Afa og ömmukaffi hjá Leikskólanum á Laugalandi

Þann sjötta febrúar ár hvert er „Dagur leikskólans“ og er tilgangurinn hans að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla, starf leikskólakennara og kynna starfið út á við. Við á leikskólanum Laugalandi ákváðum að kynna leikskólann okkar fyrir öfum og ömmum nemenda skólans og buðum í „bollu kaffi“ föstudaginn 10. febrúar.

Við teljum það mikilvægt fyrir börnin okkar að nánustu fjölskyldumeðlimir eins og afar og ömmur sjái það umhverfi sem börnin eru í allan daginn og viti hvað barnabörnin eru að gera þegar þau dvelja í leikskólanum. Börnin voru búin að undirbúa daginn. Höfðu bakað bollur, teiknað myndir m.a. af öfum og ömmum. Börnin á eldri deildinni tóku einnig saman hvað hvað afar og ömmur gera. Í þeirri samantekt kom skýrt fram að í okkar samfélagi er hlutverk kynjanna í augum barnanna þannig að ömmur eru mikið að prjóna og vinna ýmis heimilisstörf á meðan afar mjólka kýr, borða kex, horfa á sjónvarp og hvíla sig. Þetta segir okkur að við þurfum að halda áfram að ræða jafnrétti kynjanna. Mikil ánægja var með daginn og nutu gestir þess að sjá og kynnast því umhverfi sem börnin eru í á daginn. Börnin voru dugleg að sýna gestunum skólann sinn, leiruðu með þeim, teiknuðu, lásu bækur, skoðuðu myndir frá starfinu og svo var boðið uppá bollur sem börnin höfðu bakað með kaffinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?