1. Tilgangur og markmið

Markmið reglnanna er að styðja við ungt fólk og aðra einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu íbúðareign í Rangárþingi ytra. Með styrk á móti fasteignaskatti er stefnt að því að hvetja til búsetu í sveitarfélaginu og draga úr fjárhagslegri byrði fyrstu íbúðarkaupenda.

2. Gildissvið

Reglurnar gilda um alla einstaklinga sem uppfylla skilyrði 3. gr. sem kaupa sína fyrstu íbúðareign innan sveitarfélagsins Rangárþings ytra.

3. Skilyrði fyrir styrkveitingu

Umsækjendur eiga rétt á styrk sem nemur 50% af fyrsta árgjaldi fasteignaskatts vegna tiltekinnar eignar, að því gefnu að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

Skilyrði Útskýring
a. Fyrstu íbúðarkaup Umsækjandi (og maki/sambúðaraðili, ef við á) hefur ekki áður átt eða verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á Íslandi.
b. Eignarhlutur Styrkur er veittur í samræmi við eignarhlut umsækjanda í fasteigninni. Ef fleiri en einn aðili eiga eignina en aðeins einn uppfyllir skilyrði um fyrstu kaup, er styrkurinn veittur hlutfallslega.
c. Lögheimili og búseta Umsækjandi (og maki/sambúðaraðili, ef við á) skal hafa lögheimili og raunverulega búsetu í eigninni allan þann tíma reglur þessar taka til.
d. Eignargerð Styrkurinn gildir eingöngu um eina fasteign sem skilgreinist sem íbúðarhúsnæði til eigin nota (flokkur A eða sambærilegt í fasteignamati).
e. Umsókn Umsókn skal berast sveitarfélaginu innan sex (6) mánaða frá afsalsdegi.

 

4. Fjárhæð styrks og gildistími

  • Styrkur: 50% af árgjaldi fasteignaskatts (A-liður 5. gr. laga nr. 4/1995). Styrkurinn nær ekki til fasteignatengdra gjalda eins og lóðaleigu, holræsagjalds, vatnsgjalds og sorpeyðingar og sorphirðugjalds.
  • Gildistími: Styrkurinn gildir í eitt (1) ár frá dagsetningu afsals eignarinnar.

Framkvæmd á greiðslu styrks: Styrkurinn skal veittur frá og með næstu álagningu fasteignaskatts eftir afsal, og skal reiknast hlutfallslega miðað við hve langur tími ársins er eftir af 12 mánaða tímabili fasteignaskatts. Ef afsal er t.d. 1. júlí skal styrkur veittur fyrir seinni hluta þess árs og fyrri hluta næsta árs.

5. Niðurfelling styrks og endurkröfuákvæði

Styrkurinn fellur niður frá og með undirskrift kaupsamnings ef eignin er seld innan eins árs frá dagsetningu afsalsins.

  • Við sölu: Ef eignin er seld innan 12 mánaða frá afsali skal eigandi tilkynna sveitarfélaginu um sölu eignarinnar.
  • Endurkrafa: Sveitarfélaginu er heimilt að gera endurkröfu á umsækjanda sem nemur heildaupphæð styrks sem veittur hefur verið, ef í ljós kemur að skilyrðum 3. gr. um búsetu og lögheimili hefur ekki verið fullnægt allan gildistímann.

6. Undanþágur

Stykur samkvæmt þessum reglum gildir ekki um:

  • Aðrar eignir en fyrstu íbúðareign umsækjanda.
  • Aukaeignir, þ.m.t. bílskúra sem eru skráðir sem sérstakar eignir.
  • Sumarbústaði, frístundahús eða aðrar eignir sem ekki eru skráðar til lögheimilisbúsetu.
  • Eignir í eigu lögaðila (fyrirtækja, stofnana o.s.frv.).

