Ársreikningur Rangárþings ytra fyrir árið 2013

Ársreikningur Rangárþings ytra fyrir árið 2013 var lagður fram til fyrri umræðu í  sveitarstjórn þann 15. apríl s.l.

Afgangur af rekstri Rangárþings ytra árið 2013 er 115 mkr. eða talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Tekjur hafa hækkað meira en gjöld og skýrist það m.a. af fjölgun íbúa. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 144% í árslok eða vel undir viðmiðunarmörkum sem eru 150%. Þessum árangri hefur tekist að ná nokkrum árum fyrr en upphaflega var áætlað.

Samkvæmt rekstrarreikningi 2013 námu rekstrartekjur A og B hluta 1.231,4 millj. kr. samanborið við 1.158 millj. kr. árið 2012. Hækkun milli ára er 6,3%.

Rekstrargjöld A og B hluta eru laun, annar rekstarkostnaður og afskriftir sem námu samtals 1.038,3 millj.kr., en voru 1.017 millj. kr. á árinu 2012. Hækkun frá fyrra ári nemur 2,1%.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B hluta árið 2013 námu 86,5 millj. kr. samanborið við 99,3 millj. kr. árið 2012. Rekstrarniðurstaða ársins er því jákvæð um 115 millj. kr. fyrir A og B hluta samanborið við 49,5 millj. kr. á árinu 2012.

Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundi sveitarstjórnar:

„Mikið fagnaðarefni er að markmið um góða framlegð og afgang af rekstri á árinu 2013 hefur náðst og meira en það. Þetta hefur tekist með því að vanda til áætlunargerðar og með mikilli og fórnfúsri vinnu allra starfsmanna sveitarfélagsins. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut. Fjárhagsstaðan er að öllu leyti á góðri og réttri leið og má hiklaust segja að nýrri sveitarstjórn verði skilað góðu búi. Sveitarstjórnin þakkar starfsfólki og öllum sem lagt hafa hönd á plóginn til þess að ná þessum góða árangri.“

Ársreikningur Rangárþings ytra fyrir árið 2013

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?