Ályktun Þjórsársveita um tillögu verkefnisstjórnar um rammaáætlun

Eftirfarandi ályktun ásamt greinargerð er sett saman í framhaldi af fundi framkvæmdanefndar Þjórsársveita sem haldinn var í Þingborg 12. apríl 2012.  Ályktunin er send ráðherrum iðnaðar- og umhverfismála, nefndasviði Alþingis, þingmönnum Suðurkjördæmis og fjölmiðlum.

Ályktun:

Þjórsársveitir leggja þunga áherslu á og beina þeim vinsamlegu tilmælum til Alþingis að vinna við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði sé virt og eftir henni farið.

Rammaáætlun er unnin af fagfólki sem engin ástæða er til að vantreysta eða vefengja niðurstöðu þess.  Fagleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð um flokkun virkjanakosta þar sem tekið var tillit til þátta sem snerta nýtingu á landsvæðum og náttúruvernd.  Ef ekki er farið að tillögu verkefnisstjórnar um rammaáætlun og hún gerð að pólitísku bitbeini er jafngott heima setið og af stað farið.

Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir tilurð og setningu lagaramma um mikilvæga málaflokka innan stjórnsýslunnar.  Rammaáætlun var ætlað að gegna því hlutverki í flokkun verndar- og  virkjanakosta.  Það getur aldrei orðið sátt í þessum málum ef hægt verður að velja og hafna í ljósi skoðana, stöðu og valds ráðamanna hverju sinni.  Með því að staðfesta rammaáætlun eins og hún var unnin og lögð fram er komið í veg fyrir þess háttar vinnubrögð, sem er nauðsynlegt.

Skorað er á Alþingi að afgreiða tillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar og hafna framkominni þingsályktunartillögu um breytingar á henni.

Greinargerð:

Þjórsá, lengsta og eitt aflmesta fljót Íslands, skilur að sveitarfélögin austan og vestan árinnar.  Þjórsá rennur úr Hofsjökli um 230 kílómetra leið til sjávar og allt virkjanlegt afl árinnar á sér uppsprettu innan fjögurra sveitarfélaga sem eru; Ásahreppur, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.  Þessi sveitarfélög eiga það sammerkt að í þeim eru engar hafnir og sjávarútvegur er þar enginn.  Oddvitar og sveitarstjórar sveitarfélaganna skipa framkvæmdanefnd Þjórsársveita, sem eru sameiginleg hagsmunasamtök þessara sveitarfélaga.  Markmið Þjórsársveita er skýrt: orkan, auðlind svæðisins, skal nýtt við uppsprettu sína til atvinnuuppbyggingar.

Samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu rammaáætlunar var skipulag undirbúningsvinnu að áætluninni hugsað á þann veg að þar væri í öndvegi fagleg aðkoma og vinna sérfræðinga sem besta þekkingu hefðu á viðfangsefninu. Einnig að skapaður yrði almennur samráðsvettvangur hagsmunaðila sem eðlilegt væri að kæmu að málinu, áhugafólks og almennings þannig allir hefðu tök á að fylgjast með framgangi áætlunarinnar. 

Markmið verkefnisstjórnar rammaáætlunar var að vinna samkvæmt gegnsærri aðferðafræði sem tryggði trúverðuga útkomu þannig að efasemdarraddir gætu skoðað matsferlið og rakið niðurstöður til baka. Til að ná þessu markmiði var þróuð ákveðin aðferðafræði sem tryggði að ólíkir virkjanakostir væru metnir á sömu mælistiku.

Á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins kemur fram að Oddný Harðardóttir iðnaðarráðherra hafi í samráði við Svandísi Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Jafnframt kemur fram að í ágústmánuði sl. voru drög að þingsályktunartillögunni send í 12 vikna opið samráðs- og kynningarferli og að yfir 200 athugasemdir hafi borist.  Hvorki er sagt frá efnislegu innihaldi þessar umsagna né hvort sömu aðilar eða tengdir aðilar hafi sent inn fleiri en eina umsögn.  Í þessari tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða, 727. mál lagt fram 31. mars á 140. löggjafarþingi og tekið til fyrri umræðu 18. apríl, er lagt til að virkjanir í Þjórsá verði settar í biðflokk.  Þessar virkjanir eru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.  Sagt er að í umsagnarferlinu hafi komið fram nýjar upplýsingar varðandi laxagengd og vegna þess er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um hvaða áhrif þessar virkjanir muni hafa á laxfiska í Þjórsá.

