Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Rangárþings ytra
Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Rangárþings ytra

Það er við hæfi í aðdraganda áramóta að gera aðeins upp það sem er að gerast í sveitarfélaginu og hvað er framundan. Eftir tæpa fimm mánuði í starfi þá má segja að það hafi verið mikið af skemmtilegum verkefnum á borðinu. Það fylgir gjarnan sveitarstjórnarkosningum og nýrri sveitarstjórn að það þarf að stilla og slípa, bæði innan sveitar og einnig á landsvísu, og setja svolítið í gírinn. Ég verð að hrósa nýrri sveitarstjórn sérstaklega fyrir góðar móttökur í mínu starfi og ég skynja metnað og vilja allra til að vinna samfélaginu til heilla því það getur á stundum verið vanþakklátt að taka að sér störf fyrir samfélagið.

Það var því ánægjulegt þegar fjárhagsáætlun 2023-2026 var samþykkt samhljóða í sveitarstjórn um miðjan desember. Það er stundum sagt að fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags sé biblía hennar að því leiti að hún leggur grunn að verkefnum hvers árs. Það er að mínu mati til fyrirmyndar hvernig vinna við fjárhagsáætlun er unnin hér í sveit. Þar ráða nefndir ráðum sínum, starfsmenn sveitarfélagsins og meiri og minnihluti sveitarstjórnar hittast á vinnufundum. Þar er rökrætt um áskoranir og leiðir til að koma góðum hlutum fram en að reka sveitarfélag og samfélag er mikil áskorun.

Varðandi fjárhagsáætlunina má segja að við leggjum af stað inn í næsta ár í þokkalegum málum. Gert er ráð fyrir að tekjuafgangur sé um 123 milljónir en ekki veitir af miðað við fjárfestingaáætlun hjá okkur en hún hljóðar upp á rúmlega 900 milljónir. Það er ánægjulegt að sjá fyrsta áfanga að viðbyggingu grunnskólans á Hellu verða að veruleika og núna tekur annar áfangi við á næsta ári. Þá kemur dálítið að skuldadögum þegar sveitarfélagið þarf að fjármagna slíkt mannvirki en þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar m.a. til að hafa undan íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Sú þróun heldur örugglega áfram miðað við það sem er í pípunum hjá okkur en nauðsynlegt er að grunninnviðir eins og skólar nái að vera á undan þeirri fjölgun nemenda sem er í kortunum.

Næsta ár verður undirlagt í stefnumörkun þar sem m.a. verður leitast eftir því að svara þeirri spurningu hvernig eðlilegt sé og sanngjarnt að auðlindir sveitarfélagsins verði nýttar ásamt því að búa til samfélagssáttmála um slíka nýtingu. Það er ljóst að samfélagið í Rangárvallarsýslu eiga inni innviðskuld varðandi nýtingu á orku úr héraði en því miður hefur hún verið flutt í burt en hvurt? Það er því nauðsynlegt að halda því á lofti að við viljum að „orkan komi heim“ og verði að töluverðu leyti nýtt til uppbyggingar í héraði. Vonandi ná þar „Grænir iðngarðar“ og fleiri tækifæri til nýtingar á orku að skipa stórt hlutverk í því sambandi. Það þarf að skapa umgjörð sem samfélagið og þjóðin er sátt við varðandi nýtingu á vindi því Búrfellslundur verður væntanlega fyrirmynd hvernig til tekst í slíku samtali. Er þar einmitt gott að geta m.a. skoðað hvernig aðrar þjóðir hafa gert slíka samfélagssáttmála en þarna þarf að vanda til verka.

Það má ekki gleyma öllum litlu stóru hlutunum sem eru að gerast hjá okkur, bæði hjá sveitarfélaginu og þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem búa og starfa í okkar samfélagi. Samfélag er aldrei samfélag nema sem flestir taki þátt og leggi eitthvað gott af mörkum. Er vert að þakka öllum sem þannig hafa gert góða hluti á þessu ári og hvet ég alla til dáða á nýju ári. Það er verðugt verkefni í starfi mínu að reyna að komast yfir að sjá og hitta þá sem starfa að hinum ýmsu málum í þessu víðfeðma sveitarfélagi en það er á listanum langa og vonandi tekst að saxa á hann á nýju ári.

Á persónulegu nótunum þá þakka ég fyrir afar góðar móttökur frá starfsfólki, íbúum og öðrum í samfélaginu. Nú liggur fyrir að það hefjast flutningar hjá fjölskyldunni á „fardögum“ að vori því við vorum svo lukkuleg að festa kaup á góðu húsi á Hellu sem spennandi verður að fylla af dóti. Að lokum vil ég óska, starfsfólki, íbúum og öðrum sem tengjast þessu samfélagi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?