Afa og Ömmukaffi í leikskólanum á Laugalandi á degi leikskólans - Myndir

Sjötti febrúar er „Dagur leikskólans“, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.  Félagið er nú 63 ára og er þetta í sjötta skipti sem dagurinn er haldinn hátíðlegur.  Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, mennta- og menningar málaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla, starf leikskólakennara og kynna starfið út á við. Við á leikskólanum Laugalandi tókum þá ákvörðun þetta árið að kynna leikskólann okkar fyrir öfum og ömmum nemenda skólans. Við teljum það mikilvægt fyrir börnin okkar að nánustu fjölskyldumeðlimir eins og afar og ömmur þekki og viti hvað barnabörnin eru að gera þegar þau dvelja á leikskólanum og því vildum við kynna starfið okkar fyrir þeim. Mikil ánægja hefur verið með daginn og hafa gestir notið þess að sjá og kynnast því umhverfi sem börnin eru í á daginn.  Börnin hafa verið dugleg að sýna gestunum skólann sinn, leirað með þeim, teiknað, lesið bækur, skoðað myndir frá starfinu, perlað, farið í bílaleik og svo var boðið uppá bollur sem börnin höfðu bakað með kaffinu.

Hér má sjá myndir sem teknar voru á degi leikskólans

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?