Í rammaáætlun kemur fram að Urriðafossvirkjun hafi áhrif á stærsta laxveiðistofn landsins með um 10% af heild náttúrulegrar laxveiði á Íslandi.   Ítarlegar rannsóknir hafa átt sér stað á fiskistofnum í Þjórsá allt frá árinu 1973. Í upphafi stóð Veiðimálastofnun fyrir rannsóknunum en í seinni tíð hafa rannsóknirnar að mestu verið unnar á vegum Landsvirkjunar með Veiðimálastofnun sem helsta ráðgjafa.  Virkjanir í efri hluta Þjórsár eru sagðar hafa skapað betri skilyrði fyrir laxastofn árinnar og hafa stuðlað að vexti hans og aukinni veiði síðustu ár en geta má þess að laxastigi var fyrst reistur við fossinn Búða árið 1991 en fram að því hafði lax ekki gengið upp fyrir fossinn.  Eitt af skilyrðum Skipulagsstofnunar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við virkjun svæðisins var að framkvæmdaraðila er gert að standa fyrir tilteknum viðbótarrannsóknum um grunnástand lífríkis Þjórsár áður en til hugsanlegra framkvæmda kemur.  Í ljósi niðurstaðna slíkra rannsókna þarf framkvæmdaraðili að útfæra og grípa til þeirra mótvægisaðgerða sem Veiðimálastofnun leggur til auk þess að standa fyrir vöktun á áhrifum framkvæmdar í a.m.k. 10 ár frá því að starfsemi hugsanlegrar virkjunar hefst.  Viðbótarrannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun þarf að vinna í samráði við veiðimálastjóra.  Við nánari útfærslu framkvæmda í tengslum við gerð deiliskipulags og útgáfu framkvæmdaleyfis verður farið ítarlega yfir þær viðbótarrannsóknir sem unnar hafa verið og verða í samræmi við skilyrði úrskurðar Skipulagsstofnunar og þær tillögur að mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili leggur fram.  Deiliskipulag nær til einstakra svæða innan sveitarfélags og er nánari útfærsla á aðalskipulagi.  Það er lagalegur grundvöllur fyrir útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa og er ætlað að tryggja réttaröryggi og gæði manngerðs umhverfis í þéttbýli og dreifbýli.  Ákvarðanir í deiliskipulagi skulu teknar með lýðræðislegum hætti í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila.  Taka skal skýrt fram að afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess.  Þetta þýðir að jafnvel þó virkjanakostir séu settir í nýtingarflokk í rammaáætlun tekur við langt faglegt ferli þar til framkvæmdir við virkjanir geta hafist.  Ljóst er að einhver ár muni líða áður en til framkvæmda við Urriðafossvirkjun kemur og þann tíma verður hægt að nýta til frekari rannsókna á seiðafleytingu o.fl.  Ef þær rannsóknir sýna fram á skaða á lífríki er hægt að hætta við virkjun Urriðafoss.  Með þessu er hægt að rökstyðja það að framkvæmdir við Hvamms- og Holtavirkjanir séu að einhverju leyti forsenda fyrir öflugum rannsóknum á lífríki laxfiska neðan Búðafoss.

Í umsagnarferli um rammaáætlun sendu sveitarstjórnir Þjórsársveitarfélaganna hver um sig sína umsögn unnar af sveitarstjórnarfólki og fagfólki á snærum sveitarstjórnanna.  Þar náðu aðilar almennt samstöðu þrátt fyrir mismunandi skoðanir á virkjunum.  Sú niðurstaða var fengin vegna mikilvægis þess og virðingar fyrir því að loksins væri kominn rammi sem tryggði faglega flokkun og vernd ákveðinna svæða.

Öll þau sveitarfélög sem liggja að neðri hluta Þjórsár hafa á síðustu árum látið vinna nýtt aðalskipulag þar sem gert er ráð fyrir umræddum virkjunum sem staðfest hafa verið með undirritun umhverfisráðherra.  Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps var samþykkt í sveitarstjórn 7. febrúar 2006 og staðfest með undirritun þáverandi umhverfisráðherra 6. apríl 2006.  Aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi var samþykkt í sveitarstjórn 4. desember 2008 og staðfest með undirritun núverandi umhverfisráðherra 18. febrúar 2011.  Aðalskipulag Ásahrepps var staðfest í hreppsnefnd 21. september 2010 og staðfest með undirritun núverandi umhverfisráðherra 23. nóvember 2010. Aðalskipulag Rangárþings ytra var samþykkt af sveitarstjórn 16. desember 2010 og staðfest með undirritun núverandi umhverfisráðherra 2. febrúar 2011.  Öll þessi skipulagsvinna var unnin samkvæmt lögboðnu kynningar- og umsagnarferli og fékk staðfestingu Skipulagsstofnunar fyrir undirritun ráðherra.

Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir og framtíðarnýting virkjana í neðri Þjórsá kalla á verulegar samgöngubætur.  Nægir þar að nefna fyrirhugaða brú ofan við Búðafoss en hún mun tengja uppsveitir Árnessýslu og Rangárvallasýslu vel saman.  Við bættar samgöngur skapast betri skilyrði til atvinnuuppbyggingar og samnýtingar þjónustu sveitarfélaga á svæðinu.  Gott samgöngukerfi er lykilþáttur í vexti hverrar byggðar og skapar að auki tækifæri til aukinnar samvinnu sveitarfélaganna við Þjórsá.  Samgöngubætur í tengslum við fyrirhugaðar virkjanir í neðri-Þjórsá geta skapað ný og spennandi atvinnutækifæri, t.a.m. í ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Stjórn Landsvirkjunar telur mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna.  Lýst hefur verið yfir að ekki sé í forgangi að útvega orku til nýrra álvera á suðvesturhorni landsins.  Með þeirri yfirlýsingu var gefinn tónn um að nóg væri komið af slíkum iðnaði og tími kominn á meiri fjölbreytni á nýtingu orkunnar sem skapast á Suðurlandi.  Mikill stuðningur er hjá Þjórsársveitum við útgefna stefnu Landsvirkjunar um að deila orkunni á fjölbreyttari, smærri og grænni iðnað sem ekki er endilega háður hafnsækni.  Slíkur iðnaður hentar einkar vel á Suðurlandi og í tengslum við hann geta skapast ótal spennandi atvinnutækifæri á svæðinu.  Þjórsársveitir telja að það rími vel við útgefna stefnu ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála hennar en þar kemur fram að ríkisstjórnin vilji „efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar.“  Þjórsársveitir hvetja ríkisstjórnina til að vinna með sveitarfélögunum á svæðinu og Landsvirkjun til eflingar fjölbreytts og græns iðnaðar á Suðurlandi.

 

F.h. framkvæmdanefndar Þjórsársveita

Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?