Áramótapistill sveitarstjóra

 

Nú líður að áramótum og í eðli áramóta er venja að líta í baksýnisspegilinn og sjá hvernig árið hefur gengið og síðan að horfa fram í tímann og framtíðina. Það er reyndar dapurlegt ef horft er til heimsins alls þá var ekki friðsamlegt á þessu ári og horfur til næsta árs heldur ekki góðar.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ef horft er inn á við að í þessu sveitarfélagi ríkir friður og við Íslendingar erum svo lánsöm að búa í friðsömu landi. Stundum held ég að við megum minna okkur á hvað við höfum það í raun gott og margt sem við göngum að sem vísu er alls ekki sjálfgefið í hinu stóra samhengi.

Varðandi árið sem er að líða þá gleðst maður yfir smáum og stórum áföngum sem sveitarfélaginu hefur tekist að ýta úr vör eða halda áfram með verkefni. Það er gleðilegt að sjá hvernig fyrsti áfangi á stækkun Grunnskólans á Hellu kemur út og hvet ég alla áhugasama að kíkja á herlegheitin þann 19. janúar n.k. á opnu húsi í skólanum. Annars hefur árið sem er að líða verið nokkuð hagfellt ef frá eru talin vandamál sem tengjast háum vöxtum og verðbólgu. Ansi væri það nú gott fyrir alla ef hægt væri að kveða þann gamla fjanda, verðbólgudrauginn, niður á nýju ári. Ferðaþjónustan er greinilega að ná vopnum sínum og er einn af aðal burðarásunum í þessu samfélagi. Þar er greinilega hugur í fólki og margir hafa leitað til sveitarfélagsins með möguleg og spennandi uppbyggingarverkefni í þeim geira.

Það eru síðan hefðbundin desemberverkefni að klára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og þau fjögur næstu. Það hefur verið ánægjulegt að að vinna að fjárhagsáætluninni, margar góðar hugmyndir hafa komið fram í vinnu sveitarstjórnar, starfsmanna, nefnda o.fl. sem hafa komið að þessari vinnu og lagt í púkkið. Vil ég þakka fyrir góð vinnubrögð og samskipti allra þeirra sem hafa komið að þessari vinnu.

Gert er ráð fyrir að afkoma næsta ár verði vel viðunandi eða um 194 milljónir en þó mun ekki af veita þar sem fjárfestingarplön sveitarfélagsins á næsta ári nema um 1,2 milljörðum sem er nýtt met. Ber þar hæst annan áfanga við Grunnskólann á Hellu og síðan vinnu við íþróttasvæðið á Hellu þar sem leggja á áherslu á hönnun og gerð gervigrasvallar. Margt fleira misstórt er síðan í pípunum og verður alveg krefjandi að koma því öllu í framkvæmd. Allt kallar þetta víst á fjármagn og núna kemur eflaust að skuldadögunum en sveitarfélagið þarf að fara í töluverða lántöku en m.a. í ljósi þess að lántaka síðustu ára hefur verið afar lítil ráðum við vel við þetta verkefni að óbreyttu.

Annars er fyrirséð að mörg önnur stór mál verða áberandi á næsta ári. Á það t.d. við Hvammsvirkjun, Búrfellslund og eflaust koma Landamannalaugar þarna eitthvað við sögu. Allt eru þetta afar spennandi verkefni og mjög stefnumarkandi, bæði fyrir sveitarfélagið og Ísland allt. Allt þetta snýst nefnilega um hvernig auðlindir þessa samfélags eru nýttar, og oftast af öðrum, og hvernig sanngjarnt er að nærsamfélagið njóti ávinnings af sínum auðlindum.

Annars hvet ég alla íbúa, fyrirtæki og gesti okkar samfélags að láta gott af sér leiða á næsta ári og hvet alla til frumkvæðis og láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Tækifæri þessa samfélags eru mörg og stór og það er okkar allra að reyna að sjá til þess að þau verði að veruleika.

Persónulega þá er gaman að vera fluttur á Hellu og koma sér og fjölskyldunni fyrir á nýjum stað sem alltaf er nú einhver áskorun. Það gefur allavega tækifæri til að grafa í öllu draslinu sem fylgdi manni í flutningunum og koma því í ný hlutverk í nýju húsi. Vonandi var það að einhverju leiti innlegg í jólabæinn Hellu. Að lokum vil ég óska starfsfólki, íbúum og öðrum sem tengjast þessu samfélagi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?