Alllir lesa aftur af stað!

Landsleikurinn Allir lesa fer aftur af stað á bóndadaginn, 22. janúar, og stendur yfir í um mánuð. Fyrsti leikurinn sló í gegn en lesnir klukkutímar voru vel yfir 70.000. Þegar lestur var skoðaður eftir búsetu sátu Vestmannaeyingar í efsta sæti en Rangárþing ytra hafnaði í 32. sæti af 74. Konur reyndust lesa töluvert meira en karlar en fróðlegt verður að sjá hvernig lesturinn dreifist í ár. Nú þegar hefur öll borgarstjórn Reykjarvíkur skráð sig til leiks og ljóst að höfuðborgin stefnir á að lesa til sigurs.

Liðakeppnin skiptist í þrjá flokka: vinnustaðaflokk, skólaflokk og opinn flokk.

Landsleikurinn er tilvalin leið til að hrista fólk saman og skemmta sér við lestur um leið og keppt er til sigurs. Hægt er að mynda lið með hverjum sem er, til dæmis vinnustaðnum, fjölskyldunni, leshringnum, saumaklúbbnum eða vinahópnum. Þátttakendur mynda lið og skrá lestur á vefinn allirlesa.is. Þau lið sem verja samanlagt mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar. Í lokin eru sigurlið heiðruð með viðurkenningum og verðlaunum.

Skráning liða hófst á allirlesa.is þann 15. janúar og landsleikurinn er í gangi frá 22.janúar til 21. febrúar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?