Fríða Hansen og Brynhildur Sighvatsdóttir taka lagið á Árbakkanum
Fríða Hansen og Brynhildur Sighvatsdóttir taka lagið á Árbakkanum

Tónlistarhátíðin Árbakkinn var haldin í fyrsta sinn á sumarsólstöðum á bakka Ytri-Rangár á Hellu. Blautt var í veðri en hvorki gestir né flytjendur létu það á sig fá og stemningin var frábær.

Það var Hellubúinn Bjarki Eiríksson sem stóð fyrir viðburðinum og fékk til þess stuðning ýmissa bakhjarla. Fram kom glæsilegur hópur hæfileikafólks af svæðinu og sannaðist þar enn og aftur hversu mikið við eigum af stórkostlegu tónlistarfólki.

„Í lok febrúar fékk ég brjálaða hugmynd“ sagði Bjarki og á hann hrós skilið fyrir að hrinda henni í framkvæmd.

Hátíðin var haldin á útvistarsvæðinu við Nes á Hellu sem hentar afar vel fyrir viðburð af þessu tagi. Þar er nóg pláss fyrir áhorfendur og svo geta börnin hlaupið um, skellt sér í aparóluna og hoppað á ærslabelgnum.

Þau sem fram komu eru flestum Rangæingum kunn enda hafa mörg þeirra auðgað menningarlíf okkar um árabil. Flytjendur voru Fríða Hansen, Glódís Margrét Guðmundsdóttir, Kristinn Ingi Guðnason, Ýr Antonsdóttir, Brynhildur Sighvatsdóttir, Einar Freyr Elínarson, Stefán Orri Gíslason, Finnur Bjarki og Bjarki Eiríksson. Auk þeirra var hljóðfæraleikur í höndum Gústavs Ásbjörnssonar, Árna Ólafssonar og Steins Daða Gíslasonar.

Bjarki vill koma á framfæri þakklæti til stuðningsaðila, flytjenda, allra sem hjálpuðu til og ekki síst gesta.

Mikil ánægja var með viðburðinn og aldrei að vita nema hátíðin sé komin til að vera.