Samþykkt fyrir Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.

Fyrsti kafli - Almenn ákvæði

Fyrsta grein

Byggðasamlagið heitir „Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.“, kennitala 600893-2469. Heimili þess og starfsstöð er að Strönd, 851 Hella.

Önnur grein

Aðild að byggðasamlaginu eiga eftirtalin sveitarfélög: Ásahreppur, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra. Önnur sveitarfélög geta orðið aðilar að byggðasamlaginu með samþykki allra aðildarsveitarfélaganna. Eignarhluti aðildarsveitarfélaganna er í samræmi við íbúatölu fyrsta október ár hvert.

Annar kafli - Hlutverk og valdheimildir

Þriðja grein

Hlutverk byggðasamlagsins er að annast lögbundin og samningsbundin verkefni. Felst það einkum í að samræma og annast söfnun á heimilis- og rekstrarúrgangi í aðildarsveitarfélögunum, að bera ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til.

Fjórða grein

Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna hafa ákveðið að framselja til byggðasamlagsins vald til ákvörðunar og framkvæmdar lögbundinna skyldna í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs númer 55/2003, með síðari breytingum, og annarra laga og reglugerða sem kveða á um sorp- og úrgangsmál.

Valdheimildum byggðasamlagsins er nánar lýst í samþykkt þessari. Stjórn byggðasamlagsins hefur ekki umboð til að skuldbinda aðildarsveitarfélögin umfram það sem getið er um í samþykkt þessari.

Stjórn byggðasamlagsins er heimilt að gera samninga um sorphirðu á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar.

Byggðasamlagið skal fylgja ákvæðum sveitarstjórnarlaga númer 138/2011 um meðferð mála, skyldur og réttindi stjórnarmanna, starfslið, fjármál og stjórnsýslueftirlit auk þess að fylgja öðrum almennum reglum sem gilda um framkvæmd verkefna sveitarfélags.

Fimmta grein

Leita þarf samþykkis allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna við gerð samninga við einkaaðila um þjónustustarfsemi annarrar en um sorphirðu, samanber meðal annars hundruðustu grein sveitarstjórnarlaga. Jafnframt þarf að leita samþykkis allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna við gerð samninga við einstök aðildarsveitarfélög um að þau taki að sér afmarkaða þætti í starfsemi byggðasamlagsins. Að auki skal leita samþykkis allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna varðandi gerð samninga um ný verkefni byggðasamlagsins.

Þriðji kafli - Stjórnskipulag

Sjötta grein

Aðildarsveitarfélögin tilnefna hvert um sig einn aðalmann og einn varamann í stjórn byggðasamlagsins að afloknum sveitarstjórnarkosningum og er kjörtímabil stjórnar það sama og sveitarstjórnar. Stjórnarfulltrúar skulu vera aðalmenn í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum og skal sá fundur haldinn eigi síðar en fyrsta ágúst. Fulltrúi fjölmennasta sveitarfélagsins boðar til fyrsta fundar og stýrir honum uns formaður hefur verið kjörinn.

Sjöunda grein

Stjórn byggðasamlagsins heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og að jafnaði eigi sjaldnar en sex sinnum á ári. Halda skal stjórnarfund óski tveir fulltrúar í stjórn eftir því. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meirihluti fulltrúa í stjórn er mættur til fundar.

Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála á stjórnarfundum.

Ákvarðanir sem stjórn tekur eru fullnaðarákvarðanir, en um endurupptöku einstakra mála fer eftir ákvæðum tuttugust og fjórðu greinar stjórnsýslulaga númer 37/1993. Fundargerðir stjórnarfunda skulu sendar aðildarsveitarfélögunum.

Áttunda grein

Hlutverk stjórnar er að annast daglegan rekstur byggðasamlagsins í samræmi við ákvæði samþykktar þessarar, að öðru leyti en því sem hún felur öðrum að annast fyrir sína hönd.

Stjórnin getur ráðið framkvæmdastjóra til að stýra daglegum rekstri og gerir þá við hann ráðningarsamning þar sem kveðið er á um starfskjör, réttindi og skyldur í starfi.

Ef framkvæmdastjóri er ekki ráðinn gerir stjórnin samning við eitt aðildarsveitarfélag byggðasamlagsins um að annast framkvæmdastjórnina. Í slíkum samningi skal að jafnaði tilgreint hvaða starfsmaður sveitarfélagsins fari með framkvæmdastjórnina.

Í framkvæmdastjórninni felst að annast daglegan rekstur byggðasamlagsins í samræmi við gildandi lög, reglur og ákvarðanir stjórnar. Stjórninni er heimilt að gera samninga við ytri aðila um einstaka þætti er varða daglegan rekstur, svo sem færslu bókhalds, gerð reikninga og þess háttar.

Sá sem annast framkvæmdastjórnina situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

Stjórnin ræður starfsfólk byggðasamlagsins og gerir ráðningarsamninga við starfsfólk þar sem kveðið er á um starfskjör, réttindi og skyldur í starfi.

Fjórði kafli - Rekstur og fjármál

Níunda grein

Stjórn byggðasamlagsins gerir fjárhagsáætlun fyrir byggðasamlagið ár hvert sem uppfyllir skilyrði sveitarstjórnarlaga og sendir sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna til staðfestingar eigi síðar en tíunda október ár hvert. Ef sveitarstjórn einhvers aðildarsveitarfélags staðfestir ekki fjárhagsáætlunina skal stjórn byggðasamlagsins fjalla aftur um áætlunina og senda nýja fjárhagsáætlun til staðfestingar.