7. Málsmeðferð og umsókn

7.1. Umsóknarferli

  1. Eyðublað: Umsóknir skulu berast Rangárþingi ytra á sérstöku rafrænu eyðublaði, sem krefst undirritunar umsækjanda.
  2. Umsóknarfrestur: Umsókn um styrk skal berast sveitarfélaginu innan sex (6) mánaða frá dagsetningu þinglýsts afsals. Sé fresturinn liðinn fellur niður réttur til styrksins.
  3. Fylgiskjöl: Umsækjandi skal leggja fram eftirfarandi gögn með umsókn: o Afrit af þinglýstu afsali eignarinnar. o Yfirlýsing um að skilyrðum 3. gr. (fyrstu kaup, lögheimili, búseta) sé fullnægt. o Gögn sem staðfesta eignarhald og lögheimilisskráningu frá Þjóðskrá Íslands, sérstaklega til að sanna að um fyrstu íbúðarkaup sé að ræða.

7.2. Meðferð umsókna og upplýsingaöflun

  1. Yfirferð: Umsóknir eru teknar til meðferðar hjá sveitarfélaginu sem fer yfir hvort öll gögn séu fullnægjandi.
  2. Upplýsingaöflun: Sveitarfélaginu er heimilt að óska eftir frekari gögnum frá umsækjanda eða afla upplýsinga frá opinberum aðilum (t.d. Þjóðskrá) til að sannreyna upplýsingar.
    • Sérstaklega skal kannað að lögheimili umsækjanda sé skráð í eigninni þegar ákvörðun er tekin og að viðkomandi hafi ekki verið skráður eigandi fasteignar áður.
  3. Ákvörðun: Sveitarfélagið tekur rökstudda ákvörðun um veitingu eða synjun styrksins og skal hún send umsækjanda með tölvupósti.
  4. Kæruheimild: Hægt er að kæra ákvörðunina til sveitarstjórnar Rangárþings ytra innan fjögurra vikna frá móttöku ákvörðunar.

8. Upplýsingaskylda og viðurlög

8.1. Upplýsingaskylda umsækjanda

Umsækjanda er skylt að tilkynna sveitarfélaginu án tafar um allar breytingar á högum sem kunna að hafa áhrif á rétt hans til greiðslu styrksins, sérstaklega:

  • Sölu eignarinnar (kaupsamningur).
  • Breytingu á lögheimilisskráningu eða búsetu í eigninni.

8.2. Viðurlög

  1. Endurkrafa (sjá 5. gr.): Ef í ljós kemur að umsækjandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglnanna (t.d. lögheimili eða raunveruleg búseta hefur ekki verið í eigninni allan tímann), getur sveitarfélagið gert endurkröfu á umsækjanda sem nemur heildarupphæð styrksins sem veittur hefur verið.
  2. Rangfærsla: Ef umsækjandi hefur vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar í umsókn sinni eða fylgiskjölum, er sveitarfélaginu heimilt að hafna umsókn eða krefja viðkomandi um endurgreiðslu á veittum styrk að fullu, auk þess að kæra brotið til viðeigandi yfirvalda ef ástæða þykir til.

9. Gildistaka og gildistími

  • Reglur þessar, samþykktar af sveitarstjórn Rangárþings ytra, öðlast gildi við samþykkt í sveitarstjórn þann 10. desember 2025 og hægt er að sækja um styrk fyrir kaupum sem eru gerð frá og með 1. janúar 2026.
  • Reglur þessar gilda tímabundið í 2 ár frá gildistöku og að þeim tíma loknum verður metið hvort framlengja eigi gildi þeirra.
  • Gjaldgengir aðilar sem sækja um styrkinn innan þessa 2 ára gildistíma njóta styrksins út sinn styrkstíma óháð því hvort ákveðið verði að framlengja gildi reglnanna eða ekki. 

Smelltu hér til að opna umsóknareyðublað um styrk á móti fasteignaskatti fyrir fyrstu íbúðarkaupendur.