Reglur um staðsetningu og útlit auglýsingaskilta í Rangárþingi ytra
1. grein
Markmið
1.1 Að skilti falli sem best að umhverfi og ásýnd Rangárþings ytra.
1.2 Að ákveða staðsetningu og stærð skilta og hafa eftirlit með uppsetningu.
1.3 Að skilti trufli ekki umferðaröryggi með staðsetningu og útliti.
1.4 Að fullt tillit sé tekið til nágranna, þ.e. nábýlis- og grenndarréttar.
2. grein
Skilgreiningar
Með orðunum auglýsing og skilti og öðrum samsvarandi orðum er í reglum þessum átt við hvers konar texta, myndir eða myndverk, hreyfanleg og föst, sem komið er fyrir til lengri eða skemmri tíma á einkalóðum, opinberum svæðum eða mannvirkjum, hvort sem er á spjöldum, borðum eða máluð á húsveggi eða með öðrum sambærilegum hætti og ætlað er að vekja athygli almennings á vörum, þjónustu eða starfsemi hvers konar, hvort sem er á viðkomandi stað eða annars staðar.
3. grein
Leyfisveitingar
Óheimilt er að setja upp hvers konar skilti og auglýsingar til lengri eða skemmri tíma í Rangárþingi ytra nema með leyfi skipulags- og umferðarnefndar. Byggingarfulltrúi hefur fullt umboð til að afgreiða slík leyfi í samræmi við reglugerð þessa en ber að leggja slík erindi og niðurstöður til staðfestingar í skipulags- og umferðarnefnd.
Vafaatriðum varðandi leyfisveitingar ber að vísa til skipulags- og umferðarnefndar. Umsækjandi um skilti getur einnig áfrýjað til nefndarinnar ef hann telur úrskurð byggingarfulltrúa ekki réttmætan.
Skilti sem byggingafulltrú gefur leyfi fyrir til auglýsingar á einstaka viðburðum skulu ekki vera stærri en 0,75m2. Auglýsingaborðar í sama tilgangi mega þó vera stærri. Umsækjandi skal tilgreina gerð skiltis, staðsetningu þess, festingar og það tímabil sem áformað er að skiltið mun standa. Við staðsetningu skal einkum tekið tillit til umferðaröryggis.
Undanþegin leyfisveitingum eru:
- Auglýsingaskilti á íþróttaleikvöllum með þeim takmörkunum að þau snúi aðeins að áhorfendum og leikvanginum sjálfum og séu eigi hærri en 1,5 metri.
- Bráðabirgðaskilti sem auglýsa sölu eða leigu húsnæðis og eru ekki stærri en 0,75m2 og ekki fleiri en eitt á hverri eign/lóð.
- Bráðabirgðaskilti sem veita upplýsingar um nýbyggingar, breytingar eða viðgerðir á mannvirkum séu þau staðsett á viðkomandi lóð og eigi stærri en 3,0m2. Á þessum skiltum skulu aðeins koma fram upplýsingar varðandi mannvirkið, þær framkvæmdir sem um er að ræða, upphafstíma og verklok framkvæmdanna og þá sem að þeim standa.
- Lausaskilti þ.e. skilti sem ekki eru með varanlegum festingum við jörð eða mannvirki og standa aðeins á opnunartíma starfstöðvar. Stærð þeirra skal ekki vera meiri en 0,75m2 og standur þeirra hafa innan við 0,5 m radíus. Staðsetja skal lausaskilti við starfsstöð þannig að umferð vegfaranda sé greið og hindrunarlaus. Þar sem skilti eru sett á gangstéttir og stíga skal minnsta óhindraða gönguleið ávallt vera 1,5 m breið. Bannað er að staðsetja lausaskilti á umferðareyjum þannig að þau skerði umferðaröryggi.
Að öðru leyti gildir kafli 2.5 í byggingarreglugerð nr.112/2012. Leyfisgjald er samkvæmt gjaldskrá byggingarfulltrúa.
Ef fyrirmælum byggingarfulltrúa er ekki sinnt getur skipulags- og umferðarnefnd beitt ákvæðum kafla 2.4. í byggingareglugerð nr. 112/2012.
4. grein
Umsóknir
Hver sá sem óskar eftir leyfi til að koma fyrir skilti eða auglýsingu skal sækja um byggingarleyfi á rafrænu formi. Við innskráningu er krafist íslykils eða rafrænna skilríkja. Umsækjandi getur einnig verið þriðji aðili í umboði lóðarhafa / eiganda. Öllum gögnum frá umsækjanda, hönnuðum eða hlutaðeigandi aðilum skal skilað inn í gegnum gáttina.
Með hverri umsókn skal fylgja nafn, heimilisfang og kennitala umsækjanda skiltisins, ásamt eftirfarandi þar sem við á; undirritað samþykki lóðarhafa ef hann er annar en umsækjandi sem og annarra lóðaeiganda og/eða rekstraraðila ef fleiri eru en einn; málsett afstöðumynd og útlitsteikning af skiltinu auk texta sem á skiltinu á að vera; Greinargerð um uppsetningu, festingar og gerð skiltis (t.d. veltiskilti, ljósaskilti o.s.frv).
5. grein
Gildistökuákvæði
Reglur þessar eru settar með heimild í lögum um mannvirki nr. 160/2010.
Reglur þessar gilda innan lögsögu Rangárþings ytra og öðlast gildi við samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings ytra.
6. grein
Eldri skilti. Grein til bráðabirgða, fellur út ári eftir gildistöku reglugerðar þessarrar.
Þau skilti sem þegar hafa leyfi og eru með þeim hætti að sækja hefði þurft um leyfi skv. reglum þessum skulu halda því leyfi í 1 ár frá gildistöku reglna þessara. Innan þess tíma skulu leyfishafar sækja um leyfi fyrir þeim að nýju en ella fjarlægja skiltin. Þau skilti sem sett hafa verið upp án leyfis skulu hlutaðeigandi aðilar hafa fjarlægt innan þriggja mánaða frá gildistöku reglna þessara séu þau leyfisskyld, þó skal heimilt að sækja um leyfi fyrir þeim innan þess tíma.
Brjóti þau skilti, sem um getur í þessari grein bersýnilega gegn ákvæðum um umferðaröryggi er byggingarfulltrúa heimilt að láta fjarlægja þau strax.
Samþykkt í skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra 2. febrúar 2023.
Samþykkt í sveitarstjórn 8. febrúar 2023.