Reglur Rangárþings ytra um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga


Í 5.gr. laga nr. 162/2006 er fjallað um skyldu sveitarfélaga til að styrkja stjórnmálasamtök:


5. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.


Sveitarfélögum er skylt að veita stjórnmálasamtökum sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn
í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum árleg
fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða
samþykkt fjárhagsáætlunar ár hvert. Fjárhæðinni skal úthlutað ár hvert í hlutfalli við
atkvæðamagn.


Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga setur viðmiðunarreglur til að stuðla að samræmdri
framkvæmd á greiðslum framlaga frá sveitarfélögum til stjórnmálasamtaka samkvæmt þessari
grein. Reglurnar skal taka til endurskoðunar árlega. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru
skal úthlutun framlaga fara fram á þann hátt að stjórnmálasamtök fái framlög fyrir síðari hluta
þess árs í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.


Á grundvelli 5.gr. laga nr. 162/2006 eru reglur Rangárþings ytra um framlög eftirfarandi.

  1. Fjárframlag til stjórnmálasamtaka skal ákvarðað í fjárhagsáætlun ár hvert og skal eigi nema
    lægri fjárhæð en 470.000 kr. á ári. Miða skal almennt við, nema annað sé ákveðið í
    fjárhagsáætlun, að hækkunin nemi breytingum á vísitölu neysluverðs með upphafsvísitölu í
    janúar ár hvert. Úthlutun fer fram til þeirra stjórnmálasamtaka sem hlotið hafa a.m.k. 5%
    atkvæða eða einn mann kjörinn í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum. Skal framlagi hvers árs
    úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Úthlutun framlaga skal greidd út 1. september ár hvert.
  2. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram skal úthlutað helmingi árlegs framlags fyrir
    kosningar til samræmis við niðurstöðu næstliðinna sveitarstjórnarkosninga. Úthlutun framlaga
    fyrir þennan þátt fer fram 1. maí. Eftir kosningar er síðari helmingi framlagsins úthlutað í
    samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum, sbr. 1. tl.
  3. Á kosningaári til sveitarstjórna greiðist að auki til þeirra framboða sem skila inn löglegum
    framboðum til sveitarstjórnar fjárhæð sem nemur sömu upphæð og fram kemur í 1. tl. Skulu
    framlögin skiptast að jöfnu milli allra þeirra framboða sem bjóða sig fram. Greiðsla fer fram
    þegar kjörstjórn sveitarfélagsins hefur staðfest gildi framboðanna.
  4. Stjórnmálasamtök sem hljóta styrk skv. 1.-3. tl. skulu árlega birta ársreikning sinn á opinberum
    vettvangi. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram skulu stjórnmálasamtök sem hljóta
    styrk skv. 1.-3. tl. gera grein fyrir kostnaði við framboð til sveitarstjórnarkosninga á opinberum
    vettvangi í síðasta lagi fimm mánuðum eftir sveitarstjórnarkosningar, sbr. IV. kafli laga nr.
    162/2006.


Samþykkt í sveitarstjórn 10. apríl 2024