Birta Sólveig sýnir á Hellu í ágúst

Birta Sólveig Söring Þórisdóttir er nafn sem flestir Rangæingar þekkja enda er hún alin upp á Selalæk, dóttir Guðnýjar Söring Sigurðardóttur og Þóris Jónssonar. Hún er nýútskrifuð leikkona frá LHÍ og er óhætt að segja að stjarna þessarar ungu og hæfileikaríku konu fari hratt rísandi. Hún landaði nýlega stóru hlutverki í Litlu hryllingsbúðinni í uppsetningu Leikfélags Akureyrar og mun einnig stíga fljótlega á fjalir Þjóðleikhússins í nýjum söngleik.

Það er þó einleikur Birtu, Kríukroppur, sem hér er helst til umfjöllunar en hún ætlar að koma til okkar á Hellu í ágúst með þrjár sýningar. Einleikinn samdi Birta og sýndi á lokaári sínu í leiklistinni en hann var hluti af lokaverkefni hennar til leikaraprófs.

Kríukroppur er einverk sem fjallar um manneskju sem er í baráttu við sitt eigið samviskubit. Hún telur sér trú um að geta stjórnað draumnum sínum og gerir tilraun til að bæta upp fyrir það sem hún missti í þeirri von um að létta af sér.

„Pabbi gerði kakósúpur á föstudögum til að fagna helginni. Klukkan myndi slá 12 og við systkinin komum heim með skólabílnum. Um leið og útidyrahurðin er opnuð þá skein sólin beint á okkur og þú verður að píra augun eða jafnvel loka þeim alveg til að koma þér inn í eldhús. Þá finnur þú sterka kakólykt. Og hádegisfréttirnar eru stilltar miklu hærra en þörf er á. Mikill æsingur í eldhúsinu. Pottar að slást og vatnið rennur.

Þá er pabbi að elda kakósúpu. Með tvíbökum. Annars er þetta ekki máltíð.“

Sýningarnar verða þrjár talsins í Menningarsalnum við Dynskála 8 á Hellu og verða þær upphafið af Töðugjaldavikunni sem verður full af gleði, skemmtun og menningu.

  1. sýning verður 11. ágúst kl. 20
  2. sýning verður 12. ágúst kl. 17
  3. sýning verður 13. ágúst kl. 20

Aðgangseyrir verður 3.500. Enginn posi verður á staðnum en hægt er að bóka miða með því að hringja/senda sms í síma 8487933 og leggja inn á reikning 0370-22-047761 kt. 0304973419. Einnig verður hægt að greiða með pening á staðnum.

Hér má sjá viðburðinn á facebook

Birta hlakkar til að sýna á Hellu og við fengum að spyrja hana nokkurra spurninga um leiklistina og fleira.

Áttu þér draumahlutverk?

„Ég hef aldrei átt mér draumahlutverk. Hef aldrei tengt við það. Mér finnst öll hlutverk vera púsluspil sem ég fæ að leysa og þar að auki fæ ég að spegla mína túlkun á persónunni og tengja áhorfendur við persónuna mína sem ég er að leika. Það er það sem mér finnst vera mest spennandi við þetta starf.“

Hvernig var leikaranámið? Hvað var skemmtilegast? Hver var mesta áskorunin?

„Leikaranámið reynir á bæði andlega og líkamlega. Tilfinningalega séð þá er leikaranámið eins og rússíbani. Einn daginn líður mér eins og ég sé kóngur heimsins og get gert hvað sem er. Næsta dag þá upplifi ég mig vera skíturinn undir skónum og finnst ég sökka. Það getur stundum verið krefjandi að finna jafnvægið en þá er mikilvægt að hafa húmor fyrir því.“

Geturðu sagt okkur aðeins frá sýningunni þinni, Kríukropp? Hverjar eru helstu áskoranirnar við að setja upp einleik?

„Þetta var stór áskorun. t.d. Að vera ein á sviðinu til að byrja með og deila persónulegri sögu. Þessi sýning er mjög persónuleg og ég varð að finna mér leið til að aftengjast henni til að skapa hana á sviðinu. Ég vildi gera sýningu út frá hjartanu. Ég átti þessar minningar um pabba minn í draumum mínum og langaði að fá að deila því með heiminum því mér fannst þetta svo merkilegt. Það er einnig margt sem ég segi ekki frá og held fyrir sjálfa mig, því stundum þarf ekki heimurinn að vita alla söguna.“

Hvað er framundan hjá þér í leiklistinni?

„Ég fæ tækifæri til að vinna í leikhúsinu á Akureyri þar sem er verið að setja upp Litlu Hryllingsbúðina undir leikstjórn Berg Þórs, svo fæ ég einnig að taka þátt í nýjum söngleik í Þjóðleikhúsinu sem heitir Stormur út frá lögunum hennar Unu Torfa. Svo bara er spennandi að sjá hvert lífið leiðir mig næst.“

Kraftmikil söngrödd þín hefur vakið mikla athygli, hefurðu líka lært söng?

„Ég hafði lengi tekið þátt í kórnum á Hellu en svo fór ég einnig í söngnámið Complete Vocal Institute í Danmörku í hálft ár. Annars fékk ég að læra að styrkja hana og framkomuna mína í listaháskólanum.“

Ertu með einhver skilaboð eða góð ráð til ungra Rangæinga sem ganga með leiklistardraum í maganum?

„Um að gera að finna sér spunanámskeið, skrá sig í kór eða taka þátt í leikfélagi til að athuga hvort þú viljir vinna í þessu umhverfi!“

Framtíðin er sannarlega björt hjá Birtu og hvetjum sem flest til að kíkja á sýningu hjá henni í ágúst á Hellu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?