Aukafundur í sveitarstjórn Rangárþings ytra

37.  fundur hreppsnefndar Rangárþings ytra, á kjörtímabilinu 2010 - 2014, verður haldinn í fundarsal sveitarfélagsins í kjallara að Suðurlandsvegi 3, Hellu, mánudaginn 12. nóvember 2012, kl. 20:00.

Sveitarstjóri og oddviti greina munnlega frá stöðu helstu mála utan dagskrár fundarins.

Dagskrá:

Erindi til umsagnar og afgreiðslu:

1.     Mál frá 36. fundi hreppsnefndar um KFR:

„Beiðni um gerð þjónustusamnings vegna útbreiðslu knattspyrnu í íþrótta- og skólastarfi. Lögð fram drög að samningi frá KFR um útbreiðslu knattspyrnu í íþrótta- og skólastarfi. Varaformanni hreppsráðs falið að funda með formanni íþrótta- og tómstundanefndar um málið.  Umsögn liggi fyrir á næsta fundi hreppsráðs.“

Tillaga Á-lista: Rangárþing ytra geri sambærilegan samning við KFR og Rangárþings Eystra hefur nýlega gert. Hljóðar hann efnislega uppá krónur 2,1 milljón á ári og gildir til ársloka 2014. Samningurinn tekur  til allra yngri flokka félagsins.

Greinargerð: Knattspyrnufélag Rangæinga er félag starfrækt á sýsluvísu og með sambærilega starfsemi á báðum þéttbýlisstöðunum í sýslunni. Mjög gott starf er unnið innan félagsins og er skemmst að minnast þess að 4 stúlkur úr KFR eru nú í landsliðshópi U-17 ára auk tveggja uppaldra Rangæinga í A - landsliði.

Er það von sveitarstjórnar að samningur þessi verði til þess að styrkja enn frekar það góða samstarf sem verið hefur milli Rangárþings ytra og Knattspyrnufélags Rangæinga.

2.     Félagsmiðstöð

Tillaga Á-lista: Félagsmiðstöð sem fyrir árið 2010 var hýst utan skólahúsnæðis verði opnuð hið fyrsta í öðru húsnæði og eigi síðar en um áramót 2012-2013.Verði félagsmiðstöð flutt í  íbúðarhúsnæðið að Þrúðvangi 10.

Ekki mun af veita í rekstri Miðjunnar að koma fyrrum húsnæði „féló“ í almenna leigu sé þess nokkur kostur.
Þar sem húsnæðið að Þrúðvangi 10 er í eigu sveitarfélagsins þar þurfi skjólstæðingar „féló“  - börnin, ekki að búa við þá óvissu að hugsanlega verði húsnæðið að Suðurlandsvegi  3 leigt út sem er að sjálfsögðu yfirlýst stefna.

Greinargerð: Frá haustdögum 2010 hefur félagsmiðstöð sveitarfélagsins verið starfrækt í Grunnskóla Hellu og var á þeim tíma einhugur um að kanna þá leið til prufu.

Á vordögum 2012 var sameiginlegur fundur með starfsmanna félagsmiðstöðvar með þeim sveitarstjórnafulltrúum sem þá sáu sér fært að mæta. Fram kom á þeim fundi að starfsmenn álitu það vænlegri kost að hýsa „féló“ utan skóla enda um vinnustað barnanna að ræða. Einnig er í dag sú skoðun uppi meðal barna og forráðamanna þeirra.

Strax í vor var hafist handa við að skoða aðra möguleika og þá helst litið til þess húsnæðis sem áður hýsti félagsmiðstöð þe. í kjallara Suðurlandsvegar 3. Þar hefur þó orðið sú breyting á að Vínbúðin hefur opnað í Miðjunni og að mati Á lista ekki við hæfi að opna þar aftur séu aðrir kostir í stöðunni.

Á listi hefur unnið að farsælli lausn vegna félagsmiðstöðvar og telur að óverulegar breytingar þurfi að eiga sér stað að Þrúðvangi 10 og íbúðin þar að mörgu leyti heppilegri þar til slíkrar starfsemi en húsnæðið að Suðurlandsvegi 3 meðal annars með tilliti til eldvarna.

Forstöðumanni eigna og tæknisviðs falið að skoða húsnæðið ásamt fulltrúa foreldrafélags og nemendaráðs og leggja fram kostnaðaráætlun vegna hugsanlegra breytinga á húsnæðinu.

3.     Fyrirkomulag og rekstur á frystihólfum og kartöflugeymslum sveitarfélagsins í Þykkvabæ skv. 11. dagskrárlið 36. sveitarstjórnarfundar: „...Þá er lagt til að leitað verði allra leiða við að breyta fyrirkomulagi rekstrar...“

Tillaga Á-lista: Stofnað verði rekstrarfélag um kartöflu- og frystigeymslurnar í Þykkvabænum sem nú eru í eigu sveitarfélagsins með því að markmiði að notendur þeirra fái að reka geymslurnar á sínum forsendum. Gerður verði samningur við félagið um reksturinn til tveggja ára og taki samningurinn enda í árslok 2014.. Félaginu verði afhentar geymslurnar endurgjaldslaust að þeim tíma loknum með þeim skilyrðum að það sjái alfarið um rekstur þeirra og greiðslu allra gjalda sem húsnæðinu fylgja.

Greinargerð: Rekstur kartöflu- og frystigeymslnanna hefur verið erfiður undanfarið, en nokkrir íbúar og leigjendur hólfa hafa bent forsvarsmönnum sveitarfélagsins á leiðir til endurskipulagningar á rekstrinum þannig að hann megi standa undir sér. Segja má að rekstur geymslnanna sé barn síns tíma og betur geti farið á því að reksturinn sé í höndum heimamanna í Þykkvabæ. Fulltrúar Á-listans telja að nauðsynlegt sé að hlusta á hugmyndir íbúar í þessu máli sem öðrum og leita leiða til að farsælli laust sem samræmist hagsmunum beggja þ.e. íbúa í Þykkvabæ og sveitarfélagsins.

4.     Íbúafundur

Tillaga Á-lista:  Boðað verði til íbúafundar til að upplýsa íbúa sveitarfélagsins um fjárhagsáætlun næsta árs og stöðu helstu mála.

5.     Fréttabréf  Rangárþings ytra

Tillaga Á-lista:  Fréttabréf verði sent á öll heimili í sveitarfélagi um málefni sveitarfélagsins þar sem öll heimili hafa ekki aðgang að rafrænum samskiptum og einnig að fólk kann að meta að fá heim til sín upplýsingar um málefni sveitarfélagsins með þeim hætti. Á listinn kom með tillögu að fréttabréfi fyrr á árinu  sem unnið var að í samstarfi  við minnihluta. Fréttabréfið mæltist vel fyrir hjá íbúum  og þykir okkur rétti tíminn nú að koma með annað í desember.

6.     Beiðni Þorgils Torfa Jónssonar, Margrétar Ýrr Sigurgeirsdóttur, Guðmundar Inga Guðlaugssonar og Önnu Maríu Kristjánsdóttur um aukafund í sveitarstjórn.

Gera þau kröfu um eftirfarandi dagskrárliði:

1.       Kynning á yfirlýsingu um meirihlutasamstarf.

2.       Kosning oddvita og varaoddvita.

3.       Kosning hreppsráðs.

4.       Tilhögun framkvæmdastjórnar sveitarfélagsins.

Fundarboðun: Guðfinna Þorvaldsdóttir / Gunnsteinn R. Ómarsson, Hellu, 9. nóvember 2012.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?