Það er við hæfi í aðdraganda áramóta að gera aðeins upp það sem hefur gerst á árinu í sveitarfélaginu og hvað er framundan á hinu nýja.
Nú fer að styttast í kjörtímabilinu og næsta vor verða sveitarstjórnarkosningar með þeim breytingum sem alltaf verða í kjölfar þeirra. Sem betur fer búum við í lýðræðisríki þar sem fólkið velur sína fulltrúa en því miður er það ekki alltaf svo í okkar flókna heimi. Það má svo sem segja í þessu sambandi að heimurinn hafi lítið skánað á þessu ári en vonandi verður hann skárri á næsta ári þó maður sé nú hæfilega bjartsýnn.
Árið sem er að líða hefur verið afar viðburðaríkt og mjög margt í gangi, bæði stórt og smátt, eða kannski aðallega stórt. Um er að ræða stærsta framkvæmdaár í sögu sveitarfélagsins en það stefnir í að við munum fjárfesta á árinu fyrir um 1,2 milljarða fyrir utan allt annað sem hefur verið gert í viðhaldi og öðrum verkefnum. Þar ber hæst 2. áfanga við grunnskólann á Hellu sem væntanlega verður tekinn í notkun um páskaleytið. Því miður tekst ekki að flytja tvær deildir leikskólans Heklukots og mötuneytið í nýja grunnskólann um áramótin vegna óhappa á flutningi aðfanga en vonandi er fall fararheill. Það er síðan afar ánægjulegt að byrjað er á 3. áfanga skólauppbyggingar á Hellu en verið er að klára fyrsta hluta jarðvinnu fyrir nýjan leikskóla. Þó þessi tvö verkefni hafi tekið verulega á budduna þá er frábært að geta tekið í gagnið nýjan gervigrasvöll á Hellu. Frábært mannvirki og þó ýmis frágangsmál séu eftir þá verður völlurinn örugglega stolt okkar og prýði til framtíðar.
Orkumálin hafa verið vægast sagt mikið í umræðunni á liðnu ári og verða eflaust áfram á því nýja. Það má segja að verkefni Landsvirkjunar hafi verið fyrirferðamikil á árinu og verða það áfram á næstu árum. Vindorkuverkið í Vaðöldu er farið vel af stað og frábærar fréttir að í leiðinni náðist að klára að leggja á Landveginn bundið slitlag. Þó hiksti sé í framkvæmdaleyfum vegna stækkunar Sigölduvirkjunar og Hvammsvirkjunar hefur ýmislegt verið í gangi á báðum svæðum sem eftir er tekið. Þá styttist í að Vegagerðin, tengt mótvægisaðgerðum vegna Hvammsvirkjunar, geti hafið framkvæmdir við Búðarfossveg sem verður lyftistöng fyrir Landsveitina. Það verður síðan mikill áfangi þegar Landsvirkjun býður út byggingu þjónustuhúss á Hellu eftir áramótin og smellpassar það verkefni inn í baráttuna um „orkuna heim“. Við treystum síðan á að Alþingi klári hratt og örugglega í vor nauðsynlegar lagabreytingar til að nærsamfélögin njóti sanngjarnari tekjuskiptingar af þessum auðlindum sínum.
Eins og alltaf þá er það desemberverkefni að klára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og þau fjögur næstu. Það hefur enn og aftur verið ánægjulegt að vinna að fjárhagsáætluninni, margar góðar hugmyndir hafa komið fram í vinnu sveitarstjórnar, starfsmanna, nefnda o.fl. sem hafa komið að þessari vinnu og lagt til góðar upplýsingar í púkkið. Vil ég þakka fyrir góð vinnubrögð og samskipti allra sem hafa komið að þessari vinnu en það hjálpar eðlilega líka til við vinnuna að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er bærileg.
Gert er ráð fyrir að afkoma næsta árs verði góð, eða jákvæð um 346 milljónir. Það mun ekki af veita þar sem fjárfestingarplön sveitarfélagsins á næsta ári eru áfram býsna bólgin og nema um 1 milljarði. Þar er langstærsta verkefnið að klára annan áfanga við Grunnskólann á Hellu og koma nýjum leikskóla á Hellu undir þak. Það er síðan ánægjulegt að með aðstoð Ásahrepps verður hægt að fara í veruleg fjárfestingar- og viðhaldsverkefni á Laugalandi enda mörg verkefni þar sem bíða okkar. Margt fleira misstórt er síðan í pípunum og verður alveg krefjandi að koma þessu öllu í framkvæmd. Vonandi verða ytri aðstæður okkur öllum líka hagfelldar. Þar gengir lykilhlutverki að vextir og verðbólga lækki því sveitarfélagið þarf að fjármagna sig að nokkru leyti með lántökum sem við reyndar höfum getið haldið í lágmarki til þessa sem er mjög jákvætt.
Það má síðan ekki gleyma öllum litlu stóru hlutunum sem eru að gerast hjá okkur, bæði hjá sveitarfélaginu og þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem búa og starfa í okkar samfélagi. Samfélag er aldrei samfélag nema sem flestir taki þátt og leggi eitthvað gott af mörkum. Er vert að þakka öllum sem þannig hafa gert góða hluti á þessu ári og hvet ég alla til dáða á nýju ári.
Persónulega er maður alltaf að verða meira ráðsettur Hellubúi og nýtur þeirra gæða að geta rölt í vinnuna og alla þjónustu sem eru oft vanmetin lífsgæði. Að lokum vil ég óska starfsfólki, íbúum og öðrum sem tengjast þessu góða samfélagi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri