Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna alþingiskosninga laugardaginn 25. september 2021

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hjá sýslumönnum vegna alþingiskosninga 25. september 2021 hefst föstudaginn 13. ágúst 2021 og á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma frá og með 15. september. 

Kjósendur skulu framvísa gildum skilríkjum við kosninguna.

Kosið verður á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, fangelsum og öðrum slíkum stofnunum samkvæmt nánari ákvörðun sýslumanns á hverjum stað í samráði við viðkomandi forstöðumenn. Verður það jafnframt birt hér á vefnum þegar það liggur fyrir og tilkynning hefur borist frá viðkomandi sýslumanni. Aðeins er ætlast til að sjúklingar og vistmenn á stofnunum kjósi á þeim stofnunum sem um ræðir.

Ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Hún þarf að hafa borist hlutaðeigandi embætti sýslumanns eigi síðar en kl. 10:00 tveimur dögum fyrir kjördag eða fimmtudaginn 23. september kl. 10:00.

Athugið að öllum þeim sem eru skráðir á kjörskrá er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá hvaða sýslumanni sem er, óháð búsetu eða lögheimili. Sjá staðsetningar hér. 

Nálgast má ýmsar almennar upplýsingar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á kosningavef dómsmálaráðuneytisins.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?