Stjórn byggðasamlagsins skal hafa eftirlit með því að rekstur sé í samræmi við fjárhagsáætlun.

Stjórn byggðasamlagsins getur ekki skuldbundið aðildarsveitarfélögin umfram það sem kveðið er á um í staðfestri fjárhagsáætlun byggðasamlagsins. Ákvarðanir um lántökur, húsnæðismál eða mál er varða útgjöld umfram fjárhagsáætlun byggðasamlagsins þarfnast staðfestingar frá sveitarstjórnum allra aðildarsveitarfélaganna.

Tíunda grein

Tekjur byggðasamlagsins eru mánaðarleg og eftir atvikum árleg framlög aðildarsveitarfélaganna. Einnig geta komið til aðrar tekjur vegna þjónustusamninga, sölu á þjónustu sem tengist verksviði byggðasamlagsins eða annarra skyldra þátta.

Sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna setja gjaldskrá að fenginni tillögu stjórnar byggðasamlagsins fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs og annast innheimtu gjaldanna innan síns sveitarfélags.

Sveitarfélögin greiða annars vegar fast gjald til byggðasamlagsins sem ákveðið er í fjárhagsáætlun og hins vegar fyrir sorpmagn sem afsett er á Strönd, m.a. vegna þess sem kemur frá gámavöllum. Gjald fyrir sorpmagn er ákvarðað í gjaldskrá sem sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaganna samþykkja að fenginni tillögu stjórnar byggðasamlagsins. Öðrum kostnaði við rekstur byggðasamlagsins skal skipt milli aðildarsveitarfélaganna eftir íbúafjölda þeirra fyrsta október ár hvert og skulu framlögin ákveðin í fjárhagsáætlun. Mánaðarleg rekstrarframlög eru greidd fyrirfram til byggðasamlagsins í samræmi við fjárhagsáætlun þess.

Ellefta grein

Aðildarsveitarfélögin bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlagsins en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu.

Tólfta grein

Stjórn byggðasamlagsins staðfestir ársreikninga byggðasamlagsins fyrir ár hvert og miðast reikningsárið við almanaksárið. Ársreikningar byggðasamlagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem stjórn þess ræður til starfsins. Senda skal fullgerðan ársreikning, staðfestan af stjórn byggðasamlagsins og áritaðan af endurskoðanda, til allra aðildarsveitarfélaga fyrir fimmtánda apríl ár hvert.

Þrettánda grein

Sveitarstjórnir og endurskoðendur aðildarsveitarfélaganna eiga rétt á aðgangi að öllum gögnum um rekstur og stjórnsýslu byggðasamlagsins.

Fimmti kafli - Ársfundir

Fjórtánda grein

Ársfund byggðasamlagsins skal halda einu sinni á ári að jafnaði á vorin. Stjórn byggðasamlagsins ákveður hvar og hvenær ársfundur er haldinn en formaður stjórnar byggðasamlagsins boðar til ársfundarins.

Rétt til setu á ársfundi eiga kjörnir aðalmenn í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna, framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaganna, auk lykilstarfsmanna byggðasamlagsins og aðildarsveitarfélaganna. Stjórn byggðasamlagsins getur ákveðið að bjóða öðrum aðilum til fundarins með hliðsjón af því hvaða mál eru tekin á dagskrá.

Á ársfundi er gerð grein fyrir rekstri byggðasamlagsins, fjárhagsáætlun og öðrum málum sem stjórn byggðasamlagsins ákveður.

Sjötti kafli - Breyting á samþykkt, slit og gildistaka

Fimmtánda grein

Breyting á samþykkt þessari þarfnast samþykkis allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Samþykkt þessa skal endurskoða ef eitthvert aðildarsveitarfélaganna telur ástæðu til þess, s.s. ef breytingar verða á lögum og reglum sem varða verulega starfsumhverfi byggðasamlagsins.

Sextánda grein

Aðildarsveitarfélagi er heimilt að ganga úr byggðasamlagi þessu með tveggja ára fyrirvara. Um úrgöngu sveitarfélags gilda að öðru leyti ákvæði nítugustu og fimmtu greinar sveitarstjórnarlaga.

Sautjánda grein

Tillaga um slit byggðasamlagsins skal samþykkt af að minnst kosti tveimur þriðju hlutum sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Um slit byggðasamlagsins gilda að öðru leyti ákvæði nítugustu og fimmtu greinar sveitarstjórnarlaga.

Átjánda grein

Samþykkt þessi öðlast gildi við staðfestingu sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna. Jafnframt falla úr gildi samþykktir fyrir byggðasamlagið Sorpstöð Rangárvallasýslu frá tuttugasta og sjöunda maí 1993.

Ákvæði til bráðabirgða

Þrátt fyrir ákvæði sjöttu greinar er það ekki skilyrði að fulltrúar í stjórn byggðasamlagsins séu aðalmenn í sveitarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna. Þetta skilyrði í sjöttu grein öðlast því gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2018.

Hvolsvelli, áttunda desember 2016