og önnur umhverfisvöktun.
  • Hreinsun á lóðum og lendum.
  • Skráning á framkvæmd eftirlits og niðurstöðum mælinga.


18. Ábendingar til sveitarfélagsins


Opnunartími skrifstofu sveitarfélagsins:

  • Mánudaga – fimmtudaga kl. 09:00 – 15:00
  • Föstudaga kl. 09:00 – 12:00


Hafa samband við sveitarfélagið:

  • Tölvupóstur: ry@ry.is
  • Sími: 4887000