Áramótabrenna verður á gamlársdag en flugeldasýningu er frestað

Til að kveðja gamla árið og fagna því nýja með táknrænum hætti hefur verið ákveðið að halda Áramótabrennu en þó með breyttu fyrirkomulagi vegna aðstæðna. Af óviðráðanlegum orsökum er þó flugeldasýningu í umsjá Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu frestað en stefnt er á að hún verði haldin þann 8. janúar kl. 17:00 á sama stað.

Áramótabrennan verður á Rangárbökkum (sama stað og undanfarin ár) og kveikt verður upp kl. 17:00 á gamlársdag. Að þessu sinni er gert ráð fyrir að fólk komi akandi og njóta brennunnar úr bílum sínum með sinni „áramótakúlu“. Bílum verður beint á bílastæði við brennuna sem og á malbikaða planið fyrir ofan kappreiðavöllinn og er fólk hvatt til að virða þau tilmæli sem sett eru og fara ekki út úr bílum sínum meðan á brennunni stendur.

Sýnum ábyrgð í verki og njótum þessa árlega viðburðar með breyttu fyrirkomulagi, komum í veg fyrir hópamyndun og fylgjum sóttvarnarreglum í hvívetna og gerum okkar allra besta til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Með bestu óskum um gleðilegt ár og þökkum fyrir árið sem nú er að kveðja,

Sveitarfélagið Rangárþing ytra

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?