Björk Brynjarsdóttir við jarðgerðina.
Björk Brynjarsdóttir við jarðgerðina.

Sumarið 2020 hófu Jarðgerðarfélagið í samstarfi með Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. og Landgræðsluna tilraunaverkefni á Strönd til að meta nýtni bokashi-jarðgerðar til meðhöndlunar á lífrænum heimilisúrgangi í Rangárvallasýslu. Bokashi er jarðgerðaraðferð sem felst í að gerja lífræn hráefni við loftfirrtar aðstæður og þar með losnar minna koldíoxíð en við hefðbundna jarðgerð sem fer fram við loftaðar aðstæður. Einnig er öll vinnsla og meðhöndlun úrgangsins einfaldari en við hefðbundna moltugerð. Í grunninn má segja að bokashi aðferðin sé líkust því að búa til súrkál, en bara fyrir jörðina! Stóra markmiðið er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hámarka nýtni næringarefna í heimilisúrganginum, því afurðin nýtist vel sem áburður.

Rangárvallasýsla er fyrsta sýslan á landinu til að þróa bokashi til miðlægrar sorpmeðhöndlunar. Tilgangur verkefnisins er að skoða hvort mögulegt sé að vinna þau lífrænu hráefni sem safnað er hálfs mánaðarlega frá heimilum í sýslunni á staðbundinn og umhverfisvænan máta. Þannig skapast tækifæri til að halda þessari dýrmætu auðlind innan sýslunnar og nýta jarðgerðina í ýmiskonar ræktun og landgræðslu.

Fyrsti fasi tilraunaverkefnisins hófst um mitt síðasta sumar en þá var einfaldlega lagt upp með að athuga hvort þetta væri yfir höfuð hægt. Þremur tonnum af lífrænu hráefni var blandað við sérstakt stoðefni í fagurblá fiskikör á Strönd og því leyft að gerjast næstu 8 vikurnar. Bæði fyrir og eftir gerjun skoðuðum við vandlega samsetningu efnisins og plokkuðum burt það ólífræna sem ratað hafði í lífrænu tunnuna. Rangæingar eiga hrós skilið fyrir þau skref sem íbúar og sýslan hafa tekið í heimaflokkun síðustu ár og að jafnaði má fullyrða að flokkun á lífrænum hráefnum heima fyrir gangi mjög vel. Engu að síður var eitthvað um hitt og þetta væri að slysast í vitlausa tunnu, t.d. álpappír, kaffihylki, plastbox, baðherbergisrusl, eyrnapinna og plast-tannstöngla, glerkrukkur, plastpoka, bjúguplast og einstaka hnífapör!

Í stuttu máli tókst tilraunin vel, og bokashi-jarðgerð er svo sannarlega möguleg á Strönd. Á næstu vikum mun annar fasi tilraunarinnar fara af stað með því markmiði að auka gæði jarðgerðarinnar og gera ferlið skilvirkara. Við munum fljótlega óska eftir samvinnu með nokkrum heimilum í sýslunni til að prófa aðra nálgun við heimasöfnun á lífrænu hráefni sérstaklega þar sem maís pokarnir voru ekki að brotna niður og okkur langar að þróa nokkrar hugmyndir áfram. Meira um það síðar. Og í vor munum við gera tilraunir með Landgræðslunni til að skoða hvernig efnið nýtist sem áburður.

Jarðgerðarfélagið er rekið af þeim Björk Brynjarsdóttur verkefnastjóra og Juliu Miriam Brenner jarðvegsfræðingi. Okkur langar að nota tækifærið hér og þakka fyrir þá samvinnu og atorku sem við höfum upplifað í Rangárvallasýslunni síðan verkefnið hófst. Takk fyrir að lesa þetta til enda - þið munuð heyra meira frá okkur!

Allra bestu kveðjur
Björk Brynjarsdóttir og Julia Miriam

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?